14.12.1965
Efri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

76. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, því að ég hef í sjálfu sér ekki miklu að svara viðvíkjandi þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar, síðan ég sagði orð mín hér áðan.

Hv. 6. þm. Sunnl. taldi, að ég mundi hafa hlustað illa á sína ræðu við 1. umr. málsins. Ég einmitt hlustaði mjög vandlega á hana. Og ég tók eftir því hjá honum, sem ekki er venjulegt. að hann brá sér inn á líkingamál og talaði um, að hann vildi ekki skrifa undir syndakvittun eða aflátsbréf eins og þau, sem seld voru hér á miðöldum fyrir peninga og komst nokkuð vel að orði í þessu sambandi, svo að ég tók sérstaklega eftir því. Mér virðist nú, að okkur greini ekki ýkjamikið á um það, hann gekk alveg inn á mína skoðun, að það mundu engin svik hafa verið nefnd, ef önnur leið hefði verið valin og farið út í það að afla ríkissjóði tekna með öðru móti en hér er gert ráð fyrir og leggja það svo til veganna. Hann féllst alveg á mína skoðun í því efni, að ef þetta hefði verið söluskattur, þá væri þetta alveg hliðstætt, en það væri ekki hliðstætt, ef það væri benzíngjald. Um þetta er hægt að deila. En aðalatriði þessa máls er, að það hefur verið staðið við eða á að standa við að láta vegagerðina fá eins miklar tekjur og vegáætlunin gerir ráð fyrir. Og í því frv., sem hér er lagt fram, vék hv. 4. þm. Austf. að því, sem er alveg rétt, að það væri ekki verið að gera ráð fyrir því að breyta vegalögunum að öðru leyti, en benti á, að á fjárl. nú væri 47 millj. kr. minna en á fjárl. síðasta árs. Þetta er alveg rétt. Það liggur hér ekki fyrir nein önnur breyting á vegalögunum, og ég lít á það fyrirbæri nú, að taka þessar 47 millj. út, sem stundarfyrirbæri, á meðan vegalögunum hefur ekki verið breytt. Annars má endalaust karpa um það, hvort þarna hafi verið farin rétt leið í fjáröflun. En eins og hæstv. samgmrh. vék hér að í sinni ræðu við 1. umr., gerði hann ráð fyrir, að það yrði einmitt reynt að auka það fé, sem til vega gengi 1967 og 1968, með einhverju móti, en ekki minnka það.