08.12.1965
Sameinað þing: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2764 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

Framkvæmd vegáætlunar 1965

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af ræðu hæstv. samgmrh., sem ég vildi gera aths. við.

Í sambandi við vegáætlunina og frestun á framkvæmdum, sem hér var til umræðu, vil ég benda á það, að vegáætlunin var til meðferðar hér á hv. Alþ. sömu dagana og hæstv. ríkisstj. lét sitja í því að skera niður framkvæmdir, m.a. á henni. Ég vil líka benda á það, að eftir að sá niðurskurður var fram kominn, var vegáætluninni breytt hér á hv. Alþ. viðvíkjandi lántöku í Keflavíkurveginn, og ég lýsti því yfir þá, að ef rétt ætti að fara að því máli, ætti að breyta einnig framkvæmdaatriðum vegáætlunarinnar, en ekki með því, að ríkisstj. ákvæði, hvaða framkvæmdum skyldi frestað, eins og gert var. Og ég vil geta þess, að það hefur aldrei verið borið undir mig, hvort ætti að hætta við að byggja brú uppi í Mýrasýslu eða ekki. Sú ákvörðun var tekin, án þess að ég væri um það spurður, og það sýnir, hvernig hæstv. ríkisstj. vinnur að málum, að það er borið undir stjórnarstuðningsmenn, hvernig með málið skuli farið, en við okkur andstæðingana er ekki verið að tala um slíkt. En þetta var gert í þessu atriði, það veit hv. 2. þm. Vesturl. eða ætti a.m.k. að vita. En ekki meira um það.

Hæstv. ráðh. er hissa á því, að ég skuli halda ræðu hér á hv. Alþ. og halda uppi umtali um það, að hæstv. ráðh. standi ekki við orð sín. Og hæstv. ráðh. er hissa á því, að ég skuli telja, að það sé verr fyrir vegamálunum séð með því að fella þessar 47 millj. kr. niður af fjárl. ríkisins heldur en áður var. Ég vil enn á ný minna á hneykslið frá 17. des. 1963, þegar var verið að ræða þennan þátt á hv. Alþ. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, endurtaka þetta, sem þá var sagt, og það var ekki sagt af mér, heldur af hæstv. samgmrh., Ingólfi Jónssyni. Hann sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Engin hætta er á því og alveg útilokað, að ríkisframlag til vega verði lækkað, það er alveg útilokað.“ Af hverju sagði hæstv. ráðh. þetta 1963? Var hann að blekkja þm.? Ætlaði hann sér þá að láta fella þetta rólega niður eftir tvö ár? Nei,hæstv. ráðh. ætlaði sér það ekki. Það ætla ég honum ekki. Nú er hann hins vegar kominn í vandræði, af því að hann er búinn að láta hafa sig út í þetta, og þá er klórað í bakkann og þá eru það bara andstæðingarnir, sem eru ekki skemmtilegir menn í viðskiptum, að þeir skuli nú ekki sætta sig kalt og rólega við það, þó að yfirlýsing frá ráðh. sé einskis virði. Ég benti á það hér fyrir nokkrum dögum í umræðum, að þegar hæstv. forsrh. komst að raun um það í fyrra, að hans orð voru skilin þannig, að hann hefði lofað því, að ekki yrði lagður á nýr skattur til þess að mæta greiðslu vegna vísitölukostnaðar á árinu 1964, þá sagði hæstv. ráðh.: Ég vil ekki, að það sé hægt að halda því fram, að hér hafi átt sér stað nein svik. Og fyrst mennirnir eru í góðri trú, og það er ég sannfærður um, að þeir eru, þá hef ég lagt til við ríkisstj. að lækka söluskattinn um 1/2%, er gefi þá upphæð, sem hér var deilt um, 60–70 millj. kr.

Þá gilti ekki reglan, að það þurfi að ná endunum saman á fjárlögum. Það er mér fullkomlega ljóst og veit vel, að það á ekki að vera vandaverk að ná saman endunum á fjárl. í mesta góðæri, sem yfir Ísland hefur gengið, fyrst það hefur tekizt í misjöfnum árum. Það sýnir stjórnleysi hæstv. ríkisstj., en það er önnur saga. En hæstv. ráðh. á ekki að þola það, að hans yfirlýsingar séu svo lítils virtar, að þær séu ekki 47 millj. kr. virði. Þess vegna átti hæstv. ráðh. aldrei að ganga inn á það, að þessi útgjaldaliður fjárl. væri felldur niður, það varð að finna aðrar leiðir til þess að mæta þeirri fjárupphæð. Og hæstv. ríkisstj. hefur nú farið að leita að nýjum tekjustofnum, þó að þessi leið væri valin. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., það er orðið rannsóknarefni á Íslandi að finna nýja tekjustofna, því að hæstv. ríkisstj. er búin að þrautleita svo að þeim, að hún verður að skipa n., ef hún á að finna fleiri. Það er alveg orðið vonlaust, því að hún lætur tekjustofn fylgja hverju máli, og það er ekki endalaust hægt að finna þá, og þess vegna skil ég það, að nú er svo komið, að þeir verða að skipa n. til þess að rannsaka, hvort ekki er hægt að finna nýjan tekjustofn, og það er það, sem ég var að halda hér fram áðan, að þeir mundu reyna að gera.

En hitt er aðalatriði málsins, að hæstv. ráðh., hver sem hann er, hvort hann heitir Ingólfur Jónsson eða Bjarni Benediktsson, á hann að standa við orð sín og yfirlýsingar og yfirlýsingarnar frá því í des. 1963 um þetta atriði eru absalútar frá hæstv. ráðh. og þess vegna er það ekki að standa við orð sín, ef út af er brugðið. Þess vegna mun ég í þetta sinn sem framvegis mótmæla því, ef hæstv. ráðh. standa ekki við yfirlýsingar sínar á hæstv. Alþ., eins og hér hefur verið réttilega að vikið.