27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2785 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1966

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Skýrsla sú, sem hæstv. fjmrh. hefur gefið hér, um stöðuna í efnahagsmálum og þróun efnahagsmála á undanförnum árum, er þess eðlis, að ástæða væri til þess, að hér færu fram nokkrar umr. um þessa skýrslu. Hins vegar kemur hún þannig fram hér, að eðlilegt væri, að umr. gætu farið fram um þessa skýrslu hæstv. ráðh. nokkru síðar heldur en nú á þessum fundi, því að hér er greint frá mörgum tölum og ýmsum upplýsingum, sem ekki er auðvelt að henda reiður á, þegar þær eru lesnar í fyrsta sinn. Og þó að sumt af því, sem sagt hefur verið, sé byggt á gögnum, sem hér hafa verið lögð fram, fer því þó fjarri, að þannig sé um mikinn hluta af þessari skýrslu, sem hér var flutt. Ég vildi því alveg sérstaklega fara fram á það, að aðstaða yrði veitt til þess að ræða þessa skýrslu nokkru nánar hér síðar, ekki sízt vegna þess, að nokkrar ályktanir, sem hér voru dregnar, og fullyrðingar, sem hér voru settar fram, eru þess eðlis, að ég tel, að þær fái ekki staðizt. En sem sagt, ég hefði viljað hafa aðstöðu til þess að hafa hér tölur til þess að sanna þetta álit mitt.

Ég tók sérstaklega eftir því, að hæstv. fjmrh. hóf mál sitt með því að reyna að færa sönnur á það, að hinar miklu og vaxandi þjóðartekjur á liðnum 4 árum hefðu skipzt þannig út meðal landsmanna, að launastéttirnar í landinu mættu una við sinn hlut, því að þær hefðu haldið fullu hlutfalli við vaxandi þjóðartekjur. Þetta tel ég, að sé mjög villandi og fái ekki staðizt. Í fyrsta lagi er það villandi að því leyti til, að það segir mjög lítið í þessum efnum að taka í einn hóp allar launastéttir í landinu, t.d. að taka þar saman raunveruleg laun sjómanna á undanförnum árum, ýmissa iðnaðarmanna, sem mjög hafa verið yfirborgaðir við störf sín, og svo aftur á móti laun almennra verkamanna. Á því er enginn vafi, að laun sjómanna hafa hækkað á síðustu árum mjög verulega vegna hins mikla afla og allra þeirra miklu breytinga, sem þar hafa átt sér stað í sambandi við okkar fiskveiðar, og í hópi sjómanna eru ýmsir þeir, sem nú hafa tiltölulega hæst laun í landinu. En að setja síðan saman meðaltal af kaupi almennra verkamanna og þessara sjómanna, það gefur vitanlega mjög rangar upplýsingar um hið raunverulega í þessum efnum. Ég tel, að það sé enginn vafi á því, að kaup verkamanna í landinu, mælt á þann eina hátt, sem réttmætt er að mæla það, þ.e.a.s. föst greiðsla fyrir hverja unna vinnustund, þar stendur verulega upp á, að hækkun á vinnulaunagreiðslum fyrir hverja unna vinnustund sé í hlutfalli við vaxandi þjóðartekjur hin síðari ár.

