30.11.1965
Efri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, sem stöndum að áliti 1. minni hl. fjhn., teljum ekki tímabært að samþykkja frv. af þessu tagi. Við teljum ekki tímabært að heimila ríkisstj. að grípa eftir nýjum tekjum til þess að halda áfram óbreyttri fjármálastefnu. Sú fjármálastefna, sem hefur verið fylgt, verður að okkar dómi að breytast, og við viljum ekki eiga þátt í því að leggja ríkisstj. til meira af fjármunum almennings til þess að halda áfram óbreyttri stefnu.

Ég þarf ekki að fara mjög mörgum orðum um einstök atriði þessa frv., sem hér liggur fyrir. Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði mjög góða grein við 1. umr. þessa máls fyrir einstökum atriðum, sem orka tvímælis í þessu lagafrv., og það eru vissulega ýmsir af þeim tekjustofnum, sem hér er um að ræða, sem orka verulega tvímælis sem tekjustofnar fyrir ríkissjóð. Það er t.d. næsta broslegt, að ríkissjóður skuli taka fé fyrir það að skipa menn í stöður hjá ríkinu. En vissulega er þetta ekki neitt nýmæli í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að gera það frekar að umræðuefni.

Það kemur fram í grg. þessa frv., eins og hv. frsm. meiri hl. benti raunar á, að nú þykir nauðsynlegt að hækka ýmsa tekjuliði aukatekjulaga, einkum þá, sem eru fastákveðnir í krónum, en fylgja ekki breyttu verðlagi á hverjum tíma. Og ég skildi hv. frsm. meiri hl. þannig, að hann líti svo á, að frv. væri í sjálfu sér slíkt, að þar væri verið að færa þá hluti til breytts verðlags, sem fastákveðnir eru í upphæðum, en ekki prósentum í lögum. Ég hlýt þess vegna að benda á það, að frv., eins og það liggur fyrir, er alls ekki sjálfu sér samkvæmt í þessu efni. Ég vil t.d. benda á 3. mgr. 2. gr., þar sem stendur: „Í málum, þar sem fjárhæð nemur ekki 1000 kr., greiðast hálf réttargjöld.“ Þessar 1000 kr. eru óbreyttar frá gildandi l. Ef menn væru sjálfum sér samkvæmir með að vilja færa hlutina til breytts verðlags, hefði þessi upphæð að sjálfsögðu einnig átt að hækka. Sams konar ákvæði er að finna í 3. gr., þar sem stendur: „Þegar fjárhæðin er 1000 kr. eða minni, greiðast 120 kr.“ Þetta var áður þannig, að það stóð: „Þegar fjárhæðin er 1000 kr. eða minni, greiðast 60 kr.“ Þarna hefur verið tvöfaldað grunngjaldið án þess að breyta þeirri upphæð, sem grunngjaldið er miðað við. Ég skal ekki eyða tímanum í að rekja dæmi af þessu tagi, þau eru mjög mörg í frv. T. d. í 23. gr., um þinglýsingar, eru grunnupphæðir, viðmiðunargrunnupphæðir óbreyttar. Fyrir að þinglýsa skjölum t.d. var gjaldið fyrir 5000 kr. áður 50 kr., en verður nú 100 kr. Ef menn hefðu verið sjálfum sér samkvæmir í að færa til breytts verðlags, hefði verið rétt að tvöfalda slíkar grunnupphæðir eða slíkar viðmiðunar- eða lágmarksupphæðir einnig. En hér er verið að nota sömu aðferðina og tíðkaðist í tekjuskattsl. fram til seinasta árs, þegar dýrtíðin var gerð að skattstjóra með þeim snjalla hætti að hafa fastar upphæðir í tekjustigunum, skattstigunum, sem breyttust ekki með breyttu verðgildi. Það atriði hefur nú verið lagfært í tekjuskattsl., en nú er verið að taka upp hliðstæða aðferð hér.

