02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

Almennur lífeyrissjóður

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt, að það komi fram, að skýrsla sú, sem hæstv. félmrh. gaf, var gefin í nafni allrar ríkisstj., eins og raunar ljóst var af hans orðum. En vegna þeirra yfirlýsinga, sem hér hafa komið fram af hálfu annarra flokka, er það rétt, að það sé ótvírætt, að Sjálfstfl. er ekki síður áhugasamur um framgang málsins heldur en aðrir þeir, sem hér hafa gefið yfirlýsingar.

Ég skal ekki fara að deila hér um það, hver hafi verið áhugamestur í þessu máti eða mest rekið á eftir því. Ég vil einungis taka undir það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. lagði á mjög ríka áherzlu, að þetta er ákaflega vandasamt mál, margþætt og erfitt að fá um það yfirlit. Og ég hef ekki öðlazt sannfæringu um það, að það væri eðlilegt, að Íslendingar gætu haft í slíku máli, jafnflóknu og erfiðu, forystu fram yfir þær þjóðir, sem í þessum efnum hafa mun meiri og lengri reynslu en við og miklu fleiri sérfræðingum á að skipa til að vinna að framgangi mála. Ég hygg, að málið hafi verið vakandi hjá ríkisstj. allan tímann, hún hafi fylgzt með því, sem gerðist. Eins og hæstv. utanrrh. tók fram, var málið mjög mikið deilumál í Svíþjóð á sínum tíma, og er ekki ýkjalangt, ég hygg eitthvað um það bil tvö ár, síðan það var leitt þar til lykta, en eftir harðar deilur. Það var fyrst á árinu 1963, sem málið varð mjög svo vakandi í Noregi. Eftir að samsteypustjórnin, sem þá tók við skamman tíma síðla á ári 1963, lýsti yfir áhuga fyrir málinu af sinni hálfu, varð ljóst, að það mundi bráðlega ná fram að ganga með samþykki allra. Þó er það ekki, þrátt fyrir þann undirbúning, sem áður hafði verið gerður, og þær yfirlýsingar, sem gefnar voru á árinu 1963, lengra komið en svo sem hæstv. utanrrh. nú lýsti yfir. Og í Danmörku er málið komið enn skemmra á veg. Eftir skýrslu Haralds Guðmundssonar er það ljóst, að málið mun verða leitt til lykta með nokkuð ólíkum hætti í hverju af þessum þremur Norðurlandaríkjum, sem um margt eru fyrirmyndir okkar í almennri löggjöf og þá ekki sízt í tryggingum. Og ég tel, að það sé síður en svo óeðlilegt eða lýsi sleifarlagi af hálfu ríkisstj., að hún vilji fá yfirlit um þessar mismunandi leiðir, áður en lagt er í svo viðurhlutamikla löggjöf hér á landi.

Nú er ég ekki nákunnugur undirbúningsstarfi því, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. lýsti, að unnið hefði verið á árunum 1958–1960, en jafnvel þó að það hafi verið samið af mikilli framsýni, er það ljóst, að þeir góðu menn gátu ekki séð fyrir þá þróun, sem síðan hefur orðið í þessum málum hjá okkar nágrönnum, sem við, eins og ég segi, ekki aðeins í þessu máli, heldur ótalmörgum öðrum, styðjumst mjög við í okkar löggjöf og verðum mjög að styðjast við, einfaldlega vegna þess, að okkur skortir sérfræðinga til að vinna mörg þau verk, sem þeir hafa nægan mannafla til að láta leysa af hendi.

Það er hins vegar enginn vafi á því, að um þetta mál eru mjög margar upplýsingar í þeirri skýrslu, sem Haraldur Guðmundsson nú hefur samið. Þar er lagður öruggur grundvöllur að lausn margra vafamála, sem upp hljóta að koma. Hvort þar eru öll þau vafamál, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur gert sér grein fyrir frá þeim tíma, að hann vann að þessum málum sérstaklega, get ég auðvitað ekkert fullyrt um. Hitt þori ég að fullyrða, að þessi skýrsla, sem hér er lögð fram, er mjög merkilegt heimildarrít, sem verður án efa talið til einnar höfuðstoðar við þá lagasetningu, sem mér skilst að allir séu sammála um að setja eigi.

En ég vildi einungis láta þetta koma fram, að það er ekki hægt að fallast á, að stjórnin hafi hér sóað tíma til einskis og látið sér lítt hugað um málið. Eins og málum er háttað, var ekki eðlilegt — ég vil ekki segja skynsamlegt að hafa á því hraðari gang en verið hefur. Og það er einnig ljóst eftir yfirlýsingar hinna flokkanna, að þar sem Sjálfstfl. er einnig að meginstefnu til samþykkur því, að slík löggjöf ætti að verða sett, standa vonir til þess, að sú löggjafarsamning gangi greiðlega, þó að hitt sé einnig ljóst, að vegna þess, hversu flókin hún er og hversu þetta varðar mörg efni, hlýtur hún að taka nokkur misseri.