02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

Almennur lífeyrissjóður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. vildi gera grein fyrir þeim drætti, sem hefur orðið í þessu máli, og réttlæta hann með því, að þegar áliti n., sem skipuð var 1958, hefði verið skilað til ríkisstj. í nóv. 1960, hefðu mál þessi mjög verið í deiglunni á Norðurlöndum og því hefði hann talið rétt að láta þetta mál bíða og sjá, hverju fram yndi á Norðurlöndunum í þessu efni, og fylgjast með því, sem þar gerðist. Þetta er að sjálfsögðu út af fyrir sig sjónarmið og út af fyrir sig mjög skynsamlegt sjónarmið. En það kom ekkert fram af hálfu ríkisstj. um það á árunum frá því í nóvember 1960 og þangað til þáltill. var flutt á ný á þingi 1963–1964, að stjórnin hefði þetta mál í athugun. Það kom ekkert fram um það, að hún væri að fylgjast með því, hvað gerðist í þessum efnum á Norðurlöndum. Og það er upplýst nú, að hún skipaði engan sérstakan mann til þess að fylgjast með í þeim efnum og afla gagna á þeim árum. Það var ekki fyrr en eftir að nokkrir framsóknarmenn höfðu á nýjan leik tekið málið upp á Alþ., þegar það var sýnt, að á þremur árum hefði ekkert verið gert af stjórnarinnar hálfu í málinu, og eftir að sú till. hafði verið samþ. á Alþ. 13. maí 1964, að stjórnin skipaði Harald Guðmundsson til þess að kynna sér þessi mál og fylgjast með þeim á Norðurlöndum. Ég hef, eins og þegar hefur komið fram, enga tilhneigingu til þess að gera lítið úr hans starfi og veit það, að hann hefur aflað mikilla gagna. En ég vil hins vegar halda því fram, að það hefði náttúrlega mátt afla allra þeirra gagna án þess að fara til þessara landa, sem um er að tefla, því að um þetta eru fyrir hendi ýtarlegar prentaðar skýrslur og prentuð frv. og nál. meiri og minni hl., bækur upp á mörg hundruð síður, sem hefði verið auðvelt að fá hingað og nefndinni, sem hefði fengið málið til meðferðar og átt að semja frv., hefði verið mjög auðvelt að fá til meðferðar og lesa. Og það, sem ég er nú hræddur. um; er það, að sú n., sem fær málið til meðferðar, verði nú, þegar hún sezt niður við það að semja frv., einmitt að fara að kynna sér þessi efni, þó að vafalaust sé henni léttir að því starfi, sem unnið hefur verið. En staðreyndin er, og fram hjá henni hefur hæstv. utanrrh. ekki komizt, að málið lá í hans skúffu, án þess að nokkuð væri í því gert, frá því í nóv. 1960 og þangað til samþ. hafði verið ný ályktun um það á Alþ. 13. maí 1964. Fram hjá þeirri staðreynd verður ekki komizt, og það er rétt, að hún komi fram, þó að ég efist ekki um áhuga Alþfl.-manna í þessu efni.