03.05.1966
Sameinað þing: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2671 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

Almennar stjórnmálaumræður

Hjalti Haraldsson:

Herra forseti. Ekki get ég annað sagt en það sé allnýstárlegt fyrir smábónda norðan úr dal að koma í eldhúsið hjá hæstv. ríkisstj. og skyggnast þar um. Í pottunum kraumar állinn og kísilgúrsúpan, fnykurinn í eldhúsinu ber keim af ýmsum aukaréttum, vísitölutryggingu fjárskuldbindinga, búnaðarmálasjóði, hægri handar umferð og Framkvæmdabankinn var einmitt að renna niður í vaskinn, þegar ég kom inn. Hér er maddama Framsókn heimarík, enda vön búverkunum frá fyrri tíð og eiginlega leggur hún til messastrákinn í eldhúsið, hraðsnúnasta málsvara einkaframtaksins í mín eyru hér á hinu háa Alþ. Fyrir þá, sem fjær búa, skaðar ekki að geta þess, að lengi var það á vitorði, að einhvers staðar leyndist minkur innan stokks, en nú fyrir 2 dögum var hann borinn dauður út úr hv. Ed. Rétt hefði ég talið fyrir þingmeirihl. að grípa nú tækifærið og hækka um helming banalaunin fyrir minkinn, þar með hefði hann einu sinni sýnt í verki, hvað hann meinar með jafnvægi í byggð landsins. Því út í strjálbýlinu er hann meira vandamál en hér í Reykjavík, en þingmeirihl. er ekki á því að leggja heiður sinn við minkinn. Atvinnujöfnunarsjóður skal það heita. Eruð þið ekki farin að hlakka til fyrir norðan, austan og vestan, því á þessu ári megið þið eiga von á ca. 50 millj. úr þessum sjóði, á næsta ári 70 og þar næsta ári öðrum 70, 200 millj. á 3 árum. Í sama mund á að fjárfesta við Búrfell, Straumsvík og í Hvalfirði, ekki tugi millj., heldur er talað um 4–5 þús. millj. Hafi nokkurn tíma verið gerð ærleg tilraun til að sporðreisa landsbyggðina, hefur hún verið gerð nú. Og sú tilraun hefur verið undirbúin þannig á undanförnum árum, að draga eins og hægt hefur verið úr opinberum fjárframkvæmdum út um land.

Á einn þátt þessara mála langar mig til að minnast, en það eru byggingar skólahúsa. Sumar þeirra hafa alveg verið stöðvaðar, frá hinum hefur verið tekið. Í heild hefur fjárveitingin til skólabygginga verið lækkuð um 20% nú tvö s.l. ár. Allir, sem vilja, hljóta að sjá, til hvaða farsældar þessi stefna leiðir. Fjöldi skólahéraða út um land bíður eftir því að mega hefjast handa um skólabyggingar, en fær það ekki, og víða er ástandið þannig, að naumlega er hægt að kenna börnum til 13 og 14 ára aldurs. Þegar því lýkur, er enginn skóli til í heilum sýslum, sem getur tekið við unglingunum og veitt þeim framhaldsmenntun til landsprófs eða gagnfræðaprófs, sem ætti þó að vera lágmark nú á þessum tímum, nema því aðeins að hér sé búið að setja upp nokkurs konar flokkunarkerfi og hér sé um annars eða þriðja flokks þjóðfélagsþegna að ræða, sem dæmdir skulu vera til þess að ala upp vinnulýð í álbræðsluna við Straumsvík eða til sorphreinsunar fyrir herinn í Keflavik. Ofan á þetta bætist svo það, að launakjör kennara, sem starfa við heimavistarbarnaskólana út um land, eru það slæm, að þeir flæmast frá skólunum, enda munu þessir kennarar einnig þurfa að leggja á sig meiri vinnu en stéttarbræður þeirra við aðra sambærilega skóla. Hér rís upp fyrir fráman fólkið vandamál, sem það ræður ekki við, og viðbrögðin eru ósköp einföld. Það fer með börnin sín þangað, sem það getur náð þeim í menntun. Og svo eins og til að árétta þetta, að engin apakattarlæti í fjárfestingu eigi sér stað úti um landsbyggðina í byggingu og mannvirkjagerð af ýmsu tagi, þá hefur þingmeirihl. hæstv. ríkisstj. séð vel fyrir því. Og biðið þið nú við. Hér erum við komin að merkilegu atriði, sem bezt er að hyggja nánar að. Atvinnujöfnunarsjóðurinn, sem á að gefa dreifbýlinu 50 millj. á þessu ári eða aðra álíka upphæð, verður að öllum líkindum kominn suður í Seðlabanka upp úr næstu áramótum skv. lögum um innstæðubindingu sparisjóða og innlánsstofnana. Svona bráðsniðug regla er í vitleysunni. Fyrirbærið kallast Atvinnujöfnunarsjóður með undirheitið byggðajafnvægi og endar í innstæðubindingu í Seðlabankanum í Reykjavík. Og krónan, sem nú á vordögum slær glampa sínum eins og sólin sjálf á brúnum suðurfjalla og blinda á augu okkar fyrir norðan við væntanlegar bæjarstjórnarkosningar, veltur suður yfir heiðar á haustnóttum, ekki alveg einsömul. Börnin ykkar fylgja með. Alusuisse og Búrfell og herinn þarf á þeim að halda, verið þið viss. Eftir situr hnípin þjóð í vanda með væntanlega herverndaða stóriðju erlendra auðhringa á Suðurnesjum.

