10.02.1966
Neðri deild: 39. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2264)

98. mál, áfengislög

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til 1. umr., fjallar um breytingu á áfengislögunum, 1. nr. 58 frá 24. apríl 1964. Samkv. gildandi 1. er ríkisstj. heimilt að leyfa tilbúning áfengs öls af ótakmörkuðum styrkleika vegna sölu til erlends varnarliðs, er hér dvelur, eða til útflutnings, eins og í 7. gr. l. segir. Gildandi lög kveða einnig svo á, að nánari ákvæði um meðferð og sölu þess skuli sett í reglugerð. Með frv. þessu er lagt til, að gildandi ákvæði l. um tilbúning áfengs öls haldist, en við bætist heimild til banda ríkisstj. að leyfa tilbúning öls til sölu innanlands, er hafi inni að halda allt að 4 1/2 % af vínanda að rúmmáli, og áfengt öl, sem selt er innanlands, lúti sömu l. um meðferð og sölu og annað áfengi.

Árið 1960 var flutt hér á hv. Alþ. frv. efnislega skylt því, sem hér er til umr. nú. Það frv. kvað svo á, að ríkisstj. yrði heimilt að leyfa tilbúning öls til sölu innanlands, sem hefði inni að halda allt að 3 1/2% af vínanda að rúmmáli. Það frv. hafði ekki skýr ákvæði þess efnis, að áfengt öl, sem selt væri innanlands, lyti sömu lögum um meðferð og sölu og annað áfengi, heldur var ráðh. ætlað að setja ákvæði um meðferð og sölu þess í reglugerð, eins og gildandi lög kveða á um það áfenga öl, sem hér er nú þegar leyfður tilbúningur á. Þegar svokallað ölfrv. var flutt 1960, var ég einn flm. þess. Að þessu sinni flytja það auk mín tveir hv. þm. d. Ástæður framangreindra breytinga eru m.a. þessar:

Fagmenn um tilbúning öls telja, að hjá þjóðum, sem leyfa bruggun og sölu á áfengu öli, teljist öl ekki sterkt, fyrr en það hefur náð styrkleikanum 4 1/2—6% og þar yfir. Við bruggun öls, sem ekki mætti fara fram úr 4 1/2%, yrði af tæknilegum ástæðum að ætla styrkleikann minni, þannig að f fæstum tilfellum næði slíkt öl styrkleikanum 4 1/2%. Ef frv. þetta yrði samþ., væri því verið að veita heimild fyrir tilbúningi áfengs öls, sem meðal flestra annarra þjóða væri talið veikt öl.

Ein af þeim röksemdum, sem bornar hafa verið fram fyrir samþykkt slíks frv., er hér liggur fyrir, er, að öl, sem nær ákveðnum vínandastyrkleika, geti dregið úr neyzlu annars áfengis. Hætt er við, að þessum tilgangi yrði ekki náð, ef styrkleikamunurinn á hugsanlegu leyfðu öli og því öli, sem nú er leyft að selja á innanlandsmarkaði, yrði mjög lítill.

Um hina breytinguna vil ég taka þetta fram: Þrátt fyrir þau ákvæði í frv., sem ég flutti 1960, að nánari ákvæði um meðferð og sölu áfengs öls yrðu sett í reglugerð, og eins og ég margítrekaði í ræðum mínum um málið, að ég vildi ekki takmarkalausa sölu, hvorki á þessari tegund áfengis né öðrum tegundum, kom sú skoðun iðulega fram hjá þeim þm., sem töluðu gegn málinu, og öðrum, að ef frv. yrði samþ., væri hömlulausu áfengisflóði hleypt yfir þjóðina og takmarkalaus sala á öli leyfð, svo að nokkuð sé nefnt. Með þessari breytingu ætti sá útbreiddi misskilningur að vera úr sögunni, misskilningur, sem aldrei hefði þurft að koma inn í málið, ef gagnrýnendur, sem byggðu gagnrýni sína á þessum grundvelli, hefðu vitað, að allar reglugerðir, sem um áfengismál og meðferð áfengis eru settar, verða að berast undir áfengisvarnaráð. En af framansögðu má sjá, að ótti sumra, sem enn gerir vart við sig, um hömlulausa sölu á áfengu öli í matvöruverzlunum og sérstakar bjórkrár, er með öllu ástæðulaus. Sama er að segja um vinnustaði. Þeir vinnustjórnendur, sem í dag leyfa ekki neyzlu sterkra, áfengra drykkja í vinnutíma, ættu ekki að óttast aðrar tegundir áfengis samkv. skilgreiningu íslenzkra laga, og nákvæmlega það sama gildir auðvitað um stjórnendur allra öku- og farartækja.