Það er auðvitað ekki um það að villast, að þegar á heildina er litið, hefur þjóðarbúskapur okkar íslendinga gengið vel hin síðari ár. Þjóðarframleiðslan hefur farið ört vaxandi og þjóðartekjurnar þá vaxið enn meira frá ári til árs. En það eru vitanlega engin undur, að slíkt verði, þegar svo vel hagar til eða háttar til, að við verðum fyrir slíku happi eins og við höfum t.d. orðið fyrir á s.l. ári, þegar meðaltalshækkun á útfluttum sjávarafurðum á árinu reyndist vera 12%. Og þegar við stöndum frammi fyrir því, að viðskiptakjör þjóðarinnar batna á einu ári um hvorki meira né minna en 10%. En þetta mun nema því, að það hlaupi raunverulega óvænt á snærið hjá okkur upphæð, sem nemur 600–700 millj. kr. Það er vitanlega full ástæða til þess, þegar þannig hagar til, að það geti orðið um talsverða raunhæfa kauphækkun að ræða hjá vinnandi stéttum í landinu, því að í þessum efnum er um algerlega nettóhagnað fyrir þjóðarbúið að ræða, þar sem viðskiptakjörin batna á þennan hátt. En því fer nú fjarri, að þetta mikla happ hafi komið þeim helzt til gagns, sem það hefði þó átt að koma fyrst og fremst að gagni. Ekki vil ég á neinn hátt, að orð mín séu skilin þannig, að ég dragi úr því, að mér er fyllilega ljóst, að heildarframleiðsla landsins hefur farið mjög vaxandi og heildaraukningin á þjóðartekjum hefur vaxið meir en í nálægum löndum. Ég hef þá trú, öfugt við það, sem kom hér fram hjá hæstv. fjmrh., sem eðlilega hefur hinn gætna fyrirvara á í þeim efnum, ég hef hins vegar þá trú, að við megum enn eiga von á stórauknum afla, frá því, sem áður hefur verið, og styð þar mínar skoðanir þeim upplýsingum, sem liggja fyrir frá okkar færustu mönnum um ástand þeirra fiskstofna, sem við byggjum aðallega á, og þá aðstöðu, sem ég veit, að við höfum nú umfram það, sem við höfum haft til þess að notfæra okkur þessar auðlindir. Ég er því í þessu efnum mjög bjartsýnn. Vissulega er mér það ljóst, að sitthvað getur á dagana drifið, sem breytt gæti þessu, en ég tel hins vegar að útlitið sé þannig, að allt mæli með því, að reiknað sé með vaxandi framleiðslu enn og auknum verðmætum enn, miðað við þær aðstæður, sem við búum við. Það skiptir svo auðvitað mjög miklu máli, að árferði eins og það, sem við höfum búið við og það, sem ég hygg, að við megum fyllilega í eðlilegri áætlunargerð reikna með á næstunni, að slík árferði séu notfærð á réttan hátt, en þá kemur það til, hvernig haldið er á stjórn efnahagsmála þjóðarinnar, almennt séð.

Það er ekkert um það að villast, að stjórn okkar á efnahagsmálum okkar hefur verið heldur hringlandakennd að undanförnu og tökin hafa verið heldur laus af hálfu ríkisstj. Þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um þróun þjóðarbúskaparins, hafa staðizt heldur lítið. Það hefur sem sagt komið í ljós, að þó að gerðar séu áætlanir um tiltekna fjárfestingu í hinum ýmsu greinum, stoðar lítið að gera slíkar áætlanir, ef ekki eru gerðar aðrar ráðstafanir til þess að reyna að sjá um framkvæmd á áætlununum. Af þeim ástæðum hefur þetta farið þannig, að það hefur að vísu verið hægt að halda talsvert niðri fjárfestingum undanfarin ár á vegum ríkisins sjálfs, en hins vegar hafa áætlanir um fjárfestingar einstaklinga reynzt með öllu rangar. Þar hefur fjárfestingin í hinum ýmsu greinum orðið allt önnur en ráð var fyrir gert í þeim áætlunum. sem efnahagssérfræðingar ríkisstj. gerðu. Á meðan þannig er staðið að gerð áætlana og framkvæmdum í sambandi við þessar áætlanir, má segja, að þessar áætlanagerðir séu til harla lítils gagns. Þá er hér nánast um ákveðna spádóma að ræða, sem settir eru upp í töflur og tölur og reynslan kastar þeim svo til fram og til baka eftir því, sem aðstæður leyfa. Ég held, að sú reynsla, sem liggur nú fyrir af gerð þjóðhagsáætlunar fyrir nokkur ár, hafi einmitt staðfest það, að það sé mikil nauðsyn á því að taka þessi mál allt öðrum tökum en þau hafa verið tekin til þessa, og það sé óhjákvæmilegt að stjórnin á efnahagsmálunum verði miklu ákveðnari heldur en hún hefur verið og það verði betur staðið að því að reyna að fylgja áætlunum eftir. Og að sjálfsögðu ber svo að endurskoða áætlanir, sem gerðar eru nokkuð fram í tímann, með tilliti til þess, sem í ljós hefur komið, og gera nýjar áætlanir, ef t.d. tekjur eða ráðstöfunarfé fer stórkostlega fram úr því, sem áætlað hafði verið, gera nýjar áætlanir um það, hvernig því fjármagni skuli varið, en láta ekki hendinguna ráða, hvernig fer t.d. með fjárfestingarmál. (Forseti: Ég vildi spyrja hv. ræðumann, hvort hann ætti mikið eftir af ræðu sinni.) Ég er nú rétt að ljúka þessum orðum mínum og get lokið þeim nú, en sem sagt, ég vildi aðeins að lokum segja það, að ég vænti þess, að það gefist kostur á því að ræða þessa áætlun nokkru nánar hér síðar á þessu þingi.