03.05.1966
Neðri deild: 86. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2561 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

168. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það mun oftast hafa verið venja að rjúka ekki í afgreiðslu ágreiningsmála á þingfundum, sem ber upp á sama dag og útvarpsumr. eiga að vera og menn eru í önnum við þingstörf við að búa sig undir útvarpsumr., en út af þeirri reglu hefur verið brugðið nú, auk þess sem boðað hefur verið til nefndarfunda um ágreiningsmál á slíkum degi að þessu sinni, og kann ég þessu illa. Mér finnst þetta bera lítinn vott um tillit til þeirra starfa, sem þm. eiga að inna af hendi sem alþm.

Ég gat ekki mætt á þessum nefndarfundi í gær, þegar þetta mál var tekið fyrir, og þykir því skylt að gera grein fyrir afstöðu minni. Það liggur ljóst fyrir, að landið, sem Keflavíkurkaupstaður vili fá fært undir sitt lögsagnarumdæmi, er nú í öðru sveitarfélagi, er í Gerðahreppi. Ég efa það ekki, að Keflavíkurkaupstaður er í landþröng og þarf þess vegna að fá fram stækkun á sínu lögsagnarumdæmi. Ég sé hins vegar á öllu, að þetta mál er orðið mikið illdeilumál milli þessara tveggja nágrannasveitarfélaga og lýsi því yfir, að ég tel mjög óhyggilegt, að Alþ. hlandi sér í það mál sem úrskurðaraðili, meðan annar aðilinn heldur því fram, að sættaleiðir hafi ekki verið reyndar til fulls, en það kom fram í bréfi frá oddvita Gerðahrepps, sem lesið var upp hér af frsm. meiri hl. n. áðan, að hann teldi því fara fjarri, að sáttaleiðir hefðu verið fullreyndar í málinu. Þetta bréf berst eftir að n. fjallaði um málið. Ég tel skylt að taka tillit til þess, sem oddviti Gerðahrepps segir, því að hann virðist gefa vonir um það, að málið geti leystst með friði, og það er sýnilegt, að það er miklu betra, að svona mál verði leyst með samkomulagi, ef nokkur kostur er, milli tveggja nágrannasveitarfélaga, heldur en það sé gert með illdeilum og Alþ. grípi þar inn í, meðan því er haldið fram, að hugsanleg lausn væri til með friðsamlegum hætti.

Ég fékk fyrst vitneskju um, að það væri verið að ganga frá nál. um þetta mál kl. 11 í gærkvöldi eða um það bil, þegar ég var hér á þingfundi, og fékk þá vitneskju um það, að annar málsaðilinn, bæjarstjórn Keflavíkur, hefði átt þess kost að mæta á nefndarfundinum, en hins vegar mun hreppsnefnd Gerðahrepps ekki hafa verið gefinn kostur á því að mæta á nefndarfundi til þess að gera grein fyrir sínum skoðunum í þessu máli, og finnst mér það miður líka. Annar aðilinn hefur mætt á nefndarfundi en hinn ekki og á þess sýnilega ekki kost nú, ef á að hespa málið af á þessum þingfundi. Ég held, að það sé því hyggilegast að ganga ekki frá þessu máli, eins og það liggur fyrir. Ég hef átt þess engan kost að talarvið málsaðila. Ég gat ekki hlýtt á málflutning þeirra Keflvíkinganna í gær, og ég hef ekki haft nokkra aðstöðu til þess að kynna mér afstöðu Gerðahrepps, sem mér sýnist þó eftir atvikum vera slík, að það sé verið þarna að taka land, sem heyrir undir það sveitarfélag, undir Gerðahrepp, og þess vegna er von, að þeir vilji koma í veg fyrir það, nema því aðeins að samkomulag náist. Nú er upplýst, að landið á ríkið að langmestu leyti. Ég held því, að það þurfi ekkert að seinka þessu máli, sem ber að svo seint á þingtímanum, ég held, að það þurfi ekkert að seinka þessu máli, þó að lokaafgreiðsla fari ekki fram nú. Ríkið og Keflavíkurkaupstaður geta áreiðanlega, þegar svona stendur á, látið allan undirbúning fara þarna fram, og endanlega verður úr þessu skorið með dómkvaðningu manna til þess að fá úr því skorið, hvaða bætur skuli koma fyrir landið og þá aðstöðu, sem þarna færist frá einu sveitarfélagi til annars. Ég held því, að Keflavíkurkaupstaður geti ekki orðið fyrir neinum óþægindum af því, þó að málið yrði ekki nú afgreitt, heldur tekið upp í byrjun næsta þings, eftir eitt misseri, ef það hefði þá ekki fengið friðsamlega lausn, sem ég tel ekki enn þá útilokað samkv. ummælum oddvita Gerðahrepps. Ég hef því síðan í gærkvöld borið þetta undir þingflokk Alþb., og það er afstaða Alþb. að eiga ekki hlut að þessari afgr., sem hér er lagt til af meiri hl. n. nú, og það eru tilmæli Alþb., að málið sé heldur látið liggja nú og freista þess til hins ýtrasta að fá á þessu friðsamlega lausn. Mér þætti hins vegar vænt um það, ef einhver gæti gert grein fyrir því, í hverju það liggur, að Keflavíkurkaupstaður yrði fyrir einhverjum hnekki af því, að málið biði til byrjunar næsta þings. Það gæti haft einhver áhrif á mína afstöðu, en ég sé ekki, að það geti valdið Keflavík neinum óþægindum, þó að málið fengi nú ekki afgr. og biði til upphafs næsta þings. Sem sé, þingflokkur Alþb. óskar eftir því, að málið hljóti ekki lokaafgr. nú, Alþ. gerist ekki úrskurðaraðili í málinu, meðan annar aðilinn heldur því fram, að sáttaleiðir hafi ekki verið reyndar til hins ýtrasta.