14.12.1965
Efri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

76. mál, vegalög

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er á ferðinni, er að mínu víti eitt af mörgum dæmum um það fjármálaöngþveiti, sem nú einkennir flestu fremur ríkisreksturinn, og tilraunir hæstv. ríkisstj. til þess að klóra í bakkann til þess að halda sér á floti á næsta ári í því dýrtíðarfeni, sem hún hefur skapað með efnahagsaðgerðum sínum.

Eins og hefur greinilega komið fram, er hér um það að ræða að leggja á aukinn benzínskatt til þess að mæta nokkru af tekjuþörfum ríkissjóðs, en ekki til þess að framlög til samgöngumálanna í landinu aukist, því að þau breytast ekki, svo að nokkru nemi, við þessa skatthækkun, sem hér er um að ræða. Á þessu tvennu er auðvitað reginmunur, sem hlýtur að skera úr um afstöðu manna til þessa frv.

Þörfin fyrir stórfelld átök í sambandi við samgöngumálin fer vaxandi með hverju árinu sem líður. Vegleysi og ófullkomnir vegir, skortur á flugvöllum, allt verkar þetta eins og spennitreyja, sem þrengist í sífellu, spennitreyja á atvinnulífið og eðlilega þróun þess, og verður í raun og veru æ ósamrýmanlegra öllum nútímaháttum, bæði atvinnulegum og félagslegum, eftir því sem lengra líður. Enda eru samgöngumál okkar í því horfi, að þar er um algerlega ósambærilega hluti að ræða við önnur þau þjóðlönd, sem þó búa ekki við öllu þróaðra atvinnulíf heldur en við gerum nú. Miðað við síhækkandi framkvæmdakostnað í samgöngumálunum og sífellt brýnni þarfir er því óhætt að fullyrða, að ekki er haldið í horfinu og fyrr eða síðar verður óhjákvæmilega að leggja miklu stærri hluta af þjóðartekjum okkar til samgöngumálanna heldur en nú er gert, þ.e.a.s. ef við eigum ekki að dragast aftur úr einnig á öðrum þeim sviðum, sem hafa úrslitaþýðingu um efnahagslegar og menningarlegar framfarir.

Það má vel vera, að ekki verði hjá því komizt, að þegar til þeirra átaka kemur, sem ég held að verði að vera frekar fyrr en seinna, við ófullnægjandi og úrelt samgöngukerfi, reynist nauðsynlegt að þrengja að á einhverjum öðrum sviðum í bili, e. t. v. með því að auka álögur á samgöngutækin og skapa þannig grundvöll til mikilla framkvæmda, sem þó virðist eðlilegra með því, að ríkið afsali sér jafnvel algerlega þeim tekjustofnum, sem það nú hefur af aðflutningsgjöldum o. fl. í sambandi við samgöngutækin, og fái þá tekjustofna í hendur vega- og flugvallaframkvæmdum. Ef það væri ætlunin að ráðast af karlmennsku gegn einu hinna stóru vandamála þjóðarinnar, samgöngumálunum, þykir mér líklegt, að ekki yrðu harkalegar deilur uppi um það, þó að nokkur hækkun yrði á benzíni eða einhverri hliðstæðri skattheimtu í sambandi við samgöngutækin. Menn mundu þá skilja, ef svo væri á málum haldið, að álögurnar skiluðu sér aftur, jafnvel jafnharðan að meira eða minna leyti, í bættum samgöngum, lækkuðum rekstrarkostnaði farartækjanna og aukinni hagkvæmni í þeim þætti atvinnumála, sem háður er samgöngum.

En hér er því ekki að heilsa, að um neitt slíkt sé að ræða. Hér er ekki efnt til meiri framkvæmda í vegamálum með þessari skattahækkun. Hér er ekki um það að ræða, að ríkið sé að afsala sér tekjum af umferðinni til aukinna vegaframkvæmda. Hér er málum í rauninni alveg öfugt farið. Hér er verið að seilast enn freklegar en áður til umferðarinnar sem skattstofns fyrir almenna eyðslu ríkissjóðs. Fyrir mig skiptir það í þessu sambandi engu höfuðmáli, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. samgmrh. gengur með þessu frv. á gert samkomulag við þingflokkana og þ. á m. stjórnarandstöðuna, þó að það sé ekki gott afspurnar. En sá hæstv. ráðh., sem hér hefur mest um fjallað, verður auðvitað að meta sjálfur, hvers virði hans orðheldni er, og það verð ég að segja, að ólíkt hefst hann nú að í sambandi við það að efna orð sín eða hæstv. forsrh., þegar hann lækkaði söluskattinn fyrir rúmu ári um 60 millj., til þess að enginn vafi gæti á því leikið, að hann hefði staðið við orð sín. Slík framkoma af hálfu hæstv. ráðh. og ríkisstj. er auðvitað verst fyrir hana sjálfa og hlýtur að veikja traust hennar, jafnt utan þings sem innan. En hitt er þó í sjálfu sér miklu lakara, að hér er öllu snúið til rangs vegar og í öfuga átt við það, sem heppilegt er fyrir samgöngumálin í landinu.

