25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2555 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

179. mál, sala jarðarinnar Gufuskála í Gerðahreppi

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta til l. er um það að heimila ríkisstj. að selja Gerðahreppi í Gullbringusýslu jörðina Gufuskálar í sama hreppi. Landbn. sendi frv. til umsagnar jarðeignadeildar ríkisins og landnámsstjóra, og eru umsagnir beggja þessara aðila á þá lund, að þeir mæla með því, að jarðasalan verði heimiluð. Það kemur fram í umsögn landnámsstjóra, að landbúskapur sé að leggjast niður í þessum hreppi, yfirleitt séu ræktunarskilyrði þar lítil og ræktun öll kostnaðarsöm og atvinnuvegir allir breyttir, þannig að það er að myndast þarna þéttbýli og sé nauðsynlegt að skipuleggja þessa byggð. Við flytjum brtt. við frv., á þskj. 555, þar sem við leggjum til, að hreppnum sé óheimili að endurselja þetta land, og er það í samræmi við afgreiðslu sams konar mála héðan frá þinginu á undanförnum árum. Landbn. leggur til, að frv. verði samþ.