08.12.1965
Sameinað þing: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2760 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

Framkvæmd vegáætlunar 1965

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í það að ræða mikið þá skýrslu, sem hæstv. samgmrh. var að lýsa hér og vegamálaskrifstofan hefur samið og er feginn því, að það skuli þó ekki eiga að draga lengur en til næsta árs að framkvæma verkefni, sem átti að leysa á yfirstandandi ári. Ég hef áður lýst því yfir, að ég tel, að hæstv. ráðh. eða þeir, sem framkvæmdu vegáætlunina 1965, hafi ekki haft neina heimild til þess að fresta framkvæmdum þeim, sem frestað var, og endurtek það og spyr enn þá um það, hvaðan slík heimild var komin? Það er engin heimild í vegáætlun um það, að frestun væri framkvæmanleg og þess vegna er hana ekki að finna. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs var það, sem hæstv. ráðh. vék að, 47 millj., sem hann lét með þingfylgi sínu fella út af fjárl. við atkvgr. nú fyrir nokkrum dögum. Hæstv. ráðh. sagði, að mestu máli skipti, að fé fengist til framkvæmdarinnar, en ekki hvernig það væri tengið. Þá höfum við það, að það skiptir ekki máli, þó að skattar og nýjar álögur séu á þjóðina lagðar, aðeins það sé hægt að ná þeim, sé það aðalatriði, en það sé algert aukaatriði, hvort þar sé um hækkaða skatta eða nýjar álögur að ræða eða ekki. En þetta mál er ekki svo einfalt sem hæstv. ráðh. vill vera láta. Þegar vegal. voru afgreidd hér á þingi 1963, var það grundvallaratriði vegal., að þeir tekjustofnar, sem þá voru sérstaklega teknir til vegagerðar í landinu, þ.e. benzínskattur, þungaskattur og gúmmígjaldið, skyldu ganga beint til vegamálanna, og þar voru til möguleikar til þess að auka fjárveitingar til vegagerðar í landinu. Það var ekki ætlazt til þess eða búizt við því þá, að hæstv. ríkisstj. léti sér til hugar koma að taka hækkun á þessum tekjustofnum til ríkissjóðs, eins og ráðh. vék að, að hefði mátt gera og þannig láta þessar 47 millj. kr. standa. Það datt engum hv. þm. það í hug, að inn á það svið yrði horfið að taka þetta upp aftur sem tekjustofn til ríkissjóðs, heldur væri þarna möguleiki til þess að mæta auknum og nýjum verkefnum í vegagerð með því að hækka þessa tekjustofna. Það var það atriði, sem lagt var til grundvallar við samkomulagið um vegalögin frá 1963. Og það er ekki rétt skýring á málavöxtum að halda því nú fram, að það sé sama, þó að þessir möguleikar séu notaðir til þess að fella niður fjárveitingu, sem þá var ákveðin, því að það er augljóst, að með þeirri hækkun, sem nú er búið að gera á þessum tekjustofnum, er búið að rýra möguleikana til þess að ná auknu fé til vegagerðar í gegnum þessa tekjustofna. Og það bætir ekki að neinu leyti úr um þetta, þó að hæstv. ráðh. segi frá því aftur og aftur, að hann sé búinn að skipa nefnd til þess að leita nú að nýjum skatti, sem hann gæti notað til framkvæmda í vegamálum. Það staðfestir aðeins það, að með því að nota þennan möguleika, sem þarna var fyrir hendi, til þess að fella niður 47 millj., vantar möguleika til þess að mæta aukinni fjárveitingu vegna vaxandi þarfa í vegaframkvæmdum í landinu. Og ég vil enn á ný leiða fram eitt vitni til þess að sanna, að hæstv. ráðh. hafði ekki þessa skoðun á málinu 17. des. 1963. Þá taldi hann það ekki þýðingarlaust, að fjárveiting væri á fjárl. til vegaframkvæmda, því að í framhaldi af því, sem ég las hér um daginn og vitnaði þá til úr ræðum hæstv. samgmrh., vil ég, með leyfi hæstv. forseta, enn á ný vitna til ræðu hans frá 17. des. og minna á viðhorf hans þar. En þar segir hæstv. ráðh. þetta m.a., þegar hann er að ræða um till. hv. 5. þm. Austf. um að binda það í vegal., að fjárveiting á fjárl. ríkisins verði aldrei minni en 1/4 móti þeim tekjustofnum, sem þá var verið að lögfesta:

„Það mætti vel segja mér það, að þótt hv. 5. þm. Austf. telji það nú vel í lagt að tryggja að 1/4 framlag úr ríkissjóði, þá mætti segja mér það, að eftir tiltölulega fá ár þætti 1/4 ekki ríflegt framlag, og ég mundi þess vegna segja, að þessi till., og þetta spor, sem þessari till. er ætlað að marka í vegal., gæti orðið miklu frekar til skaða heldur en gagns, vegna þess að með þessu er ætlazt til, að það sé ákveðið, að framlagið skuli a.m.k. vera 1/4 vegna þess að það þykir ríflegt. En svo gæti komið í ljós eftir örfá ár, að þetta væri ekki ríflegt framlag, heldur of lítið“.

Haldið þið, hv. þm., að hæstv. ráðh., sem þannig talaði fyrir tveim árum, hafi talið það einskis virði að fá fjárveitingu samkv. fjárl., þó að nú sé því haldið fram, að það skipti engu máli, ef það sé hægt að reyta þessar kr. með því að nota þá tekjumöguleika, sem allir hv. þm. vissu, að voru til staðar í þeim tekjustofnum, sem þeir voru að samþykkja með vegal. Þess vegna endurtek ég mótmæli mín. Að fella niður 47 millj. af fjárl. er brot á samkomulagi því, sem gert var við vegal. 1963. Og hæstv. ráðh. er til þess að klóra í bakkann nú að nota þá möguleika, sem hv. alþm. ætluðu sér að nota vegna aukinna verkefna og nýrra verkefna í vegagerð, sem hann lýsti, að væru til staðar. Þess vegna get ég endurtekið það, að mér eru það sár vonbrigði, að hæstv. samgmrh. skuli ekki standa betur við orð sín en svo, að eftir tvö ár skuli hann hverfa frá margendurteknum yfirlýsingum í þessu máli. Og ég verð að segja það, að þó að ég hafi hæfilegt traust á hæstv. ráðh., hafði ég ætlað honum stærri hlut heldur en þann, sem hann hefur nú staðið fyrir í sambandi við afgreiðslu á þessu máli. Og það breytir hér engu um, þó að hæstv. ráðh. viðurkenni, að hann er að nota þá möguleika, sem voru fyrir hendi í vegal., þegar hann er að skipa n. til þess að reyna að finna nú nýja tekjustofna, leggja nýja skatta á þjóðina til þess að mæta þeim 47 millj. kr., sem hann hefur svipt vegamálin í landinu með afstöðu sinni til fjárlagaafgreiðslunnar.