04.05.1966
Efri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2572 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

168. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar

Frsm. meiri hl. (Pétur Pétursson): Herra forseti. Ég get alveg skrifað undir ýmislegt af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði að því er varðar meðferð þessa máls hér í hv. d. Málið var einfaldlega ekki afgreitt í hv. Nd. fyrr en síðdegis í gær, en það var líka afgreitt þar með 24:1 atkv., eins og ég sagði, eða svo til alveg einróma. Sú hv. d. hafði haft nokkrar vikur til að fjalla um málið og komizt að þeirri niðurstöðu að þeirri athugun sinni lokinni, að það væri nauðsynlegt að afgreiða málið nú á þessu þingi, og gerði það svo til samhljóða, enda eru flm. allir þm. úr Reykjaneskjördæmi, og mér dettur ekki í hug eitt augnablik að ætla þeim það, að þeir hafi verið að fara þarna eftir einhverjum duttlungum framámanna í Keflavík, eins og mér fannst hálfpartinn koma fram. Forráðamenn Keflavíkur eru náttúrlega framsýnir menn, sem þurfa að fá sitt skipulag, skipulagsstjóri telur sig ekki geta skipulagt staðinn nema hann hafi land til umráða, og ósköp finnst mér ég geta skilið það vel, að þessir forráðamenn kaupstaðarins vilji einfaldlega koma málinu áfram nú, svo þeir þurfi ekki að standa í þeim ósköpum, sem þeir hafa þurft að gera, að hafa ekki land undir bæinn sinn. Það er nú ekki, held ég, hægt að segja, að Alþ. mundi hrapa að neinu, þó það yrði afgreitt nú, vegna þeirrar athugunar, sem gerð hefur verið, og þeirra gagna, sem liggja fyrir í málinu, og ekki sízt þar sem félmrn. hefur talið fullreynt, að ekki sé hægt að ná samkomulagi.

Það er alveg eðlilegt, að oddviti Gerðahrepps skrifi bréf, eins og hann hefur gert. Hann vill náttúrlega með öllum ráðum reyna að fresta málinu, en sér fram á, að hann getur ekki gert út af við það og þá er það eðlilegast að reyna að fresta því. Hvort þau ummæli hans í bréfi hans um það, að það kunni að nást samkomulag síðar, séu svo pottþétt, að við getur treyst því, að þetta verði allt í lagi í haust, finnst mér nú ekki vera eins mikið og það álit ráðun., að fullreynt sé um samkomulagsleið.

Varðandi sýslunefnd og Samband ísl. sveitarfélaga finnst mér alveg eðlilegt, að þeir aðilar gefi svona loðna umsögn, þar sem þeir eiginlega geta ekki mælt með frv., en mér finnst ég nú ekki lesa það út heldur, að þeir séu á móti. Þetta eru aðilar í báðum þessum samtökum, og eðlilega veigra þau sér við eins lengi og þau geta að taka afstöðu í því. Það er þess vegna Alþ., sem hlýtur að þurfa að taka þessa afstöðu og hefur gert einróma í hv. Nd., en svo kemur ágreiningurinn fram hér, en að því er mér finnst hafa engir, sem enn hafa talað, verið á móti málinu beint, en þeir vilja fresta því í þeirri afar veiku von, að það kunni að nást samkomulag yfir sumarið.

Þrátt fyrir það að ég viðurkenni, að þessu sé hraðað mjög gegnum þingið, finnst mér nú ekki rétt orðalag, að það sé knúið áfram með hálfgerðu offorsi. Það er að vísu mjög lítill möguleiki fyrir heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. að fjalla um málið eins og hún hefði þurft, það viðurkenni ég hreinlega, en engu að síður tel ég þau rök, sem fram hafa komið í þessu máli, svo veigamikil, bæði frá skipulagsstjóra, frá félmrn. og frá þeim fundi, sem haldinn var um málið, að ég sé enga ástæðu til að bíða, og því leggjum við til, að málið sé afgr.