15.12.1965
Sameinað þing: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

Aluminíumverksmiðja

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér hafa orðið nokkrar umr. um það, hvað legið muni hafa til grundvallar því, að óskað var eftir, að gefin yrði skýrsla hér að þessu sinni um þetta stórmál. Og hæstv. iðnmrh. fann það helzt út, að við Alþb.-menn mundum hafa óskað eftir skýrslunni til þess að geta gefið einum okkar þm. kost á því að halda ræðu hér, en þeir framsóknarmenn mundu hafa óskað eftir skýrslunni, til þess að þeir gætu nú þegar sagt til um afstöðu sína til málsins. Ég furða mig á því, að hæstv. ráðh. skuli ekki sjá, hversu eðlilegt það er, að óskað var eftir því, að hann gæfi skýrslu um málið nú. Það er engin leið að deila um það, að það hafi orðið þáttaskil í þessu máli nú. Þegar hann skildi síðast við málið hér á Alþ., lá málið fyrir aðeins á viðræðustigi, og eins og ég minntist hér á í minni fyrri ræðu, var það þá undirstrikað, að það væri allsendis óvíst, að um nokkra samninga væri að ræða Málið var þá ekki komið lengra áleiðis. En nú liggur það hins vegar fyrir samkv. yfirlýsingu frá ríkisstj. sjálfri, að hún telur málið vera komið á lokastig og þegar hafi náðst samkomulag um öll meginatriði þess. Þegar málið var komið á þetta sug, töldum við Alþb.-menn, að það væri sannarlega kominn tími til þess, að umr. yrðu hér á Alþ. um meginefnið í þessu máli, þ.e.a.s. um þá principafstöðu, hvort ætti að gera slíka samninga, sem hér er verið að reyna að ná samkomulagi um. Við höfum ekki óskað eftir því, að nein sérstök samningsuppköst yrðu rædd hér grein fyrir grein. Við gerum okkur fulla grein fyrir

því, að málið liggur ekki þannig fyrir nú. En við töldum ekki óeðlilegt, að áður en gengið verður frá samkomulagi milli ríkisstj. og hins erlenda aðila og það jafnvel undirskrifað af hæstv. ráðh., þótt með fyrirvara sé, sé málið rætt hér á Alþ., þannig að skýrt komi í ljós, hvaða ástæður liggja til þess, að okkur þyki rétt að gera slíka samninga sem þessa. Ég tel því, að það, sem eðlilegast hefði verið í þessum umr., sé það, að frekari rökstuðningur hefði komið fram af hálfu ríkisstj. fyrir því, hvers vegna hún leggur áherzlu á það, að þessir samningar séu gerðir.

Hér hafa komið fram sterkar efasemdir um það, að orkusölusamningurinn yrði okkur hagstæður. Þessum efasemdum svaraði hæstv. iðnmrh. nú aðeins þannig, að hann segir: „Það er viðurkennt, að virkjunin við Búrfell er sú hagstæðasta, sem við eigum völ á, og þá get ég ekki á nokkurn hátt skilið, að við getum á nokkurn hátt leikið af okkur með því að ráðast í þá virkjun, þó við gerum samning við hið erlenda fyrirtæki um sölu 2/3 orkunnar til þess.“ Jú, vitanlega veltur það á því, hvort við erum að gera hér skyssu. Hvaða verðgrundvöllur er hér lagður? Stenzt það verð, sem á að semja um á raforkunni? Stenzt það framleiðslukostnað? Við teljum, að það fari ekki milli mála, að með því að gera fyrirfram samning við alúminíumfyrirtækið til 25 ára um fast raforkuverð, sem aðeins sé 103/4 úr eyri fyrir kwst., sé samið um lægra verð á raforkunni en kostar að framleiða hana á þessu tímabili. Þegar við höldum þessu fram, göngum við út frá sams konar útreikningum og lagðir hafa verið til grundvallar í sambandi við verðákvörðun á rafmagni eða kostnaðarframleiðslu á rafmagni í öðrum orkuverum, sem hér hafa verið gerðar samþykktir um. Það er enginn vafi á því, að verðið 103/4 úr eyri fyrir kwst. fær knapplega staðizt miðað við það, að kostnaðaráætlun sú, sem gerð var í febr. 1964, fái staðizt. En það er ómögulegt annað en ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir því nú á þessu stigi málsins, að sú kostnaðaráætlun fær ekki lengur staðizt. Á henni eru orðnar stórfelldar breytingar. Það er viðurkennt, að það verður að gera viðbótarframkvæmdir á virkjunarstað, sem kosta 200–300 millj. kr., og það er einnig viðurkennt, að stórfelld hækkun hefur orðið á framleiðslukostnaði, eða framkvæmdakostnaði. Af því er alveg ljóst, að það er ekki æskilegt fyrir okkur að semja um raforkusöluna á þessum grundvelli.

