03.05.1966
Sameinað þing: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2658 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

Almennar stjórnmálaumræður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þjóðleikhúsið sýnir um þessar mundir „Prjónastofuna Sólina“ eftir Halldór Laxness. Þar kennir margra grasa og menn eru ósammála um, hvað vakir fyrir skáldinu. Hitt er óumdeilanlegt, að víða bregður Laxness upp skýrum myndum af hátterni þeirra manna, sem með falsi og blekkingum hagnýta sér trúgirni og hrekkleysi samborgaranna. Ein eftirminnilegasta persóna leiksins birtist handarvana í fyrsta þætti. Það er ekki hægt annað en fyllast samúð með þessum gjörvulega manni, sem hefur orðið fyrir þeirri óhamingju að missa hendurnar, enda hefur hann notið hjálpar og samúðar meðborgaranna í ríkum mæli. Áður en kemur að leikslokum, er það hins vegar upplýst, að hann hefur hendur í bezta lagi, en hefur brugðið á það ráð að fela þær til að geta notið náðugra daga.

Þessi sérstæða leikpersóna Laxness minnir óbeint á hæstv. ríkisstj., þótt hún leiki brögð sín með allt öðrum hætti. Engir aðrir í þessu landi þykjast hafa röskari hendur og lagnari en ríkisstj. Það má ekki sjaldan draga þá ályktun af ummælum sjálfra ráðh., að ekki beri aðeins að þakka þeim allar þær framkvæmdir, sem einstaklingar og félagssamtök hafa ráðizt í seinustu árin, heldur stjórni hendur þeirra fiskigöngum og veðurfari og því ríki hér góðæri til lands og sjávar og hátt verðlag á útflutningsvörum. Nei, hæstv. ríkisstj. er fljót að taka til höndunum og handtök hennar bregðast ekki, þegar hún segir sjálf frá eða málgögn hennar. Raunveruleikinn er hins vegar sá, að undantekningarlítið, alltaf, þegar reynir á og taka þarf eitthvert málefni föstum tökum, reynist ríkisstj. ráðvillt og handarvana. Að sjálfsögðu ber mér að finna þessari fullyrðingu stað. Ef við skyggnumst til nágrannaríkja okkar í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, gerum við okkur fljótt ljóst, hvaða verkefni það er, sem ríkisstj. þar telja stærsta verkefni sitt. Þetta verkefni er að tryggja heilbrigða stjórn efnahagsmála, að halda verðgildi peninganna traustu, að hamla gegn dýrtíð og verðbólgu. Svo mikilvægt telja ríkisstj. þetta verkefni, að þær hafa þráfaldlega lagt niður völd, ef þær hafa ekki getað leyst það farsællega af hendi. Þær hafa metið meira þjóðarhag en að hanga getulausar í stjórnarstólum. Hér hefur verið farið öfugt að. Síðan Bjarni Benediktsson varð forsrh. fyrir 21/2 ári, hefur dýrtíð magnazt hér hraðar en nokkru sinni fyrr og hefur þó oft verið slæmt ástand hjá okkur í þessum efnum. Aukning dýrtíðar hjá okkur á þessum tíma hefur líka orðið margfalt meiri en hjá nokkurri annarri Evrópuþjóð. Skýrslur Efnahagssamvinnustofnunarinnar, sem birtar voru í s.l. mánuði, bera þess vitni, að seinustu 12 mánuðina hefur dýrtíðaraukningin hér orðið þrisvar til fimm sinnum meiri en í flestum öðrum löndum Vestur-Evrópu.

