10.12.1965
Efri deild: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

76. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónason):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Sunnl. (HB) vildi ekki ræða þetta mál, á meðan ég var upptekinn í Nd. Ég hafði nú haldið, að hæstv. fjmrh. væri gjaldgengur til þess að hlusta á málflutning hv. 6. þm. Sunnl., en satt að segja þykir mér vænt um það, að ég hafði tækifæri til að hlusta á þessa ræðu. Það er stundum sagt, að þó að maður starfi lengi með sumum mönnum, sé erfitt að kynnast þeim, en á þessum 20 mínútum, sem hv. 6. þm. Sunnl. stóð hér í ræðustólnum og flutti sína ræðu, kynntist ég honum talsvert fram yfir það, sem áður hefur verið, og það út af fyrir sig er gott, þótt ég hefði óskað eftir, að myndin hefði orðið önnur, sem við mér blasti í sambandi við málflutning hv. þm.

Það er auðheyrt, að hv. 6. þm. Sunnl. leggur mikið upp úr því að halda því fram, að samkomulag, sem gert var um vegalögin, hafi verið svikið og samgmrh. sé svikarinn. Þetta var inntakið í ræðunni, þetta var byrjunin, og utan um hana var spunnið, þetta var í miðri ræðunni og utan um það var spunnið, þetta var í lokin, og um það voru einnig vafðir margs konar þræðir. Og hv. þm. segir, að það sé tilgangslaust fyrir samgmrh. að koma til Framsfl. og biðja um aflátsbréf, biðja um syndakvittun. Hverjir voru það, sem gáfu aflátsbréf? Hv. 6. þm. Sunnl. hefur tæplega gert sér grein fyrir því, hvers konar vald var á bak við það, og ég hefði ekki gert ráð fyrir því, að hv. 6. þm. Sunnl. gerði ráð fyrir, að þm. Framsfl. hefðu það vald, sem talið var að væri á bak við þá, sem áður gáfu aflátsbréf. Mér hefði aldrei dottið í hug að koma til þessara hv. þm. og biðja þá um syndafyrirgefningu eða aflátsbréf. En úr því að svo er komið, að hv. 6. þm. Sunnl. telur, að hann sé jafnvel kominn í tölu þeirra manna, að hann sé bær um það að gefa syndakvittun, að gefa aflátsbréf, og hans flokkur, þá er náttúrlega ekkert skrýtið, þótt málflutningurinn sé í samræmi við það, því að matið á flokknum og stöðu þessara manna hér í hv. þingi og annars staðar er vitanlega algerlega rangt, eins og fram kemur af hans áliti. En þrátt fyrir það, þótt þetta hafi komið fram og sýnilegt sé, að hlutirnir eru allir skoðaðir í skökku ljósi, þykir mér sjálfsagt að fara nokkrum orðum um þetta samkomulag margumtalaða 1963 og sýna fram á, að hér er ekki um brigð eða svik að ræða.

Ég sagði það áðan, að ef tekjuaukinn, sem kemur í sambandi við þetta frv., hefði verið færður til tekna á fjárl. og útgjöld á fjárl. hefðu verið færð á sama hátt til vegasjóðs, hefði ekki verið talað um nein brigð eða svik. En hv. 6. þm. Sunnl. er ekki á sömu skoðun. Hann bara býr til eina óþekkta, eitt x og segir, að það hafi verið í samkomulaginu 1963, að vegasjóður fengi eftirleiðis og alltaf allar hækkanir, sem yrðu á benzíni, þungaskatti og gúmmígjaldi. Hv. 6. þm. Sunnl. segir, að það hafi verið um þetta samið og um þetta gefnar yfirlýsingar, til þess að geta sagt: Þetta eru í rauninni tvöföld svik, ekki einföld svik, heldur tvöföld svik. — En það, sem ég vil halda fram, er, að það sé ekki ástæða til í þessu sambandi að vera með orðaleik, því að þótt svo hafi verið komizt að orði í des. 1963, að baráttan stæði um það, að framlög jafnvel á fjárl. yrðu hækkuð, en ekki lækkuð, var vitanlega alltaf meiningin sú, að baráttan væri um það, að framlög til vegamálanna yrðu hækkuð. Og það er hreint bókhaldsatriði, hvernig þetta er fært upp, hvort það er fært fyrst ríkissjóði til tekna á fjárl. og síðan útgjaldamegin eða hvort það er fært beint í vegasjóðinn. Hitt vita svo allir hv. þm., að um það var ekkert samið, að um alla framtíð og alltaf skyldu hækkanir á benzíni, gúmmígjaldi og þungaskatti ganga til vegasjóðs.

