02.05.1966
Efri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

184. mál, stofnun búnaðarmálasjóðs

Frsm. minni hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hefi skilað sérstöku nál. um þetta mál á þskj. 610, og legg ég þar til, að frv. þetta verði fellt. Fyrir um það bil 4 árum var svipað frv. hér á ferðinni á Alþ., og þá var ég andvígur því, að þetta gjald yrði framlengt um fjögurra ára tímabil, en sú varð nú raunin á, og þá heyrði maður raddir í þá átt, að það þyrfti nú sennilega ekki að framlengja þetta oftar, en ég spáði því nú þá, að þegar þetta væri einu sinni komið á, yrði nú líklega erfitt að afnema það og væntanlega mundi slík framlengingarbeiðni koma að fjögurra ára tímabilinu liðnu, eins og nú er komið á daginn.

Þetta frv. fjallar um það, I. gr. þess, að á árunum 1966–1969, að báðum árunum meðtöldum, skuli greiða 1/2% viðbótargjald af söluvörum landbúnaðarins til húsbyggingar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda við Hagatorg í Reykjavík, þ.e.a.s. til hinnar svokölluðu Bændahallar. Að vísu mun þessu hafa verið breytt í Nd., þannig að þetta tímabil var stytt með breytingu, sem þar var samþ. að ég hygg, stytt niður í 2 ár, og það sýnir þó, að hv. þm. hafa nú séð ástæðu til þess að spyrna nokkuð við fótum. Í bréfi frá hæstv. landbrn., sem er tekið hér upp í grg. með þessu frv., segir:

„Þar sem ekki verður auðið að standa undir útgjöldum af rekstri Bændahallarinnar nema framlengd verði heimild til að greiða 1/2% gjald af söluvörum landbúnaðarins fram til ársloka 1969, vill ráðun. óska þess, að hv. landbn. Nd. Alþ. flytji frv. til l. um breyt. ákvæða til bráðabirgða á I. nr. 92 frá 1962, um stofnun búnaðarmálasjóðs, eins og stjórn Búnaðarfélags Íslands fer fram á.“

Ég fylgdist nú nokkuð með umr. um þetta mál í Nd., og þar fannst mér nú koma fram nokkuð aðrar forsendur, þ.e.a.s. það væri ekki einvörðungu eða jafnvel ekki fyrst og fremst útgjöld af rekstri Bændahallarinnar, sem erfitt væri að standa undir, heldur það ekki síður og öllu frekar stofnlánin eða þau lán, sem tekin hefðu verið til bygginganna, en þau væru til skamms tíma og væru af þeim miklar afborganir á næstu árum, en á þessu er út af fyrir sig allmikill munur.

Hér í grg. með þessu frv. fylgir rekstraráætlun Bændahallarinnar á árinu 1966 eða á yfirstandandi ári, en ég verð nú að játa það, að ég skil ekki þessa rekstraráætlun, ef það er rétt heiti, sem þarna er notað. Ég hygg, að það væri miklu nær lagi að kalla þetta greiðsíuáætlun, því að ég veit ekki, hvernig afborganir af stofnlánum geta fallið undir það að vera rekstrarútgjöld, því að vitanlega vaxa eignirnar við það, að stofnlánin eru borguð niður, þannig að það virðist blandað hér saman í þessa áætlun, sem ég tel nú reyndar rangnefnda rekstraráætlun, virðist vera blandað saman afborgunum af lánum, sem ættu þá væntanlega að fara inn á eignarreikning eða efnahagsreikning, og svo rekstrarútgjöldum, þannig að það er ákaflega erfitt að botna í þessu. Mér skilst þó reyndar á þessu, að það sé hvort tveggja til staðar, að Bændahöllina skorti fé til þess að borga niður þessi lán og það sé einnig tap á hinum árlega rekstri. Ég vil í sambandi við þetta mál leyfa mér að vitna til ályktunar aðalfundar Stéttarsambands bænda 1965, en Stéttarsambandið er nú eignaraðili að þessari höll, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1965 skorar á stjórn sambandsins að beita sér kröftuglega fyrir því, að stofnlánadeildargjaldið, sem bændum er gert að greiða, verði tekið upp í kostnaðarlið verðlagsgrundvallarins. þar sem fundurinn telur óverjandi að taka þetta gjald af naumum þurftartekjum bænda.

