04.11.1965
Efri deild: 11. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni enn eitt skattahækkunarfrv. Það frv. felur í sér stórkostlega hækkun á þeim gjöldum, sem kölluð eru aukatekjur ríkissjóðs. Þar er um að tefla margvísleg dómsmálagjöld, þinglýsingargjöld, alls konar leyfisbréfa- og skírteinagjöld, skipunarbréfaskatt o. fl., o. fl. Sú stórfellda hækkun, sem í frv. þessu felst, er að mínum dómi mjög óskynsamleg og varhugaverð. Og ég verð raunar að segja það sem mína skoðun, að sú fjáröflunarleið til ríkissjóðs, sem felst í innheimtu ýmissa þessara aukatekjugjalda, er ósköp ógeðfelld og það einnig að allri hækkun slepptri, hvað þá þegar svona stórkostleg hækkun kemur til greina. Ég verð að segja það, að ég álít, að a.m.k. ættu þessi gjöld aldrei að vera hærri en svo, að þau samsvöruðu réttmætu andvirði fyrir þá þjónustu, sem af opinberri hálfu er í té látin hverju sinni. Og þó vil ég segja það, að í ýmsum þessum tilfellum ætti vitaskuld sú þjónusta að vera algerlega ókeypis af hendi leyst, eins og ýmis sú þjónusta, sem í té er látin af opinberri hálfu.

Þetta er nú ekki í fyrsta skipti, eins og hæstv. fjmrh. réttilega drap á, sem þessi hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir hækkun á aukatekjugjöldum. Það var gert, eins og hann skýrði frá, með efnahagslögunum nr. 4 frá 1960. Þá voru þessi gjöld yfirleitt, að undanteknum prósentugjöldum, hækkuð um 50%, þannig að það var engin smáræðishækkun, sem þá átti sér stað á þessum gjöldum, og hún átti efalaust sinn þátt, kannske ekki mikinn þátt, en þó nokkurn þátt í aukinni dýrtíð, sem ýmsar þær ráðstafanir, sem gerðar voru með þessum efnahagslögum nr. 4 frá 1960, stuðluðu að. Nú er vegið í sama knérunn aftur, og það er aldrei gott, þegar svo er gert. Nú er ráðgerð hér stórkostleg hækkun, yfirleitt 100% hækkun frá grunngjaldi, segir í aths. frv., í nokkrum tilfellum þó 200% álagi. Lausleg athugun og yfirferð yfir frv. og athugasemdirnar, þar sem það er greinilega tekið fram við hverja grein, hver hækkunin er, sýnir, að það er talsvert víða um 200% álag að ræða í þessum tilfellum og jafnvel stundum er álagið 300%.

Eins og hæstv. ráðh. rakti, gerir það fjárlfrv., sem nú hefur verið lagt fyrir þingið, ráð fyrir 70 millj. kr. tekjum af þessum tekjulið, þar sem hann aftur á móti í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er aðeins áætlaður á 48 millj. kr.

Allt gefur þetta hugmynd um, hversu stórkostlega hækkun þarna er um að ræða, og án þess að ég ætli að fara langt út í það, þá er í þessu frv. komið mjög víða við. Það eru mjög mörg gjöld, sem þarna eiga að hækka, og þess vegna í mjög mörgum tilfellum um að ræða aukinn tilkostnað í ýmsum myndum, að vísu mismunandi mikinn, en allt hnígur það þó í sömu átt. Og sá aukni tilkostnaður verður vitaskuld, eins og aukinn tilkostnaður yfirleitt, til þess að ýta undir þá dýrtíðarflóðbylgju, sem nú flæðir yfir þetta land. Mér finnst þess vegna ástæða til, þegar frv. kemur til 1. umr. hér, að athuga lítillega, í hverju þau gjöld eru fólgin, sem þarna er um að tefla, eða um hvers konar gjöld er að ræða, sem hér á að hækka svona stórlega, í því trausti, að sú hv. n., sem frv. fær til meðferðar, leiði dálítið hugann að því, hversu heppilegt það muni vera að hækka þessi gjöld svo stórlega sem hér er gert ráð fyrir.

