13.10.1965
Sameinað þing: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2800 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það skal nú viðurkennt; að það er ekki tími til þess að fara út í almennar umr. að þessu sinni um þau mál, sem hér hefur aðallega verið rætt um. Það verður að bíða síðari tíma. En ég vildi þó gera örfáar og stuttar aths. við það, sem fram kom hér í ræðu hæstv. forsrh.

Það var þá fyrst, að hæstv. ráðh. sagði hér, að á stjórnartíma núv. ríkisstj., viðreisnarstjórnarinnar svo nefndu, hefðu skuldir þjóðarinnar út á við ekki aukizt, en hins vegar hefðu safnazt fyrir allmyndarlegir gjaldeyrissjóðir á vegum bankanna. Þetta er rangt, sem ég veit, að hæstv. forsrh. getur auðveldlega kynnt sér og getur séð. Ég hef að vísu ekki allar tiltækar tölur í þessum efnum, en leit þó svona rétt í skúffu mína til þess að gæta að því, sem hendi var næst. Samkv. því hefti af Fjármálatíðindum, sem þar var liggjandi, var frá því skýrt, að í árslok 1958 hefðu skuldir þjóðarinnar, fastar skuldir þjóðarinnar út á við verið 1924.5 millj. kr. En í árslok 1963 voru þessar sömu skuldir orðnar 3167.5 millj. kr., í báðum tilfellum reiknað á sama gengi, eða skuldaaukningin er 1243 millj.kr. Nú er ég alveg viss um það, að þessar skuldir hafa fremur aukizt á árinu 1964 og það, sem af er 1965. En við þessar tölur má svo einnig bæta hinum stuttu vörukaupalánum verzlunarinnar, sem á þessu tímabili hafa aukizt fram til ágústloka nú á þessu ári um 615 millj. kr. Þessi skuldaaukning miðar aðeins við þessar tölur, sem ég nefndi hér, nemur því 1858 millj. eða álíka upphæð eins og gjaldeyrissjóðirnir nema. Það þýðir auðvitað ekki að neita þeirri staðreynd, að þó að gjaldeyrissjóðir hafi myndazt á þessu tímabili, sem vissulega er rétt, hafa einnig skuldir þjóðarinnar, bæði opinberra aðila og einstaklinga og fyrirtækja, aukizt á sama tíma við útlönd, svo að hér er vitanlega ekki um neinn nettóhagnað að ræða, þar sem eru gjaldeyrissjóðirnir. En hitt mætti svo einnig fylgja með, að auðvitað hafa þessir miklu gjaldeyrissjóðir myndazt á þessum árum, vegna þess að við höfum búið við einstaklega hagstætt árferði fjárhagslega í þessum efnum, þar sem afli á þessu tímabili hefur verið sívaxandi og verðlag á okkar útflutningsvörum síhækkandi. Gjaldeyristekjurnar hafa orðið óvenjulega miklar á þessu tímabili, án þess að hægt sé að þakka það á nokkurn hátt stjórnarstefnunni. Ég skal svo ekki fara frekari orðum um þetta að sinni.

Þá er það annað atriði, sem maður hefur heyrt úr herbúðum stjórnarinnar og oftar heldur en aðeins nú hjá hæstv. forsrh., en það er talað um það, að skattar hafi raunverulega lækkað á þjóðinni og um það, að þeir séu tiltölulega lægri hér, mælt í hundraðshlutum, heldur en hjá ýmsum öðrum þjóðum, miðað við þjóðarframleiðslu, eins og nú er orðin tízka að uppfæra þetta dæmi. En allir slíkir reikningar eru hin argasta fjarstæða. Auðvitað miða menn skatta sína við þær tekjur, sem einstaklingurinn hefur. Ef skattarnir, sem einstaklingar þurfa að borga, eru hærri hundraðshluti af tekjum þeirra, er almennt talað um, að það hafi orðið skattahækkun á þeim. En það þarf ekki að standa í beinu hlutfalli við þjóðarframleiðsluna, engan veginn. Hæstv. forsrh. mætti setja það inn í þetta dæmi sitt að gera grein fyrir því, að t.d. árið 1960, eftir að ríkisstj. hafði gerbreytt skattakerfinu með því að færa það til frá því, sem áður var, og í rauninni það eina, sem er viðmiðandi í þessum efnum, er árið 1960 og það, sem síðan hefur gerzt, vegna þess að sama meginkerfið hefur verið í gildi frá 1960 og fram til þessa tíma, en allt annað kerfi var í gildi áður. Árið 1960 var söluskatturinn 102 millj. kr. Samkv. fjárlagafrv., sem liggur fyrir okkur á borðunum núna, er söluskatturinn 937 millj. Þessi skattur hefur aldeilis bólgnað út. Og samkv. fjárlagafrv. fyrir 1960 var tekju- og eignarskatturinn áætlaður 75 millj., en er núna 406 millj. Hér er alveg sýnilega í sambandi við þessa tvo meginskatta um margföldun að ræða á sama tíma sem augljóst er, að hið skráða kaupgjald í landinu hefur ekki tvöfaldazt. Það er ekki um það að villast, að skattheimtan hefur vaxið miðað við hinar almennu launatekjur flestra launþega í landinu. En útúrkrókaleið, sem nokkrir hagfræðingar hafa farið í sambandi við það að reikna út innheimtu ríkisins í formi skatta, miðað við þjóðarframleiðslu, er í rauninni argasta blekking og væri auðvelt að sýna fram á það í lengra máli.

Þá var það eitt atriði enn, sem hæstv. forsrh. vék hér að. Hann vildi túlka þá stefnu, sem ríkisstj. boðar nú, ja, sem nýmóðins kapítalisma, alveg nýuppfærðan og miklu aðgengilegri og betri en þennan gamaldags, sem er nú liðinn hjá. Og það, sem við fáum nú vitneskju um, er m.a. það, að tilheyrandi þessum nýja sé áætlunarbúskapur að meira eða minna leyti. En mér er enn spurn: Er þessi áætlunarbúskapur t.d. þannig, að það eigi áfram að standa svo, að ríkisstj. segi, að t.d. allir þeir í landinu, sem vilja fjárfesta í byggingu verzlunarhúsnæðis, í byggingu skrifstofuhúsnæðis eða annarra slíkra framkvæmda, að þeir skuli einir um það, hvað mikið þeir fjárfesta hverju sinni, að á þessu skulu engar hömlur vera. Ég er ekki í neinum vafa um það, að áætlunarbúskapur af slíku tagi, að hafa í rauninni enga skaplega stjórn á fjárfestingarmálum í landinu nema aðeins þeim þætti, sem snýr að beinum opinberum framkvæmdum, slíkur áætlunarhúskapur er ekkert nema leikaraskapur eða til þess að villa um fyrir einhverjum, kannske samstarfsmönnum ráðh. í ríkisstj., að þeir séu að fara meira og minna inn á svona vissa tegund af sósíalisma, sem þeir mega vel við una.

En spurningin er auðvitað um það, hvort hæstv. ríkisstj. ætlar sér að breyta um þetta grundvallarstefnumál sitt, um afskiptaleysið af hagkerfinu, a.m.k. hvað við kemur málefnum atvinnureksturs og gróðamanna, m.a. með því að setja upp áætlanir, sem hún ætlar að sjá um framkvæmd á, eða hvort hún ætlar að hafa þar sama lag og leitt hefur okkur út í öngþveitið að undanförnu. Ég skal svo ekki hafa mín orð fleiri hér að sinni, þar sem ég tel ekki ástæðu til þess að fara út í mjög almennar umræður að sinni um þessi mál.