08.12.1965
Sameinað þing: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2754 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

Framkvæmd vegáætlunar 1965

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, var vegáætlun samþykkt 2. apríl s.l. fyrir árin 1965–1968. Enda þótt sú skýrsla, sem fram hefur verið lögð, taki flest fram, sem framkvæmdirnar snertir, þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um skýrsluna og hugleiða nokkuð ýmislegt, sem snertir vegamálin.

Nettótekjur vegasjóðs á árinu námu 263.7 millj. kr. Af framlagi til vegamála á fjárl. ársins 1965 voru dregin frá 20% vegna frestunar á framkvæmdum, samkv. heimild í 22. gr. fjárl. Vegna þess, að það er nú komið fram hjá hv. þm., að vafasamt væri, hvort ríkisstj. hafi haft heimild til þess að fresta framkvæmdum, er rétt að minna á, að í 22. gr. fjárl. er skýlaus heimild til þess að fresta öllum framkvæmdum, sem fé er veitt til á fjárl. 1965. Samkv. þessari heimild var ýmsum framkvæmdum á árinu frestað. Frestunin kom á framkvæmdaliði III—V á vegáætlun og nam 8 millj. 178 þús. kr., framlag til kaupstaða og kauptúna — samkv. vegáætlun VIII, 1 millj. 175 þús. kr., og framlag til tilrauna við vega- og gatnagerð, 47 þús. kr. Upphæðin var því samtals 9 millj. 400 þús., en það eru 20% af 47 millj. kr., sem eru á fjárl. ársins 1965.

Rétt þykir að gefa yfirlit yfir það, hvaða framkvæmdir það eru, sem frestað var. Í Reykjaneskjördæmi: Kjósarskarðsvegur; Vesturlandskjördæmi: brú á Örnólfsdalsá; Vestfjarðakjördæmi: brú á Suðurfossá, Svalvogavegur; Norðurl. v.: Heggstaðanesvegur, Þingeyravegur, Reykjabraut, Skagavegur, Kjálkavegur, brú á Svartá hjá Kornsá; Norðurl. e.: Kinnarvegur, Hörgárdalsvegur, Eyjafjarðarbraut, Stafnsvegur, Gilsbakkavegur; Austurl.: brú á Selá, Fagradalsbraut, Dalavegur; Suðurlandskjördæmi: brú á Jökulgili; smábrýr 500 þús., fjallvegir 168 þús.

Þetta eru margar upphæðir, en smáar flestar hverjar og nema, eins og áður er sagt, 8 millj. 178 þús. Framkvæmdum var frestað í hverju kjördæmi í réttu hlutfalli við fjárveitingar til kjördæmanna. Vegamálastjóri hafði haft tal af þm. um þessi mál og innt eftir því, hvaða framkvæmdum þeir vildu fresta, ef til þess kæmi. Ýmsir þm. létu álit sitt í ljós, en aðrir vildu ekki hafa bein afskipti af því. Frestun á framkvæmdum var að athuguðu máli ákveðin í samráði við vegamálastjóra. Gert er ráð fyrir, að þeim framkvæmdum, sem frestað var á þessu ári, verði lokið á árinu 1966. Hafa ofantaldar framkvæmdir því tafizt um eitt ár.

Samkv. vegáætlun var unnið að lagningu hraðbrauta á árinu, eins og kunnugt er. Í Reykjanesbraut var fjárveiting aðeins 6.8 millj. kr. og lán tekin til vegarins 115 millj. kr. Íslenzkir aðalverktakar unnu að undirbyggingu samkv. samningi á Strandaheiði og á afleggjara af Reykjanesbraut í Voga. Steyptir voru 18.3 km frá Kúagerði suður að Fitjum og 3.2 km malbikaðir á Fitjum og í Ytri-Njarðvík. Vegagerð ríkisins hefur unnið að frágangi á vegköntum og má því segja, að Reykjanesbrautin sé fullgerð að undanskildum kaflanum fyrir ofan Hafnarfjörð.

