31.03.1966
Neðri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

168. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar

Flm. (Ragnar Guðleifsson):

Herra forseti. Frv. það til 1. um stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar, sem hér liggur fyrir, er borið fram samkv. beiðni bæjarstjórnar Keflavíkur og vegna knýjandi nauðsynjar. Í grg., sem fylgir frv., er þessi nauðsyn skýrð nokkuð. Þar fylgir einnig með umsögn skipulagsstjóra ríkisins ásamt uppdrætti, er sýnir landssvæði Keflavíkurkaupstaðar eins og það er nú, þ.e.a.s. byggilegt svæði, og er það aðeins um 200 ha. Keflavíkurkaupstaður er því, eins og skipulagsstjóri ríkisins segir í meðfylgjandi umsögn, landþrengsti kaupstaður landsins. Uppdráttur þessi sýnir einnig fyrirhugaða stækkun lögsagnarumdæmisins til norðurs um 350 ha. Þá fylgir bréf flugvallarstjóra Keflavíkurflugvallar til utanrrn., varnarmáladeildar, þar sem hann varar við, að byggð færist nær Keflavíkurflugvelli en nú er.

Þótt frv. fylgi ýtarleg grg., vil ég með nokkrum orðum gera því nánari skil.

1. gr. frv. tiltekur það landssvæði, er við stækkunina kemur undir lögsögu Keflavíkurkaupstaðar,svo og hver verða mörk sveitarfélaganna, Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps, við stækkunina. Landsvæði það, er lögsagnarumdæmi Keflavíkur stækkar um, er 350 ha og er allt í Gerðahreppi. Hluti þess er þríhyrnd landsspilda, er liggur að núverandi mörkum Keflavíkurkaupstaðar og er í eigu Keflavíkur h.f., Keflavík. Þessi landsspilda er um 50 ha að stærð, og við köllum hana Bergið. Á þessu svæði eiga nú heimili um 70 manns, og vegna nábýlis við Keflavík er þetta fólk eðlilega í meiri tengslum við Keflavík en Gerðahrepp. Börnin á þessu svæði ganga í skóla í Keflavík og presturinn í Keflavík fræðir þau og fermir. Verkamennirnir, sem þarna búa, eru í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur, enda sækja þeir sína vinnu til Keflavíkur eða Keflavíkurflugvallar, en alls ekki í Gerðahrepp, nema þeir fáu, sem kunna að hafa sjálfstæða atvinnu heima. Hinn hluti stækkunarinnar, sem er um 300 ha, er allur í eigu ríkisins og er hluti þess lands, sem ríkið á sínum tíma tók eignarnámi vegna Keflavíkurflugvallar. Á þessu landssvæði er engin byggð. Meginhluta þessa landssvæðis má telja sæmilegan til byggingar.

Keflavík er ungt sveitarfélag, er varð til 1908 við síðustu skiptingu Rosmhvalaneshrepps hins forna. Þá urðu til tvö sveitarfélög, Gerðahreppur, eins og hann er nú, og Keflavík, er ásamt Njarðvíkum mynduðu þá sérstakt sveitarfélag, sem hét Keflavíkurhreppur. Þessi skipan hélzt til 1942, en þá skildu Njarðvikingar við Keflavíkurhrepp og mynduðu sérstakt sveitarfélag á ný, Njarðvíkurhrepp. Eftir þessi skipti var landrými Keflavíkur mjög takmarkað eða um 420 ha. Landssvæði þetta var þó ekki allt hæft til bygginga því með tilkomu Keflavíkurflugvallar var byggilegt land innan Keflavíkur skert um 300 ha eða um 5/7 alls landrýmis Keflavíkur, eins og það var eftir 1942. Nokkur hluti þessa lands eða um 80 ha hafa fengizt aftur og er nú byggt land innan Keflavíkurkaupstaðar, en enn þá eru um 220 ha í eigu ríkisins og í lögsögu lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli.

Ef við lítum á loftmyndina af Keflavík, sem fylgir frv. og var tekin 1963, sést, hve takmarkað landssvæði er óbyggt innan marka kaupstaðarins af því landi, sem við höfum ráð á. En óbyggt land er nú talið um 55 ha. Hluti þessa lands er skipulagður undir iðnað og stór hluti er land, sem fyrir nokkrum árum, meðan landrýmið var meira, hefði ekki verið talið byggilegt. Land allt að mörkum Njarðvíkurhrepps má nú heita fullbyggt, eins og sést á myndinni.

