08.12.1965
Sameinað þing: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2762 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

Framkvæmd vegáætlunar 1965

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú leiðinlegt að heyra af vörum svo guðhrædds manns sem hv. l. þm. Norðurl. v. er, að hann skuli fullyrða eins og hann gerði hér áðan og byggja fullyrðingarnar á jafn hæpnum forsendum og hv. þm. leyfði sér að gera. Hv. þm. tala hér eins og þeir hafi ekki vitað um þá heimild, sem ríkisstj. var gefin af hv. Alþ., þegar fjárlög fyrir árið 1965 voru afgreidd. Þau fjárlög voru afgreidd 22. des. 1964 og í 40. lið, 22. gr., er heimildin orðuð eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að fresta til ársins 1966 verklegum framkvæmdum ríkisins, sem fé er veitt til í fjárl. fyrir árið 1965. Sama gildir um greiðslu framlaga til annarra aðila, sem ákveðin eru í fjárl. 1965“.

Nú sagði hv. 1. þm. Norðurl. v. hér áðan, að það væri ekki hægt með fjárlagaheimild að ákveða að fresta framkvæmdum, sem búið væri að ákveða með öðrum l., og vitnaði þá í vegal. Vegáætlunin er áætlun, er þál., þó að hún sé byggð á vegal., eru ekki einstakar framkvæmdir teknar fram þar eða hversu mikil upphæð sé notuð til hverrar framkvæmdar í vegal., heldur í þeirri þál., sem vegáætlunin er. Það liggur þess vegna í augun uppi, enda margskoðað af færustu mönnum, að hér er um skýlausa heimild að ræða til handa ríkisstj. og ég er alveg undrandi, að hv. alþm. sem hafa reynslu af langri setu á Alþ., skuli vera hér með þann orðaleik, sem þeir eru í sambandi við þetta mál. að það hafi verið misnotað, það vald, sem ríkisstj. var gefið með þessari heimild. Annars vegar er talað um, að henni hafi verið gefið vald, hins vegar að hún hafi ekki haft heimild. Ég átti nú ekki von á því, að það væri sagt, að hér hefði verið um misnotkun að ræða, vegna þess að frestun framkvæmdanna byggðist á sama hundraðshluta í öllum kjördæmum. Og það er víst, að vegamálastjóri talaði við marga þm. úr kjördæmunum og leitaði eftir áliti þeirra um það, hvaða framkvæmdir það væru, sem helzt kæmi til greina að fresta, en eins og ég lýsti áðan, voru sumir þm. þannig, að þeir vildu ekki afskipti hafa af málinu. Aðrir gáfu nokkrar leiðbeiningar, en frestun varð að eiga sér stað. (HV: Og ekki voru þó allir spurðir, hæstv. ráðh.). Það tel ég ekki gott. Ég hefði talið æskilegast, að allir hv. þm. hefðu verið spurðir, og ég verð að segja það, að það er ekki viljandi gert, ef hv. 5. þm. Vestf. hefur ekki verið spurður (SE: Ég var heldur ekki spurður.) — alls ekki viljandi gert. Og ég hefði talið, að það hefði verið betra, að sem flestir hefðu verið spurðir og helzt allir, og það væri þá helzt það, sem væri ástæða til þess að biðja afsökunar á, en ekki hitt, að hér hafi verið um misnotkun að ræða eða misrétti beitt.

Og svo að ég snúi mér að hv. 5. þm. Vestf., af því að hann talaði hér áðan, vil ég að sjálfsögðu leitast við að svara því, sem hann spurði um. Hann spyr um það, hvernig stendur á því, að Strandavegur er lagður, eftir að till. um fjárframlög í þann veg voru felldar hér á hv. Alþ. Út af fyrir sig er eðlilegt, að þm. spyrji, úr því að hann ekki vissi um ástæðuna. En ástæðan var einfaldlega sú, að margir Vestfjarðaþm. leituðu fast á um það, enda þótt ekki væri í vegáætluninni framlag til vegarins, að það væri samt gerð undantekning á Strandavegi vegna sérstöðunnar, sem Árneshreppur hefur, og vegna þess að ísinn hafði verið við strendurnar langt fram á vor og þetta er einangrað byggðarlag. Og þótt ekki hafi verið samþykki fyrir því, áður en þingi sleit, að ráðast í þessa framkvæmd, verð ég að segja það, að ríkisstj., eftir að hafa kynnt sér málið gaumgæfilega, féllst á það, að í Árneshreppi væri um svo mikla sérstöðu að ræða og svo miklar þrengingar eftir ísinn og einangrunina, að það væri forsvaranlegt að gera undantekningu þarna, og satt að segja hélt ég, að hv. 5. þm. Vestf. hefði verið hafður með í ráðum, þegar leitað var eftir því, að ríkisstj. gripi hér inn í. Og þess vegna var það ákveðið að taka nokkra upphæð inn á fjárhagsáætlun 1966 til þess að reyna að koma Árneshreppi í vegasamband. Ég á alls ekki von á því, að ríkisstj. fái ákúrur fyrir að hafa gert þetta. Ég er alveg viss um, að það verður ekki og a.m.k. þeir, sem stóðu að tillöguflutningi um fjárframlög til vegarins, eru vitanlega sama sinnis og þá, og það er vitanlega gott fyrir málið og var gott fyrir Árneshrepp, að ýmsum af þeim, sem greiddu atkv. á móti fjárframlögum hér á hv. Alþ., snerist hugur eftir að hafa fengið glöggar upplýsingar um málið og voru reiðubúnir til að styðja það. Og ég er alveg sannfærður um það, að þarna var sérstök aðstaða og alveg eðlilegt að grípa þarna inn í óg gera undantekningu. Hv. 5. þm. Vestf. hafði ekki sterk orð um það, að nokkrum framkvæmdum var frestað og tel ég, að hann hafi litið sanngjarnari augum á það heldur en ýmsir aðrir stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað, og þarf ég þá ekki að fara frekar út í það, en hv. þm. var dálítið undrandi á því, að ég hafði minnzt hér á Vestfjarðaáætlun í sambandi við vegaframkvæmdir á þessu ári. Vegaframkvæmdir á Vestfjörðum voru vitanlega byggðar á vegáætluninni og að vissu leyti á Vestfjarðaáætluninni, þeirri áætlun, sem að vísu er ekki enn fullgerð, en þar er í vegagerð, hafnarmálum og flugmálum sérstök áætlun, sem byggist á lántökum frá Viðreisnarsjóði Evrópu og til fróðleiks vil ég gjarnan, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp, hvaða vegir það eru í Vestfjarðakjördæmi, sem unnið var að á s.l. sumri fyrir fé úr Viðreisnarsjóðnum.

