04.11.1965
Efri deild: 11. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið, enda gefur það mál, sem hér er til umr., ekki tilefni til langrar efnislegrar umr. um frv. sjálft, áður en það fer í n. En ég get hins vegar ekki stillt mig um að láta í ljós sár vonbrigði mín yfir því, hvern málflutning hæstv. fjmrh. hefur nú eftir sína nýju upphefð farið að temja sér hér í þessari hv. deild.

Hæstv. fjmrh. hefur haft það orð á sér til skamms tíma að vera manna sanngjarnastur í málflutningi og temja sér hófsamlegt tal. En það bregður heldur öðruvísi við núna og þá ekki sízt í fyrri ræðu hæstv. fjmrh. — hann reyndi heldur að draga í land í þeirri síðari.

Ég vil lýsa vonbrigðum mínum yfir því, að hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) skuli fá þær kveðjur frá hæstv. fjmrh., sem hann fékk hér í fyrri ræðu hans áðan, eftir þá ræðu, sem hann hafði flutt hér. Hv. 3. þm. Norðurl. v. lét í ljós í ræðu sinni, að það yrði ekki haldið áfram á sömu braut og gert hefur verið, og það var ekki fyrr en undir lok síðari ræðu sinnar, sem hæstv. fjmrh. fékkst til þess að taka undir það og telja sig geta talað sama tungumál og hv. 3. þm. Norðurl. v. um þetta efni.

Hæstv. fjmrh. var ákaflega hneykslaður yfir því, að hv. 3. þm. Norðurl. v. hefði talað um. að ríkisstj. vildi dýrtíð. Það kom í ljós, að þetta hefur sá hv. þm. auðvitað aldrei sagt, heldur hitt, að sú stefna og vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. hefur á undanförnum árum haft um hönd, hafa leitt til þeirrar dýrtíðarþróunar, sem okkur er öllum kunnugt um.

Hæstv. fjmrh. þarf þess vegna ekki að vera neitt hissa á því, þó að stefna, sem leiðir af sér þá þróun í verðlagsmálum, sem hér hefur verið að undanförnu, sé kölluð dýrtíðarstefna. Í því þarf alls ekki að vera fólgið það, að það sé sagt, að ríkisstj. vilji dýrtíð, heldur hitt, að stefnan hefur haft dýrtíðina í för með sér.

Hæstv. fjmrh. var ákaflega hneykslaður á þeim orðum, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. hafði þó aldrei haft um hönd í þessu efni, en hann kinokaði sér ekki við það að segja, að Framsfl., næststærsti flokkur þjóðarinnar, sem hefur að baki sér meira en fjórðung íslenzkra kjósenda, stefndi að því að skapa öngþveiti, — „Framsfl. vill neita ríkisstj. um eðlilegar tekjur til þess að skapa öngþveiti og koma henni frá.“ Ég vil vara hæstv. fjmrh. við slíkum málflutningi, hann er ekki sæmilegur.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði grein fyrir því, sem við framsóknarmenn erum sammála um, að það er ekki hægt að halda áfram á sömu braut og gert hefur verið í fjármálum og efnahagsmálum íslenzku þjóðarinnar, og ég fékk ekki betur heyrt undir lokin í ræðu hæstv. fjmrh. en hann væri í rauninni sammála þessu sjónarmiði.

Hæstv. fjmrh. þarf ekki að vera hissa á því, þó að það hafi komið fram á undanförnum árum ýmsar kröfur um framkvæmdir á vegum ríkisins frá stjórnarandstöðunni, þegar greiðsluafgangur hjá ríkissjóði nam hundruðum milljóna á hverju ári nokkur ár í röð, og það er ekki því að kenna, að þessar till. framsóknarmanna hafi fengið allt of góðar undirtektir hjá stjórnarliðinu, að það kemur nú og segir okkur frá því, að það sé komið á þriðja hundrað millj. kr. undir hjá ríkissjóði.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði í ræðu sinni áðan, að ef ríkisstj. vildi leggja fram skynsamlegar till. til sparnaðar í ríkisrekstrinum, þá mundi ekki standa á okkur framsóknarmönnum að skoða þær af skilningi og velvilja. Ég vil taka undir þetta hjá hv. þm. og láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að þegar slík yfirlýsing kemur frá einum aðalleiðtoga stjórnarandstöðunnar, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. er, þá skuli það fá þær undirtektir, sem það fékk hér í fyrri ræðu hæstv. fjmrh. áðan.