02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2748 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

Almennur lífeyrissjóður

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af síðari ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. Niðurstaðan af þeim orðum hans var sú, að fram hjá þeirri staðreynd, yrði ekki komizt, að málið hefði legið í skúffu ríkisstj. í 3 ár og hefði ekki verið upp tekið, fyrr en framsóknarmenn á Alþ. hefðu borið fram þá þáltill., sem hér er áður búið að nefna. Nú vil ég á engan hátt gera lítið úr því starfi, sem unnið hafði verið áður, m.a. af þessum hv. þm., né heldur vefengja áhuga Framsfl. á þessu máli. En ég verð samt að hryggja hann með því, að það var ekki þáltill. Framsfl., sem varð til þess, að Haraldur Guðmundsson var skipaður til þess að vinna þetta verk. Það var þróunin í nágrannalöndum okkar, sem ríkisstj. fylgdist með og vissi, hvað þar var að gerast, þó að hún bæri það ekki á torg og auglýsti það hér á Alþ. En það var grannt fylgzt með því, sem þar var að gerast, og við töldum þá, 1964, málin komin á það stig, að nú mætti fara að hefjast handa og hefjast handa á þann hátt að byggja á þeirri reynslu, sem hægt væri að fá í þessum löndum, bæði reynslu af framkvæmdinni í Svíþjóð og af undirbúningsvinnunni, sem var þá komin vel á veg í Noregi. Danmörk hefur aftur ekki komizt eins langt, en þó var mjög gagnlegt að vita, hvað þeir hafa aðhafzt í málinu.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram. Mér þykir leitt að þurfa að segja það, að það hafi ekki verið till. framsóknarmanna, a.m.k. ekki eingöngu — það er bezt, að hver fái sitt, sem varð til þess, að málinu var hreyft, heldur hafi það verið vegna þróunarinnar, sem varð í nágrannalöndunum.