13.10.1965
Sameinað þing: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2790 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja hér örfá orð í tilefni af þessari tilkynningu, sem hæstv. forsrh. las fyrir hönd ríkisstj., en tilefni hennar eru þau mannaskipti, skilst mér, sem átt hafa sér stað í ríkisstj.

Að vísu hafa verið tilkynnt ein mannaskipti áður á þessu ári, þegar Magnús Jónsson tók við starfi fjmrh. af Gunnari Thoroddsen, en þá var það ekki gert með jafnmikilli viðhöfn og nú og fylgdi engin yfirlýsing um það um leið, að stjórnin hefði gengið í endurnýjun lífdaganna með þeim hætti.

En nú, þegar tilkynnt eru önnur mannaskipti í ríkisstj., sem sé að Eggert Þorsteinsson hafi komið í ríkisstj., en Guðmundur Í. Guðmundsson hafi farið úr stjórninni, er það allt gert með meiri viðhöfn. Sannast að segja held ég þó, að þrátt fyrir þessa viðhöfn, sem við er höfð, muni menn yfir höfuð vera þeirrar skoðunar, að lítil breyting verði á ríkisstj. og hennar stefnu við þau mannaskipti, sem orðið hafa.

Á hinn bóginn finnst manni af yfirlýsingu eða tilkynningu hæstv. forsrh., að hann langi mjög til þess að láta líta svo út sem eitthvað alveg nýtt sé nú á ferðinni, og stjórnin hafi kastað ellibelgnum. Eitthvað eigi að breytast. Ég lái hæstv. forsrh. ekki, þótt hann vilji láta líta svona út, og ég vona, að enginn álasi honum fyrir það, og ég býst ekki við, að menn séu neitt hissa á því, þegar þess er gætt, hvernig ástatt er um málefni landsins og hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekizt á undanförnum árum að framkvæma sína stefnu, eins og nú liggur fyrir í mörgum greinum, svo að ekki er um deilt. Þegar svona stendur á, er það ekkert einkennilegt, þó reynt sé að dubba upp á þetta ofurlitið með nýrri, almennri stefnuyfirlýsingu.

En sannleikurinn er sá, að ekkert af því, sem hæstv. ráðh. las hér áðan, sem voru nú almennar, sumt af því frómar hugleiðingar um ýmislegt, sem æskilegt væri að geta gert, boðaði stefnubreytingu. Það vottaði ekki í þeirri yfirlýsingu fyrir breytingu á grundvallarstefnu ríkisstj. eða fráhvarfi frá þeim úrræðum, sem verst hafa gefizt.

Ég skal ekki efna hér til ýtarlegra, almennra umr. um þessi efni, því að við eigum vafalaust eftir að ræða þau oft, en ég get ekki stillt mig um, enda teldi ég óviðeigandi annað, en að minna á ýmislegt, sem mér fannst vanta í grg. eða yfirlýsingu hæstv. forsrh. Og þá einkum ýmis atriði, sem hann felldi niður núna, enda þótt hann segði með almennri yfirlýsingu, að þau stæðu í fullu gildi, en sem ríkisstj. í upphafi lagði mesta áherzlu á, að hún væri sett til þess að vinna að og taldi gefa sér tilverurétt. Því var haldið mjög á loft að taka ætti upp alveg nýja stefnu í efnahagsmálum landsins, sem kölluð var og heitir enn í dag viðreisn, þó að hún liggi nú á hliðinni, og fólgin var í stefnuyfirlýsingum, sem ég skal minna á í aðeins örstuttu máli.

Ég nefni fyrst aðalatriðið, sem var fyrirheit um stöðvun verðbólgu í landinu. Stöðvun dýrtíðarinnar. Þetta var grundvallarloforð af hendi núv. ríkisstj., þegar hún tók við, og við vitum öll, hvernig farið hefur um þetta þýðingarmikla höfuðatriði. Öll þjóðin veit það. En nú var þetta atriði ekki tekið með í stefnuyfirlýsingu hæstv. ráðh. Máske er það af meðfæddri hógværð, en máske er það líka vegna þess, að hann hafi ekki talið heppilegt að rifja þetta upp, en viljað heldur vísa til þess með þeim almennu orðum, að fyrri stefnuyfirlýsingar ríkisstj. stæðu enn.

