15.12.1965
Sameinað þing: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2696 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

Aluminíumverksmiðja

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þann 5. maí s.l. lagði ríkisstj. fram á Alþ. skýrslu um þá athugun á byggingu alúminíumverksmiðju hér á landi, sem fram til þessa hafði farið fram að tilstuðlan ríkisstj. og á vegum stóriðjunefndar. Allýtarlegar umr. urðu um þessa skýrslu í þinginu næstu daga. Áður en hér var komið, hafði stóriðjunefnd þ. 14. nóv. 1964 skilað ýtarlegri skýrslu til ríkisstj. um alúminíumverksmiðju og stórvirkjun, en þar voru störf n. og gangur viðræðna við erlend alúminíumfyrirtæki rakin fram til þess tíma. Skýrsla þessi ásamt fskj. var afhent öllum alþm. sem trúnaðarmál skömmu síðar, þ.e. 23. nóv. Einnig höfðu þm. verið athentar skýrslur stóriðjunefndar um framhaldsviðræður í málinu, sem fóru fram í desembermánuði 1964 í Zürich og í Washington í marz 1965 og loks í Reykjavík dagana 31. marz og 1. apríl. Aðilar þeir, sem tóku þátt í þessum viðræðum, voru fulltrúar íslenzku ríkisstj., fulltrúar Swiss Aluminium og fulltrúar frá Alþjóðabankanum. Með þessari skýrslugerð og umr. um hana má segja, að gerð hafi verið til hlítar grein fyrir, hvernig horfur voru á þessum tíma í þessu máli. Jafnframt hafði það skeð, að fyrir Alþ. hafði verið lagt frv. til I. um Landsvirkjun og var það afgr. á síðasta þingi, en því frv. fylgdu ýtarlegar skýrslur og grg. sérfræðinga um þær rannsóknir, sem fram höfðu farið hér á landi um möguleika til stórvirkjana í fallvölnum landsins. Einnig hafði þmn. skipuð fulltrúum þriggja þingflokka unnið að athugun málsins frá því 9. febr. s.l., en eftir að fram var lögð skýrsla ríkisstj. þ. 5. maí, var fjölgað í n. og einnig teknir í hana fulltrúar Alþb., þannig að síðan hafa allir þingflokkar átt sæti í þessari þmn. Eins og kunnugt er, fóru enn fram framhaldsviðræður milli sömu aðila og áður hér í Reykjavík dagana 1.–3. des. og gaf þá iðnmrn. út fréttatilkynningu þess efnis, að samkomulag hefði náðst í viðræðum milli fulltrúa aðila í meginatriðum. Það, sem næst lægi fyrir, væri að ganga frá samningsuppköstum með margháttuðum fskj. og mundu lögfræðingar aðila vinna að því í desember.

Það hafa komið fram óskir um, að frá því yrði nokkuð nánar greint hér í þinginu, hvað aðhafzt hefur verið síðan í maí á þessu ári og hvað líklegt sé, að fram undan verði um meðferð málsins innan ríkisstj. og hér á Alþ.

Ég gerði grein fyrir því í umr. hér á Alþ. í vor, að ég teldi málið þá vera komið á nokkuð nýjan vettvang, þ.e. af hreinu umræðustigi og á þann grundvöll, að þess bæri að freista, hvort samningar gætu tekizt milli aðila. Á þessu stigi málsins höfðu aðeins verið gerð frumdrög af Íslands hálfu að svokölluðum aðalsamningi við hið svissneska fyrirtæki og jafnframt frumdrög að orkusölusamningi. Í lok maímánaðar bárust okkur Íslendingum ný samningsuppköst af hálfu Svisslendinganna, og síðan hefur sleitulaust verið unnið að því að koma slíkum samningsuppköstum í það horf, er báðir aðilar gætu við unað. Ég vil geta þess, að samningsuppköst Svisslendinganna frá því í maímánuði ollu okkur nokkrum vonbrigðum og hafa skapað ýmsa erfiðleika, e.t.v. ekki sízt vegna þess, hvernig þeir voru þá formaðir af hálfu lögfræðilegra ráðunauta hins svissneska fyrirtækis og höfðum við sitt hvað við það að athuga. Gerði ég þmn. strax í Zürich þ. 17. júní s.l. grein fyrir þessu og n. fékk þessi uppköst Svisslendinganna til meðferðar eftir heimkomuna. Ég vil skjóta því hér inn, að um þetta leyti hafði orðið að ráði, að þmn. tæki sér ferð á hendur erlendis til þess að kynnast betur byggingu og rekstri alúminíumbræðslna eða verksmiðja. N. fór því til Noregs í júnímánuði og kynnti sér þar byggingarframkvæmdir við alúminíumverksmiðju, sem Svisslendingar eru að reisa þar í Husnes í samvinnu við Norðmenn, en gert er ráð fyrir, að þar sé um að ræða alúminíumverksmiðju af sömu stærð og ráðgerð hefur verið hér.