Að fáu er nú brosað meira á þingum hinna Norðurlandaþjóðanna en norræna húsinu, sem reisa á hér í Reykjavík og þessar þjóðir ætla að gefa okkur. Það þarf nefnilega alltaf að vera að hækka fjárveitinguna til hússins, því að byggingarkostnaður í Reykjavík hefur nær tvöfaldazt síðan kostnaðaráætlun var gerð fyrir fáum missirum, en á sama tíma hefur hann sáralítið hækkað á Norðurlöndum. Öll stafar þessi óskaplega öfugþróun hjá okkur af því, að núv. ríkisstj. hefur alveg gefizt upp við að hafa nokkur raunhæf tök á efnahagsmálum og aðeins óvenjuleg heppni í aflabrögðum hefur komið í veg fyrir, að hin fjármálalega spilaborg hennar væri hrunin fyrir löngu. Það er ekki hægt að finna ríkisstj. í Vestur-Evrópu, sem kemst neitt nálægt að vera eins ófær og handarvana í öllu, sem lýtur að farsælli stjórn í efnahagsmálum og núv. ríkisstj. Íslands. Afleiðingarnar segja líka til sín. Meðan kaupmáttur tímakaupsins hefur hækkað um 25–40% í flestum löndum Vestur-Evrópu síðan 1958, hefur hann staðið í stað á Íslandi og tæplega það. Meðan vinnutíminn hefur verið að styttast í öðrum löndum Evrópu, hefur hann verið að lengjast hér. Meðan atvinnufyrirtæki í öðrum löndum Evrópu skýra frá traustri og batnandi afkomu, lýsa atvinnufyrirtækin hér versnandi afkomu og vaxandi ugg. Þó hefur góðæri verið meira hér en nokkru sinni fyrr og þjóðartekjurnar vaxið meir af völdum þess en í flestum eða öllum löndum Evrópu. Ríkisstj. hefur þannig reynzt ráðvillt og handarvana í þeim innanlandsmálum, sem stærst eru, efnahagsmálum. En stjórnin hefur ekki síður reynzt það í samningum sínum við útlenda aðila. Álsamningurinn ber órækt vitni um þetta. Ríkisstj. hefur í þessum samningum beygt sig undir það, sem engin stjórn í Vestur-Evrópu hefur áður gert, þ.e., að fyrirtæki, sem starfar í landinu, sé ekki háð innlendum dómstólum, heldur erlendum dómstóli og það geti sótt mál sitt þar á grundvelli alþjóðareglna. Það er metnaðarmál allra sjálfstæðra réttarríkja að halda uppi tiltrú til dómstóla sinna og sætta sig ekki við annað en þeir einir haldi uppi lögsögu. Forstöðumenn svissneska álhringsins hafa líka upplýst, að þeir hlíti hvarvetna annars staðar innlendum dómstólum í þeim löndum, þar sem þeir hafa álbræðslur. Þeir segja líka hreinlega, að þeir geri aðrar kröfur hér, vegna þess að þeir vantreysti íslenzkum dómstólum. Ég hygg, að nokkuð auðvelt sé að skilja þann misskilning, sem hefur valdið því, að þeir hafa sett fram þessa kröfu. Þeir hafa að sjálfsögðu gert sér grein fyrir því, að fullkomin upplausn og ringulreið ríkir í efnahagsmálum Íslands. Að því leyti minnir Ísland meira á Afríku en Evrópu. Svissnesku álmennirnir hafa dregið af þessu þá ályktun, að eitthvað svipað sé ástatt í réttarfarsmálum landsins. Þess vegna gera þeir kröfur, sem þeir hefðu aldrei vogað að bera fram víð Krag, Erlander eða Borten, en mundu telja alveg óhjákvæmilegt að bera fram í samningum við forsrh. í Kongó. Ég efast hins vegar ekki um, að ef eitthvað hefði verið gert til að lýsa því fyrir Svisslendingum, að allt öðruvísi væri ástatt í réttarfarsmálum en í efnahagsmálum Íslands, hefði verið auðvelt að fá þá til að sætta sig við úrskurð íslenzkra dómstóla. Það hefur bersýnilega verið vanrækt að skýra nægilega fyrir þeim, að ríkisstj. Bjarna Benediktssonar og hæstiréttur væri tvennt ólíkt, og orðstír íslenzkra dómstóla væri eins góður og orðstír íslenzkrar efnahagsmálastjórnar er lélegur. Í stað þess að skýra þetta nægilega fyrir Svisslendingunum, er gengið umhugsunarlaust að hinum vansæmandi kröfum þeirra.

