26.04.1966
Neðri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

174. mál, fiskveiðar í landhelgi

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í framhaldi af þeim umr., sem þegar hafa átt sér stað um þetta mál, þá tel ég rétt að leggja nokkur orð í belg. Ég vil taka það skýrt fram strax, að mér er fullljós nauðsyn þess, að varlega sé farið með þær heimildir, sem frv. þetta veitir, ekki aðeins vegna forsögu okkar og baráttu í sambandi við okkar fiskveiðiréttindi hér við strendur landsins á undanförnum árum og áratugum, heldur einnig vegna þess, að hér er, eins og fram hefur komið í umr., töluverð hætta á því, að um árekstra gæti verið að ræða við innlenda aðila og þá sér í lagi fiskimennina sjálfa.

Það er ljóst af grg. þessa frv., að tilbúnaður þessa máls er fyrst og fremst á því byggður allur, að gera tilraun til að bæta úr erfiðleikum í atvinnuástandi ákveðinna landshluta, og væri rangt að framkvæma þær heimildir, sem frv. veitir, á öðrum forsendum en grundvöllurinn undir þessu frv. er, þ.e.a.s. eins og ástandið hefur verið undanfarin ár, þá mundu fyrst og fremst koma hér til greina löndunarstöðvarnar á Norðurlandi, en þær hafa nú um langt skeið eða það landssvæði hefur nú um langt skeið verið áhyggjuefni stjórnvalda vegna takmarkaðs vinnuframboðs þar og eins og ég áðan sagði, mun það fyrst og fremst vera grundvöllurinn að flutningi þessa frv., og málið í heild rökstutt sem liður til úrbóta á því ástandi. Mér er það einnig fullljóst, að málið í heild er miklu stærra en svo, þ.e.a.s. þær almennu heimildir, sem frv. veitir, það er miklu stærra mál en svo, að það sé endanlega leyst með samþykki þessa frv., enda gerir frv. ráð fyrir því, að hér sé einungis um heimildir um takmarkaðan tíma að ræða. Mér er því það fullvel ljóst, að málið í heild þarf mikið meiri og nánari athugunar við, en ég held einmitt, að í sambandi við þá athugun gæti sú reynsla, sem af þeim heimildum kynni að fást, sem hér er gert ráð fyrir í frv., orðið nytsöm og lærdómsrík og vil undirstrika það, að meðan ég vinn við þessi mál, þá tel ég nauðsynlegt, og reyndar hver sem að þeim kæmi, að fullrar varúðar sé í þessum efnum gætt og varlega at stað farið.