Á sama tíma kynnti n. sér í Þrándheimi þær rannsóknir, sem vísindastofnun þar innti af höndum fyrir hönd raforkumálastjórnarinnar í sambandi við ísmyndanir í Þjórsá og aðra erfiðleika í sambandi. við byggingu raforkuvers við þetta stærsta fallvatn landsins. Síðan var haldið til Sviss og heimsóttar aðalstöðvar Swiss Aluminium í Zürich og jafnframt skoðaðar alúminiumbræðslur og verksmiðjur, sem framleiða úr alúminíum, sem sama fyrirtæki á og rekur í Suður-Sviss. Hygg ég, að nm. hafi með þessu móti gefizt nokkuð góður kostur á því að kynna sér eftir því, sem verða mætti, hvernig hið svissneska fyrirtæki er upp byggt og hagar rekstri sínum og allt hafi það orðið þm. til nokkurs lærdóms. Þann 13., 15. og 16. júlí voru haldnir fundir í þmn. að nýju, þar sem farið var ýtarlega yfir samningsuppköstin að aðalsamningi og raforkusölusamningi, sem okkur hafði borizt í lok maímánaðar. Í þessa endurskoðun þmn. fór mikið verk, en hún hafði áður verið undirbúin af ráðunautum og sérfræðingum ríkisstj. ásamt mér sem iðnmrh. Þeir, sem áttu hér hlut að máli, voru dr. Jóhannes Nordal, formaður stóriðjunefndar, Hjörtur Torfason lögfræðingur, Steingrímur Hermannsson verkfræðingur, Eiríkur Briem rafmagnsveitustjóri og Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstj. í iðnmrn. Ekki reyndist fært að koma á fundum að nýju milli fulltrúa hinna þriggja aðila fyrr en 12. okt. s.l., en þá komu hingað fulltrúar Swiss Aluminium og Alþjóðabankans á þriggja daga fund. Að loknum þeim fundi var ákveðið að efna til nýs fundar í byrjun desembermánaðar, en á milli þessara funda þurfti hins vegar að vinna ýmis verk á grundvelli viðræðna og álitsgerða frá októberfundinum. Af því tilefni fóru lögfræðingar okkar, Hjörtur Torfason og Brynjólfur Ingólfsson, til fundar í New York í byrjun nóvembermánaðar með lögfræðingum Svisslendinganna og Alþjóðabankans og formaður stóriðjunefndar ásamt ráðuneytisstjóranum í iðnmrn. fóru einnig til fundar við aðalforstjóra Swiss Aluminium í Zürich um miðjan mánuðinn. Jafnframt fór Steingrímur Hermannsson til Noregs til þess að afla upplýsinga um sérfræðileg atriði í sambandi við alúminiumvinnslu og hafa þar samráð við sérfræðinga og fjármálamenn um aðstöðu Norðmanna við slíkan atvinnurekstur, ef vera mætti, að okkur gæti orðið það að nokkru liði. Naut hann í því sambandi aðstoðar Hans Andersen ambassadors í Osló. Þmn. voru gefnar ýtarlegar skýrslur um allar þessar viðræður og annað það, er máli skipti í sambandi við þær, og haldnir jafnframt tveir fundir í n. þann 26. og 30. nóv.

Ég vil nú skjóta því hér inn, að eftir að lögð hafði verið fram skýrsla ríkisstj. á Alþ. í maímánuði, þótti ástæða til að hefja viðræður við bæjarstjórn Hafnarfjarðar, en líkur bentu þá þegar til þess, eins og fram kom í skýrslunni, að hentugast mundi að staðsetja væntanlega alúminíumverksmiðju við Straumsvík, rétt sunnan Hafnarfjarðar. Þegar svo enn stóðu fyrir dyrum viðræðufundir fulltrúa ríkisstj. og Swiss Aluminium í okt. s.l., er ætla mætti, að kynnu að skera nokkuð úr um framvindu málsins, þótti rétt að taka upp formlegar viðræður við bæjarstjórn Hafnarfjarðar um málið, og óskaði ég þá eftir því með bréfi 8. okt., að bæjarstjórn Hafnarfjarðar tilnefndi fulltrúa af sinni hálfu til formlegra samningaumleitana við ríkisstj. um þá þætti verksmiðjumálsins, sem Hafnarfjarðarkaupstað varðar. Af hálfu Hafnarfjarðar hafa síðan tekið þátt í slíkum viðræðum bæjarráðið, sem skipað var þremur mönnum, og bæjarstjórinn Hafsteinn Baldvinsson.