Ég álít, að hæstv. ríkisstj., vilji hún taka efnislega á þessu máli, geti ekki skotið sér undan því að ræða þennan þátt málsins, og þegar hún heldur því fram einnig, að hún sé að leggja út í þessa samninga til þess að reyna að tryggja landsmönnum lægra raforkuverð á komandi árum, verði hún einnig að taka tillit til þess, hvaða þarfir þarf að leysa fyrir landsmenn sjálfa í virkjunarmátum á þessu samningstímabili, þ.e.a.s. á næstu 25 árum, sem samið er um fast verð á rafmagninu. Og ekki dettur mér í hug að búast við því, að ríkisstj. haldi því fram, að við þurfum ekki að ráðast í stórvirkjun á þessu tímabili annars staðar en við Búrfell. Ég undirstrika því það, sem ég hef sagt áður: Það er sannarlega kominn tími til þess, að hér fáist fram á Alþ. efnislegar umr. um þetta mál, og glögg grein verði gerð fyrir því, hvaða ástæður liggja til þess, að rétt þykir að gera slíkan samning sem þennan.

Ég get ekki trúað því, að hæstv. ríkisstj. haldi því enn fram, að það sé hagstætt fyrir okkur að leyfa byggingu þessarar alúminíumverksmiðju, til þess að við getum haft eitthvað fyrir okkar vinnuafl að gera. Ég trúi því ekki, að hún líti þannig á málið nú í dag, enda tók ég eftir því, að hæstv. iðnmrh. talaði um vinnuaflsvandamálið fyrir ísl. atvinnuvegi, sem upp mundi koma í sambandi við þessar miklu framkvæmdir, og þegar málið liggur orðið þannig, að við höfum ekkert vinnuafl afgangs frá okkar eigin framkvæmdum og frá eigin framleiðslustörfum til þess að selja í byggingarvinnu við alúminíumverksmiðjuna, er ekki lengur hægt að halda því fram, að við eigum að heimila byggingu á þessari verksmiðju af þeim ástæðum, að við teljum okkur einhvern vinning að því að geta selt þangað vinnuafl.

Ég ætla, að ef ríkisstj. fengist til að ræða á þennan hátt efnislega um málið, þá hljóti hún að viðurkenna, að mikil hætta sé á því, að þessar stórkostlegu framkvæmdir færi margt úr skorðum í okkar efnahagslífi, a.m.k. á meðan á framkvæmdunum stendur. Röksemdir eins og þær, sem ég fann helzt í ræðu hæstv. ráðh., að við hefðum orðið að samþykkja svona lágt verð á raforkunni eða 20% lægra en Norðmenn hafa samið um, af því að það sé ekkert girnilegt fyrir hina erlendu aðila að koma til Íslands og byggja hér alúminíumverksmiðju og reka hana hér norður á hjara veraldar, það sé miklu fýsilegra fyrir hinn erlenda aðila að leita til annarra staða, slík rök sem þessi ganga út frá því, að okkar staða sé þannig í þessum efnum, að við verðum að lúta lægri og óhagstæðari kjörum en nágrannar okkar verða að búa við. Ég held nú þvert á móti, að okkar staða sé þannig, að við eigum hér yfir að ráða svo hagstæðum virkjunarmöguleikum, að það sé í rauninni keppikefli fyrir erlenda aðila, sem þurfa á mikilli raforku að halda, að eiga viðskipti við okkur í þessum efnum. Ég held, að málið snúi ekki þannig, að við þurfum að lúta því, sem þeir skrifa okkur fyrir í þessum efnum. Og svo hin röksemdin að við verðum eiginlega nú að gera samning sem þennan, af því að annars geti það orðið of seint. Kjarnorkan sé á næsta leiti, og þá getum við misst af möguleikum til að gera slíka samninga. Uppsetning dæmisins á þennan hátt gerir auðvitað alla okkar samningsaðstöðu gjörsamlega vonlausa.