Keflavíkurkaupstaður er fjórði stærsti kaupstaður landsins utan Reykjavíkur, en jafnframt er hann talinn landþrengsti kaupstaðurinn, eins og ég gat um áðan. Íbúatala Keflavíkur 1. des. 1965 var 51 17 og hefur vaxið um 6% frá 1962, og ég ætla, að það sé minni vöxtur en í öðrum kaupstöðum hér sunnanlands. Á tímabilinu 1956–1960 eða á 5 árum var tala íbúða, er bygging var hafin á, 256 eða að meðaltali um 51 á ári, en á næsta 5 ára tímabili á eftir, 1961–1965, var bygging hafin á aðeins 168 íbúðum eða 36 að meðaltali á ári. Stafar þetta eingöngu af því, að eigi hefur verið hægt að fullnægja eftirspurn eftir byggingarlóðum.

Hjá einhverjum kynni nú að vakna spurning: Hvers vegna hefur bæjarstjórn Keflavíkur ekki fyrr leitað eftir því að stækka lögsagnarumdæmi kaupstaðarins og hvers vegna kemur þetta frumvarp svo seint fram? Bæjarstjórn á afsökun nokkra. Eins og fram kom hér áðan, eru enn um 220 ha af landi Keflavíkurkaupstaðar í eigu ríkisins og tilheyrandi Keflavíkurflugvelli. Á undanförnum mánuðum hefur bæjarstjórn Keflavíkur leitað eftir því hjá varnarmáladeild utanrrn. að fá enn til viðbótar spildu af þessu landi upp í heiðina til vesturs, ca. 65 ha. En þar með var talið, að nær flugvellinum yrði ekki byggt. Við þetta land voru vonir manna bundnar til bygginga á komandi sumri. En um landssvæði þetta segir skipulagsstjóri ríkisins í bréfi sínu til bæjarstjórans í Keflavík, sem dags. er 7. þ. m. og fylgir með þessu frv., með leyfi hæstvirts forseta:

„Land þetta er í sjálfu sér vel fallið til byggingar,en sá böggull fylgir hér skammrifi, að verulegur hluti þessa svæðis er í slíkri nálægð og afstöðu til flugbrautar þeirrar, er liggur NA-SV, að það hlýtur að teljast óhæft til íbúðarbyggingar, samkv. þeim kröfum um lágmarkshávaða í íbúðarhverfum, er gilda á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum. Stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkur til vesturs kemur því af þessum sökum aðeins að takmörkuðum notum.“

Varðandi þetta svæði segir flugvallarstjóri ríkisins í bréfi sínu til varnarmáladeildar, sem fylgir frv. Með leyfi hæstv. forseta:

„Mér hefur verið tjáð, að Keflavíkurbær og Njarðvíkurhreppur hafi á prjónunum áform um að færa byggð sína nær Keflavíkurflugvelli nú á næstunni. Í þessu sambandi vil ég árétta það, sem fór á milli mín og hins háa ráðun. í síma nú fyrir skömmu. Þá fór ég fram á það, að þannig verði búið um hnútana, ef leyft verður að byggja nær flugvellinum, að fullt tillit verði tekið til starfrækslu flugvallarins við skipulagningu byggingarsvæðisins og að fylgt verði ströngustu skipulagskröfum þar að lútandi til að firra væntanlega íbúa óþægindum vegna hávaða og jafnframt hugsanlegri slysahættu vegna flugvéla í flugtaki eða lendingu.“

Þessi ummæli skipulagsstjóra og flugvallarstjóra eru fram komin vegna þess, að nýlega hafa farið fram hljóðmælingar á þessu svæði, og niðurstöður þeirra mælinga liggja nú fyrir.

Á uppdrættinum, sem fylgir frv., má sjá þau svæði, sem vegna hávaða og slysahættu eru talin óbyggileg eða lítt byggileg, þegar miðað er við þær kröfur, sem gerðar eru á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum. Dökki þríhyrningurinn, er sjá má á uppdrættinum, sem er í stefnu til norðausturs af flugbrautinni, er liggur frá suðvestri til norðausturs, sýnir þann hávaða, sem er um 50% meiri en talinn er mesti þolanlegi hávaði í íbúðarhverfum í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum, en hann er á þessu svæði um 95 decibel, en í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum er talinn mesti þolanlegi hávaði 60—63 decibel. Ljósari svæðin báðum megin við þríhyrninginn eiga að sýna aðeins minni hávaða eða um 90 decibel. Á þessu sést, að þessi stækkun byggingarsvæðis Keflavíkur kemur að mjög litlum notum til byggingar íbúðarhúsa, því að búast mætti við, að fáir tækju á sig þá áhættu að byggja þar íbúðarhús og það því síður vegna þess, að bærinn mundi verða að úthluta lóðunum með þeim fyrirvara, að hann yrði ekki skaðabótaskyldur, ef þarna reyndist ógerlegt að búa. Menn gætu því skilið, hvaða erfiðleikum þetta veldur, því að við þetta land voru vonir bundnar til bygginga nú á næsta sumri.

