03.05.1966
Sameinað þing: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2639 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í tilefni af ræðu Helga Bergs langar mig aðeins til að spyrja ykkur, hlustendur góðir, hverjir þið haldið að það séu, sem mest kynda undir dýrtíðinni, ríkisstj., sem sífellt þarf að glíma við vandamálin, eða andstæðingar hennar, sem eru ábyrgðarlausir gerða sinna? Yfirvegið þetta rólega, og þá skiljið þið betur málflutning manna eins og hv. síðasta ræðumanns.

Störfum Alþ. að þessu sinni lýkur væntanlega í þessari viku. Mörg mál hafa hlotið afgreiðslu á þinginu og síðustu vikurnar hefur miklu verið afkastað. Vill það oft verða þannig, að framan af þinghaldinu gerist fremur fátt, en þeim mun meira á síðari hluta þess. Það er þó misskilningur að halda, að Alþ. sitji auðum höndum tímunum saman. Fjárlög eru jafnan meðal fyrirferðarmestu mála hvers þings, og hefur afgreiðslu þeirra hin síðustu ár jafnan verið lokið fyrir áramót. Önnur mál eru á ýmsum stigum allt frá þingsetningu til þingslita, og taka þingmenn mikinn þátt í undirbúningi þeirra og ýmsum athugunum í sambandi við þau, áður en þau komast á lokastig. Af eðlilegum ástæðum fellur þó meira af slíkri vinnu í hlut stjórnarsinna en stjórnarandstæðinga, og kvarta þeir síðarnefndu undan því, að þeir séu ekki hafðir nógu oft með í ráðum, áður en mál eru lögð fram á Alþ. Það liggur þó í augum uppi, að varðandi þetta atriði hafa þeir fyrst og fremst við sjálfa sig að sakast, vegna þeirra vinnubragða, sem þeir hafa tamið sér í stjórnarandstöðunni. En ekki skal ég neita því, að fengur gæti verið að því fyrir þingstörfin, að stjórnarandstaðan sýndi sig verðuga þess trúnaðar, að unnt væri að hafa fulltrúa hennar með í ráðum við undirbúning fleiri mála en raun ber vitni. Sú staðreynd, að hér á landi hefur oftast verið um samsteypustjórnir að ræða, hefur átt nokkurn þátt í því að lengja þinghaldið. Sum mál eru þess eðlis, að samstarfsflokkar með ólíkar skoðanir þurfa um þau að semja, og þá þarf bæði viðkomandi ríkisstj. að geta ráðfært sig við þingflokka þá, sem hana styðja, og þeir að hafa aðstöðu til að semja sin á milli. Þá er heldur ekki fyrir það að synja, að innan einstakra flokka geti verið ólík sjónarmið, sem ræða þurfi og jafna, áður en málin koma fyrir þingið í frv.-formi. Miðað við þá lýðræðislegu og þingræðislegu þróun, sem hér hefur orðið, verða þetta að teljast eðlileg og óhjákvæmileg vinnubrögð, en samt er því ekki að neita, að sitt hvað mætti betur fara í störfum Alþ., og nú hafa þingflokkarnir komið sér saman um að kjósa 7 manna milliþinganefnd til að endurskoða gildandi lög um þingsköpin. Þess er þó varla að vænta, að sú endurskoðun geti orðið til þess að stytta þinghaldið til muna, vegna þess að með hverju ári sem líður, fær þingið fleiri og flóknari mál til meðferðar. Eru það einkum samskipti þingsins við útvarp og væntanlegt íslenzkt sjónvarp, sem gera endurskoðun þingskapa nauðsynlega og aðkallandi, og var það form. útvarpsráðs, Benedikt Gröndal, sem kom þessu máli á hreyfingu með því að flytja á þessu þingi frv. um breyt. á l. um þingsköp Alþingis, að því er þetta snerti. Hann setti í frv. fram ýmsar hugmyndir um útvarp og sjónvarp frá Alþ. og skal ég engu spá um það, hverjar þeirra nái fram að ganga, en það er að sjálfsögðu mikilvægt, að þjóðin fái sem réttasta mynd af störfum þingsins í gegnum blöð, útvarp og sjónvarp. Útvarpið gerði mikla bragarbót í þessu efni, þegar það tók upp fréttaflutning af umr. í þinginu, og bezt gæti ég trúað, að í stað eldhúsdagsumræðna og útvarps á fjárlagaræðu eigi eftir að koma samtalsþættir, spurningaþættir og erindi í útvarpi og sjónvarpi. Fleiri, styttri og fjölbreyttari þættir frá þinginu gefa þjóðinni. áreiðanlega betra tækifæri til að kynna sér störf þess en það fyrirkomulag, sem lengi hefur tíðkazt á útvarpi frá Alþ.