Það er Rauðasandsvegur 0.2 millj., Bíldudalsvegur, þ.e. Patreksfjörður-Bíldudalur, 1.5 millj., Flateyrarvegur 0.5 millj., Djúpvegur, Ísafjörður-Súðavík 1.5 millj., Bolungavíkurvegur 1 millj., Örlygshafnarvegur 0.5 millj. Þetta eru 5.2 millj. og liggur þetta þá alveg ljóst fyrir, og hv. þm. hefur vitanlega áður verið búinn að gera sér grein fyrir því, en ég vil nefna þetta Vestfjarðaáætlun, sem framkvæmd er í sambandi við fé úr Viðreisnarsjóðnum, þó að sú áætlun grípi ekki yfir nema 3 þætti í kjördæminu, þ.e. samgöngumálin. Ég hygg, að eftir atvikum verði nú hv. 5. þm. Vestf. ánægður með þessar upplýsingar.

Hv. 3. þm. Vesturl. verður væntanlega ekki eins ánægður, enda hagaði hann máli sínu á allt annan veg og talaði um 47 millj., og það er eins og þessi hv. þm. trúi því, að ef 47 millj. væru á fjárl., væri vegamálunum miklu betur borgið heldur en ella. Hv. þm. talar um, að það sé lítil afsökun, það sé lítið til þess að stæra sig af, þótt ríkisstj. skipi nefnd til þess að leita að nýjum sköttum. Þessi n. getur nú gert ýmislegt fleira, henni er ætlað að gera ýmislegt fleira. En það veit hv. 3. þm. Vesturl., sem árum saman hefur setið í fjvn. og verið bæði stjórnarstuðningsmaður og stjórnarandstæðingur í þessari n., hann veit það, að það hefur alltaf verið keppt að því að láta útgjöld og tekjur a.m.k. standast á og helzt hafa einhvern tekjuafgang. Og ef það hefur vantað tekjur, hefur verið leitað eftir sköttum. Þetta hefur alltaf gerzt, hverjir sem hafa verið í ríkisstj. Nú gæti vel verið, að þessi n., sem skipuð verður, gæti bent á einhverja tekjustofna, sem annaðhvort rynnu þá í ríkissjóð eða til vegaframkvæmda beint. Við skulum segja, að það þyrfti að finna einhverja nýja tekjustofna til þess að geta látið vegamálin fá nýtt fé og þeir tekjustofnar fyndust. Þá mætti vitanlega alveg eins láta þær tekjur ganga beint til ríkisins og gera hv. 3. þm. Vesturl. það til þægðar að láta vegina fá eitthvað af því, sem hann og fleiri hv. þm. kalla tekjur af umferðinni. Þetta væri allt saman matsatriði og skiptir í sjálfu sér ekki máli, hvernig þetta dæmi er fært upp, hvaða peningur það er, sem fer í ríkissjóðinn, hvaða peningur það er, sem fer í vegina. Hitt verður alltaf aðalatriðið hjá ábyrgri ríkisstj. og ábyrgum þm. að fá jöfnuð á fjárl. Og þess vegna er það vitanlega ekki neinn hagur fyrir vegagerðina, þó að 47 millj. hefðu verið áfram á fjárl., en benzíngjald og þungaskattur, hækkunin, sem af því leiðir, sé látin renna í ríkissjóð. En þá hefði vitanlega hv. 3. þm. Vesturl. ekki verið með ádeilur á mig fyrir það, að 47 millj. hefðu verið teknar út. Þá hefðu ekki verið hér á Alþ. svikabrigzl, þá hefði ég ekki brugðizt trausti þessa hv. þm. Ég hafði haldið, að hv. þm. væru upp úr því vaxnir að vera með slíka orðaleiki, sem hér hafa verið viðhafðir, enda þótt það geti þótt praktískt að reyna að ná taki á pólitískum andstæðingi. Það er þetta, sem ég tel, að hv. þm. ættu, þegar í alvöru er rætt um hagsmunamál eins og samgöngumálin eru, að gera sér grein fyrir, hvað er aðalatriði og hvað er aukaatriði og sannleikurinn er sá, að ég gæti bezt trúað því, að ekki borgaði sig málflutningur af því tagi, sem hv. 3. þm. Vesturl. hefur viðhaft hér í dag um þetta mál og sem hann hefur áður viðhaft hér á hv. Alþ.