04.11.1965
Efri deild: 11. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir það mjög leitt, ef ég hef verið að gera hlut hv. þm. of slæman, það var ekki ætlun mín, eða ég hef komizt eitthvað skakkt að orði, en það kann vel að vera að hann hafi ekki sagt það, að ríkisstj. vildi viðhalda dýrtíð. En ég man ekki betur en bæði hann og yfirleitt hans flokksbræður allir tali um þá dýrtíðarstefnu, sem ríkisstj. fylgi. Hvort hann meinar með því, að hún fylgi annarri stefnu en hún vill fylgja, út í þann orðaleik skal ég ekki fara, en ég hef ekki heyrt því haldið fram yfirleitt um neina stjórn, að hún fylgi þveröfugri stefnu við þá stefnu, sem hún vill fylgja. Það held ég gildi ekki um neinar stjórnir. Það lætur þá ákaflega nærri, að það megi segja, að í þeirri fullyrðingu, að ríkisstj. fylgi dýrtíðarstefnu, felist það nokkurn veginn, að henni þyki það ekki svo ákaflega slæmt, því að hún miði sínar ráðstafanir við það, eins og oft hefur verið haldið fram af hv. framsóknarmönnum, að það leiddi allt til aukinnar og meiri dýrtíðar, og annaðhvort eru þá mennirnir, sem í stjórnarsessunum sitja, meiri fábjánar en ég jafnvel vil halda að þeir séu eða þá að það hlýtur að vera í samræmi við þeirra vilja, að þessar afleiðingar verði, sem hér um ræðir. Ég held því, að þetta sé ekki fjarri lagi, þó að ég kunni að hafa komizt ekki nákvæmlega rétt að orði um það, sem hv. þm. segir, og er þá sjálfsagt, að ég viðurkenni það, og mér dettur ekki í hug að mótmæla því, sem hann sagði, að hann hefði ekki viðhaft beinlínis þau orð.

Varðandi hitt atriðið má auðvitað ræða langt mál og hefur oft verið gert, dýrtíðar- og verðbólguþróunina sjálfa og það sé ekki hægt að halda áfram á þeirri braut. Ég er nákvæmlega sammála hv. þm., og þar erum við farnir að tala sama tungumál. að þessi þróun má auðvitað ekki halda áfram með þeim hætti, sem verið hefur, og þessi verðbólguþróun hefur verið allt of mikil. Og varðandi það, að það sé einhver fordæming á hæstv. núv. ríkisstj., að hún hafi sagzt vilja vinna gegn verðbólgunni og að stöðvun hennar og það hafi ekki tekizt, — ja, ég spyr bara: Hefur nokkur ríkisstj. verið mynduð núna síðustu áratugina, að hún hafi ekki lýst því yfir í byrjun, að hún vildi vinna gegn verðbólguþróuninni og sannast sagna oft og tíðum með sáralitlum árangri? Ég er ekki að saka þær ríkisstj. um það, að þær hafi ekki viljað vinna gegn þessari þróun. Hér er bara um að ræða þann vanda í þjóðfélaginu, að menn hafa ekki viljað beygja sig fyrir vissum staðreyndum, og það má kannske segja, að það sé fyrst nú tvö síðustu árin, sem þó örlar á því, að menn séu farnir að viðurkenna það almennt, að þessi dýrtíðarþróun sé ekki almenningi til góðs, heldur af hinu illa, og á ég þar við, að verkalýðssamtökin hafa tekið upp annað viðhorf í sínum kjaramálum nú tvö síðustu árin heldur en þau hafa áður gert, og tel ég, að það sé allt til góðs, þó að því miður hafi ekki tekizt samt enn sem komið er sem skyldi að stöðva þessa óheillavænlegu þróun. En ég held, að það sé alveg augljóst, að eina leiðin í okkar þjóðfélagi til þess að stöðva þessa þróun er að skapa þann skilning milli þjóðfélagsstéttanna, að hér sé farið með hófsemi og varúð í kröfugerð á öllum sviðum og hún miðuð við það, sem aukning okkar útflutningsframleiðslu þolir á hverjum tíma.

