15.12.1965
Sameinað þing: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

Aluminíumverksmiðja

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð út af því, sem hæstv. ráðh. beindi til mín, en annars mun ég halda mig við að ræða þau atriði, sem fólust í minni fyrri ræðu og ekki færa umræðusviðið út að þessu sinni.

Það er að heyra á hæstv. ráðh., að honum finnist mjög óviðeigandi, að hann hafi verið beðinn um að gefa skýrslu um þetta mál á Alþ. eins og það liggur nú fyrir. En á hinn bóginn er það vist þannig vaxið, að hæstv. ráðh. hefur þótt afar eðlilegt að gefa skýrslu um þetta í Varðarfélaginu og í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Hitt finnst honum óeðlilegt, að um þetta mál eigi að ræða á Alþingi Íslendinga. Og hæstv. ráðh. óvirðir Alþ. með því að segja annað eins og þetta: „Mér er þó sama, þó að við höfum hérna eina æfingu í kvöld.“ þetta er óvirðing við Alþ. Ég er alveg sannfærður um, að þm. eru sammála mér um, að þetta sé óvirðing við Alþ. að taka svo strákslega til orða.

Hæstv. ráðh. þarf ekkert að undra, þó mönnum finnist full ástæða til þess að fá viðbótarskýrslu frá honum um þetta mál hér á Alþ. eftir þær fréttatilkynningar, sem komið hafa fram, og eftir að hann hefur rætt þessi mál við hinn og annan félagsskap úti um borgina, eins og hér hefur verið rakið. Ráðh. hefði því átt að taka því með fullkominni stillingu og á eðlilegan hátt. Hæstv. ráðh. hefur gefið út svo hljóðandi fréttatilkynningu um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Dagana 1.–3. þ. m. hafa farið fram samningaviðræður milli fulltrúa ríkisstj., Swiss Aluminium Limited og Alþjóðabankans um byggingu alúminíumbræðslu í Straumsvík og er þetta framhald fyrri umr. þessara aðila. Eftir þessa fundi er málið komið á það stig, að samkomulag hefur náðst í viðræðunum um öll meginatriði málsins.“

Svo er hæstv. ráðh. alveg steinhissa á því, að þm. skuli óska eftir viðræðum um þetta málefni hér á Alþ. Að það skuli ekki vera nóg fyrir hann að fara með þetta í Varðarfélagið og fulltrúaráð Sjálfstfl. í Reykjavík. Það skuli ekki vera talið nægilegt. Ég skal lesa áfram, með leyfi hæstv. forseta, það er síður en svo ástæða til að draga það undan. Síðan kemur:

„Það, sem næst liggur fyrir, er að ganga frá samningsuppkasti með margháttuðum fskj., og munu lögfræðingar aðila vinna að því í þessum mánuði. Ráðgert er að halda síðan fund um málið eftir áramótin til þess að ganga endanlega frá samningsuppköstunum.“

En þessi setning kom áður: „Eftir þessa fundi er málið komið á það stig, að samkomulag hefur náðst í viðræðunum um öli meginatriði málsins.“ Hvað vilja menn hafa það meira? Og við vitum, að þetta er rétt, og við heyrðum einnig það, sem hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, sagði hér áðan, þar sem þetta kom alveg ótvírætt fram, nema bara enn skýrara heldur en hjá hæstv. ráðh., sem virðist vera að draga ofurlítið í land af tilkynningunni.

Hæstv. ráðh. þarf ekki að vera hissa á því, þó að menn vildu fá viðbótarskýrslu frá honum um þetta mál. Það var alveg eðlilegt og sjálfsagt. Og það var vitaskuld m.a. gert til þess að vita, hvað hæstv. ráðh. vildi segja Alþ. um það, sem hefði komið nýtt inn í málið frá því, að hann gaf skýrsluna siðast. Beinlínis til þess að fá fram heildarmynd hér á Alþ. um það, sem ráðh. vildi láta uppi á þessu stigi. Hann lét þá uppi æðimörg atriði. Vafalaust hefur eitthvað talsvert gerzt síðan og ýmis efnisatriði bætzt við, en ráðh. kaus það nú að gefa hv. Alþ. og þar með þjóðinni engar upplýsingar um það, hvað hefði bætzt við. Ég tók ekki eftir því, að það væri nokkurt efnisatriði nýtt, sem hann gaf skýrslu um. En vafalaust hefur þó ýmislegt gerzt, og raunar vitum við þm., að ýmislegt hefur gerzt, því að okkur hafa verið gefnar upplýsingar um það sem trúnaðarmál. En hæstv. ráðh. sér ekki ástæðu til þess að gefa þá skýrslu hér á hv. Alþ. og það finnst mér mikill galli. Mér finnst, að hann hefði átt að bæta við skýrsluna frá í vor þeim efnisatriðum, sem kynnu að vera ný í því, sem nú hefur verið ráðgert, og þá hefðu menn heildarmyndina, og allir fengju um það að vita, sem gerzt hefur.