Nú er sagt af hálfu ríkisstj., að það sé ekki stór munur á íslenzkum dómstólum og erlendum gerðardómi og ekki heldur stór munur á því að hlíta íslenzkum l. eða alþjóðalögum. Þetta er þó reginblekking. Með því að sýna íslenzkum dómstólum minni tiltrú en hliðstæðum dómstólum annars staðar í Vestur-Evrópu er verið að setja blett á réttarfar landsins, sem veikir allt álit þjóðarinnar út á við. Með því að gangast undir alþjóðareglur í stað íslenzkra laga, er málum teflt í hreina óvissu, því að í mörgum tilfellum er deilt um, hvað telja beri alþjóðareglur og um veigamikil atriði byggjast þær á hefð, sem sterku ríkin hafa knúið fram, og eru því allt annað en réttlátar. Vegna þess hve alþjóðareglur eru óljósar um margt og vanþróaðar, hefur ekkert ríki viljað gerast aðili að Alþjóðadómstólnum í Haag nema með þeim fyrirvara, að það ráði því sjálft hverju sinni, hvaða málum það vísar þangað. Slíkan rétt höfum við ekki í álsamningnum, heldur er málskotsréttur álbræðslunnar einhliða. Að sjálfsögðu væntum við, að alþjóðalög og alþjóðareglur þróist og þroskist, en það mun taka sinn tíma. Þess vegna geta umrædd ákvæði álsamningsins reynzt okkur hin hættulegustu.

Gerðardómsákvæðin eru ekki einu ákvæðin í álsamningnum, sem sýna, hve ístöðulaus og handarvana ríkisstj. er, þegar hún þarf að halda fast á málum í skiptum við útlendinga. Raforkuverðið, sem var samið um, er annað hörmulegt dæmi. Svissneski hringurinn hefur nýlega samið við Norðmenn um byggingu jafnstórrar álbræðslu í Husnesi og álbræðslan hér verður. Hann samdi um að greiða Norðmönnum 28% hærra verð en okkur og auk þess vísitöluhækkun á 5 ára fresti, en hér helzt verðið óbreytt í 25 ár. Grikkir sömdu um líkt leyti við franska álhringinn um enn hærra verð. Stjórnin afsakar þetta óhæfilega lága verð með því, að það verði samt gróði af raforkusölunni til álbræðslunnar. Jóhann Hafstein birti um þetta útreikninga, sem áttu að sýna 800 millj. kr. gróða á 20 árum. Engir útreikningar hafa verið eins fullkomlega hraktir, því að segja má, að næstum hvert atriði þeirra sé byggt á hreinum hugarórum. Staðreyndin er hins vegar sú, að allt bendir til, að þetta verð nægi hvergi nærri til að mæta framleiðsluverði á raforkunni. Hér á Alþ. standa þeir útreikningar óhraktir, að samkv. þeim upplýsingum, sem opinberir aðilar hafa gefið um áætlaðan stofnkostnað og vaxta- og afborgunarkjör á væntanlegum lánum, muni framleiðsluverðið á raforkunni frá Búrfellsvirkjun verða 12.58 aurar á kwst. fram til ársins 1985. En álbræðslan á að fá raforkuna fyrir 10.75 aura á kwst. Þessi verðmunur nemur 20 millj. kr. á ári, reiknað með því orkumagni, sem ráðgert er, að álbræðslan kaupi. Í þessu sambandi má svo geta þess, að á sérstakri ráðstefnu, sem Verkfræðingafélag Íslands hélt fyrir nokkrum missirum, kom fram bæði hjá Jóhannesi Nordal og Eiríki Briem, að við þyrftum að geta selt orkuna frá Búrfellsvirkjun, ef til stóriðju kæmi, á 13 aura kwst. Sé horft til framtíðarinnar, verði horfurnar ekki glæsilegri, því að allar síðarí virkjanir eru líklegri til að verða dýrari en Búrfellsvirkjun, og þá orku verða íslendingar að taka til eigin nota, meðan álbræðslan fær áfram orkuna frá Búrfellsvirkjun á lága verðinu. Allt bendir þetta til þess, að í stað raforkugróða, sem stjórnin flaggar með, að hljótast muni af álbræðslunni, verði halli á raforkusölunni til hennar, sem gæti skipt tugum millj. kr. árlega. Ekki er því annað sjáanlegt en álbræðslan, sem átti að verða öðrum lyftistöng, verði stærsti styrkþeginn á Íslandi næstu 40–50 árin. Þeir, sem borga brúsann, verða Reykvíkingar og aðrir íbúar Suðvesturlands, er verða að greiða hærra raforkuverð sem styrknum til álbræðslunnar nemur. Á þá er hér lagður nýr baggi ofan á allar skattahækkanir og nýju álögurnar, sem ríkisstj. hefur lagt á þá.

