08.12.1965
Sameinað þing: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2767 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

Framkvæmd vegáætlunar 1965

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér skildist á hæstv. samgmrh. áðan, að það hefði verið haft samráð við þm. víða um land viðkomandi þeim niðurskurði á fjárveitingum til vegamála og brúagerða, sem framkvæmdur var á þessu ári, og jafnvel, að það hafi fengizt samþykki þeirra í ýmsum tilfellum. Út af þessu vil ég spyrja hæstv. ráðh. Samþ. einhverjir af þm. Norðurl. v. að fella niður að öllu leyti fjárveitingar til Heggstaðanesvegar og Þingeyravegar í Húnavatnssýslum og ef svo er, hverjir voru þeir þm. úr því kjördæmi, sem samþ. þetta? Samþ. þeir einnig, að það yrði kippt burtu meira en 47% af fjárveitingunni til Kjálkavegar í Skagafirði, þrátt fyrir útgefna yfirlýsingu ríkisstj. um það, að þessi framlög yrðu lækkuð um 20%? Ég vildi óska þess, að hæstv. ráðh. gæfi mér upplýsingar um það, hverjir af þm. úr þessu kjördæmi hafa samþ. þetta, ef þeir eru einhverjir, sem hafa gert það.

Með því að kippa alveg burtu fjárveitingum til einstakra vegaframkvæmda, sem Alþ. var búið að ákveða, og með því svo að veita fé til framkvæmda, sem Alþ. var búið að fella, að skyldi gert á þessu ári, er ríkisstj. að hrifsa til sín löggjafarvaldið, sem ekki á að vera hjá henni, heldur hjá Alþ.

Ég var nú dálítið kunnugur þessu máli Arneshreppsbúa, hvernig það gekk til á síðasta þingi. Ég var í þn., sem fjallaði um till. um það að rjúfa einangrun Árneshrepps. Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. 5. þm. Vestf. var að ljúka við að segja, að einangrunin var tilkomin áður heldur en ráðizt var í þessa vegagerð á síðasta sumri og ísinn var búinn að vera þar lengi, þegar þessi till. var felld hér af stjórninni og hennar liði seint á síðasta þingi. En það, sem hér kom til í fyrrasumar, var auðvitað það, að ríkisstj. skammaðist sín fyrir það, sem hún hafði gert, að láta fella þessa till. Og það er út af fyrir sig gott, að hún skyldi í einu tilfelli þó kunna það, það þyrfti hún að gera miklu oftar. Ef hún gerði það eða kynni það yfirleitt, mundi það ekki koma fyrir, að það væri felld niður af fjárl. upphæð, sem ríkisstj. er búin að lofa hátíðlega, að skyldi standa þar og ekki verða lækkuð, hún sé felld alveg burt. Nú er það þannig, að hæstv. samgmrh. segir, að það sé nánast matsatriði. hvort ríkisstj. standi við gefin loforð eða ekki. Ég held, að við þm. þyrftum að fara að athuga það við hæstv. forseta, hvort við mættum ekki fá undanþágu frá þeirri venju að ávarpa ráðh. hæstv., meðan maður, sem þannig kemur fram, situr í ráðherrastóli.