Að vísu er slíkur hávaði, sem hér um ræðir, ekki þarna að staðaldri. Enn þá eru aðeins nokkrar vélar, sem hafa áætlun um Keflavíkurflugvöll, er slíkum hávaða valda, og svo eru herþoturnar, sem trufla mjög í byggðinni á hvaða tíma sem er. En við lifum á þotuöldinni, og öll líkindi eru til þess, að bæði stóru flugfélögin okkar, Loftleiðir og Flugfélag Íslands, taki innan fárra ára þoturnar í sína þjónustu. Enn þá munu engin lög eða reglur vera til um þennan þátt skipulagsmálanna, en hér er áreiðanlega verkefni fyrir hið háa Alþ. að vinna og það hið fyrsta.

Af því, sem hér hefur nú verið sagt, má sjá, að það er af brýnni þörf, að leitað er eftir útfærslu marka kaupstaðarins. Það þarf heldur ekki langrar athugunar við til þess að sjá, að aðeins er möguleiki á stækkun til norðurs, út á Bergið. Með þeirri stækkun á byggðarsvæði Keflavíkur, sem ráðgerð er með frv. þessu, svo og spildunni úr landi flugvallarins til vesturs, gerir skipulagsstjóri ráð fyrir, að sú landstærð muni nægja fyrir um 15–20 þús. manna byggð, og telur hann með hliðsjón af vexti Keflavíkur undanfarna áratugi, að bærinn muni ná þessari stærð á næstu 50–60 árum. Ég mundi nú ekki telja þetta bjartsýni um of. Betur gæti ég trúað, að innan þessa tíma yrði komin samfelld byggð frá Stapa og út á Garðskaga, þaðan til Sandgerðis og út á Stafnnes eða í hálfhring um Keflavíkurflugvöll, og hefði þessi byggð að stórum hluta skapazt vegna vaxandi umferðar um Keflavíkurflugvöll. Að vísu væru þó nokkrar eyður eða skörð í byggðina vegna hávaðasvæðanna.

2. gr. frv. þarfnast ekki skýringar við, en 3. gr. frv. kveður á um, hvernig skipti skuli fara fram milli sveitarfélaganna, ef þetta frv. verður að l., sem ég vona, og ef samkomulag næst þar ekki um.

Því miður verður það að segjast, að samkomulag hefur enn þá ekki náðst við hreppsnefnd Gerðahrepps, þrátt fyrir viðræður við meiri hl. hreppsnefndar um þær breytingar á mörkum sveitarfélaganna, er frv. gerir ráð fyrir, þótt við hins vegar verðum að vona, að úr rætist. Enn þá ber vissulega mikið á milli. Hreppsnefnd Gerðahrepps vili hafa mörkin milli sveitarfélaganna óbreytt frá 1908, en við teljum mörkin jafnóeðlileg nú og þau voru eðlileg, þegar þau voru sett.

Þegar skiptin fóru fram milli hreppanna 1908, miðuðust takmörkin við landareign bændanna í Gerðahreppi annars vegar og kaupmannsins í Keflavík hins vegar. Bændur í Leiru, sem tilheyra Gerðahreppi, áttu þá allt Hólmsbergið að Grófinni, sem þá var norðurtakmörk lands kaupmannsins í Keflavík. Síðan breyttust þessi takmörk Keflavíkureignarinnar við það, að Leirubændur seldu eigendum Keflavíkureignarinnar hluta af Berginu eða út á Hellumið. Síðar eignaðist svo ríkið allt það land annað í Gerðahreppi, sem frv. gerir ráð fyrir, að komi undir lögsögu Keflavíkurkaupstaðar. Ríkið á að vísu lengra en hugsað er að taka, ríkið á út að Bergvík, og við höfðum sumir talið, að það hefðu verið eðlilegri mörk á milli sveitarfélaganna heldur en þau, sem hér er farið fram á.

Með frv. þessu er ekki verið að skerða í neinu eignaryfirráð íbúa Gerðahrepps, heldur er beinlínis verið að færa mörk sveitarfélaganna til samræmis við þau sjónarmið, er réðu mörkum þessara sveitarfélaga, þegar þau urðu til.

Ég hef lokið máli mínu. Ég óska þess að eftir þessa umr. verði málinu vísað til 2. umr. og heilbr.— og félmn. og vænti þess, að það fái þar skjóta og jákvæða afgreiðslu.