Því er stundum haldið fram af ríkisstj., að hinn mikli munur á raforkuverðinu, sem hringurinn greiðir hér og í Noregi, vinnist að nokkru leyti upp á þann hátt, að hringurinn greiði hærri skatta hér. Álbræðslan hér verður þannig skattlögð, að hún greiðir sérstakt framleiðslugjald í stað allra skatta. Þetta framleiðslugjald nemur 33% af áætluðum nettógróða hennar, en talið var, að það mundi hún hafa orðið að greiða, ef hún væri undir venjulegum íslenzkum skattal. Í áætlun þeirri, sem lögð var fyrir norska Stórþingið um Husnesverksmiðjuna, er hins vegar reiknað með, að hún greiði 54% í skatta af áætluðum nettógróða sínum. Auk þess greiðir Husnesverksmiðjan tolla og söluskatt á sama hátt og norsk fyrirtæki, en hér er álbræðslan undanþegin öllum slíkum álögum. Sýnir þetta allt, hve fjarstæð sú fullyrðing er, að verksmiðjan í Straumsvík muni greiða íslenzka ríkinu meira í skatta og tolla samanlagt en Husnesverksmiðjan mun greiða norska ríkinu. Það hefur stundum verið réttilega sagt, að ef við ætluðum að fara inn á þá braut að semja við útlend fyrirtæki um vissa stóriðju hér, ættum við að taka okkur Norðmenn til fyrirmyndar. Hér er hins vegar farið alveg öfugt að. Í öllum veigamestu atriðum er vikið frá fordæmi Norðmanna. Í Noregi eru öll erlend fyrirtæki alveg undir innlendum l. og lögsögu, en frá því er horfið hér. Í Noregi er samið um 28% hærra orkuverð og vísitöluhækkanir að auki. Í Noregi borga erlendu fyrirtækin alla skatta og tolla eins og norsk fyrirtæki, en það gerir álbræðslan ekki hér, heldur fær stórfelldar undanþágur. Í Noregi búa hin útlendu fyrirtæki ekki við nein fríðindi umfram norska atvinnurekendur, enda telja Norðmenn, að það væri hið sama og að stofna tvö ríki í landinu, ef útlend fyrirtæki byggju við annan og meiri rétt og alls konar hlunnindi umfram norsk fyrirtæki. Hér mun álbræðslan njóta margvíslegra hlunninda umfram íslenzk fyrirtæki. Hér er gengið inn á þá háskalegu braut, að útlend fyrirtæki á Íslandi skuli búa við önnur og betri kjör en fyrirtæki landsmanna sjálfra, en það er einmitt þetta, sem öll sjálfstæð ríki forðast og hvergi mun t.d. finnast dæmi um í Vestur-Evrópu.

Ótalið er svo það, að álsamningurinn er fyrsti samningurinn, sem Íslendingar gera um erlenda stóriðju. Slíkir frumsamningar verða jafnan fordæmi annarra samninga, er síðar kunna að verða gerðir um sama efni. Þennan samning þurfti því alveg sérstaklega að vanda. Í stað þess skapar hann mjög hættuleg fordæmi, eins og t.d. varðandi lögsöguna og raforkuverðið. Ef lengra væri haldið áfram á þessari braut, mundu hér fljótt skapast tvö ríki, ríki útlendra fyrirtækja, þar sem búið væri við margvísleg forréttindi, og ríki Íslendinga sjálfra, þar sem aðstaðan væri á margan hátt lakari og þrengri. Er það slíkt ástand, sem við óskum eftir, að skapaðist á Íslandi? Hver og einn, sem óhlutdrægt lítur á þetta mál, getur ekki komizt hjá þeirri niðurstöðu, að ríkisstj. hafi verið hættulega undanlátssöm og handarvana í samningunum við hina svissnesku álmenn. Og þá er komið að því, sem að mínum dómi er langhættulegast í þessari samningagerð. Það er ekki samningurinn sjálfur, þótt vondur sé, heldur sá hugsunarháttur, sem hefur knúið ríkisstj. til undanlátsseminnar. Það er vantrú ríkisstj. á gildi þeirra atvinnuvega, sem fyrir eru, og þó fyrst og fremst vantrú á framtak og dugnað Íslendinga sjálfra. Ég geri miklu meira en að játa nauðsyn