Samkv. gildandi þingsköpum hafa forsetar heimild til þess að láta umræðutíma skiptast sem jafnast með og móti máli. Þessari heimild er yfirleitt ekki beitt, vegna þess að stjórnarandstaðan þolir aldrei, að henni sé svarað og þarf í flestum málum margfaldan ræðutíma á við stuðningsmenn stjórnarinnar. Þess vegna er það oftast venja að af hálfu stjórnarflokkanna tala fáir aðrir en ráðh. og frsm. n. Ef fleiri töluðu, mundu umr. lengjast svo úr hófi fram, að fá mál yrðu útrædd. Hef ég áður bent á, að jafnari skipting ræðutíma með og móti málum mundi gera umr. í þinginu frjórri og skemmtilegri, og að mínum dómi er þetta eitt þeirra atriða, sem koma þarf til athugunar í sambandi við endurskoðun þingskapa. Í skjóli þeirra forréttinda stjórnarandstæðinga, sem ég hef nú lýst, leyfa talsmenn þeirra sér oft að brigzla öðrum þingmönnum um skoðanaleysi og að þeir sætti sig við hörkulega beitingu flokksvaldsins, eins og Eysteinn Jónsson orðaði það í gærkvöldi í sambandi við álmálið. Í umr. í Nd. á dögunum um sama mál talaði einn af skástu mönnum Framsóknar um það, að andstæðingar hans væru bæði „mýldir“ og „keflaðir“ af stjórninni og gætu ekki komið upp nokkru orði í sambandi við þetta stórmál. Spyrja mætti, hversu djúpt eigin sannfæring þessa ágæta þingmanns gegn málinu hafi rist, en látum það vera. Ég skal nú, að gefnu þessu tilefni, lýsa í örfáum orðum afstöðu minni til þessa merka máls. Það getur ekki héðan af tafið framgang þess, þar sem frv. um álbræðsluna hefur þegar verið afgr. sem lög frá Alþ.

Ég tel það mikilvægt, að atvinnulíf landsmanna verði sem fjölbreyttast og að gerðar séu ráðstafanir til að beizla þá orku, sem býr í fallvötnum landsins, en rennur nú að mestu ónotuð til sjávar. Meðan við þurfum ekki sjálfir á allri orkunni að halda, tel ég, að við hljótum að hafa hag af því að breyta henni í útflutningsvöru, eins og gert er með byggingu álbræðslu samtímis því, að ráðizt er í hina miklu Búrfellsvirkjun. Það hefði að vísu verið hægt að framkvæma nauðsynlegar viðbótarvirkjanir án álbræðslunnar, en þær hefðu þá orðið minni og óhagkvæmari og rafmagnið frá þeim til hins almenna notanda orðið dýrara. Orkusölusamningurinn við álbræðsluna er tekinn sem trygging fyrir þeim erlendu lánum, sem afla þarf vegna virkjunarinnar, en þetta þýðir, að virkjunarkostnaðurinn rýrir ekki möguleika íslenzka ríkisins til þess að afla lána erlendis til margvíslegra annarra þarfa. Virkjanir án álbræðslu hefðu ekki haft þennan kost, og stór lán, tekin til þeirra, hefðu gert örðugra um vík við útvegun lána erlendis frá til annarrar uppbyggingar í landinu. Þetta tel ég mjög mikilvægt atriði. Einnig er það svo, að virkjun án álbræðslu hefði ekki gefið af sér beinar tekjur í atvinnujöfnunarsjóð, en með samningnum um álbræðsluna fær sjóðurinn frá henni um 426 millj. kr. á árunum 1974–1984 og 54–60 millj. á ári eftir það. Verður þetta að teljast góð viðbót við annað ráðstöfunarfé sjóðsins, sem ætlaður er til þess að efla atvinnulíf þeirra landshluta, sem erfiða aðstöðu hafa í samkeppninni við þéttbýlissvæðin. Heimasveit álbræðslunnar, Hafnarfjörður, fær einnig í sinn hlut álitlegar upphæðir af gjöldum álbræðslunnar og eignast á 25 árum hafnarmannvirki, sem hvergi á sinn líka hér á landi. Til samningsgerðarinnar í heild tel ég, að hafi verið vel vandað og ástæðulaust að óttast, að við höfum samið stórlega af okkur. Álframleiðslan hefur þann kost, að þetta hráefni má nota til margs konar iðnaðar. Það verður fáanlegt hér tollfrjálst í landinu, og ég tel engum efa bundið, að þetta tækifæri til eflingar iðnaðarins verði ekki látið ónotað. Sérfræðileg aðstoð á þessu sviði