Fjárveiting til Þrengslavegar var 3.2 millj. samkv. vegáætlun. Var þetta fé notað til að byggja upp og lagfæra vegarkafla á Þrengslaleiðinni um Sandfell.

Að þjóðbrautum var unnið á árinu samkv. vegáætluninni. Lán til þjóðbrauta voru 17.4 millj. kr. og samkv. vegáætlun var gert ráð fyrir fé úr vegasjóði að upphæð 25 millj. 760 þús. Að lagningu landsbrauta var unnið fyrir lánsfé að upphæð 5.2 millj. kr., framlag úr vegasjóði samkv. vegáætlun var 27 millj. 590 þús. kr. Til fjallvega var varið samkv. vegáætlun 880 þús. kr. og reiðvega 180 þús. Ríkisframlag til sýsluvega var á árinu 10 millj. kr. Til brúagerða samkv. vegáætlun 15 millj. 485 þús. kr. Stórbrýr voru byggðar fjórar á árinu, þ.e. brú á Haffjarðará, 46 m löng, brú á Miðfjarðará 84 m, brú á Þverá í Út-Blönduhlíð 55 m og brú á Eldvatn hjá Ásum 55 m löng. Brýr 10 m og lengri voru byggðar samtals 12. Byggðar voru 20 smábrýr, 4–9 m. Lengd brúa, sem byggðar voru á árinu, er samtals 526.4 m. Undirbyggðir vegir á hraðbrautum voru 10.9 km, lagt slitlag á hraðbrautum 20.1 km, undirbyggðir vegir á þjóðbrautum voru 50.3 km, lagt slitlag á þjóðbrautum 33.4 km. Undirbyggðir vegir á landsbrautum voru 79.2 km, lagt slitlag á landsbrautum 120.3 km. Við sýsluvegi var unnið eftir því, sem efni stóðu til. Byggðar voru 5 smábrýr á sýsluvegum, samtals 32 m að lengd. Endanlegt yfirlit liggur ekki fyrir um framkvæmdir á sýsluvegum.

Til vega í kaupstöðum og kauptúnum var varið samkv. vegáætlun 28 millj. 593 þús. kr. Þar af fengu kaupstaðir 23 millj. 684 þús., en kauptún 4 millj. 909 þús. Þetta er hluti af því fé, sem ber að greiða til kaupstaða og kauptúna samkv. 32. gr. vegal. Auk þess var fé til sérstakra framkvæmda í kaupstöðum og kauptúnum, 10% af kaupstaðafénu samkv. 34. gr. vegal., 3 millj. 177 þús. kr. Var veitt til Selfoss á árinu 1 millj. kr. af þessu fé vegna vegagerðar gegnum kauptúnið.

Verði ný hraðbraut gerð gegnum Kópavogskaupstað, en úr því verður fljótlega skorið, mun mestur hluti af 10% framlaginu ganga til Kópavogs næstu árin vegna þeirra framkvæmda, sem munu verða mjög dýrar, ef í verður ráðizt. Til véla- og áhaldakaupa var varið 19.4 millj. kr. Er það að vísu há upphæð, miðað við það, sem lengi hefur verið, en þyrfti þó að vera miklu hærri. Það er kunnugt, að það eru aðeins örfá ár síðan byrjað var á að endurnýja vélaköst,vegagerðarinnar. Það var látið duga að kaupa gamlar vélar frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, en sem betur fer hefur orðið stefnubreyting hvað þetta snertir og með því sparazt mikið fé um leið og afköst við vegagerðina aukast. Þörf er á auknu fjármagni til vélakaupa fyrir vegagerðina.

Til tilrauna við vega- og gatnagerð var varið 2 millj 415 þús. Má segja, að þörf væri á meiri tilraunastarfsemi vegna vega- og gatnagerðar, því að enginn vafi er á því, að ýmislegt er óunnið á því sviði. Tilraunir með olíumöl hafa verið gerðar í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðahreppi. Endanlegt uppgjör um kostnað við þessar tilraunir liggur ekki að fullu fyrir, en áætlað er, að það muni kosta 55 kr. m miðað við 4.5 cm þykkt lag.