þess, að íslenzkir atvinnuvegir séu gerðir fjársterkari og við treystum ekki eingöngu á landbúnað og fiskveiðar. En ég hef jafnframt tröllatrú á íslenzku framtaki til að hafa forustu um nýjar leiðir í þessum efnum. Sú trú er ekki byggð á neinum þjóðernislegum gorgeir, heldur köldum staðreyndum. Ég fullyrði, að síðan Íslendingar voru leystir undan hinu danska oki, hafa fáar þjóðir eða jafnvel engin þjóð gert eins mikið og byggt eins mikið upp í landi sínu og Íslendingar. Íslenzkir forustumenn á sviði atvinnumála þola samanburð við hverja sem er, ef þeim er boðin sambærileg aðstaða til að hagnýta sér nýjungar og tækni. En þá kem ég að því, sem ég álit verst hjá ríkisstj., ásamt getuleysi hennar til að fást við verðbólguna og óhæfni hennar til að semja við útlendinga. Á sama tíma og ríkisstj. hefur gengið með grasið í skónum eftir svissneska álhringnum, hefur hún stöðugt verið að þrengja að íslenzkum framtaksmönnum með auknum lánsfjárhöftum, auknum álögum, aukinni verðbólgu. Það er þó einmitt þetta framtak, sem þarf að efla og styrkja. En ríkisstj. trúir ekki á það, en bindur í staðinn meginvonir sínar við erlent framtak og erlendan atvinnurekstur á Íslandi. Stjórn, sem þannig hugsar, er dæmd til þess að verða undanlátssöm og handarvana í skiptum sínum við útlenda auðkónga, eins og álsamningurinn er svo hörmulegt dæmi um. Sú stjórn, sem er ófær um að fást við verðbólguna og ekki getur annazt samningagerð við útlendinga, er alls óhæf til að fara með völd í landinu. Sú stjórn, sem vantreystir íslenzku framtaki og þrengir meira og meira að því með lánsfjárhöftum og álögum, á ekki tilverurétt. Hér þarf að koma stjórn, sem með festu og manndómi getur tekizt á við verðbólguna. Hér þarf að koma stjórn, sem hlynnir að íslenzku framtaki og veitir því sem bezt starfsskilyrði, því að það er undirstaða þess, að lífskjörin batni og þjóðin hagnýti sér nýjungar og tækni. Hér þarf að koma stjórn, sem veitir launþegum fulla hlutdeild í vaxandi þjóðartekjum og beinir þróuninni á þá braut, að hóflegur vinnutími nægi til að tryggja mönnum lífvænlega afkomu, en frumskilyrði þess, að þetta takist, er taumhald á verðbólgunni. Hér þarf að koma stjórn, sem hefur tiltrú stéttanna, en hve fjarri núv. stjórn er því, sést bezt á 1. maí-ávarpi verkalýðsfélaganna í Reykjavík, sem var stutt af mönnum úr öllum flokkum, en þar er skýrt tekið fram, að stjórnin hafi margsinnis brugðizt gefnum loforðum um stöðvun verðbólgunnar. Hér þarf að koma traust forusta, sem byggist á sem víðtækustu samstarfi stétta og flokka um lausn meginmálanna. Núv. ríkisstj. uppfyllir ekkert af þessum skilyrðum. Hún er veik stjórn, ráðvillt stjórn, getulaus stjórn og handarvana til að fást við þau mál, sem nú skipta mestu. Hún á því að víkja og þjóðinni að gefast tækifæri til að koma á traustara stjórnarfari. Sterkasta vopnið til að knýja slíka stefnubreytingu fram, er atkvæðaseðillinn. Vanafesta má ekki standa í vegi þess, að menn breyti til á þann hátt, sem þeir álíta rétt. Englendingar eru sú þjóð, sem búið hefur við einna heilbrigðasta þróun í stjórnmálum, og það stafar öðru fremur af því, að margir brezkir kjósendur hafa, þrátt fyrir hina frægu brezku vanafestu, oft hugsað á þessa leið og farið eftir því. Nú geri ég ekki aðeins þjóðinni, heldur flokki mínum mestan greiða með því að veita honum nokkra aðvörun.

Ég óska svo hlustendum gleðilegs sumars. — Góða nótt.