stendur okkur til boða samkv. samningnum. Raforkan frá Búrfellsvirkjun verður einnig undirstaða margháttaðra framfara í vinnslu sjávarafurða, í landbúnaði og iðnaði og þegar á allt er litið, mun sú ákvörðun að byggja álbræðslu jafnhliða Búrfellsvirkjun stuðla að alhliða eflingu atvinnulífsins í landinu og styrkja efnahagskerfi okkar. Hún mun einnig flýta fyrir öðrum stórvirkjunum, t.d. við Dettifoss. Að lokum vil ég segja það um þetta stórmál, að ég óttast ekki, að þessi ákvörðun um hagnýtingu erlends fjármagns og sérþekkingar, verði landi og lýð til tjóns. Aðrar þjóðir hafa með góðum árangri hagnýtt sér erlent fjármagn til margvíslegrar uppbyggingar, án þess að glata fullveldi sínu og fjárhagslegu sjálfstæði. Viðsemjendur okkar um álbræðsluna tilheyra siðmenntaðri lýðræðisþjóð, sem hvorki sækist eftir landvinningum né leitast víð að troða kreddum og kennisetningum upp á aðra. Ég tel það vel farið, að þessi fyrsta alvarlega tilraun okkar til að hagnýta erlent fjármagn skuli einmitt gerð í samstarfi við Svisslendinga.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar í gærkvöldi bar þess ekki vott, að til hennar væri neinna gagnlegra úrræða að leita í því vandamáli, sem flestum varð tíðræddast um, vandamáli verðbólgunnar. Var reynt að koma allri sök á því, að ekki hefur tekizt að stöðva verðbólguna, yfir á stjórnina og stuðningsflokka hennar, og þá auðvitað einskis svifizt í vopnaburði. Hannibal Valdimarsson lýsti því að vísu fjálglega yfir, að hann hefði enga löngun til að sverta eða afflytja ríkisstj. á nokkurn hátt, en áður var hann búinn að fræða hv. hlustendur á því, að óhræsis ríkisstj. hefði innheimt skatta til þess að greiða niður fisk, svo hefði hún hætt niðurgreiðslunum, en haldið sköttunum. Þessi sumargjöf ríkisstj. væri svo sem ekki vegna hækkunar á fiskverði til útvegsmanna og sjómanna, sagði Hannibal, og gaf þar með í skyn, að þessi ráðstöfun væri til þess eins gerð að bæta afkomu ríkissjóðs. Þessi málflutningur er í fyllsta máta óheiðarlegur. Fiskverð til útvegsmanna og sjómanna hækkaði um s.l. áramót um 17%, m.a. með tilstyrk ríkissjóðs. Um tvær leiðir var að velja til þess að afla ríkissjóði þess fjár, sem með þurfti í þessu skyni, annaðhvort að hækka skatta eða draga úr útgjöldum, og var síðari leiðin valin með því að fella niður niðurgreiðslur á fisk og smjörlíki. Ráðstöfunin er gerð til þess, að sjómenn og útvegsmenn geti á þessu ári fengið svipaðar kjarabætur gegnum fiskverðið og aðrar stéttir hafa tryggt sér að undanförnu, og er þetta raunar lærdómsríkt, þegar athuguð er þróun verðbólgunnar í landinu. Af þeirri 17% hækkun á fiskverðinu, sem ég gat um áðan, eru 11% borin uppi af hækkun á útflutningsverði sjávarafurðanna, og mundi það, við eðlilegar aðstæður, þykja allgóð hækkun milli ára. En hún dugar þó ekki til vegna verðbólguvaxtarins, sem harðast kemur niður á útflutningsatvinnuvegunum í hækkuðu kaupgjaldi. Má þannig með gildum rökum benda á, að ef kaupkröfunum vegna landverkafólksins hefði verið stillt meira í hóf en raun hefur á orðið síðustu árin, hefði ekki þurft til þess að koma að halda áfram stuðningi ríkissjóðs við sjávarútveginn. Hannibal Valdimarsson sagði í gærkvöldi, að í 7 ár hafi fjármunir verið færðir til í þjóðfélaginu, verkafólkinu í óhag. Þetta átti að vera hans áfellisdómur yfir stjórnarstefnunni. Staðhæfingin er umdeilanleg. En ef við segjum sem svo, að hún sé rétt, þá er hún ekki síður áfellisdómur yfir Hannibal sjálfum og þeirri launamálapólitík, sem hann hefur staðið fyrir sem oddviti verkalýðshreyfingarinnar. Þótt launahækkanir séu sjálfsagðar og nauðsynlegar, eru jafnan efnahagsleg takmörk