15.12.1965
Sameinað þing: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2732 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

Aluminíumverksmiðja

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég kvaddi mér aðeins hljóðs út af þeim furðulegu ummælum, sem hér áttu sér stað hjá hv. 1. þm. Austf. í sambandi við þá fréttatilkynningu, sem var gefin út af iðnmrn. Ég er líka alveg sannfærður um, að hefði engin fréttatilkynning verið birt, var áreiðanlega eitthvert laumuspil, áframhald af laumuspili, ekkert að segja frá því, sem verið er að gera. En þegar fréttatilkynning er birt, er verið að gera mikið úr því og reynt að láta liggja að því, að í henni liggi allt annað heldur en í henni liggur, þó að þessum hv. þm. sé alveg fullkunnugt um, hvernig aðstæður eru við þessar samningaumleitanir. Og það vil ég leggja áherzlu á, að umr. um það er óskað hér í þinginu á því stigi málsins, þegar þm. vita — ekki aðeins þeir, sem eru í þmn., heldur allir þm., stjórnarandstöðunnar líka — að það er dagaspursmál, hvenær þeir fá í hendurnar uppköstin, sem samningamenn ríkisstj. hafa verið í, og þeir vita líka, að ríkisstj. hefur ekki sjálf á þessu stigi málsins tekið afstöðu til þeirra mála. Ég vil þess vegna alveg frábiðja mér, að hv. þm. geri það vísvitandi að reyna að leggja meira inn í og rangtúlka það, sem engin ástæða er til að rangtúlka, og þeir vita miklu betur um heldur en hv. 1. þm. Austf. vill vera láta í þessu sambandi. Og hann er að gera því skóna, að það væri nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að fá að vita um hans skoðun núna, af því að hún þyrfti að binda sig. Hún skyldi þá líklega hafa haft frumkvæðið að því sjálf að reyna að fá að vita um hans skoðun, en ekki að þurfa að láta hann hafa vit fyrir sér, hún hefur ekki þurft það fram að þessu að láta þennan hv. þm. hafa vit fyrir sér.

Nei, ég held, að hv. þm. öllum hljóti að vera algerlega ljóst, hvernig í málinu liggur og þm. muni við fyrsta tækifæri fá þessi uppköst af samningunum í hendur og þá munu þeir, eins og hér kom fram í minni ræðu í kvöld, alveg á sama hátt og ríkisstj. — þá munu bæði ríkisstj. og Alþ. — taka sínar ákvarðanir um það, áður en málið er lagt inn í Alþ., hvort undirritaður verði samningur, eins og ævinlega er venja, þegar samningar eru undirritaðir með fyrirvara um samþykki Alþ. síðar.