Örlagaríkust þeirra mála, sem nú hefur verið fjallað um, eru vafalaust samningarnir við Alusuisse og breyt. á l. um kísiliðjuna við Mývatn, þar sem gert er ráð fyrir þátttöku erlendra auðfélaga í atvinnulífi Íslendinga. Þótt þessum málum tveim svipi annars nokkuð saman, eru þau ólík að því leyti, að annað tekur af öll tvímæli, hitt gefur hæstv. ríkisstj. í upphafi annarrar hverrar lagagreinar heimild til þess að semja um þetta eða hitt, og fylgjendum málsins hér á hv. Alþ. eru orðnar tamar á tungu þær skýringar, að þeir geri ráð fyrir, að það verði samið svona en ekki svona, þótt þeir annars viti, hversu tæpt skákin stendur með féþrota fyrirtæki á hendinni norður við Mývatn. Þetta ætti að vera nægilegt umhugsunarefni, a.m.k. fyrir Þingeyinga. Við vonum, að höpp fylgi slíku, en ekki slys. Því smærri sem þjóðin er, því betur verður hún að vanda til slíkra mála sem þessara. Smáyfirsjón getur þannig orðið illur örlagavaldur, þótt aðrar stærri þjóðir standi jafnréttar eftir.

Ekki get ég varizt því að minnast örlítið á lögin um framleiðsluráð landbúnaðarins, sem nú er verið að reka smiðshöggið á, en þau gera einmitt ráð fyrir endurreisn Sexmannanefndarkerfisins svo kallaða og er þar með gengið á snið við vilja mjög stórs hóps bænda, sem óskuðu eftir því að fá ríkisvaldið að samningaborðinu. Þannig fól aukafundur Stéttarsambands bænda, er haldinn var 14. og 15. des. s.l., fulltrúum sínum í 7 manna n. ríkisstj. að athuga jöfnum höndum um möguleika á samningum um verðlagsmálin við fulltrúa frá ríkisstj. og fulltrúa frá öðrum aðilum. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, en ég verð að segja það, að ég harma þá afstöðu framsóknarmanna að ganga þannig undir hönd íhaldsins í landinu til þess að fá það aftur lögfest, að bændum og launþegum skuli aftur slegið saman við samningaborðið, svo að kvarnarstjórum dýrtíðarinnar reynist eins auðvelt og unnt er að kenna þessum hópum tveim um dýrtíðarflóðið, víxlhækkanirnar, eins og hæstv. forsrh. orðaði það í gærkvöldi. Þessar stéttir ættu þó að taka höndum saman og stjórna þessu landi, og það er illt verk að fjarlægja þann möguleika meir en ástæða er til. Þetta mál ætla ég ekki að ræða frekar, en í sambandi við þær umr., sem fram hafa farið hér í hv. Alþ., hafa ýmsar hnútur hrokkið í garð bænda. Það er talað um bændastyrki, þegar um er að ræða greiðslur í verðlagið til að halda því niðri. Offramleiðsluna, smjörfjallið, sem um er talað, á hæstv. ríkisstj. og enginn annar. Það er afleiðingin, það er nauðvörn bændanna gegn dýrtíðarholskeflum hennar, en sönnun fyrir dugnaði þeirra og hagsýni. Við versnandi aðstæður, meiri dýrtíð og fækkandi hendur hafa þeir samt aukið framleiðsluna. Hvað sem um þetta má segja, er það eitt víst, að bezta kjölfesta hverrar þjóðar er vel menntuð og frjáls bændastétt, sem situr land sitt vel og skilar því til eftirkomendanna betur byggðu, betur ræktuðu og dýrmætari eign. Henni vinnur bóndinn og hans skyldulið og í landinu festir hann mest af því fjármagni, sem hann fær handa í milli. Í sveitum landsins hefur vaxið úr grasi þjóðarkjarni, sem þjóðin enn nærist af og hefur orðið drjúg lyftistöng þéttbýlinu fram á þennan dag. Fjárveitingar til landbúnaðarins eru því þannig vaxnar, að þær verða beinlínis til að auka kjölfestuna, sem þjóð okkar ríður nú á framar öllu öðru. Það er löngu viðurkennt af alþjóð, svo óþarft er að hafa um það mörg orð, að dvöl barna í sveit er þeim góður skóli. Því væri það sennilega vinsælla að tala um fjárveitingu til landbúnaðarins sem fjárframlög til heilbrigðs uppeldis þjóðarinnar, en ekki sem bændastyrki. Þegar um góða menntastofnun og heilsubrunn er að ræða, er engin fjárveiting of stór og sammála erum við víst sennilega um það, að vitið, viljinn og þorið á að vaxa, en ekki að minnka. Einu sinni var um Ísland sagt, „að þar drypi smjör af hverju strái.“ Það var lof þess. Nú er hrós þess ekki lengur bundið við smjör, nú er það sagt löstur þess. Í staðinn er blessað vatnið komið og orka þess og að veðráttan á Suðurnesjum verði það umhleypingasöm, að flúoreitrið, sem álbræðslan hjá Straumsvík spýr út í loftið að þrem árum liðnum, verði ekki eingöngu bundið við Hafnarfjörð, heldur að það geti borizt víðar yfir. Og kannske Reykvíkingar fái svolítinn eim af þeim smjörþef, sem nú þykir eftirsóknarverðastur á landi hér. Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Góðir áheyrendur. Góða nótt.