22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

184. mál, stofnun búnaðarmálasjóðs

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér er lagt til að framlengja enn um skeið það gjald, sem lagt hefur verið á bændur til þess að standa undir Bændahöllinni svonefndu. Það hefur nú komið hér fram oft áður, þegar þetta mál hefur verið til umr. á Alþ., að í rauninni eru þeir alþm. býsna margir, sem hafa gert það með hangandi hendi að samþykkja þetta gjald til þessarar byggingar, enda hefur ekkert farið á milli mála, að þeir bændur eru býsna margir, sem eru mjög óánægðir með gjaldið.

Ég tel fyrir mitt leyti, að nú sé komið að tímamótum í þessum efnum, því að nú er einnig byrjað á því að innheimta þetta gjald af bændum til þess að standa undir reksturshalla á þessari svonefndu Bændahöll eða þeim hótelrekstri, sem þar fer fram. Ég tel með öllu fráleitt að halda áfram að leggja á slíkan skatt sem þennan til þess að standa undir þeim hallarekstri, sem þarna á sér stað. Það var vissulega mjög vafasamt að leggja á þetta gjald og það vitandi það, að bændur landsins voru mjög ósammála um það, hvort gjaldið skyldi lagt á eða ekki, en það skyldi lagt á til þess að byggja húsið. En hitt tel ég þó miklum mun verra, þegar farið er að framlengja þetta gjald til þess að standa undir ákveðnum rekstri.

Í grg. þeirri, sem fylgir frv., kemur fram, að orsakirnar til þess, að enn á ný þarf að framlengja þetta gjald, séu þær, að byggingin hafi svo óhagstæð lán. Þar segir, að það sé vonlaust að láta þetta fyrirtæki standa við sínar skuldbindingar á meðan mikið af lánunum er ekki nema til 13 ára og jafnvel til skemmri tíma og vaxtakjör eru 8–10%. Og þar er beinlínis að því vikið, að þar mætti komast framhjá þessum vanda með því að útvega hagstæðari lán, og það er það, sem ég álít, að eigi að gera. Það er sjálfsagt, að ríkisvaldið ljái sinn stuðning til þess að útvega í þessu tilfelli hagstæðari lán til byggingarinnar, svo að einhver von sé til þess, að eðlilegur rekstur geti staðið undir skuldbindingunum. En það að halda áfram þessu gjaldi og taka af bændum landsins, eins og kom hér fram hjá frsm. n., um 8 millj. kr. á ári eins og nú er komið og vaxandi upphæð til þess að standa undir hallarekstri í sambandi við þessa byggingu og þann rekstur, sem þar fer fram, tel ég með öllu alveg óforsvaranlegt.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram sem mína afstöðu til málsins. Ég mun því greiða atkv. gegn þessu frv.