Það er alveg rétt, að það, sem hefur bjargað því þrátt fyrir þessar kröfur, sem hefur ekkert verið farið dult með af ríkisstj. hálfu að séu allt of miklar, eins og þegar það gerist, að kaup er hækkað um milli 30 og 40% á einu ári, sem ég veit ekki til að nokkurt hagkerfi hafi þolað, engu að síður hefur þó tekizt til þessa dags án þess að framkvæma gengisbreytingu að halda atvinnuvegunum gangandi án verulegra styrkja, og það auðvitað byggist m. a. á því, að það hefur verið um að ræða stórkostlega framleiðsluaukningu og hækkað verð á okkar útflutningsvörum. Ef hins vegar þróunin verður í aðra átt, og ég tala nú ekki um, ef lækkar verð á útflutningsvörum, ef framleiðslan dregst saman, þá hlýtur þetta auðvitað að verða öngþveiti. Það þýðir ekkert að vera að loka augunum fyrir því. Vitanlega eruð við hér á yztu nöf með okkar kröfugerð, og miðað við t.d. þær kauphækkanir, sem eru framkvæmdar árlega í öðrum löndum, þar sem hófsemi er í þessum efnum, og miðað við þá hækkun, sem þar er á verðlagi frá ári til árs, þá erum við auðvitað á ákaflega óheppilegri braut. Og sú skipan, sem er í samtengingu verðlags og vísitöluskrúfu, sem oft er talað um hjá okkur, hefur leitt til margvíslegra vandræða. Um þetta þurfum við í rauninni ekki að deila, og mér dettur ekki í hug að mótmæla orðum hv. þm. um það, að hér sé við vandamál að glíma, vandamál, sem ríkisstj. hafi ekki fullkomlega ráðið við, það er rétt. En hún hefur þó gert það, sem er kjarni málsins, að hún hefur forðað frá stöðvun atvinnuveganna, þannig að hér hefur orðið stórvaxandi framleiðsla, og það má segja að sé náttúrlega höfuðvandamálið og þýðingarmesta, sem við er að fást í þjóðfélaginu hverju sinni.

Það er rétt, að ríkisstj. hefur búið við góðæri. Vissulega hefur hún gert það. En ég vil ekki láta hjá líða að minna á það, að mesta góðæri, sem hafði komið yfir landið til þess tíma, var árið 1958, þegar vinstri stjórnin varð að gefast upp, vegna þess að hún réð ekki við verðbólgu, — ekki einu sinni í góðæri gat hún ráðið við hana. Ég er ekkert að ásaka hana fyrir það. Hún stóð andspænis þeim mikla vanda, að það náðist ekki samkomulag um þau úrræði, sem hún vildi beita sér fyrir. Og það var sjáanlegt, að af þessu hlyti að leiða strand, ef áfram yrði haldið á þeirri braut, sem þá var farin. Og það tókst ekki að fá þann skilning, sem ég tel að sé alveg jafnnauðsynlegur nú eins og hann var þá, á því að óhæfileg kröfugerð hlýtur að hitta menn aftur í höfuðið með einhverjum hætti. Það er ekki til nein gullkista, sem mokað verður úr, en enginn þurfi í að láta. Þetta er auðvitað allt við það bundið, að atvinnuvegirnir fái undir þessu risið.

Varðandi svo hitt atriðið, að mönnum hafi verið sagt, að allt væri í lagi með fjármálastjórnina og þess vegna þyrfti engar áhyggjur að hafa af afkomu ríkisins, þá er það ekki rétt. Fyrirrennari minn, hæstv. fjmrh., vék mjög oft að því á síðasta þingi, að það væri teflt á yztu nöf með afkomu ríkissjóðs. Og það liggur nú fyrir í dag, að kröfurnar á hendur ríkissjóði og sú þróun í verðlagsmálum og kaupgjaldsmálum, sem hefur leitt til þessarar stórfelldu aukningar útgjalda hjá ríkinu, það er nú þegar komið á yztu nöf, þannig að það er orðinn stórfelldur halli hjá ríkissjóði, svo að um þetta þarf ekki að deila. Á síðasta þingi héldu hv. framsóknarmenn því fram um allar þær till., sem þeir fluttu um á þriðja hundrað millj. kr. ný útgjöld ríkissjóðs, að þetta væri allt í lagi, vegna þess að ríkið hefði svo geysilegar tekjur, það gæti vel undir þessu risið öllu saman. Nú er þessi glæpur frá þeim tekinn, þeim ágætu vinum mínum, þannig að menn standa andspænis þessu, að það er halli hjá ríkissjóði. Og við stöndum nú með þann vanda fram undan okkur á þessu Alþ. að verða að jafna þann halla, og til þess er verið að gera þessar ráðstafanir, sem nú er verið að gera til að afla aukinna tekna, að því er ég held. Og ég efast ekkert um það, að hv. 3. þm. Norðurl. v. er mér sammála um það, að það þurfi að vera hallalaus ríkisbúskapur.