Þegar maður lítur yfir frv., verða þar fyrst fyrir dómsmálagjöld, sem svo eru kölluð, en það má segja, að fyrstu 4 kaflar frv. fjalli um slík dómsmálagjöld, og það eru vitaskuld mjög margvísleg gjöld. Það má segja, að í 1. gr. sé um að ræða ýmis dómsmálagjöld í venjulegum einkamálum í héraði, og þar eru þau gjöld yfirleitt með 200% álagi. Fyrir hæstarétti eru gjöldin hins vegar með 100% álagi. Ef litið er á fógetaaðgerðirnar, verður sama upp á teningnum. Þá er gert ráð fyrir því, t.d. varðandi 4. gr., að þar sé um að ræða 200% álag á þær gerðir, sem þar er um að tefla. Um skiptagjöldin er þess að vísu að gæta, að þar er í mörgum tilfellum um prósentugjald að ræða og þau breytast út af fyrir sig ekki. Um uppboðsgerðirnar er þess að geta, að þar jafnvel skýzt þetta álag upp í 300%, eins og t.d. í 15. gr., og í sumum tilfellum er þar um 200% álag að ræða.

Ég held það sé almennt viðurkennt í siðuðum ríkjum, sem vilja láta telja sig til réttarríkja, að það sé mjög mikið atriði, að dómsmálameðferð sé þar greið, ekki allt of seinfarin og ekki heldur allt of kostnaðarsöm. Það er sá hængur, sem víða er við að glíma, því að víða um lönd gerist það, að dómsmálameðferðin vill verða nokkuð kostnaðarsöm, þannig að efnaminni borgurum veitist oft erfitt að ná rétti sínum með þeim hætti. Ég hygg, að það sé nokkuð almennt viðurkennt hér á landi, að við eigum að haga meðferð dómsmála á þá lund, að hún geti verið hverjum borgara nokkuð greið til þess að ná rétti sínum. Því miður hefur verið svo hér á landi að undanförnu, að dómsmálameðferðin hefur ekki verið í því horfi, sem æskilegt væri. Dómsmálin hafa tekið allt of langan tíma. Hitt er líka vitað, að dómsmálameðferðin er kostnaðarsöm, þannig að það er áreiðanlegt, að efnaminni menn hika oft við, áður en þeir leggja út í að stofna til dómsmála til þess að reyna að ná rétti sínum, jafnvel þótt þeir telji hann nokkuð tvímælalausan. Þetta hefði þurft að laga, og þetta þarf að laga. Það er þess vegna sízt af öllu ástæða til þess að fara að bæta nýjum kostnaðarliðum hér ofan á. En með þeirri hækkun á dómsmálagjöldunum, sem hér er gert ráð fyrir, er tvímælalaust um það að tefla, að efnalitlum mönnum er gert miklu erfiðara en áður að leita réttar síns fyrir dómstólunum.

Mér sýnist hér vera ráðizt nokkuð á lamb hins fátæka manns. Ég held, að það sé mjög illa farið. Mér dettur að vísu ekki í hug að halda neinum öfgum fram í þessu sambandi. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að þessi hækkun, sem þarna er um að tefla, sé svo mikil, að hún hafi það í för með sér, að við verðum ekki eftir sem áður taldir til réttarríkja. En þetta er spor í öfuga átt að mínum dómi, — alveg í öfuga átt. Ég álít, að þessi dómsmálagjöld ættu miklu fremur að hverfa úr sögunni, það væri sá háttur, sem siðuðu ríki bæri að stefna að, að dómsmálameðferðin yfirleitt sé sú þjónusta, sem hið opinbera lætur að öllu leyti í té ókeypis. En ef það hefur ekki þótt fært að þessu leyti, þá á að reyna að stilla þessum gjöldum í hóf sem allra mest. Ég vil þess vegna vænta þess, að hv. nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, íhugi nú nokkuð, hvort það sé heppilegt að hækka þessi dómsmálagjöld svo mjög sem hér er gert ráð fyrir.

Svo er í V. kafla um gjöld fyrir notarialgerðir að tefla. Ég skal ekkert segja um það, það eru kannske gjöld, sem út af fyrir sig skipta ekki svo miklu máli, hvort nokkuð eru hærri eða lægri, ef þau á að taka á annað borð.