Ég tók eftir því, að hæstv. iðnmrh. taldi, að við mundum ekki geta ráðizt í virkjun við Búrfell, án þess að gera einhvern slíkan orkusölusamning sem þann, sem hér er nú rætt um. En þær upplýsingar hafa verið lagðar fram í þessum efnum, hér fyrir alþm., að talið sé eðlilegt, þegar ráðizt er í nýja virkjun, að hafa hana svo stóra, að hún nægi nokkurn veginn fyrir 10 ára notkunartímabil. Slíkur áfangi er talinn mjög eðlilegur í virkjunarmálum, en þetta þýðir það, að eins og nú er komið, þá ættum við skv. þessari reglu að ráðast í virkjunarframkvæmdir upp á um 125 þús. kw. Það mundi vera talið það hagstæðasta. Nú erum við einnig upplýst um það, að það sé hagstætt að ráðast í virkjunina við Búrfell á þeim grundvelli, að fyrst yrði ráðizt í það að kaupa vélar, sem skilað gætu helmingi orkunnar, eða um 105 þús. kw. og síðan sé auðvelt að bæta við vélum fyrir 35 þús. kw. í næsta áfanga og síðan enn öðrum 35 þús. kw. og svo þeim síðustu, þar sem aðeins vélasamstæðu væri bætt við.

Ef við réðumst í framkvæmdirnar við Búrfell á þessum grundvelli, þá mundum við fyrst virkja um 105 þús. kw. Gert er ráð fyrir því, að slík virkjun mundi kosta í kringum 980 millj. kr. Það er vitanlega alveg fráleitt fyrir ríkisstj. að halda því fram, að við séum ekki færir um það að fá nægileg lán til þess að ráðast í slíka virkjun. Sannleikur málsins er sá, að við gætum lánað okkur þá upphæð sjálfir, ef við vildum. Við eigum orðið í kringum 2000 millj. í erlendum gjaldeyri, sem mestmegnis stendur með lágum vöxtum í erlendum bönkum eða í erlendum verðbréfum, og það kemur vitanlega ekki til mála, að við getum ekki fengið eðlilegan hluta af þessari fjárhæð að láni til nægilega langs tíma til þess að gera okkur það kleift að ráðast í slíkt mannvirki sem þetta. Það er því sama, hvernig á málið er litið, við höfum ábyggilega fjárhagslega aðstöðu til þess eftir þeim reglum, sem upp eru settar og talið er eðlilegt að miða við í virkjunarframkvæmdum, og þá væru þessir áfangar við Búrfell einnig hæfilegir fyrir okkur. Af þessum ástæðum er því engin nauðsyn á því að taka upp nýja stefnu í atvinnumálum landsins með því að heimila erlendum aðilum að byggja upp atvinnufyrirtæki í landinu og njóta hér sérstakra forréttinda umfram innlenda alvinnurekendur.

Ég veitti því athygli, að hæstv. ríkisstj. vill hafa þann hátt á, að efnislegar umr. um þetta stórmál fari ekki fram nú. Hún vill bíða eftir því, að þm. komi aftur saman eftir jólafrí. Nú er gert ráð fyrir því að fresta þingi til 7. febr. og miðað við þær tímasetningar, sem fram hafa komið hjá hæstv. iðnmrh. um framhald viðræðna við hina erlendu aðila, þá er beinlínis gert ráð fyrir því, að búið verði þá að gera bráðabirgðasamkomulag og í rauninni að ganga frá málinu á þann hátt, að þá mundu þm., þegar þeir kæmu hér aftur saman eftir jólafrí, raunverulega standa frammi fyrir gerðum hlut. Það má vera, að það tækist eftir það að fá hér einhverjar breytingar á því samkomulagi, sem þá hefði verið gert, en það er ótrúlegt, að það yrði þá horfið frá því að gera þessa samninga. En ef nú fengjust á þessu stigi málsins efnislegar umr. um málið, sú spurning fengist rædd, hvort rétt væri yfirleitt fyrir okkur, eins og málin standa nú, að gera slíka samninga sem þessa, eða hvort hagkvæmara væri fyrir íslenzkt atvinnulíf að láta þessa samninga liggja, þar sem þeir eru nú. Ef umr. fengjust um málið nú, þá væri kannske hægt að spara sér mikið ómak.

En mér sýnist sem sagt, að hæstv. ríkisstj. hafi þegar tekið sína ákvörðun um það að semja á þessum óhagstæða grundvelli, sem ég tel, að lagður hafi verið. Hún virðist hafa tekið ákvörðun um það að taka hér upp nýja stefnu um uppbyggingu atvinnufyrirtækja í okkar landi og í atvinnurekstursmálum, og af því dreg ég þá ályktun, að það verði ekki aðeins um það að ræða að heimila einu erlendu fyrirtæki að byggja hér upp atvinnufyrirtæki og reka það með sérréttindum, það megi fyllilega búast við því, að annað komi á eftir og það fleiri en eitt, því að ef það er sá vinningur að því að gera einn svona samning, sem ríkisstj. vill vera láta, ja, hvers vegna er þá ekki enn þá meiri vinningur að því að gera fleiri slíka samninga?

