08.12.1965
Sameinað þing: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2757 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

Framkvæmd vegáætlunar 1965

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka hæstv. samgmrh. fyrir þá skýrslu, sem hann hefur flutt Alþ. um framkvæmdir á vegáætluninni á þessu ári. Það er ekki ætlun mín að ræða þessa skýrslu almennt, heldur aðeins ætlaði ég hér að víkja að tveimur til þrem atriðum.

Eins og fram kom í skýrslu hæstv. ráðh., var 47 millj. kr. upphæðin, sem ríkissjóður lagði fram til vegamála, skorin niður eins og aðrir liðir fjárl., þegar til framkvæmdanna kom, um 20% eða í þessu tilfelli skertist 47 millj. kr. upphæðin um 9.4 millj. kr. Þannig hafa vissar vegaframkvæmdir, sem hæstv. ráðh. nefndi í skýrslu sinni, verið teknar til hliðar og látnar bíða. Ætlunin er þá sennilega að geyma fjármagn, sem þessu nemur, og taka til þessara framkvæmda í viðbót við þær framkvæmdir, sem vegáætlun gerir ráð fyrir á næsta ári. Það yrðu þá umframframkvæmdir á næsta ári sennilega. Það má því segja, að þetta sé aðeins tilfærsla á milli ára. En þetta sýnir okkur samt, að í framkvæmdinni getur svo farið, að viss verkefni, sem fjárlög og vegáætlun gera ráð fyrir, að framkvæmd verði, verði samt látin bíða. En ég held, að hæstv. ráðh. hafi svo ekki gert grein fyrir öðrum framkvæmdum, sem ekki var gert ráð fyrir í vegáætlun, en þó framkvæmdar á liðnu ári. Hefði sízt verið ástæða fyrir hæstv. ráðh. að geta ekki slíkra framkvæmda, því að þar væri sem sé gert betur heldur en Alþ. og vegáætlun hefðu ætlazt til. Ég minnist þess t.d., að fyrir síðasta Alþ. lágu frammi till. um það að koma Árneshreppi í Strandasýslu í akvegasamband í einum áfanga, í mesta lagi tveimur, en samkv. vegáætluninni var gert ráð fyrir, að þetta gerðist ekki fyrr en á næstu 3 árum. Till. um þetta voru hins vegar felldar af Alþ. Alþ. lagði bann við því, að þessar framkvæmdir yrðu gerðar, en samt sem áður var í þessa framkvæmd ráðizt á s.l. ári, utan við ákvörðun vegáætlunar og þvert ofan í samþykktir Alþ. Kannske þær framkvæmdir, sem Alþ. fellir, að skuli ráðizt í, fái nú svona forgang fram yfir ýmsar þær framkvæmdir, sem eru á vegáætlun og er skotið til hliðar af ráðh. og vegamálastjóra, því að mér er ekki kunnugt um, að það hafi t.d. verið haft samráð við þm. Vestfjarðakjördæmis um það, hvaða vegir skyldu bíða vegna 20% skerðingarinnar á framlögum til vegamála. Það virðist hafa verið gert að eindæmi ráðh. og vegamálastjóra, a.m.k. var ekki leitað neins samráðs við mig um það. Ekki heldur um það að ráðast í vegaframkvæmdir í Vestfjarðakjördæmi, sem Alþ. hafði fellt, að skyldi gert, og hefði þó áreiðanlega ekki staðið á mínu samþykki í því, þar sem ég var einn af till.-mönnunum, sem fylgdi því fram, að í þá vegaframkvæmd yrði ráðizt og hún fengist tekin á vegáætlun. En sem sé, það er mér mikil gleði, ef þær framkvæmdir, sem Alþ. fæst ekki til að samþykkja, verða öruggari og vissari með framkvæmd heldur en ýmsar þær framkvæmdir, sem fá náð fyrir augum hv. Alþ. og fást teknar inn á vegáætlun.

Ég vil nú spyrja um það, með hvaða hætti þetta gerðist, að vegaframkvæmdir, sem hér var fellt, að ráðizt skyldi í á árinu, voru samt teknar fyrir og framkvæmdar, góðu heilli. En það hefði verið æskilegra, að till. um þessar framkvæmdir hefðu verið samþ. á Alþ. og Alþ. hefði gefið heimildirnar. M.ö.o., ýmislegt, sem hefur verið samþ. samkv. vegáætlun, að skyldi framkvæmt, hefur ekki verið framkvæmt og ýmislegt, sem ekki komst á vegáætlun og Alþ. lagði bann við, að skyldi gert, hefur verið framkvæmt. Þannig er nú rúmt um hendur framkvæmdavaldsins, þrátt fyrir lagasetningar og áætlanir eins og vegáætlun.