Sjálfsagt er að fá úr því skorið, hvort það svarar kostnaði að hafa þessa aðferð við vegagerð hér á landi. Til vegaviðhaldsins var varið, eins og vegáætlun gerir ráð fyrir, 92.5 millj. kr. Enda þótt það sé há upphæð miðað við mörg undanfarin ár, er þó augljóst, að þessi upphæð þyrfti að vera mun hærri til þess að vegaviðhaldið gæti verið í því horfi, sem æskilegt er. Það er og augljóst, enda oft verið á það minnzt, að fjölförnustu vegunum verður naumast við haldið með malaríburði. Það verður því sem allra fyrst að koma varanlegu slitlagi á þá vegi, sem hafa mesta umferð.

Lán til einstakra vega, boðin fram af sveitarfélögum, hafa verið tekin, ef það var talið hagkvæmt, svo sem með því að ljúka vissum áföngum. Skilyrði fyrir því er það, að lánið greiddist á næsta ári og framkvæmdin sé í vegáætluninni. Í árslok 1965 eru bráðabirgðalán úr héraði 11 millj. 296 þús., en voru aðeins hærri í árslok 1964, 11 millj. 560 þús. Það hefur verið að því fundið, að ekki skuli vera grg. um skiptingu viðhaldsfjárins til einstakra vega í þeirri skýrslu, sem árlega er lögð fram um vegaframkvæmdir. Það er vitanlega framkvæmdaatriði, hvort slík grg. er lögð fram eða ekki. Tel ég eðlilegt, að athuga það fyrir næsta ár, hvort vegamálastjóri telur nokkra sérstaka erfiðleika á slíkri skýrslugerð. Það er vitanlega ekkert leyndarmál, hversu mikið fé fer í snjómokstur, hversu mikið fé fer til þess að hefla vegi, og hversu mikið fé er notað til ofaníburðar. Þá er það heldur ekkert leyndarmál, hvernig féð skiptist milli einstakra kjördæma eða einstakra vega.

Þess ber að geta, að fyrirfram er ekki hyggilegt að ráðstafa öllu viðhaldsfénu, t.d. snemma á árinu. Snjór fellur misjafnlega niður og snjómokstur getur orðið mikill eitt árið og lítill annað árið. Vatnsflóð og skemmdir geta einnig alltaf komið og þá verður að hafa til fé, sem gripa má til utan þeirrar áætlunar, sem beinlínis er unnið eftir. Unnið hefur verið að vegagerð á Vestfjörðum samkv. Vestfjarðaáætluninni og er ekki þörf á að gera nánari grein fyrir því, þar sem málið hefur áður verið ýtarlega rætt.

Benzínsalan á árinu hefur orðið nokkru meiri heldur en áætlað var og hefur það orðið til þess að mæta verðhækkunum, sem orðið hafa við ýmsar framkvæmdir. Tekjur af gúmmígjaldi og þungaskatti hafa staðizt. Vegáætlun hefur því staðizt á árinu og allt verið framkvæmt, sem ekki var fyrirfram ákveðið að fresta. Hér á hv. Alþ. hefur mikið verið rætt um 47 millj. kr., sem eru á fjárl. þessa árs, en verða ekki teknar upp á næstu fjárlög. Ýmislegt hefur verið sagt í því sambandi og skal ég ekki fara nánar út í það við þetta tækifæri. Aðeins skal á það bent, að séð verður fyrir fé í stað áðurnefndra 47 millj. og staðið verður við vegáætlunina eins og gengið var frá henni á síðasta Alþ. Til viðbótar áðurnefndri fjárlagaupphæð verður séð fyrir fé á árinu 1966 til þess að vinna það, sem frestað var á þessu ári.

