04.05.1966
Efri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2569 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

168. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar

Frsm. minni hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Þó þetta mál sé hitamál í Keflavík og Gerðahreppi, geri ég ekki ráð fyrir, að það verði gert að hitamáli hér í þessari hv. d., þó lítilsháttar ágreiningur sé innan n., sem um það fjallaði í gær.

Að afloknum deildarfundi hér í hv. d. í gær var skotið á nefndarfundi til að taka afstöðu til þessa máls. Þetta var skyndifundur og þar af leiðandi ekki hægt að gjörkanna málið, sem er mikið ágreiningsmál, eins og ég gat um áðan, og á einum stuttum nefndarfundi er ákaflega örðugt að taka afstöðu til máls, sem er víðtækt, og venja er að hafa fleiri fundi um slíkt mál í n. og oft marga. Þetta fannst mér vera of hröð afgreiðsla í fyrsta lagi.

Ljóst er af gögnum, sem fyrir liggja, að sveitarfélag það, Gerðahreppur, sem skerða á mjög, ef frv. nær fram að ganga, er þessu frv. alveg andvígt. Hins vegar virðist lagt allmikið kapp á það, að Keflavíkurkaupstaður nái að seilast til landvinninga hjá nábúa sínum, Gerðahreppi, og skerða um leið verulega byggð þess sveitarfélags. Það er um harkalegar aðgerðir að ræða að lögbinda þetta og mjög eðlilegt, að þetta sé viðkvæmt mál þar. Þó geta verið ástæður fyrir því, að þetta verði að gera, en á þeim fundi, sem heilbr.- óg félmn. hélt um þetta mál í gær í 10 eða 15 mín., lágu þær ástæður alls ekki íjósar fyrir. Oddviti Gerðahrepps hefur óskað þess, að málið verði ekki afgr. með hraða, vegna þess að hann telur möguleika á því, að samkomulag náist um málið á grundvelli þeim, sem sveitarstjórnarlög gera ráð fyrir í slíkum málum.

Eins og fram kemur hér í nál. minni hl., leggjum við til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá: „Þar sem mál þetta hefur ekki enn fengið nægilegan undirbúning telur d. ótímabært að samþ. frv. og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Hv. frsm. meiri hl. gat þess hér áðan, að ósennilegt og raunar vonlaust sé, að um þetta mál náist samkomulag á milli þessara sveitarfélaga, og las hann í því tilefni kafla úr bréfi eða ályktun frá félmrn. Hins vegar liggja fyrir fleiri skjöl um þetta mál og þar á meðal bréf frá oddvita Gerðahrepps, það er dags. í Reykjavík 2. maí 1966. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa þetta bréf:

„Í tilefni af þeirri staðhæfingu, sem sett er fram í bréfi félmrn., um að fullreynt sé, að ekkert samkomulag geti tekizt milli bæjarstjórnar Keflavíkur og hreppsnefndar Gerðahrepps um breytingar á mörkum milli Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps, vil ég fyrir hönd hreppsnefndar Gerðahrepps taka fram, að slíkt er síður en svo fullreynt, þar sem boðið hefur verið upp á umræður um afhendingu lands til Keflavíkur að því tilskildu, að fram komið frv. um breytingu á fyrrgreindum mörkum verði stöðvað.“

Þetta hefur oddvitinn um þetta að segja því til stuðnings, að hann óski eftir, að samkomulagsumræður verði enn reyndar um þetta mál.

Þá hefur þessu máli verið skotið til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og ég vil til skýringar á málinu leyfa mér að lesa hér kafla úr því bréfi, með leyfi hæstv. forseta:

„Bréf hv. n. var lagt fyrir fund í stjórn sambandsins 18. þ.m. og var þar rætt. Stjórn sambandsins fylgir mjög fast þeirri reglu um mál sem þessi að láta ekki í té neitt álit, nema sveitarfélög þau, sem hlut eiga að máli, hafi áður rætt málið sín á milli og fyrir liggi skriflegt álit beggja aðila. Þá afstöðu eina telur stjórn sambandsins vera í fullu samræmi við l. gr. 2. mgr. sveitarstjórnarlaga, nr. 58 1961, þar sem segir, „að eigi skuli neinu máli, sem varðar sérstaklega hagsmuni sveitarfélags, til lykta ráðið án umsagnar sveitarfélagsins“. Ekki verður séð af grg. með frv., að þetta hafi verið gert, og ef trúa má bréfi oddvita Gerðahrepps, sem hér með fylgir í ljósriti, virðist svo ekki vera. Þá ber og á að líta, að ekki væri óeðlilegt, að umsagnar sýslun. Gullbringusýslu væri leitað um mál þetta, þar sem hér er ekki aðeins um að ræða að breyta mörkum tveggja sveitarfélaga, heldur einnig tveggja lögsagnarumdæma. Stjórnin lítur svo á, að frv. þetta sé ekki svo vel undirbúið sem lög mæla og getur því ekki á þessu stigi tekið afstöðu til þess. Undirskrift Jónasar Guðmundssonar formanns Sambands ísl. sveitarstjórna. M.ö.o., sambandsstjórnin lítur svo á, að málið sé ekki nægilega undirbúið og ekki sé einu sinni fullnægt lagaskyldum að því er snertir undirbúning málsins.

Þá hefur enn fremur verið skotið á aukafundi í sýslunefnd út af þessu máli, þ.e. sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu. Ályktun þess aukafundar er undirrituð af sýslumanni, Einari Ingimundarsyni, og bréfið dags. 27. apríl. Ég vil leyfa mér enn fremur að lesa þetta bréf, með leyfi hæstv. forseta, til skýringar á málinu:

„Á aukafundi sýslunefndar Gullbringusýslu, sem haldinn var í Hafnarfirði 26. þ. m. varðandi frv. til l. um stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar, var gerð eftirfarandi ályktun: „Aukafundur sýslunefndar Gullbringusýslu, haldinn í Hafnarfirði 26. apríl 1966, gerir sér ljósa nauðsyn þess, að Keflavíkurkaupstað verði sköpuð eðlileg og nauðsynleg aðstaða til stækkunar og vaxtar. Hins vegar telur fundurinn æskilegt, að fulltrúar kaupstaðarins og Gerðahrepps reyni til þrautar að ná samkomulagi sín á milli um lausn þess máls, sem hér um ræðir, en telur naumast, að slík lausn hafi enn verið reynd til hlítar. Getur fundurinn því ekki lagt til, að fram komið frv. um stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar úr landi Gerðahrepps verði samþ. að svo stöddu.“ Ályktun þessi var samþ. með 8 shlj. atkv.

M.ö.o., bæði sýslunefnd og stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga telja, að samkomulag um þetta efni hafi ekki verið reynt til hlítar.

Ég álit skynsamlegt að verða við beiðni oddvita Gerðahrepps um það að afgreiða ekki þetta mál fyrr en reynt hefur verið til þrautar að ná samkomulagi í þessu viðkvæma máli. Ég held, að það geti á engan hátt skaðað, vegna þess að mér er ekki kunnugt um, að neitt sérstakt kaíli að með það að afgreiða málið í hasti og miklu æskilegri sú lausn, ef samkomulag gæti náðst. Vil ég á þessari stundu segja það, að ég mundi vilja athuga það vandlega, þegar allar samkomulagsleiðir hafa verið reyndar, hvort svo gild rök séu fyrir því að gera l. um þetta efni, að það sé réttlætanlegt. En á þessu stigi tel ég skynsamlegast að samþ. dagskrártill. og fresta málinu til næsta þings.