Ég vil mjög finna að því, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér að tala í þessum tón um þá sjálfsögðu ósk, að hér færu nú fram umr. og hann gæfi skýrslu.

Þá vil ég einnig taka fram, að það er mjög eðlilegt, að nú komi afstaða manna fram um málið. Nú er búið að athuga það frá öllum hliðum og alveg niður í kjölinn og öll efnisatriðin liggja fyrir samkv. því, sem hæstv. ríkisstj. hefur upplýst, og það er ekki eftir neinu að bíða, að menn gefi upp afstöðu sína eins og hér hefur verið gert. En fram að þessu hefur þetta ekki legið, að því er talið hefur verið, efnislega fyrir til fulls. En nú er ekki eftir neinu að bíða með að gefa afstöðuna upp, enda mjög nauðsynlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að vita alveg, hvernig málin standa, áður en hún heldur áfram með málið, ef hún er ekki sjálf endanlega búin að skuldbinda sig neitt, eins og nú er helzt að heyra á hæstv. ráðh., þó að fréttatilkynning ráðun. gæfi fullkomna ástæðu til þess að álíta, að ríkisstj. hefði skuldbundið sig í málinu. Mér finnst sízt ástæða til þess fyrir hæstv. ríkisstj. að finna að því, þó að hún fái nú að vita, hver afstaðan er.

Þá er annað atriði, sem ég þarf að minnast á, og það er varðandi virkjanirnar og samband þeirra við alúmínfyrirætlanirnar. Ég hélt því fram áðan, að það væri mjög vel viðráðanlegt og hagfellt að virkja við Búrfell án alúminíumverksmiðju. Og ég hygg, að um það verði raunar ekki deilt; ef menn vilja byggja á skýrslum þeirra sérfræðinga, sem um það hafa gefið álit, og á þeim verðum við vitaskuld að byggja.

Og ég er ekki einn um þessa skoðun eða við Framsfl.-menn, því það kom mjög greinilega fram hjá talsmanni hæstv. ríkisstj. í raforkumálum, raforkumálaráðh. Ingólfi Jónssyni, í umr. í vor, að hann var einnig þessarar skoðunar fullkomlega og lagði á það mikla áherzlu. M.a. sagði hann í þingræðu 4. maí í vor, „eftir að við höfum lesið þessa töflu, kemur það í ljós, að Búrfell sé langhagstæðast. Hvort sem við virkjum það án alúminíumverksmiðju, 70 þús. kw., eða fullvirkjum 210 þús. við Búrfell, verður Búrfellsvirkjun miklu hagstæðari.“ Hann fullyrðir, að það sé langhagstæðasta virkjunin hér, hvort sem virkjað er í sambandi við alúminíumverksmiðju eða án hennar. Og ráðh. gengur miklu lengra í þessu, því að hann segir einnig um raforkuverðið og um fjárhagsgrundvöllinn, að það sé lítið eitt dýrari raforka fyrstu árin eftir að stórvirkjunin yrði gerð, ef það yrði án alúminíumverksmiðju, lítið eitt, segir hæstv. raforkumálaráðh., dýrara fyrstu árin, ef það yrði gert án alúminíumverksmiðju. Og þá reiknar þó hæstv. ráðh. áreiðanlega ekki með inn í það dæmi hugsanlegri áhættu vegna verðlagsbreytinga, sem gætu orðið af því að gera þann samning, sem fyrirhugaður er. Þetta segir félagi hæstv. ráðh. í ríkisstj. um þessi mál og byggir það á þeim sérfræðingum, sem hann hefur látið vinna fyrir sig, sömu mönnunum, sem við byggjum á okkar álit á þessu máli.