Það hefur oft verið á það bent, að benzíngjald og þungaskattur, sem nú er í ráði að lögfesta, hefði eins getað runnið í ríkissjóð og þannig hefðu 47 millj. kr., sem áður eru nefndar, getað áfram verið á útgjaldalið fjárl. Hvort það hefði verið betra fyrir vegamálin, þarf ekki að ræða. Það liggur í augum uppi, að svo hefði ekki verið. En mestu máli skiptir, að vegasjóður fái sem mest fé til framkvæmda, í fyrsta lagi til þess að standa við þá vegáætlun, sem fyrir liggur, og það má ekki bregðast, í öðru lagi, að vegasjóður fái aukið fjármagn um leið og heimild er til að endurskoða vegáætlunina. Sú heimild er fyrir hendi haustið 1966 og í ráði er að nota þá heimild. Benzíngjald og þungaskattur, sem nú verður lögfestur, mun nema á árunum 1967 og 1968 allt að 70 millj. kr. Auk þess er æskilegt að gera ráðstafanir til að fá enn aukið fjármagn í sambandi við endurskoðunina, til þess að seinni ár áætlunartímabilsins hafi mun rýmri fjárframlög til vegamálanna heldur en tvö þau fyrri. Í þeim tilgangi skipar ríkisstj. n. til að gera till. um aukin fjárframlög til vegamála og með hverjum hætti megi vinna að lagningu hraðbrauta og annarra vega, sem nauðsynlegastir eru, með auknum hraða.

Það er örugglega rétt, sem haldið var fram við umr. um vegal. 1963, að þörf fyrir stóraukið fjármagn til vegamála vex með ári hverju vegna fjölgunar ökutækja og aukinna krafna um betri vegi. Þetta eru allir alþm. sammála um. Þó er oft deilt um þessi mál, rétt eins og það sé uppi ágreiningur um þessar nauðsynlegu framkvæmdir. En þótt tímarnir hafi breytzt til batnaðar og þjóðin geri auknar kröfur, hefur verið þörf fyrir góða vegi í landinu fyrr en nú. Það hefur um langan tíma verið nauðsynlegt að verja meira fjármagni til vegamála en gert hefur verið, en fjárhagsgetan hefur alltaf verið takmörkuð og framkvæmdir á mörgum sviðum atvinnulífsins hafa kallað eftir fjármagni, sem ávallt hefur vantað. Þetta var ekki síður áður en núv. ríkisstj. kom til valda, og er fjarri mér að deila á einn eða annan fyrir það, að áður hafi verið of litlu varið til þessara mála, t.d.1958, þegar aðeins 80 millj. kr. voru notaðar til vegaframkvæmda. Það hefur sjálfsagt verið nauðsynlegt áður eins og nú að takmarka útgjöldin við það fjármagn, sem stjórnarvöldin töldu sig geta aflað. Eðlilegt er, að þetta sé haft í huga, þegar rætt er um framkvæmdir og fjármagn nú, þótt vaxandi tekjur og bættur þjóðarbúskapur standi undir auknum framkvæmdum eins og reynslan sýnir.

Það er rétt að geta þess að lokum, að á árinu 1965 hefur verið unnið að vegaframkvæmdum fyrir um 400 millj. kr. Á þessu ári var lokið við Reykjanesbrautina, sem hefur kostað um 260 millj. kr. Reykjanesbrautin er sýnishorn af því, hvernig fjölförnustu vegirnir eiga að vera og hver munur er á vegum með varanlegu slitlagi og hinum vondu malarvegum. Nú er mönnum Ijóst, hvernig vegirnir eiga að verða í framtíðinni. Reykjanesbrautin mun verða hvatning til þess að halda áfram vegagerð með varanlegu slitlagi. Enginn vafi er á því, að almennur skilningur er á að verja vaxandi fjárhæðum til vegamálanna, og þess vegna mun þjóðin leggja til fjármagn, sem gerir mögulegt að vinna að vegagerð hér á landi með líkum hætti og í nágrannalöndunum, þótt hér sé meira strjálbýli og erfiðari skilyrði til vegagerðar en víðast annars staðar.