Þá vil ég minna á, að hæstv. ríkisstj. lofaði því að afnema uppbótarkerfið í öllum þess myndum. Allir vita, hvernig farið hefur um þetta, sem átti að vera annað meginatriðið í stefnu hæstv. ríkisstj. Þá hét ríkisstj. því að afnema vísitölukerfið, sem hún taldi mjög undirrót stórfelldra vandkvæða í þjóðarbúskapnum. Allir vita, hvernig farið hefur um það. Þá var því yfir lýst, að það ætti að verða stöðugur greiðsluafgangur á ríkisbúskapnum til þess að tryggja jafnvægi í efnahagsmálum, stuðla að því. Menn vita, hvernig þetta hefur farið upp á síðkastið, þrátt fyrir meiri álögur en nokkru sinni fyrr.

Þá var það eitt þýðingarmikið atriði í stefnuyfirlýsingu ríkisstj., viðreisnarstefnunni, að afnema öll afskipti af kjarasamningum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. En við vitum öll, hvernig það hefur farið. Það hefur farið þannig, að það hefur ekki verið hægt að koma á samningum nú um langa hríð milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda nema með því að fá stjórnina í leiðinni til þess að breyta löggjöfinni, sem hún hefur sett, og breyta framkvæmdum sínum í efnahagsmálum. M.ö.o., efnahagsmálastefna ríkisstj. hefur orðið þannig í framkvæmd, að allir kjarasamningar hafa reynzt óframkvæmanlegir, nema hægt hafi verið að fá stjórnina til að semja um breytingar frá því, sem hún hafði lögfest eða framkvæmt.

Þá var því lýst yfir hátíðlega mjög, að það ætti að afnema öll höft, en við vitum, að það hefur verið beitt hinum ströngustu lánahöftum og margs konar þvingunarráðstöfunum, sem hafa átt að vera til stuðnings jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þeim hefur verið beitt, en samt sem áður hefur þenslan og upplausnin orðið meiri en nokkru sinni fyrr, eins og vöxtur dýrtíðarinnar.

Þá var því lýst yfir, að það ætti að afnema alla beina skatta á almennum launatekjum og við vitum, hvernig farið hefur um framkvæmd þess loforðs, en um þetta var ekkert talað í stefnuyfirlýsingu hæstv. ráðh. nú áðan.

Þá var því alveg sérstaklega heitið, að innleidd skyldi ráðdeild í ríkisrekstrinum og þjóðarbúskapnum yfir höfuð og gefinn út langur loforðalisti í því sambandi og framkvæmdur sparnaður í ríkisrekstrinum, en verkin sýna merkin, árangurinn — eða hitt þó heldur — af þessu blasir við augum allra, sem vilja sjá.

Þessi örfáu atriði gefa tilefni til að spyrja: Hefur þessum markmiðum, sem voru grundvöllur hæstv. ríkisstj., verið náð? Enginn mun treysta sér til þess að svara því játandi, ekki einn einasti af ráðh., hvað þá nokkur utan ráðherrastólanna. En því eru þessi kjarnaatriði, þessi undirstöðuatriði þá ekki tekin með beinlínis í stefnuyfirlýsingunni, heldur þess í stað höfð almenn og óskýr yfirlýsing um áframhald af því sama, sem við höfum búið við, og allt hefur gengið í megindráttum í öfuga átt við það, sem átti að verða.

Þegar þetta er haft í huga, sem ég nú hef aðeins örlítið minnt á, held ég sannast að segja, að enginn maður geti með góðri samvizku metið á marga fiska stefnuyfirlýsingar hæstv. ríkisstj. Landsmenn eiga inni hjá hæstv. ríkisstj. reikningsskil um það, hvernig hún hefur framfylgt fyrirheitum sínum og framhjá þeim verður ekki komizt. Þau fara fram að lokum, hvernig sem að verður farið og eftir þeim reikningsskilum verður vafalaust gengið.