fyrir því, hversu miklar þær geti verið. Sé farið út fyrir þau takmörk, er það ekki til góðs fyrir launþegana vegna óhjákvæmilegra keðjuverkana í efnahagskerfinu. Dæmið um fiskverðið, sem hækkað var meira en eðlilegt gat talizt, er ágætt sýnishorn af þessu, og því miður hafa forustumenn verkalýðshreyfingarinnar, með Hannibal Valdimarsson í broddi fylkingar, ekki alltaf gert sér nægilega vel grein fyrir samhengi hlutanna að þessu leyti. Þess vegna hafa margar aðgerðir þeirra sjálfra ekki orðið til þess að bæta í raun kjör umbjóðenda þeirra, eins óg hægt hefði verið, ef viturlegar hefði verið að farið. Þær hafa verkað verðbólguaukandi, eins og svo margt annað í þjóðfélagi okkar. Mest tjón vinnur dýrtíðin með því að eyðileggja starfsgrundvöll útflutningsframleiðslunnar og rýra gildi krónunnar, en hún verður hvorki stöðvuð með orðagjálfri né lagasetningu. Til þess að stöðva hana þarf víðtæka samstöðu, sem núv. ríkisstj. hefur vissulega reynt að skapa. Hún verður ekki með réttu einhliða sökuð um, að þetta hefur ekki tekizt nógu vel.

Góðir hlustendur. Stjórnarsamstarf Alþfl. og Sjálfstfl. hefur nú staðið í 6 ár og borið góðan árangur, þegar vandamál verðbólgunnar eru undanskilin. Alþfl. hefur farið með utanríkismál, menntamál, félagsmál, viðskiptamál og sjávarútvegsmál. Merkir atburðir hafa skeð og miklar framfarir orðið í öllum þessum málaflokkum, sem of langt mál yrði að rekja að þessu sinni. Í sambandi við sveitarstjórnarmálin vil ég þó minna á það, að engin stjórn hefur sýnt þeim málum eins mikinn skilning og núv. stjórn. Forustumenn sveitarfélaganna unnu að því árum saman að tryggja sveitarfélögunum aðra tekjustofna en útsvör og veltuútsvör, og einnig vildu þeir létta af sveitarfélögunum nokkrum útgjöldum. Meðan Framsfl. var við völd, fengu þessar óskir engar undirtektir, og gekk m.a.s. svo langt, að eitt sinn hótaði Eysteinn Jónsson stjórnarslitum, ef frv. þess efnis, að sveitarfélögin fengju hluta af söluskatti, næði fram að ganga. Núv. stjórnarflokkar hafa bæði látið sveitarfélögin fá hluta af söluskatti og landsútsvör. S.l. ár voru tekjur jöfnunarsjóðs af söluskattinum rúmar 160 millj. kr., en landsútsvarið nam um 48 millj. kr. Frá 1960–1965 hafa tekjur jöfnunarsjóðs og landsútsvör numið til samans 759.7 millj. kr., og gefur auga leið, að þær miklu framkvæmdir, sem flest sveitarfélög hafa getað ráðizt í á síðustu árum, eru að verulegu leyti að þakka þessum auknu tekjum sveitarfélaganna, sem jafnframt hafa gert þeim kleift að lækka útsvör. Af upphæðinni, sem ég nefndi, hefur höfuðborgin ein fengið 312.2 millj. og svo sem vænta má, sér þess víða stað í borginni. Einnig fá nú kaupstaðirnir og kauptúnin hluta af benzínskatti til varanlegrar gatnagerðar, og nemur sú upphæð nú um 35 millj. kr. á ári. Skiptist hún eins og jöfnunarsjóður eftir íbúatölu, og koma því í hlut Reykjavíkur um 15–16 millj. kr. af þeirri upphæð á ári. Í hinni stórfróðlegu skýrslu, sem fjmrh. flutti hér á þessum stað fyrir fáum dögum, kom það m.a. fram, að á s.l. ári voru framkvæmdir í gatna- og holræsagerð helmingi meiri en aðeins tveimur árum áður, 1963. Var aukning gatna- og holræsagerðarframkvæmdanna í kr. 135 millj. frá árinu 1963 til ársins 1965. Og í ár er áætlað, að unnið verði í þessum málaflokki fyrir álíka upphæð og s.l. ár. Jafnframt því að fá sveitarfélögunum þannig nýja tekjustofna hafa reglur um álagningu útsvara verið færðar til samræmis fyrir landið allt svo sem kostur er, og er það breyting, sem mikla þýðingu hefur fyrir útsvarsgreiðendur. Nokkuð vantar þó á það, að menn greiði jöfn útsvör hvar sem er á landinu, en stefna þarf að því, að svo verði.