Þá var hæstv. ráðh. jafnvel að gefa í skyn, að það væri úr lausu lofti gripið hjá mér, að það væri viðráðanlegt, að Íslendingar gætu virkjað hagkvæmt án þess að hnýta þar við alúminíummál. Var að gefa í skyn áðan, að Íslendingar hefðu alltaf verið nú upp á siðkastið í sambandi við virkjun, háðir alúmínmálinu. En hvað er um þetta að segja? Ég vil nú lesa hér eina setningu úr skjali frá sjálfri ríkisstj. Það er álit sjálfrar ríkisstj. um þessi efni og þar stendur þetta í upphafi greinarg. fyrir frv. um Landsvirkjun. Það eru orð hæstv. ríkisstj. sjálfrar, sem ég ætla að vitna til í þessu falli og sem hæstv. ráðh. getur svo hugsað um, en þau eru þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Að hefja virkjun í stórám landsins er að vísu mikið átak, en þó tæplega meira en fyrsta virkjun í Sogi var á sínum tíma.“ En hvenær var fyrsta virkjun gerð í Sogi? Hún var gerð á kreppuárunum fyrir stríðið. Og hvaða aðstoð fengum við til þess áð gera þá virkjun? Enga, aðeins lán, og hver eyrir borgaður til baka. En nú á allt í einu að fara að halda því fram, að það sé ekki mögulegt fyrir Íslendinga að sjá sínum virkjunarmálum farborða, án þess að setja þau í samband við alúmínmálið.

Við höfum ævinlega haldið því fram, að það hafi komið í ljós skýrt og greinilega, að þessi mál sé mjög vel hægt að aðskilja. Og þetta, sem ég hef nú vitnað til, er álit manna í stjórnarherbúðunum sjálfum, sem þaðan hefur verið gefið út um þessi mál og sem þeir ættu sannarlega að muna eftir.

Ég verð líka að segja, að mér finnst leggjast heldur lítið fyrir hæstv. ríkisstj., ef nú á að fara, eftir allt, sem þeir hafa sagt um bætt lánstraust út á við og annað þar fram eftir götunum og bætta stöðu landsins, — á að fara að bjóða okkur upp á þá röksemd, að Íslendingar hafi ekki verð þess megnugir að fá lán til þess að virkja hagstæðustu virkjun landsins. Því það hefur verið upplýst úr herbúðum ríkisstj., að Búrfell án alúmínvers sé hagstæðasta virkjun landsins. Á svo að fara að telja okkur trú um það hér, að staða Íslands sé þannig, að það geti ekki einu sinni fengið lán eða fyrirgreiðslu erlendis til þess að koma slíkri virkjun í framkvæmd. Ég held, að það þurfi að endurskoða eitthvað þennan málflutning, eins og hann kom fram hjá hæstv. ráðh.

Að lokum vil ég svo aðeins segja örfá orð um vinnuaflsmálið. Ég hélt því fram, að þar væri um nýja stefnu að ræða, þar sem nú væri farið að gera ráð fyrir fullum fetum að flytja inn erlent verkafólk og sem raunar kom greinilega fram hjá hæstv. ráðh. hér áðan, því að vitaskuld bar hann alls ekki á móti því, að það stæði til að flytja inn erlent vinnuafl. Þvert á móti lagði hann kapp á að halda þeirri leið fullkomlega opinni. En ef menn lesa þær skýrslur og grg., sem við höfum fengið um þetta mál fram að þessu, hafa allar ráðagerðir byggzt á því, að innlent vinnuafi yrði notað nema að því, er tæki til fárra sérfræðinga.

Og það er því nýtt, að farið er að ráðgera að byggja hér á erlendu vinnuafli við að koma upp slíkri verksmiðju. Það er ný stefna. Það er ný stefna að flytja inn erlent vinnuafi til þess að byggja erlend fyrirtæki á Íslandi. Það hefur aldrei verið gert, er algerlega nýtt og stendur allt, sem ég sagði um það efni. Og ég vitna svo til þeirra varnaðarorða, sem ég lét falla í kvöld í því sambandi, og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þau.