22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

184. mál, stofnun búnaðarmálasjóðs

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð. Ég hef ekki nokkra löngun til þess að halda uppi vörnum fyrir þennan skatt, sem er lagður á bændur til þess að standa undir kostnaði af Bændahöllinni. Það er síður en svo. En ég vil aðeins benda á það, sem raunar hv. síðasti ræðumaður benti á í sinni ræðu. Hann talar um það, að það sé ófært að leggja þetta gjald á nú, vegna þess að það sé svo komið, að nú sé verið að borga halla af rekstri Bændahallarinnar. En ástæðan til þess, að það þarf að leggja þetta gjald á nú og farið er fram á það, að það verði lagt á, er einmitt það, sem hv. þm. benti á. Það eru hin stuttu og óhagkvæmu lán, sem hvíla á Bændahöllinni. þess vegna get ég vissulega tekið undir það með honum, að það væri mjög æskilegt, ef það væri hægt að breyta þessum stuttu og óhagkvæmu lánum í lengri og hagstæðari lán, og þá þyrfti náttúrlega alls ekki til þess að koma að mínum dómi, að þetta gjald yrði lagt á bændur, a.m.k. þyrfti ekki að gera það nema í mjög stuttan tíma héðan í frá.