Sameiginleg mál ríkis og sveitarfélaga eru mörg og varða alla þegna landsins. Ríkið leggur fram sinn skerf til skólamála, bókasafna, leiklistarstarfsemi, félagsheimila, íþróttamannvirkja, hafnargerðar, vegagerðar, heilbrigðismála, löggæzlu, vinnumiðlunar, heimilishjálpar, skipulagsmála, vatnsveitna, elliheimila, bjargráðasjóðs, verkamannabústaða, til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, til landakaupa, raforkumála, leitar að jarðhita og síðast en ekki sízt til almannatrygginga. Nú síðustu árin hefur hlutdeild ríkisins í sumum þessum málaflokkum verið aukin og er jafnan fast sótt, að meira verði að gert í því efni. Á það t.d. við um hafnirnar og framlög ríkisins til þeirra. Í skólabyggingarmálum hefur verið komið fastri skipan á greiðslu ríkishlutans af kostnaðinum og aldrei átt sér stað eins miklar skólabyggingar og síðustu árin. Ríkið hefur tekið við rekstri flestra héraðsskóla, sem áður voru þung byrði á sýslu- og sveitarfélögunum. Tekin hefur verið upp greiðsla á 1/3 af rekstrarkostnaði tónlistarskóla og fastri skipan komið á stuðning ríkisins við leiklistarstarfsemi. Auk gatnagerðarframlagsins, sem ég gat um áðan, er nú greitt um 10 millj. kr. árlegt framlag til sýsluvega. Hlutdeild ríkisins í byggingarkostnaði sjúkrahúsa, læknisbústaða og heilsuverndarstöðva hefur verið hækkuð og sömuleiðis ríkisstyrkir til sjúkrahúsa, miðað við legudagafjölda. Einnig endurgreiðir ríkissjóður nú stærri hluta af löggæzlukostnaði en áður var. Fjölskyldubætur, sem áður voru greiddar sameiginlega af ríkinu, sveitarfélögum, hinum tryggðu og atvinnurekendum, eru nú greiddar af ríkinu einu. Þannig mætti lengi telja, og hafa framlög ríkisins til allra þeirra málaflokka, sem ég áðan nefndi, aukizt stórum. Vil ég að lokum aðeins nefna það, að samkv. ákvæðum um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, sem Alþfl. fékk á sínum tíma lögtekin, eru nú veitt árlega ríkisframlög, er nema um 20 millj. kr. Hafa á síðustu 10 árum verið byggðar 612 íbúðir samkv. þessum l., og nemur ríkisframlag og lán til þeirra 77 millj. kr. Hafa þessar ráðstafanir átt drjúgan þátt í því að útrýma lélegu húsnæði í höfuðborginni og víðar.

Þá vil ég í þessu sambandi geta þess, að á þessu þingi hefur rætzt gamalt áhugamál sveitarstjórnarmanna með setningu l. um lánasjóð sveitarfélaganna.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ástæðan til þess, að ég vék hér sérstaklega að þessum málum, er sú, að bæjar- og sveitarstjórnarkosningar fara nú í hönd. Ég tel mig hafa sýnt fram á, eftir því, sem unnt er í stuttu máli, að með veru sinni í ríkisstj. hafi Alþfl. haldið vel á hlut sveitarfélaganna, og út á það hvel ég kjósendur hvar sem er á landinu til þess að fylkja sér undir merki Alþfl. í kosningunum. Aðstaða flokksins í ríkisstj. hefur veitt honum tækifæri til að koma fram miklum umbótum í félagsmálum, tryggingamálum, húsnæðismálum og fræðslumálum, og næsta stórverkefnið er setning löggjafar um eftirlaunasjóð og eftirlaunatryggingu fyrir allt vinnandi fólk til viðbótar við gildandi lífeyristryggingar. Að þessu verkefni er nú unnið í framhaldi af hinni ágætu skýrslu Haralds Guðmundssonar, fyrrv. ráðh., og vil ég að lokum taka undir þá skoðun, sem hann setur fram í hinni fróðlegu skýrslu sinni, að samtímis lagasetningu um eftirlaunatryggingu þurfi að gera breytingar á gildandi lífeyristryggingum þannig, að lífeyrir og eftirlaun samtals nægi til þess að afstýra kjaraskerðingu að loknu ævistarfi. Ég vona, að nú sem fyrr verði störf Alþ. landi og lýð til blessunar. — Góða nótt.