10.12.1965
Efri deild: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

76. mál, vegalög

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það var í desembermánuði árið 1963, að almennt samkomulag var gert á hv. Alþ. um ný vegalög. Samkomulagið byggðist á því, að í því lagafrv. voru margvíslegar umbætur ákveðnar á þessum málum og m. a. veitt til þeirra meira fé en áður hafði verið. Og samkomulagið, sem gert var, byggðist að sjálfsögðu á því að finna jafnvægi milli ýmissa fjáröflunarþátta, sem þm. gætu almennt sætt sig við. Vegasjóður fékk með 85., 86. og 87. gr. þeirra l. ákveðna tekjustofna. Hann skyldi fá óskert innflutningsgjald af benzíni, innflutningsgjald af hjólbörðum og gúmmíslöngum í bifreiðar og þungaskatt. Og á móti þessum tekjum, sem vegasjóður á þennan hátt tók af umferðinni í landinu, skyldi ríkissjóður leggja af öðrum tekjustofnum samkv. 89. gr. ákveðið framlag, og það var þá gert ráð fyrir því, að það framlag væri 47 millj. kr. Þetta jafnvægi í tekjuöflunarþáttunum samdi hæstv. samgmrh. um við Alþ. Það leiðir af sjálfu sér, að hækkun, sem verða kynni á þeim tekjustofnum, sem vegasjóði voru afhentir, hlyti að renna til vegasjóðs og ekki annað. En ýmsir óttuðust, að þetta jafnvægi kynni að raskast síðar meir, með því að framlagið úr ríkissjóði yrði rýrt. Við 3. umr. málsins í Nd. 17. des. 1963 gaf hæstv. samgmrh. yfirlýsingu um þetta efni, sem verður ekki komizt hjá að minna á. Hann ræddi um nauðsyn vaxandi tekna til vegamála og sagði síðan:

„Einmitt þess vegna er engin hætta á því og alveg útilokað, að ríkisframlagið verði lækkað. Það er alveg útilokað. Þörfin fyrir aukið vegafé frá ríkissjóði verður fyrir hendi, þótt vegamálunum hafi verið tryggt fé með benzíngjaldi, gúmmígjaldi og þungaskatti.“ Og síðar í sömu ræðu sagði hæstv. samgmrh.: „Fjárþörfin verður þess vegna vaxandi, og þessi gjöld, sem við nú erum að lögfesta, eru undirstaða undir því, sem við ætlum að gera. En ég er sannfærður um, að við höldum uppi kröfum um það, að ríkissjóður auki framlög sín úr þessum 47 millj. til mikilla muna, vegna þess að við verðum sammála um þessar miklu þarfir, sem hvarvetna bíða.“

Yfirlýsing hæstv. samgmrh. um nauðsyn þessa framlags úr ríkissjóði og yfirlýsing hans um, að það sé alveg útilokað, að það framlag mundi síðar verða rýrt, eru gersamlega ótvíræðar, algerlega. Nú er það bersýnilegt af fjárl. og boðað með þessu frv., að það eigi ekki aðeins að rýra þetta ríkissjóðsframlag, heldur fella það með öllu niður, en í staðinn fyrir það eigi að taka meiri tekjur af umferðinni. Tekjurnar samkv. þessu frv. eiga þess vegna að koma í staðinn fyrir ríkissjóðsframlagið, en þá tekjustofna, sem hér er um að ræða að nota, áttu vegamálin fyrir samkv. ótvíræðum yfirlýsingum og skoðunum hv. þm, og ráðh., þegar vegal. voru til umr. Þetta mál, sem hér liggur fyrir á þskj. 92, er þess vegna frv. að aflátsbréfi til handa hæstv. samgmrh. fyrir þá brigð, sem orðin er á því, að við yfirlýsingu hans verði staðið og framlag komi frá ríkinu, eins og ráð var fyrir gert. Slíkt aflátsbréf verður ekki samþ. eða undirritað af framsóknarmönnum. Með þessu er ótvíræð yfirlýsing hæstv. samgmrh. ómerkt. Nú hlýtur hæstv. samgmrh. sjálfur að ráða því eins og aðrir menn, hvaða samræmi hann telur hæfilegt milli orða sinna og athafna. En Alþ. getur ekki fallizt á að veita syndakvittun í þessu formi.