Eitthvað var í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. núna verið að lala um framkvæmdaáætlanir með almennum orðum. Jú, við höfum búið við framkvæmdaáætlanir og framkvæmdaáætlun hæstv. ríkisstj. og framkvæmd hennar at hennar hendi. Og við getum af því dálítið séð, hversu þýðingarmiklar slíkar almennar yfirlýsingar eru, ef ekki á að breyta neitt um stefnu eða starfshætti. Reynslan af framkvæmd framkvæmdaáætlunarinnar er það ömurlega öngþveiti í framkvæmdamálum, sem þjóðin býr nú við. Það hefur sem sé ekkert verið eftir framkvæmdaáætluninni farið eða nokkur tilraun gerð til þess að framkvæma hana, ekki a.m.k. á þann hátt, að það hafi borið árangur, því að væntanlega vill ríkisstj. ekki halda því fram, að hún hafi með áætlun beinlínis efnt til þess öngþveitis, sem nú ríkir í þessum málum. Á þessu getum við aðeins örlítið séð, hvað almennar stefnuyfirlýsingar úr þessum herbúðum hafa að þýða.

Ég geri ráð fyrir, að flestir séu sammála um, að sorglega illa horfi um mörg þýðingarmestu málefni þjóðarinnar, þrátt fyrir óvenjulega góð skilyrði á marga lund, svo sem t.d. um skólamál, húsnæðismál. rannsóknarmálefni, vegamál og önnur samgöngumál ýmis, svo og beinlínis rekstursaðstöðu iðnaðar- og framleiðslutækja, t.d. í sambandi við rekstursfjármöguleika, að ekki sé nú talað um ráðdeild og sparnað.

Ekki vil ég halda því fram, að svona hafi farið og svona illa hafi tekizt til vegna illvilja valdhafanna. Því held ég ekki fram. Heldur kemur hér að mínum dómi mest til, að of mikið tillit er tekið til sérhagsmunanna. Þeir eru látnir ráða of miklu. Og svo kemur til fáránleg fastheldni við stefnu, sem mætti kalla stefnu stórkapítalismans. Fáránleg fastheldni við slíka stefnu, sem er framkvæmd eins og ofsatrúarmenn vilja framkvæma játningarnar. En þessar kenningar eru í stjórnarherbúðunum meðhöndlaðar eins og einhvers konar heilagar kýr, sem ekki má stjaka við, hvað þá heldur leggja að velli. Og meðan þannig er, hygg ég, að lítil sé batavonin.

Hagstjórnaraðferðirnar, sem hæstv. ríkisstj. beitir, geta ekki, það er alveg sannað mál, þær geta ekki við þjóðfélagsaðstæður hér á landi náð því, sem verður að gera kröfur til í nútímamenningarþjóðfélagi. Þær eru algerlega fullreyndar við beztu skilyrði, sem hægt er að hugsa sér, en það er alger lágmarkskrafa, að stjórnarstefnan við slíkar ástæður leiði til skynsamlegs jafnvægis í framkvæmdum á þjóðarbúinu, bæði almennt og í einstökum greinum þess. En í stað þess búum við nú við kaos í þessum málefnum, sem reynist okkur því hættulegra, því lengur sem það stendur.

Hvaða kröfu er þá eðlilegt að gera til ríkisstjórna? Auðvitað vilja menn svara slíkri spurningu á ýmsa vegu. En hvað sem því líður, ættu þó flestir að geta verið sammála um, að framkvæmd stjórnarstefnu á að miðast við markið í þjóðarbúskapnum og á einnig að vera fólgin í því að finna leiðir til að ná markinu. Landsstjórn á að vera fólgin í því að setja markmið og í framkvæmdum til að ná settu marki.

Pólitísk markmið eru mismunandi að vísu og ýmsar leiðir taldar að markinu, en treystir nokkur sér til að halda því fram í alvöru, að ástandið eins og það er hér núna, hafi verið markmiðið? Vill nokkur rísa upp og segja, að ástandið, eins og það er núna, hafi verið markmiðið? Hann hafi ætlað sér að efna til þessa ástands. Vill t.d. einhver úr hæstv. ríkisstj. rísa hér upp og segja, að ástandið núna sé eins og hann hafi ætlazt til, eða eitthvað nálægt því?

