22.03.1966
Efri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (2260)

43. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Mér er mjög annt um heiður heilbr.- og félmn. þessarar hv. d., og þess vegna þótti mér fyrir því, að meiri hl. n. skyldi leggja það til blákalt, að þetta frv. yrði fellt. Nú gat vel hugsazt, að heilbr: og félmn. kæmist að niðurstöðu um, að ekki væri rétt á þessu stigi málsins að samþ. frv., eins og það liggur fyrir, og að hún kæmi með brtt. í samræmi við þau skilyrði, sem fyrir bendi væru til þessarar þjónustu. En því er ekki að heilsa. Meiri hl. leggur það til kalt og ákveðið — og ég vil bæta við ábyrgðarlaust, að frv. verði fellt.

Ég held, að öllum komi saman um það, bæði leikum og lærðum, að tannlækningar og tannlæknisþjónusta sé mjög brýnt og mikilsvert sjúkratryggingamál. Þetta hefur öllum komið saman um, ekki aðeins síðustu árin, heldur síðustu áratugina, og löggjafinn sá þessa brýnu nauðsyn þegar fyrir 20 árum. Þá var í lög leitt hér á hinu háa Alþingi, að tannlækningar skyldu vera einn liður í sjúkratryggingakerfinu. Hitt er svo annað mál, að framkvæmdin varð ófullkomin, svo ófullkomin, að það var talið rétt að nema þetta brott úr lögum, en enginn mun hafa talið það æskilegt.

Aðalröksemd meiri hl. n. gegn frv. virðist mér vera sú, að skortur sé á tannlæknum í landinu. Þetta er engin röksemd. Hér eru í landinu á annað hundrað tannlæknar, og fólk á öllum aldri sækir þessa tannlækna. Það er farið með ungbörn undir skólaaldri til tannlæknanna, og hver vill draga í efa þeirra rétt til þess? Unglingar, sem komnir eru af skólaskyldualdri, fara einnig til tannlækna og fullorðnir og gamalmenni. Ég tel, að allir eigi jafnan rétt á því að fara til tannlæknis, eins og allir sjúklingar eiga jafnan rétt á að fara til læknis. Þar ber ekki að segja: Þessi aldur nákvæmlega á réttinn, en fólk á öðrum aldri ekki. — Þetta er engin röksemd, enda er staðreyndin sú, að fólk á öllum aldri fer til tannlæknanna. Spurningin er aðeins sú: Á að gefa fólki kost á að sjúkratryggja sig gegn tannskemmdum? Það er spurningin og annað ekki. Við vitum, að það kostar peninga, og það er ósköp eðlilegt, að með auknum réttindum í sjúkratryggingum hljóti iðgjöldin að hækka, og það er ekki lítils virði fjárhagslega, enda þótt iðgjöldin hækki fyrir fólk, að fá þessa þjónustu hjá tryggingunum.

Hv. frsm. meiri hl. n. sagði, að ekki væri rétt, að sjúkrasamlögin kepptu við skólana um þá tannlækna, sem fyrir hendi væru. Þetta er alveg fráleitt. Hér er ekki um neina samkeppni að ræða. Sjúkrasamlögin fara ekki að keppa við neinn. Það eru hinir sjúku, sem leita sér hjálpar, og annað ekki. Sjúkrasamlögin geta ekki haft það á valdi sínu að hindra sjúka menn í að leita sér hjálpar, hvort sem það eru menn með tannskemmdir eða annað. Hitt er svo álitamál, hvort sjúkrasamlögin vilja taka að sér að tryggja þessa sjúklinga eins og aðra sjúklinga.

Eins og hv. talsmaður meiri hl. n. tók fram, þá var þetta frv. sent til umsagnar tveim aðilum, stjórn Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnun ríkisins. Svar stjórnar Tannlæknafélagsins var stutt og laggott á þá leið, að stjórn félagsins treysti sér ekki eða gæti ekki tekið afstöðu til frv. Annað var ekki sagt í þessari umsögn. Hvað veldur þessu algera getuleysi Tannlæknafélagsins til að gefa umsögn, segja álit sitt, það er allt annað mál. Og ég teldi út af fyrir sig, að það væri rannsóknarefni, sem vert væri að gefa gaum. Hvers vegna getur stjórn Tannlæknafélagsins ekki sagt álit sitt á frv. sem þessu, sem snertir stéttina þó jafnmikið og hér er um að ræða? En ég skal ekki fara frekar út í þá sálma. Við vitum allir í þessari hv. d., að tannlæknastéttin liggur því miður undir gagnrýni.

Álitsgerð Tryggingastofnunar ríkisins er með allt öðrum blæ. Þar er reynt að ræða vandamálið, en heildarútkoman af bollaleggingum þeirrar grg. er sú, að það sé hin mesta nauðsyn á að tryggja fólk gegn ýmiss konar tannskemmdum. Það er helzt á þeirri álitsgerð að skilja, að það beri að fara hægt af stað og taka vissa sjúkdóma eða vissa flokka sjúklinga og tryggja þá, en ekki talið tímabært að snúa sér að því að tryggja fólk almennt gegn tannskemmdum. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig, og ef hv. meiri hl. n. hefði verið það ábyrgur gagnvart sjúku fólki að vilja taka eitthvað af þessu til greina og bera það fram, þá var það góðra gjalda vert, í stað þess að krefjast þess af hv. d. formálalaust og skilyrðislaust, að frv. þetta yrði fellt.

Spurningin um það, hvort það á að taka upp tryggingar í þessu formi stig af stígi eða allt i einu, er atriði, sem um má deila. En ég skal aðeins minna á það aftur, að fyrir 20 árum taldi löggjafinn það ekki áhorfsmál að tryggja alla landsmenn fyrir tannskemmdum eins og fyrir öðrum sjúkdómum, og það er auðvitað það eina rétta. Við þurfum ekkert að bíða eftir því, að tannlæknar verði svo og svo margir í landinu. Það skiptir ekki máli, hvort þeir eru 120, eins og þeir munu vera í dag, eða 220. Það, sem skiptir máli, eru sjúklingarnir og að þeir eigi kost á því að tryggja sig að þessu leyti, tryggja sig fyrir tannskemmdum eins og öðrum sjúkdómum. Þeir leita læknanna, sem til eru, hvort sem þeir eru fáir í landinu eða margir.

Minni hl. n. leggur til, að þetta frv. verði samþ.