Það er vissulega þörf á því, að framlög til vegamála verði stórlega aukin. Við gerum okkur allir ljóst, og eins og hæstv. samgmrh. sagði áðan, er ég honum sammála um, að ekki muni skoðanir manna skiptast eftir flokkum né raunar öðru um það, að verkefnin, sem fram undan eru í vegamálum, eru svo stórfelld, að nýir möguleikar, ný úrræði verða að koma til, til þess að þeim verði fullnægt með viðunandi hætti. Ef við í örfáum orðum rifjum upp, hvað gert hefur verið í vegamálum undanfarna 3 áratugi, hljótum við að verða sammála um það einnig, að þar hafa verið unnin stórvirki. Fyrir u. þ. b. þremur áratugum var hafizt handa um það verkefni að leggja akfæra vegi til sem allra flestra byggðarlaga þessa lands og að lokum allra. Viðfangsefnið var að gera bílfært, kröfurnar voru þá ekki meiri. Þessu verkefni er að vísu ekki lokið. Það er mjög langt á veg komið, og því verður auðvitað haldið áfram og því verður að ljúka. En það, sem ég vildi minna á í sambandi við það, er, að þetta verkefni hefur nær eingöngu alla tíð verið unnið fyrir samtíma tekjur þjóðarinnar, fyrir tekjur, sem komið hafa frá sameiginlegum sjóðum þjóðfélagsþegnanna, frá ríkissjóði í gegnum fjárl. Nú stöndum við frammi fyrir nýjum verkefnum, sem menn dreymdi varla um þá, verkefnum, sem mótast af mjög örri þróun umferðarmálanna. Fyrir 10 árum voru hér í landinu 16 þús. bílar, í árslokin nú eru þeir væntanlega um 35 þús., og eftir 10 ár verða þeir væntanlega um 70 þús., ef við gerum ráð fyrir svipaðri þróun og verið hefur bæði hér og í nágrannalöndum okkar. Verkefnið er þess vegna að byggja upp nýtízku vegakerfi sem efnahagslega hagkvæmar flutningaæðar fyrir þjóðina. Vegal. viðurkenndu þetta verkefni. Þar voru tekin upp ákvæði um hraðbrautir, sem ég þarf ekki að rifja upp hér, það er mönnum minnisstætt. Og þarna eru stór verkefni fram undan, og þau eru miklu stærri en vegáætlunin ber með sér, vegna þess að þótt nokkrar hraðbrautir séu á vegáætlun, eru allmargir fleiri vegir og vegakaflar heldur en þar eru, sem ástæða er til að ætla og jafnvel má raunar telja víst, að uppfylli nú þegar þau skilyrði, sem vegal. gera til hraðbrauta, og ættu þess vegna að takast inn á vegáætlun sem slíkar.

Ég ætla ekki að eyða löngu máli í að rekja þessi verkefni. Við gerum okkur allir ljóst, hvað þau eru stórkostleg. En hins vegar hefur ekki verið séð fyrir fjárframlögum til þess að inna þetta verkefni af höndum. Í vegáætlun er gert ráð fyrir 10 millj. kr. til þessara þarfa, og við vitum, að það dugir ekki nema að nokkru leyti fyrir þeim fjármagnskostnaði, sem þegar er orðinn. Það verður þess vegna að ætla, ef ekki verður þarna um stefnubreytingu að ræða, að ráð sé fyrir því gert, að þessar framkvæmdir séu að mestu eða öllu leyti unnar fyrir lánsfé, og sú hefur verið raunin um þær framkvæmdir, sem unnar hafa verið á þessu sviði fram að þessu. Ég er þeirrar skoðunar og skal ekki eyða tíma hér til þess að rökstyðja það, ég gerði það að nokkru við 2. umr, fjárl. í hv. Sþ., að það sé ekki réttlætanlegt fyrir okkur að gera ráð fyrir því, að við getum unnið framkvæmdir af þessu tagi að staðaldri fyrir lánsfé. Ástæðan til þess er í fyrsta lagi sú, að hér er ekki um svo afmörkuð verkefni að ræða. Við hljótum að gera ráð fyrir, að á þeim verði áframhald um áratugi, og í öðru lagi, að þessi mannvirki munu ekki gefa beinar tekjur til þess að standa undir lánsfénu. Ég er og hef verið þeirrar skoðunar, að vegaskattur muni ekki verða notaður til frambúðar til þess að standa undir slíkum framkvæmdum, og mér er ánægja að því að rifja það upp, að það mun líka vera skoðun hæstv. samgmrh., eftir því sem fram kom í umr., sem við áttum hér í þessari hv. d. í des. 1963.