Í VI. kafla er fjallað um gjöld til þinglýsingar. Þar er um hækkun á grunngjöldum að ræða, og má kannske segja, að sú hækkun skipti ekki gífurlega miklu máli, af því að þinglýsingargjöldunum er yfirleitt hagað þannig, að þar er um prósentugjald að ræða. En sannleikurinn er sá, að vegna breytts verðlags hefðu þau að réttu lagi átt að lækka, vegna þess að þau hafa í raun og veru hækkað mjög mikið, og það vita allir, sem nokkuð koma nálægt þeim málum, að það eru orðin talsvert tilfinnanleg gjöld fyrir þá aðila, sem þar eiga hlut að máli, fyrir þann, sem kaupir íbúð, fyrir þann, sem tekur lán, o. s. frv. Öll þau þinglýsingargjöld, sem verður að inna af hendi í sambandi við það, eru tilfinnanleg. Ég tala nú ekki um, þegar stimpilgjöldin bætast þar ofan á. Mér sýnist því, að það hefði frekar mátt stefna að því að reyna að lækka þau gjöld og draga þannig úr kostnaði, sem er ákaflega tilfinnanlegur hjá mönnum, sem mega ekki við því, að á þá leggist aukakostnaður í sambandi við þær fjárráðstafanir, sem þar er yfirleitt um að ræða, kaup eða lántöku eða því um líkt.

Í VII. kaflanum er um að ræða ákaflega mörg og ýmiss konar leyfisgjöld, skírteinagjöld, gjöld fyrir skipunarbréf í embætti o. s. frv. Þetta er í 29., 30. og 31. gr. Ég skal ekki þreyta hv. deildarmenn með því að fara út í þá liði, sem þar eru upp taldir, og öll þau leyfi, sem þar eru greind, en það er fróðlegt fyrir alla að lesa það yfir og kynna sér, um hvers konar leyfisbréf þar er að ræða. Það er náttúrlega um mjög margvíslega tolla að ræða þar, eins og t.d. hjónavígslutolla, lögskilnaðartolla, ættleiðingarleyfi og því um líkt. Manni getur nú orðið hugsað til þess, hvaða ástæða sé til þess að taka það út úr, hvers vegna þá ekki eigi að taka með allt það, sem opinberan atbeina þarf til, hvort það eigi ekki að koma til skírnartollar og jarðarfarartollar o. s. frv., en sleppum því. Þarna er í mörgum tilfellum um að ræða nauðsynleg leyfi og nauðsynleg leyfisbréf, sem menn verða að hafa til að geta stundað tiltekna atvinnu.

Þessi leyfisbréf hækka yfirleitt um 100%. Mér finnst sú hækkun vera mikil, og ég held það sé vafasamt að vera að áskilja það í ýmsum tilfellum, að menn verði að greiða jafnháar upphæðir og þarna er gert ráð fyrir, fyrir þau atriði, sem þar er um að ræða. Það kemur þar til, að þessi leyfisgjöld, sem þarna er um að ræða og hækka svona mikið, bitna yfirleitt og koma niður á þeim, sem eru að koma sér fyrir, hefja starf eða atvinnu eða eitthvað því um líkt, en koma ekki með sama hætti við þá, sem þegar hafa öðlazt þessi réttindi, þó að þeir kannske á sínum tíma hafi orðið að greiða eitthvað fyrir þau.

Ég bendi t.d. á, að skv. 16. liðnum í 29. gr. á að greiða 6000 kr. fyrir leyfi til málflutnings fyrir hæstarétti. Menn segja kannske sem svo, að þeir menn séu ekki of góðir til þess og þeirra tekjur séu það góðar, að þeir hafi ráð á þessu. En ég held, að þetta sé samt nokkuð sérstaks eðlis og nokkuð óeðlilega hátt, miðað við ýmislegt annað.

Ég vil líka aðeins benda nefndinni, sem fær þetta til athugunar, á, að 12. liður í 29. gr. á ekki þar að vera eða þá að það á að koma einhver viðbót þar við hann. Í 12. lið segir aðeins: „Leyfisbréf til gistihúshalds, veitinga o. fl., sjá lög nr. 53 1963, 22. gr.“ Svo segir ekkert meira um það. En í 22. gr. laganna um veitingar og gistihúsahald eru náttúrlega ákveðin gjöld fyrir veitingaleyfi, og þau eru þar ákveðin mismunandi há, 3000 kr., 1500 kr. og 1000 kr. o. s. frv. Því á sýnilega ekki að breyta. Á því náttúrlega ekkert að geta um þau í þessum lögum. En ef það þykir samræmisins vegna eðlilegra, að þessi gjöld séu í þessum lögum, ætti náttúrlega að taka þau þarna upp undir þessum lið.

