26.04.1966
Neðri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

174. mál, fiskveiðar í landhelgi

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. sjútvn. fyrir þær breyt. sem hún hefur gert á þessu frv., en ég tel þær tvímælalaust mjög til bóta. Það hefði orðið erfitt fyrir mig að fylgja frv. eins og það var, en ég tel mig geta gert það, eftir að það er komið í það horf, sem það verður með þeim breyt., sem hv. n. leggur til að gerðar verði á því.

Ég skil þær ástæður, sem til þess liggja, að þetta frv. er fram komið, en ég vil hins vegar láta það koma fram, sem aðrir ræðumenn hafa einnig tekið fram hér áður, að ég tel. að það geti verið vafasamur ávinningur fyrir viðkomandi staði að treysta mjög mikið á það úrræði, sem felst í þessu frv. Það gæti orðið til að draga úr öðrum varanlegum framkvæmdum og uppbyggingu, sem þarf að koma á þessum stöðum. Við höfum reynslu fyrir því, að það hefur verið reynt að hjálpa ákveðnum útgerðarstöðum með því að gefa útlendingum aðstöðu til þess að hafa bækistöðvar þar. Það hefur tvívegis verið reynt að hjálpa Hafnarfirði á þann veg og í bæði skiptin endað þannig, að útlendingarnir hafa dregið sig til baka. Hafnarfjörður hefur staðið uppi með stórfellt atvinnuleysi og þurft að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess að byggja upp atvinnu þar í staðinn. Það var einmitt upphaf þess, að bæjarútgerð var komið á í Hafnarfirði á sínum tíma, að útlendingar, sem þar höfðu haft bækistöð, fóru í burtu og skildu staðinn eftir atvinnutækjalausan. Ég álít, að það væri mjög illa farið, ef á þessum stöðum, sem nú eiga við erfiðleika að búa norðanlands, gerðist svipuð saga, þannig að menn treystu um stundarsakir á það, að útlendingar yrðu til hjálpar eða löndun úr útlendum fiskiskipum. Svo kynni þetta að bregðast, tíminn hefði ekki verið notaður til þess að byggja upp atvinnuskilyrði á þessum stöðum, og þess vegna væri eiginlega verr af stað farið en heima setið í þessum efnum. Þess vegna legg ég alveg sérstaka áherzlu á það, að þetta mál megi ekki verða til þess, að það sé dregið úr atvinnuuppbyggingunni á þessum stöðum, þeirri sem varanleg getur orðið.

Á það ber svo að líta í þessum efnum, og um það eru allir sammála, að við þurfum að hefjast handa um það að fá aukna friðun á fiskimiðunum. Við þurfum að vinna að því af eins miklu kappi og eins fljótt og mögulegt er, að við fáum landgrunnið allt til umráða, en mér finnst, að það geti verið æðimikil mótsögn í því að sækja á um það annars vegar að fá allt landgrunnið undir okkar yfirráð og telja, að það sé nauðsynlegt vegna friðunar á fiskimiðunum, en svo í hinn stað opna landið fyrir útlendinga til fisklöndunar. Þess vegna held ég a.m.k. að á meðan við erum að keppa að því að ná yfirráðum yfir landgrunninu öllu, þá verðum við að fara að með mikilli gát í þessum efnum, svo það verði ekki beinlínis til þess að spilla fyrir okkur á því sviði.

Ég held, að það eigi að vera keppikefli Íslendinga og jafnvel meira heldur en nokkuð annað, að það séu Íslendingar sjálfir, sem stundi veiðar á þeim fiski, sem lagður er hér á land, en við látum ekki útlendinga gera það fyrir okkur. Ég held, að ef við tækjum upp þau vinnubrögð að fara að stunda álbræðslu og ýmsa slíka atvinnuvegi, en létum aðra fiska fyrir okkur, væri það ekki leiðin til að skapa okkur öryggi í framtíðinni.

Mér skilst, að það sé nú líka þannig ástatt hjá okkur, að okkur skorti ekki báta og skip til að stunda fiskveiðar, sem gætu orðið til þess að lyfta þessum stöðum. Mér er sagt, að víða um landið hafi ekki tekizt að manna þau skip og báta, sem við eigum, og það mun nú sérstök n. vera að athuga það mál, hvernig eigi að koma þessum skipum af stað. Mér finnst, að það ætti að vera alveg lekið sérstaklega til athugunar, hvort það mætti ekki vinna að viðreisn þessara staða á þann hátt, að við nýttum betur okkar fiskiflota heldur en við gerum núna, áður en við förum að treysta á útlendinga í þessum efnum. En hins vegar með því að þrengja þetta eins og gert er í till. sjútvn. og með því að binda þetta aðeins til reynslu til eins árs, þá mun ég treysta mér til þess að fylgja þessu frv., en ég legg hins vegar áherzlu á það, að það sé farið að með mjög mikilli gát í þessum efnum og vil alveg sérstaklega taka undir þau ummæli, sem hv. 2. landsk. þm. lét hér falla við I. umr., og hv. 5. þm. Austf. nú hér áðan.