Um framkvæmdir við vegi á Vestfjörðum sagði hæstv. ráðh., að þær hefðu farið eftir Vestfjarðaáætluninni og vil ég eingöngu í því sambandi segja það, að mér finnst nú tími til þess kominn, að a.m.k. þm. Vestfjarða eigi þess kost að sjá hina margumræddu Vestfjarðaáætlun, því að hún hefur ekki fengizt fram í dagsljósið enn. Og þegar gerð var fsp. um þetta fyrir bara nokkrum vikum á hv. Alþ., sagði einn sá hv. þm., sem gerst má um vita: Hver getur séð það, sem ekki er til? En nú vitnar hæstv. samgmrh. til Vestfjarðaáætlunarinnar og segir, að eftir henni hafi verið farið um framkvæmdir vegamála á Vestfjörðum s.l. ár. Ég er svo forvitinn, að mig langar til að fara að sjá þetta plagg, sem svo oft er vitnað til hér í sölum Alþ. Hins vegar hef ég nú heyrt það síðustu vikurnar, að það sé komin nýlega til landsins frumútgáfa af svokallaðri Vestfjarðaáætlun frá Noregi og það sé verið að vinna að þýðingu hennar á íslenzku núna í Efnahagsmálastofnuninni. Mundi þetta vera satt? Mundi þetta vera rétt? Ég gæti vel trúað því, að þetta væri rétt, því að það er sennilega ætlunin að tyggja fyrst upp á íslenzku og láta endurtyggja það upp á norsku og tyggja það svo aftur á íslenzku í hv. alþm. og þá fyrst rennur upp sú stund kannske, að við fáum að sjá hina margrómuðu og margumtöluðu Vestfjarðaáætlun.

Ég var nú dálítið hissa á því, að hæstv. ráðh. skyldi minnasl á 47 millj. í fjárl., sem áttu að fara til vegamála. Það hefði vissulega verið langskemmtilegast, að þær 47 millj., sem lofað var á sínum tíma til vegamála frá ríkissjóði, stæðu a.m.k. út tímabil vegáætlunarinnar á fjárl., en að sú upphæð væri ekki látin hverfa og gripið til nýrrar skattlagningar á borgarana til þess að fullnægja þeirri upphæð og þá einhverri umframupphæð til þess að verðgildi 47 millj. héldist nokkurn veginn í framkvæmd. Ég hefði talið, að það hefði verið miklu skemmtilegra, að 47 millj. hefðu verið áfram í fjárl. og þannig fyllilega staðið við gefin loforð, því að það er ekki til þess að efna gefin loforð að láta þessar 47 millj. hverfa og leggja svo nýja skattabyrði á gjaldþegnana, til þess að hægt sé að fullnægja þeirri upphæð eða ríflega henni. Það er aldrei hægt að sannfæra nokkurn mann um það. Það var án nýrrar skattlagningar á þegnana, sem 47 millj. áttu að koma til skila til framkvæmda í vegamálum.

Ég læt þessum aths. mínum lokið við skýrslugerð hæstv. ráðh., er honum þakklátur fyrir að hafa gefið skýrsluna, því að ég tel, að á fleiri sviðum þurfi að fá skýrslur um það, sem verið er að framkvæma án vitneskju Alþ. T.d. fyndist mér ekki úr vegi, að Raforkuráð ríkisins gæfi árlega skýrslu um framkvæmdir í raforkumálum. Þau mál eru eiginlega sloppin úr höndum Alþ. að öllu leyti og maður heyrir sjaldan orð um framkvæmdirnar á því sviði, auk þess, sem það er bagalegt, að þm. geti ekki fengið að fylgjast með undirbúningi framkvæmdaáætlana á því þýðingarmikla sviði fyrir fólkið í landinu. En það, sem ég vildi sér staklega fá að vita, er þetta: Hvernig stendur á því, að þær framkvæmdir geta fengið forgang, sem Alþ. samþykkir, að ekki séu framkvæmdar, fellir till. um, en hins vegar geti það orðið örlög ýmissa framkvæmda, sem Alþ. ákveður, að þær séu án samráðs við þm. viðkomandi kjördæma ekki framkvæmdar, látnar bíða ófyrirsjáanlegan tíma?