Mér finnst rétt að athuga svolítið betur þessa ályktun. Þarna er stéttarsambandsþingið að mótmæla því, að bændur beri stofnlánadeildargjaldið, en eins og allir vita, rennur þetta stofnlánagjald til sjóða landbúnaðarins til ræktunar og uppbyggingar í sveitum, og á móti þessu gjaldi, sem bændurnir greiða í stofnlánadeildina, greiða neytendur líka verulegan hluta, og enn fremur eru framlög úr ríkissjóði. En úr því að aðalfundur Stéttarsambandsins telur ófært, að bændur leggi þarna eitthvað á móti neytendum og ríkissjóði í stofnlánasjóð, sem er fyrir landbúnaðinn í landinu, finnst manni það eiginlega enn þá undarlegra, að þessi sama samkunda eða þetta stéttarsambandsþing skuli óska eftir því, að það verði framlengt gjald á bændur til þess að standa undir rekstrarhalla af gistihúsi og vínstúkum í Reykjavík, og ég verð að segja, að ég fæ ekki skilið þetta samhengi, ef bændastéttin hefur svo naumar þurftartekjur, að hún getur ekki staðið undir gjöldum í sína eigin sjóði, en þeir sömu aðilar, sem láta slíkt álit frá sér fara, krefjast þess hins vegar, að það verði lagt á hana 7 millj. kr. gjald til að standa undir hótelkostnaði í Reykjavík.

Þá vil ég einnig leyfa mér að vitna í opið bréf til Alþ., sem ritað er 22. marz s.l. og er frá Sveini bónda á Egilsstöðum, en þar segir svo m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

„Þess verður að vænta, að Alþ. geti litið á þetta mál, (þetta opna bréf er varðandi hótelið Sögu í Reykjavík), frá víðari sjóndeildarhring en meiri hl. Búnaðarþings gerir. Hjá þeim ríkir ofurkapp og misskilinn metnaður til að standa að og reka þetta stóra hótel fyrir eiginn reikning og áhættu. Hins vegar sjá þeir engan útveg annan til þess að standa undir þeim hallarekstri en skattpína bændur til að greiða hann. Aftur á móti treysta þeir ekki málstað sínum til að fara undir almenna atkvgr. hjá bændum, en það talar sínu máli.“

Það getur vel verið rétt, að Bændahöllina í Reykjavík eða eignaraðila að henni skorti ný lán eða hagkvæmari lán eða lán til lengri tíma en þeir hafa, því að vitaskuld skilur maður erfiðleikana á því að borga niður svo há lán á jafnskömmum tíma og þeir þurfa samkv. þeim skilmálum, sem þeir hafa. Og vissulega væri hægt að hugsa sér ýmsar aðrar leiðir til þess að bjarga því máli við heldur en að fara að leggja 7 millj. kr. árlegan skatt á bændastéttina í landinu. Af því að ég tel mig nú aldrei fá neinar sannanir fyrir því, að bændastéttin í landinu sé almennt hlynnt þessari skattlagningu, vildi ég beina því til eigenda Bændahallarinnar að athuga þann möguleika, hvort þeir gætu ekki gefið út skuldabréfalán og selt svo skuldabréfin meðal bændastéttarinnar og þá geti hver og einn sýnt þann vilja í verki, sem hann hefur áhuga á, og hver lagt af mörkum það, sem hann vill, og þeir bændur, sem þá kærðu sig ekki um, væru þá lausir allra mála. Ég held, að ef það er vinsælt mál meðal bændastéttarinnar að standa undir þessum hótelrekstri, sé þetta ákaflega heppileg og einföld leið eins og málið horfir. En eins og ég hef gert grein fyrir að framan og tel mig hafa fært nokkur rök fyrir að sé réttmætt, þá legg ég til, að þetta frv. verði fellt.