Ég hef bent á það hér áður í umr. um þetta mál, að ég gæti mjög vel ímyndað mér það, að til okkar kynnu að leita ýmsir stórir eða efnamiklir erlendir aðilar, sem áhuga hafa á fiskveiðiaðstöðunni við Ísland og á fiskverkun í okkar landi. Hvað yrði sagt við þá, ef þeir leituðu til okkar og óskuðu eftir sams konar samningum eins og nú stendur til að gera við alúminíumfyrirtækið? Hvað yrði þá sagt við þá? Á þá að ganga inn á það að veita þeim sams konar réttindi hér í okkar fiskiðnaði? Ættum við t.d. að fallast á beiðni Unilever-hringsins brezka, ef hann byðist til þess að koma hér upp lýsisherzlustöð, sem við höfum ekki enn þá ráðizt í að byggja? Ef hann t.d. byðist til þess í leiðinni að kaupa af landsmönnum allt það lýsi, sem við framleiðum í næstu 10 eða 20 ár, og gefa okkur nokkrum % hærra verð heldur en við höfum fengið? Ég efast ekkert um það, að sá hringur gæti vel hugsað sér slíkt með því að fá aðstöðuna í okkar landi, sem það veitti.

Ég hef líka spurt um það, hvernig búast má við, að viðbrögðin yrðu, ef hinn stóri auðhringur í Sviss, Nestlé-hringurinn, sem þegar hefur brotizt inn í sjávarútveg Norðmanna eða fiskiðnað Norðmanna og er einnig nú að byggja upp í Kanada, ef hann leitaði hér til íslenzkra stjórnarvafda og óskaði eftir því að fá að fjárfesta hér á landi nokkur hundruð eða þúsundir milljóna í fiskiðnaðarfyrirtækjum og byðist í upphafi til þess að borga nokkru hærra verð fyrir fiskframleiðslu okkar en við höfum nú í dag, hvað verður þá sagt? Er ástæða til þess að neita þeim aðilum fremur en svissneska alúminíumhringnum um sérstöðu til atvinnurekstrar í okkar landi? Ætli það sé ekki hætt við því, að þeir, sem ákveða nú þessa stefnubreytingu varðandi uppbyggingu á íslenzku atvinnulífi, að heimila erlendum aðilum hér sérréttindi, héldu lengra áfram á þessari braut og veittu þessum aðilum, sem ég hef nefnt, eða einhverjum slíkum, slík eða sams konar fríðindi hér? Og hvað yrði um okkar efnahagslega sjálfstæði eftir nokkur ár, eftir að slíkt hefði verið gert? Ég er hræddur um, að það yrði lítið úr okkar efnahagslega sjálfstæði. Ég efast ekkert um það, að þeir aðilar mundu spretta upp í okkar landi, þegar slík tilboð kæmu eins og þessi, sem ég hef nefnt, sem sæju einhvern gróðamöguleika við það að veita þessum aðilum svona fríðindi. Það mundu ábyggilega einhverjir innlendir aðilar sjá gróðamöguleika í sambandi við þetta, eins og vissir aðilar sjá gróðamöguleika af viðskiptum sínum við svissneska alúminíumhringinn. En það, sem þm. verða að gera sér fulla grein fyrir í þessum efnum, er það, að nú er verið að taka ákvörðun um það, hvort á að hverfa frá þeirri gömlu stefnu, sem við höfum haldið við í þessum efnum, og fara hér inn á nýja stefnu, sem ég tel þjóðhættulega stefnu, því að það er ekki hægt að líta einu sinni á þann samning, sem hér er um að ræða við Swiss Aluminium, sem einangrað fyrirbæri út af fyrir sig. Hér er um stefnumarkandi mál að ræða. Við Alþb.-menn höfum látið skýrlega koma fram okkar stefnu í þessum málum, ekki aðeins viðvíkjandi alúminíumverksmiðjunni, heldur einnig í sambandi við þátttöku erlends fjármagns til atvinnurekstrar í okkar landi yfirleitt, og við vörum við því að taka upp þessa stefnu. Við erum henni algerlega andvígir.