Svo vil ég benda á 31. gr., sem mér er sérstakur þyrnir í augum. Þar er sem sagt ákveðið, að þeir, sem fá skipunar- og veitingabréf, eins og það er kallað, fyrir embættum og sýslunum í þágu ríkisins, skuli greiða gjald fyrir það, og þessi gjöld eru mismunandi há eftir því, í hvaða launaflokki maðurinn er, og má segja, að það út af fyrir sig sé ekki óeðlilegt. En ég verð að láta í ljós þá skoðun mína á þessu, að þetta sé hrein ómynd og ekkert annað, að láta þá menn, sem skipaðir eru til starfa og fá skipunarbréf, vera að greiða eitthvert sérstakt gjald fyrir það. Mætti þá ekki alveg eins láta hv. þm. fara að greiða gjald fyrir sín kjörbréf, þegar þeir fá þau, og mætti þá ekki alveg eins fara að láta bæjarstarfsmenn greiða gjöld fyrir þau ráðningarbréf, sem þeir hafa, eða greiða gjöld af ráðningarsamningum yfirleitt? Ég veit ekki eiginlega, hvar menn hafa haft fyrirmynd fyrir þessu. En hvort sem menn hafa haft einhverja fyrirmynd eða ekki, þá held ég, að sú fyrirmynd hafi ekki verið góð og við ættum ekki að vera að halda í þetta, og í sambandi við það má líka benda á það, að nú er fellt niður ákvæði, sem er þó í tilsvarandi grein í núgildandi aukatekjulögum, þar sem segir þó, að ekkert gjald skuli greiða af veitingarbréfi, ef áður hefur verið greitt gjald af veitingarbréfi í sama gjaldflokki. Þessu er nú sleppt, ég veit ekki af hvaða ástæðu.

Í VIII. og IX. kafla eru ákvæði um skrásetningar í VIII. kaflanum og ýmis gjöld í þeim IX., og ég skal ekki lengja tímann með því að ræða neitt sérstaklega um þau. Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en sem sagt, ég get ekki fallizt á þá hækkun, sem þetta frv. felur í sér. Ég tel hana allt of stórkostlega, og ég tel, að hún bitni fyrst og fremst á hinum yngri þjóðfélagsþegnum, sem eru að koma fyrir sig fótunum. Ég tel ekki heldur rétt að vera að samþykkja nýja og nýja skatta, aukna skatta, á meðan haldið er áfram óbreyttri þeirri stefnu í fjármálum ríkisins, sem fylgt hefur verið að undanförnu. Ég tel það litla þýðingu hafa, því að slíkar auknar tekjur, sem ríkissjóði eru samþykktar þannig til handa, fara jafnóðum í eyðslu og verðbólgu. Og ég held það sé hæstv. ríkisstj. fyrir beztu, að henni skiljist sem allra fyrst, að hún getur ekki endalaust haldið áfram á þeirri braut að stofna til útgjalda og eyða í trausti þess, að það sé hægt að sækja það, sem á móti þarf, í vasa almennings.

Ég held þess vegna, eins og ég hef tekið fram áður, að í fjármálum ríkisins þurfi að verða stefnubreyting, að það þurfi að fara að spara þar. Ég veit reyndar, að það hefur komið fram hjá hæstv. fjmrh., hann er mér sammála í því efni. Mér er hins vegar ljóst og honum þó sjálfsagt enn þá ljósara, af því að eldurinn brennur nú heitar á honum, að það er ýmsum erfiðleikum bundið, og þó að góður vilji sé hjá honum í þá átt, þá strandar það kannske á öðrum ráðamönnum og öðrum ráðunautum og ráðuneytum, sem kannske í þessu sambandi mætti kalla eyðsluráðuneyti. En það verður hér að sporna við, það er alveg sýnilegt. Það er ekki hægt að halda áfram á þessari braut. Ég get búizt við því, að hæstv. fjmrh. bendi á það, að við gerðum ekki sparnaðartill., og það er satt. Það tel ég ekki vera í verkahring stjórnarandstöðunnar sérstaklega. Hins vegar hygg ég, að við mundum taka vel og fylgja sparnaðartill., ef þær kæmu frá hæstv. ríkisstj. Og það er sú leið, sem ég held að eigi að fara, en ekki þessi leið, að leggja alltaf á nýja og nýja skatta.