Þegar þetta bætist ofan á þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum til að minnka svo að segja árlega hlut vegaframkvæmdanna af þeim tekjum, sem hið opinbera heimtir af umferðinni, verður að segja, að mælirinn er vissulega fullur. En sagan um þetta. hvernig hlutur vegamálanna af tekjum af umferðinni hefur verið, er sú, að 1960 var lagt til umferðarinnar, lagt til vegamálanna 42.3% af skattheimtunni og það fer síðan lækkandi, þangað til 1963 er það komið niður í 29.5% og 1964 verður þá um hækkun að ræða upp í 38%, en að jafnaði er þarna um árlega lækkun að ræða. En tekjur ríkissjóðs af umferðinni umfram framlag til vega var þannig árið 1960 um 150 millj., en 1964 395 millj. kr., og á 5 árum er sá mismunur, sem hér er um að ræða, 1295 millj. kr. Þetta svarar t.d. til þess fjármagns, sem þurft hefði til að malbika og gera varanlega vegi að lengd 650 km á 5 árum, ef allt það fé, sem þarna hefur verið tekið af umferðinni, hefði verið lagt í slíkar framkvæmdir. En slíkt átak eða annað hliðstætt hefði vitanlega gerbreytt rekstri farartækjanna í landinu, sparað óhemju upphæðir í rekstrarkostnaði og ég vil segja aukið um ótaldar upphæðir framleiðslu landsmanna og létt undir með atvinnuvegunum. Í þess stað hefur verið hjakkað í sama farinu, og er tæpast unnt að tala um nokkrar framfarir í vegamálum á síðari árum. Nýbyggingar eru sáralitlar, miðað við þarfirnar, og hinir gömlu vegir, jafnvel aðalleiðir milli landshluta, eru að níðast niður. Gott dæmi um það er t.d. norðurleiðin svokallaða, sem ekki hefur verið lagt fé í, svo að nokkru nemi, jafnvel áratugum saman og fer árversnandi til umferðar. Hér þarf vissulega að verða á gerbreyting, ef ekki á svo að fara, eins og ég áður sagði, að skortur á viðunandi vegakerfi verki eins og spennitreyja á atvinnulíf okkar, á efnahagslegar framfarir og raunar á mjög víðtæk svið í þróun okkar þjóðlífs.

Nú er sagt aftur og aftur hér á hv. Alþ. við hvert nýtt skattafrv., sem fram er lagt, að ríkissjóð vanti meiri tekjur, endarnir nái ekki saman og eitthvað verði að gera. Verðbólgan er orðinn sá grimmi yfirdrottnari yfir hæstv. ríkisstj. og yfir rekstri hennar á fjármálum ríkisins, sem krefst svo að segja daglegra fórna, en fær þó aldrei nægju sína. En ríkisstj. virðist fús til þess að færa þessum drottnara sínum hverja fórnina af annarri, en hefur e. t. v. ekki kjark og e. t. v. ekki heldur getu til að ráðast að þessum yfirdrottnara sínum og reyna að hafa hann undir, hætta að ala hann á hverri nýrri skattlagningunni af annarri, hverri skattlagningu, sem hugvit hennar getur upp hugsað, en jafnvel það hugvit í þessum efnum virðist vera á þrotum, eins og nýjustu dæmin sanna um gjaldeyrisskattinn.

Með slíkum úrræðum er í rauninni aukið á allan vanda í okkar efnahagsmálum og í fjármálum ríkisins. Úrræðin, ný og ný skattheimta, duga skemmri og skemmri tíma, en hin efnahagslega meinsemd vex að umfangi og sýkir út frá sér í æ ríkara mæli. Að því hlýtur að koma fyrr eða síðar, að meiri hl. þings og þjóðar geri sínar ráðstafanir til þess, að hér verði öfugt farið og reynt verði að skera á rætur meinsins í stað þess nú stöðugt að vera með bráðabirgðaráðstafanir, sem ekkert hald er í, ráðstafanir eins og þær, sem felast í þessu og öðrum tekjuöflunarfrv., sem nú liggja fyrir hv. Alþ. Samþykkt slíkra frv. sem þessara væri aðeins fallin til þess að fresta þeim aðgerðum, sem óhjákvæmilega verður að gera, ef heilbrigð efnahagsstefna og skattastefna á að ríkja í landinu. Þess vegna ber að fara eins að við öll þessi frv., að fella þau.