Við hljótum að gera ráð fyrir því, að á næstu árum verðum við að leggja árlega í kringum 40–50 km af slíkum brautum. Og það vinnst ekki, nema fundin séu ný úrræði til þess að skapa til þess fjármuni. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef oft gert grein fyrir, að þeir fjármunir verði að vera að verulegu leyti samtíma tekjur þjóðarinnar, en ekki lánsfé. Þess vegna er það óumdeilanlegt, að það verður að koma meira fé til vegamála, og það kom raunar fram hjá hæstv. samgmrh. hér áðan, að hann er sammála í þessu sjónarmiði, og ég get tekið undir það með honum, að 23 millj., sem hann talaði um að gætu orðið árangur af þessu frv. eftir tvö ár, eru auðvitað engin lausn á þeim viðfangsefnum. Það verður að koma meira fé til vegamálanna og til þess verður að koma hækkun á gjöldum, sem eru viðurkenndir tekjustofnar vegasjóðs. Þeir verða að koma raunverulega til hækkunar á vegafé, en ekki fara til þess að bæta fyrir það, sem hæstv. ríkisstj. hefur svikið í þessum efnum.

Hæstv. samgmrh. sagði hér áðan, að það væri í sjálfu sér matsatriði, hvort þetta hækkaða gjald gengi til vegasjóðs eða hvort það gengi til ríkissjóðs og þaðan aftur til vegasjóðs, en hefði síðari leiðin verið valin, taldi hæstv. ráðh., að öllu réttlæti hefði verið fullnægt. Hér er auðvitað um mesta misskilning að ræða, og vænti ég, að hæstv. samgmrh. viti sjálfur betur. Með þeim hætti, sem nú er á hafður, eru sviknar yfirlýsingarnar um það, að úr ríkissjóði skuli koma 47 millj. kr. Ef hinn hátturinn hefði verið hafður á, að ríkissjóður hefði tekið til sín það, sem kæmi úr hækkuðum benzínskatti og þungaskatti, hefði hitt meginatriðið í samkomulaginu um vegl. verið svikið, en það var, að þessir tekjustofnar skyldu vera tekjustofnar vegasjóðs. Það má vera, að hæstv. samgmrh. finnist það matsatriði, hvort þessara atriða er svikið, og það má segja, að það sé meinlaust af minni hálfu, að hann velji þar á milli. En ég tel hins vegar alveg ljóst, að í báðum tilfellum er um brigðmæli að ræða á því, sem gert var ráð fyrir, þegar vegal. voru samþ.

Það er vitað mál sem er öllum hv. þm. kunnugt, að ríkið notar umferðina í landinu, bifreiðar og rekstrarvörur þeirra, mjög mikið sem skattstofn og miklu meira en til vegakerfisins. Verulegur hluti þeirra tekna rennur til annarra þarfa. Aðrar þjóðir hafa á þessu annan hátt. Það mun meðal flestra nágrannaþjóða okkar, a.m.k. þeirra, sem ég þekki nokkuð til, vera lagt meira fé í vegakerfið og til umferðarmálanna heldur en tekið er með þessum tekjustofnum. En hér á landi hefur þetta verið þannig, að á undanförnum 5 árum hefur verið tekið af umferðinni til ríkissjóðs og vegamála 2046 millj. og þar af hafa aðeins 750 millj. farið til vegamálanna, en 1296 millj. hafa orðið eftir í ríkissjóði. Þetta er samkv. athugun, sem FÍB hefur gert.

Nú hef ég heyrt þeirri skoðun haldið fram, að það sé í sjálfu sér ekki eðlilegt annað en ríkissjóður fái einhverja tolla af bifreiðum og rekstrarvörum þeirra til almennra þarfa, rétt eins og hverjum öðrum innflutningi. Þessi skoðun orkar vissulega tvímælis. En þótt fallizt væri á þetta sjónarmið, er það þó alveg ljóst, að slíkir tollar ættu ekki að vera meiri en tollar á þurftarvörum og aðeins brot af því, sem raun er á. Tollar á benzíni, sem renna beint í ríkissjóð, eru 50% og námu á s.l. ári 28 millj. kr. Tollar á bifreiðum eru upp í 90%, og svo mætti áfram telja.

Það er þess vegna alveg ljóst, að ríkið hefur tekið til annarra þarfa á óeðlilegan hátt af umferðinni a.m.k. 1000 millj. kr. á seinustu 5 árum. Það svarar til um 200 millj. kr. á ári. Samkomulagið fyrir 2 árum var í rauninni um það, að 47 millj af þessum ca. 200 millj. skyldi skilað aftur til vegasjóðs, en nú þykir það ekki lengur fært.

Sá háttur, sem hér hefur verið hafður á í þessu máli, er þannig, að það verður ekki hægt fyrir Alþ. að þola það. Alþ. hefur samið við ráðh. um ríkissjóðsframlag á móti ákveðnum tekjustofnum. Það samkomulag hefur ekki verið staðið við, og í staðinn er beðið um syndakvittun í formi nýrra og meiri tekna af umferðinni. Þetta getur Alþ. ekki látið bjóða sér og hlýtur að fella þetta frv.