02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

Almennur lífeyrissjóður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeirri skýrslu, sem hæstv. félmrh. hefur gefið hér varðandi þetta mál, og sérstaklega fagna ég því, að ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um það að skipa 5 manna n. með fulltrúum frá öllum þingflokkum til þess að semja löggjöf um almennan lífeyrissjóð fyrir landsmenn.

Mál þetta hefur nú verið alllengi til athugunar, eins og hefur komið fram í þessum umr., og ég hygg, að í meginatriðum sé enginn ágreiningur á milli þingflokka um, að það er orðin brýn nauðsyn á því, að löggjöf sé sett um almennan lífeyrissjóð. Það er alkunna, að margar starfsgreinar í okkar þjóðfélagi hafa þegar komið upp sínum lífeyrissjóðum og búa í þeim efnum við miklu betri kjör en fjölmennustu starfsstéttirnar gera, eins og stétt verkamanna, sjómanna og bænda, og sá mikli mismunur, sem af þessu kemur, verður ekki þolaður til lengdar. Því held ég, að það sé orðin mikil nauðsyn á því að reyna að leysa þetta mál á viðunandi hátt með löggjöf um almennan lífeyrissjóð, og ég fagna því, að þessu máli þokar nú áfram. Og ég vil leggja áherzlu á það sem sjónarmið okkar Alþb.-manna, að nú verði reynt að hraða þessu máli eins og tök eru á.