22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

184. mál, stofnun búnaðarmálasjóðs

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. hefur orðið ásátt um það að flytja brtt. við þetta frv., og er brtt. n. á þskj. 509. Efni brtt. er það, að framlenging gjaldsins af söluvörum landbúnaðarins, sem rennur til Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda vegna byggingar Bændahallarinnar, verði til tveggja ára í stað fjögurra, sem frv. gerir ráð fyrir. Þessi brtt. felur þó ekki í sér af hálfu n. neina fullyrðingu um það, að nægja muni eigendum Bændahallarinnar að fá framlengingu á þessu gjaldi í aðeins tvö ár, en þegar þetta mál var hér til meðferðar fyrir 4 árum, sams konar frv. og þetta var þá flutt um framlengingu þessa gjalds, — var látið í það skína, að það mundi ekki þurfa að koma til þess, að þetta gjald yrði framlengt nú. Og landbn. ber þá von í brjósti, að það muni nægja að framlengja gjaldið í tvö ár, þótt hún hins vegar fullyrði ekki neitt um það á þessu stigi málsins. Það kemur fram í grg. frv., að það er verulegur rekstrarhalli áætlaður á Bændahöllinni, bæði á þessu ári og þeim næstu, en hitt er líka víst, að þetta gjald af búvörunum fer vaxandi með hverju ári sem líður, bæði vegna hækkaðs verðlags og aukinnar framleiðslu, og það má reikna með því, skilst mér, að þetta gjald verði ekki mikið undir 8 millj kr. á þessu ári. Svo er á hitt að líta líka, að nú er Bændahöllinni eða byggingunni nær lokið og allt húsið er að komast í not og það má vissulega reikna með því að öllu sjálfráðu, að tekjur af þessu húsi, sem eru þegar orðnar miklar, fari vaxandi. Og sjálfsagt er það, að það er engin ástæða til þess að vera að framlengja þetta gjald lengur en nauðsyn ber til. Allt má þetta endurskoðast að 2 árum liðnum. Með tilliti til þessa leggur landbn. til, eins og ég sagði, að framlenging gjaldsins verði aðeins til tveggja ára og hún væntir þess, að hv. þd. geti fallizt á þá brtt., sem við flytjum.