Ef enginn treystir sér til að gera þetta, sem ég veit, að enginn treystir sér til, er bezt að játa, að hér hafa orðið stórfelld mistök. En í raun og veru skiptir engu máli, hvort einhver treystir sér til þess að berja höfðinu við steininn í þessu efni, hvort einhver treystir sér til þess að halda þessu fram eða ekki, það skiptir tæpast nokkru máli. Hitt skiptir auðvitað aðalmáli, að ástandið er þannig, að þjóðin hvorki má né getur sætt sig við það.

Og þá kemur sú stóra spurning, sem ég mun ekki ræða tæmandi hér, en mun verða rædd að sjálfsögðu af og til í vetur á þessari veglegu samkomu. Hvernig á að taka á þessu? Þarf ekki að taka þessi mál nýjum tökum? Er hægt að notast áfram við sömu aðferðir, sem viðhafðar hafa verið og leitt hafa til þessarar niðurstöðu? Í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. var ekkert um, að það ætti að taka þessi mál nýjum lökum í grundvallaratriðum. Auk þess hygg ég, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi, eins og allt er komið í landinu, bæði varðandi ástand einstakra mála og stöðu hennar meðal þjóðarinnar, engin skilyrði til þess að geta gengizt fyrir því að lagfæra þetta ástand eins og þarf. Ég hygg, að hún hafi engin skilyrði til þess, jafnvel þótt hún vildi breyta til.

Hvernig á þá að taka á þessu? Auðvitað verður að finna aðra leið í meginefnum. Í stað þessara úreltu aðferða, sem notaðar hafa verið, verður að koma það, sem við gætum kallað hina leiðina. Það verður að koma önnur leið.

Til þess að reyna að átta sig ofurlítið betur á þessu, er kannske nauðsynlegt að spyrja sjálfa sig örfárra spurninga, ef það gæti orðið til þess að blása þokunni eitthvað frá, ef mönnum finnst þess þurfa. Reyna síðan að svara slíkum spurningum blátt áfram í stað þess að reikna sig og reikna sig æ lengra og lengra út í ófæruna á hringekjunni og þrástagast á því einu, að það vanti meiri skatta og það þurfi að minnka dálítið útlánin, og ef menn sætti sig við það og verði góðu börnin, sætti sig við meiri skatta og minni lán möglunarlaust, sé allt í lagi. En þetta hefur í raun og veru verið eina svarið, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft alla tíð við öllum vanda. En þetta er áreiðanlega ekki lausnin. Reynum enn að skýra þetta með fleiri spurningum og mætti t.d. spyrja: Hvernig telja menn skynsamlegt, að þjóðin beiti starfsorku sinni? Hvernig telja menn skynsamlegt, að vinnuafli þjóðarinnar sé beitt og því vélaafli, sem þjóðin ræður yfir? Á að beita þessu afli að lífsnauðsynlegri framleiðslu í landinu eða ekki? Á að efla menntun og gera það, sem þarf til þess, byggja skóla og annað í sömu átt? Á að eflá rannsóknir, byggja rannsóknarstöðvar og búa þannig í haginn, að fleiri vísindamenn geti komizt að og unnið nauðsynlega vinnu? Á að efla vélaorku og verja til þess því, sem þarf? Á að bæta samgöngur á sjó og landi og í lofti og láta í té þá þjónustu yfirleitt, sem menningarríki verður að gera, ef lífskjör eiga að batna og kröftugur atvinnurekstur á að þrífast í landinu? Þetta eru áleitnar spurningar, sem menn verða að horfast í augu við. Og það er alveg áreiðanlegt, að eigi að leysa þessi málefni á fullnægjandi hátt, er ekki nóg að standa á gatnamótum og segja: Það þarf aðeins meiri skatta, og ef þið þolið það möglunarlaust, kemst allt í lag, það verður að lána minna út úr bönkunum, ef menn þola það möglunarlaust, leysist vandinn.