Þá ber einnig að hafa í huga, að eftir að Landsvirkjun var stofnuð samkv. l. frá síðasta Alþ., hefur meðferð raforkusamningsins og athuganir í sambandi við hann fyrst og fremst verið í höndum stjórnar Landsvirkjunar. Eftir síðustu viðræðufundi milli fulltrúa ríkisstj., Swiss Aluminium og Alþjóðabankans, sem haldnir voru hér fyrstu dagana í des., taldi ég málum hafa miðað það verulega áleiðis, að líklegt væri, að koma mætti saman á næstunni frumdrögum að öllum þeim samningum, sem hér gæti verið um að ræða í því formi, sem viðunandi væri. Þótti þá ráðlegt að ákveða nýjan fund með samningsaðilum í byrjun janúarmánaðar. Af okkar hálfu þótti þá ástæða til að ætla, að upp úr því gætum við, sem hefðum verið í samningaviðræðum og haft stoð af þmn. fyrr og síðar, skilað frá okkur till. til ríkisstj. En sjálf ríkisstj. hefur ekki haft aðstöðu til þess að fara yfir samningsuppköstin, sem um er að ræða, þó að jafnan hafi verið haft samráð innan stjórnarinnar eftir því, sem föng stóðu til. Hefur þá einnig fyrir mér vakað, að þm. fengju slík samningsuppköst jafnhliða til meðferðar jafnfljótt og gengið verður frá þeim eftir næsta fund og búið verður að þýða það, sem þýða þarf. Fælist í þessu, að þm. allir gætu haft málsskjölin til meðferðar verulega langan tíma, áður en að því kæmi, að ríkisstj. teldi sig reiðubúna til þess að ganga til ákvarðana í málinu. En gert er ráð fyrir því, að áður en málið yrði lagt fyrir Alþ., mundi iðnmrh. undirskrifa aðalsamninginn fyrir hönd íslenzku ríkisstj., en honum er ætlað að öðlast lagagildi, ef Alþ. fellst á efni samningsins. En með því fororði eða skilyrði mundi ráðh. undirrita. Þessum samningi mundu svo fylgja til Alþ. eftirfarandi fskj.:

Í fyrsta lagi raforkusölusamningur, sem undirritaður yrði einnig með skilyrði af hálfu Landsvirkjunarstjórnar fyrir hönd okkar Íslendinga. Í öðru lagi samningur um staðsetningu verksmiðjunnar við Straumsvík og byggingu hafnar, en gert hefur verið ráð fyrir því, að Hafnarfjarðarbær hefði aðild þess máls í samráði við ríkisstj. Í þriðja lagi samningur um bankatryggingar, sem svissneska fyrirtækið mundi gera við okkur, fyrst og fremst til öryggis því, að engir misbrestir yrðu á efndum þeirra varðandi byggingarframkvæmdir, sem þó mundu ekki hefjast fyrr en 12–18 mánuðum eftir að sjálf Búrfellsvirkjun hefði hafizt. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir ýmsum aðstoðarsamningum, sem svissneska fyrirtækinu er ætlað að gera við íslenzka alúminíumfyrirtækið, sem jafnan hefur verið gert ráð fyrir, að stofnað yrði sem hlutafélag og mundi þá jafnframt stofnsamningur slíks félags fylgja sem fskj. til þingsins.

Þetta er í stórum dráttum það, sem ég á þessu stigi hef um þetta mál að segja fram yfir þær upplýsingar, sem fram komu í skýrslugerð ríkisstj. í maímánuði s.l. Tilboð í Búrfellsvirkjun í Þjórsá eiga að hafa borizt hingað upp úr 20. jan., en verkið hefur verið boðið út á alþjóðavettvangi og þykir öruggt, að mörg tilboð muni berast, bæði frá erlendum aðilum og frá íslenzkum aðilum, e.t.v. að einhverju leyti í samvinnu við erlenda aðila. Ég tel ekki líklegt, að til undirskrifta samninga gæti komið fyrr en í lok febrúarmánaðar og málið kæmi þá til meðferðar í Alþ. í marzmánuði. Samtímis væri eftir að ganga frá samningum við Alþjóðabankann um þær lánveitingar, sem við hann hefur verið rætt um, til virkjunarframkvæmdanna. Efni hinna einstöku greina hinna margháttuðu samningsuppkasta tel ég ekki tímabært að víkja að nú. Bæði ríkisstj. og þm. eiga eftir að fá öll þessi skjöl til meðferðar, áður en slíkar umr. gætu hafizt hér á Alþ. Öll meginatriði málsins komu raunar fram í skýrslugerðinni í vor, en tíminn, sem liðið hefur síðan, hefur í það farið að koma þeim meginsjónarmiðum í samningsuppköst og form, sem við teljum, að menn gætu sætt sig við. Ég veit, að ég hef í þessum fáum orðum mínum ekki sagt neina nýlundu fyrir hv. þm., því að þeir hafa haft vitneskju um allt málið frá fulltrúum sínum í þmn. Um það var nokkur ágreiningur í öndverðu, hvernig sú þmn. skyldi vera skipuð. Ég tel, að það hafi ráðizt vel, að fulltrúar allra flokka áttu sæti í n. Það hefur tvímælalaust orðið málinu til stuðnings. Hins vegar breytir það að sjálfsögðu engu um afstöðu þm. til málsins. Þeir hafa gert fyrirvara um það mjög skilmerkilega, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, að þeir starfi í þessari n. eins og hverri annarri þn. óháð því, þegar að því kemur, hvort þeir séu með eða móti málinu, en út í það skal ég ekki fara nú. Það er þingheimi nokkuð kunnugt frá efnisumr., sem fram fóru hér á s.l. vori.