27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

Strandferðaskip

Eysteinn Jónsson:

Já. Hæstv. ráðh. verður að virða mér það til vorkunnar, að ég taldi þá yfirlýsingu ekki mjög mikils virði, þó að hún kæmi fram, að hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að veita fullnægjandi þjónustu við landsbyggðina í strandferðunum, þ.e.a.s. fullnægjandi að dómi hæstv. ríkisstj. Ég taldi þá yfirlýsingu ekki mikils virði. En á hinn bóginn vil ég leggja áherzlu á, að nú hefur hæstv. ráðh. lýst því yfir, að það muni ekki verða dregið úr þeirri strandferðaþjónustu, sem verið hefur, og þakka ég honum fyrir þá yfirlýsingu og munum við halda okkur við, að við hana verði staðið, og það vona ég að verði að öllu leyti.