Ég skal ekki fara langt út í einstök efnisatriði frv., en mig langar til þess að fara örfáum orðum um brtt., sem fram hafa komið. Brtt. frá meiri hl. fjhn. eru þess eðlis, að þær eru allar nema ein hreinar leiðréttingar, ýmist á prentvillum eða augljósum atriðum, sem hefur þurft að leiðrétta, en 1. brtt., sem er efnisleg, er að mínum dómi til bóta, og það hefði í sjálfu sér ekki verið neinn vandi að ná samstöðu í n. óklofinni um flutning þessara brtt. En það gegnir öðru máli um till. hv. 4. landsk. þm. á þskj. 109. Hv. 4. landsk. þm, þykir ekki nóg að gert með þeim hækkunum, sem lagðar eru til í frv. ríkisstj., og leggur til, að gjöld fyrir fyrirtekt mála séu hækkuð meira. Mér er kunnugt um það, að til grundvallar þessum till. hv. 4. landsk. þm. mun liggja sú hugsun, að með þessu sé bægt frá málum, sérstaklega víxilmálum og öðrum smávægilegum fjárkröfum, sem menn geri of mikið af að ónáða dómstólana með að ástæðulausu. Það er raunar svipuð hugsun og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl., hv. 8. þm. Reykv., hér áðan, þegar hann lét í ljós þá skoðun, að of lág gjöld af þessu tagi mundu freista fólks til þess að leita til dómstólanna að ástæðulausu. En menn verða bara að gá að því í þessu sambandi, að hækkuð gjöld hitta fleiri en þá, sem eru að ónáða dómstólana að ástæðulausu. Þau hitta líka alla þá, sem þurfa að leita réttar síns af eðlilegum ástæðum og með eðlilegum hætti. Og ég er þeirrar skoðunar, að ef það vakir fyrir hv. 4. landsk. þm. að refsa með þessu vanskilamönnum og láta þá borga nokkur hundruð kr. meira í málskostnað, þá eru aðrar aðferðir hentugri til þess að refsa vanskilamönnum heldur en gera allt dýrara í sambandi við réttarfarsgjöld og hitta þannig einnig hina, sem þurfa að ná rétti sínum fyrir dómstólum landsins.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um einstök atriði frv., en undirstrika það, að við í 1. minni hl. fjhn. teljum alveg óhjákvæmilegt að breyta nú um stefnu í fjármálum ríkisins. Hin mikla skattheimta undanfarinna ára leiddi af sér mikla tekjuafganga hjá ríkissjóði á árunum 1961–1963 og jafnvel 1960 líka. Árið 1961 var greiðsluafgangur ríkissjóðs 72 millj., árið 1962 var hann 163 millj., og árið 1963 var hann 124 millj. kr., allt miðað við aðferð Seðlabankans við uppgjör greiðsluafgangs. En þrátt fyrir það, þó að þannig hafi verið innheimtir skattar og því haldið áfram, hefur afkoman samt snúizt á þann veg, að á árinu 1964 varð greiðsluhalli hjá ríkissjóði, gerður upp eftir sömu aðferð, 258 millj. kr.

Frv. þetta er liður í þeirri viðleitni hæstv. ríkisstj. að krækja í meira fé til þess að geta haldið þessari fjármálastefnu áfram. Við viljum ekki eiga þátt í þeim leik, og við lýsum í staðinn eftir marglofuðum till. um sparnað í ríkisrekstrinum. Við teljum okkur skylt vegna umbjóðenda okkar að verja fé þeirra gegn slíkri fjármálastefnu og fjármálastjórn, sem hér hefur verið á undanförnum árum. Það fer raunar ekki milli mála, að sú fjármálastefna, sem á fáum árum hefur breytt stórfelldum greiðsluafgöngum í enn þá stórfelldari greiðsluhalla, þarf endurskoðunar frá rótum. Sú meinsemd, sem þar er um að ræða, verður ekki læknuð með því að grípa eftir nýjum tekjum hér og þar án nokkurrar heildaráætlunar. Raunar geri ég ráð fyrir, að hv. þdm. hafi tekið eftir því með nokkurri ánægju, að við 1. umr. þessa máls viðurkenndi hæstv. fjmrh. þetta, að nauðsyn væri á breyttri fjármálastefnu og fjármálastjórn, og það ber að taka eftir því og minnast þess, þó að ræða hæstv. fjmrh. við þá umr. hafi að öðru leyti verið nokkur vonbrigði. Við teljum því, að það sé ekki tímabært að samþykkja þetta frv., og við leggjum til, hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, að frv. verði fellt.