Ein spurning enn er áleitin líka: Eiga þær þúsundir fyrirtækja í landinu, sem þjóðfélagið byggist að verulegu leyti á, að hafa rekstrarfé, svo að þau geti notið sín eða ekki?

Verða menn ekki í pólitíkinni að svara þessum spurningum og þar með uppfylla þá frumskyldu að gera sér grein fyrir því, hvert markmiðið er og hve mikla áherzlu verði að leggja á hvern meginþátt, til þess að skaplega fari?

Pólitík á m.a. auðvitað að vera fólgin í því að ákveða, hvað skuli sitja fyrir, hvað þurfi og eigi að sitja fyrir í þágu almenningsheilla, og ekki aðeins því, heldur einnig í því að sjá um, að það hafi raunverulegan forgang, sem þýðingarmest er vegna almannahags.

Þetta er frumskyldan, sem verður að uppfylla í megindráttum. Næst kemur svo að því að ákveða, hvaða aðferðir eigi að nota til þess að ná þessum markmiðum, en fyrst er að horfast í augu við, að hverju menn vilja keppa og að hverju þarf að keppa, til þess að vænta megi viðunandi árangurs.

Þessi mál leysast ekki með því að láta allt dankast og horfa á það aðgerðalaust, að botnlaust eyðsluöngþveiti verðbólgunnar sogi til sín, m.a. í sjálfri fjárfestingunni, sívaxandi hluta af sjálfum þjóðartekjunum, en sum þýðingarmestu þjónustu- og framleiðsluverkefnin sitji á hakanum í vaxandi mæli, eins og nú á sér stað. Hagstjórnaraðferðir, sem til þessa leiða, eru ónothæfar og eiga ekki rétt á sér.

Eins og nú er ástatt, verður tvímælalaust að brjóta í blað og taka upp alveg nýjan hátt. Og fyrsta verkefnið er vitaskuld að horfast í augu við verkefnin sjálf og ákveða markmiðin. Undirstaðan verður að vera áætlun um þjóðarbúskapinn, fjárfestinguna og reksturinn miðað við það vinnu- og vélaafl, sem við ráðum yfir. Það ætti að vera fullreynt nú orðið, að vandamálin verða hvorki leyst með því að stara sig steinblindan á söluskattstölur og annað slíkt, unz enginn botnar neitt í neinu, né með statistík um saman dregin bankaútlán, sem allan vandann eigi að leysa. Við erum búin að fá nóg af þeirri speki, að þetta leysi allt, þar með innifalið sjálfa verðbólguna.

Þegar menn hafa gert sér grein fyrir markmiðunum og þar með áætluninni í megindráttum, þ.e. hvað menn telja þurfa að gera og hvað hægt er að gera og hvað eigi að sitja fyrir, er að ákveða aðferðirnar, sem nota skal til að ná markinu. Þar koma ýmsar aðferðir til greina, sem oft er erfitt að ákveðanákvæmlega í einstökum atriðum, nema hafa fyrir sér upplýsingar um, hvernig lífsnauðsynlegar framkvæmdir og rekstur kemur heim við vinnuafl og aðra orku, sem þjóðin hefur yfir að ráða, en því má slá föstu, að það eru til aðrar og betri aðferðir í þeim efnum en þær, sem nú eru notaðar og hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún ætli að halda áfram að nota. En þessar aðferðir hafa leitt til óðaverðbólgu og þeirrar niðurstöðu, að þrátt fyrir óhemjuuppgrip skapast sífellt fleiri og fleiri ný vandamál, sem leggjast eins og mara á framtíðina. Reynsla annarra þjóða sýnir líka, að svona þarf þetta ekki að vera. Hér verður því að koma til grundvallarbreyting, ný viðhorf í stjórnarstefnunni í þessum anda, en ný yfirlýsing jöfn að verðmæti þeirri frægu, sem á sínum tíma var gefin og viðreisn kölluð sællar minningar — hefur ekkert gildi og bjargar engu og borgar ekki einu sinni pappírinn, sem hún er skrifuð á.