Nú er ég sannfærður um það, að hv. alþm. hafa yfirleitt gengið út frá því, að þessi gjöld yrðu hækkuð á áætlunartímabilinu við endurskoðun vegáætlunarinnar. Ég veit einnig, að hv. þm. eru sammála um, að það er ekki unnt að breyta vegáætluninni fyrr en eftir tvö ár. Nú ber enginn brigður á það, að meiningin er að standa við vegáætlunina og vinna tvö fyrstu árin eins og gert var ráð fyrir. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann efast um það, og þetta frv. er lagt fram til þess að tryggja það, að svo megi verða. Það er einnig í ráði að endurskoða vegáætlunina og afla aukinna tekna í sambandi við þá endurskoðun. En eins og ég sagði áðan, hvernig þeirra tekna verður aflað, hvort það verður með því, að ríkissjóður láti af hendi eitthvað af þeim tekjum, sem talið er að hann hafi nú af umferðinni, verður ekki ákveðið fyrr en á næsta ári. En þá mætti reikna með því, og er þá allt undir ríkisbúskapnum komið, að það þurfi til þess að jafna fjárl. fyrir árið 1967 að koma með einhverjar nýjar tekjur ríkissjóði til handa. En allt er það undir árferðinu komið og þeim tekjum, sem núverandi gjaldstofnar gefa ríkissjóði.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að deila við hv. 6. þm. Sunnl. um þetta. Það má vel vera, að hv. þm. finnist einhver fróun í því að tala um brigð og að tala um svik og búa til það, sem enginn hv. þm. í Nd. gerði að forsendu, og segja, að það séu tvöföld svik. Ef honum þykir það betra, hv. þm., þá hann um það. En um brigð er ekki að ræða í þessu sambandi, ef staðið er við vegáætlunina, ef staðið er við það, sem talað var um 1963 og ég lýsti yfir, að baráttan stæði um það að fá aukið fé til vegamálanna. Ef unnið verður að þessum málum þannig og stefnt í þá átt, er ekki um nein svik að ræða. Og þegar hv. 6. þm. Sunnl. talar um það, að nú síðustu 2 árin hafi ríkissjóður tekið margfalt meira af umferðinni heldur en til veganna er látið, held ég, að hv. þm. hefði átt að tala um fleiri ár, því að hv. þm. veit, að það hefur alltaf verið látið í ríkissjóð drjúgt og mikið af umferðinni umfram það, sem hefur farið til veganna. Og hv. þm. veit, að hluti af benzínskattinum fór beint í ríkissjóð, þangað til nú fyrir tveimur árum. Þess vegna er ástæðulaust að tala um þessi mál eins og þau hafi fyrst verið fyrir hendi nú síðustu 5 árin. Og ég er alveg viss um það, en hv. 6. þm. Sunnl. var ekki kominn á þing 1958, — ég er alveg handviss um það, að ýmsir, sem studdu þáv. ríkisstj., hefðu viljað láta meira en 80 millj. til vegamála 1958. En af hverju var það ekki gert? Það var vegna þess, að ríkissjóður þurfti að fá stóran hluta af þeim tekjum, sem umferðin gaf.

Og svo koma ýmsir hv. stjórnarandstæðingar nú og tala eins og það hafi ekki verið verkefni áður til þess að uppfylla í vegamálum. Dettur nokkrum manni í hug, að það hefði ekki verið æskilegt og það hefði ekki verið nauðsynlegt að fá meira en 80 millj. 1958 til vegamálanna? Vitanlega. Vegagerðarvísitalan síðan 1958 hefur hækkað milli 85 og 90%, ég man ekki nákvæmlega, hún var 85% á s.l. vori, er nú einhvers staðar milli 85 og 90%, og það sjá því allir, að það er tiltölulega miklu meira varið til vegamála nú en 1958, þótt ég geti tekið undir það, að æskilegt væri, að það væri miklu meira, og að því er stefnt, að svo verði. Það leysir ekki neinn hnút í þessu sambandi, þótt hér sé verið að tala um brigð og snúa við orðum og búa til nýjar forsendur til þess að geta sagt, að svikin séu tvöföld, og ganga lengra en nokkur hv. þm. í Nd. leyfði sér að gera. Það leysir ekki vandann. En út af fyrir sig skiptir mig það engu máli, hvað hv. 6. þm. Sunnl. vill kalla þetta. Það, sem mig skiptir máli, er það, að tekjur vegasjóðs verði auknar, það verði unnt á næstu árum að gera stór átök í vegamálunum.