Í gildandi íslenzkum l. er áfengi skilgreint sem vökvi, er hafi meiri vínanda en nemur 2 1/4% að rúmmáli. Jafnframt séu sterkir drykkir talin þau vín, er hafi meira en 21% af vínanda að rúmmáli, en létt vin teljist hins vegar þau, er hafi minna en 21% af vínanda að rúmmáli. Flm. þessa frv. eru á engan hátt að leggja til, að breyting sé gerð á þessari skilgreiningu. Ef frv. þetta verður samþ., veitist ríkisstj. heimild til að leyfa tilbúning og sölu öls á innlendum markaði, sem hefur inni að halda allt að 4 1/2% af vínanda að rúmmáli. Ég hef lengi haldið fram þeirri skoðun minni, að ég teldi lítið samræmi vera í þeirri ákvörðun hv. Alþ. að leyfa sölu á sterku áfengi og fela ríkisvaldinu dreifingu þess, en banna framleiðslu og sölu á öli, sem er veikasta stig áfengra drykkja eftir skilgreiningu íslenzkra laga. Ég tel, að með íslenzku áfengislöggjöfinni sé því slegið föstu, að það sé ekki framkvæmanlegt að banna algerlega sölu sterkra, áfengra drykkja, en um leið sé undirstrikað, að óheppilegt og hættulegt sé að hafa á boðstólum fyrir Íslendinga áfengt öl. Ég hef líka talið, að í áfengislöggjöfinni verði að vera samræmi eins og í öðrum lögum og það sé meira en litið misræmi að leyfa sölu á eldsterku brennivíni, en banna sölu á veiku öli á þeirri forsendu, að verið sé að vinna gegn áfengísbölinu. Og við slíkar röksemdir hlýtur sú spurning að vakna, hvort þeir fulltrúar á löggjafarþinginu, sem fylgja núverandi framkvæmd mála, séu sjálfum sér samkvæmir, er þeir láta hjá líða að beita sér fyrir algeru banni á sölu sterkra vína, fyrst bruggun og sala á öli, veikasta stigi áfengis, er sá bölvaldur, er sömu aðilar telja vera. Ástæður þess hljóta að vera sú skoðun þessara sömu aðila, að slíkt sé með öllu óframkvæmanlegt í nútímaþjóðfélagi sem okkar, sem býr ekki aðeins við okkar fullkomnu samgöngur, heldur þekkingu, vilja og getu almennings til bruggunar áfengra drykkja.

Þegar talað er um höfuðstefnur eða leiðir í áfengismálum okkar og annarra, er oftast talað um þrjár leiðir. Ein er sú að banna allan aðflutning og sölu á áfengi, hin svokallaða bannstefna. Önnur er frjáls sala áfengra drykkja. Og svo sú þriðja, sem hér hefur verið fylgt um nokkur ár og segja má, að fari bil beggja.

Ég hef þegar skýrt frá því og sjá má í frv., að ef heimild fengist til bruggunar og sölu á áfengu öli, yrði meðferð þess og sala að fara fram eins og á hverju öðru áfengi, og er þannig fylgt skoðunum þeirra í hvívetna, sem telja, að slík meðferð vinni gegn misnotkun þess.

Ein af meginröksemdum þeirra, sem vilja leyfa bruggun og sölu á áfengu öli, og þeirra, sem því eru andvígir, er varðandi þau áhrif, er slíkt muni hafa á áfengisneyzlu þjóðarinnar í heild. Þeir, sem öl vilja, telja, að sala á áfengu öli geti að nokkru leyti bætt úr því öngþveiti, sem hér ríkir í áfengismálum, og breytt á ýmsan hátt til hins betra drykkjuósiðum, sem hér ríkja. Hinir telja, að sala á öli skapi hér hömlulaust áfengisflóð, eins og ég hef þegar getið um, og muni stórauka drykkjuskap, sérstaklega meðal unglinga, og enn fremur, eftir því sem sumir vilja halda fram, meðal verka og iðnaðarmanna. Ef um hömlulaust áfengisflóð yrði að ræða, eftir að þetta frv. yrði samþ., er slíkt áfengisflóð fyrir hendi í dag, og ég álít, að Alþ. sé skyldugt að gera eitthvað til úrbóta, ef fylgja á þeim anda, sem áfengisl. eru mótuð í. Og ég vil enn undirstrika, að ég tel það hreinustu fjarstæðu að tala um, að samþykkt þessa frv. skapi slíkt hömlulaust áfengisflóð. Ég viðurkenni hins vegar, að fyrir hlutlausan dómara mundi meginbreytingin vera álitin sú, að þessi tegund áfengis eftir skilgreiningu íslenzkra laga, veikasta stig þess, 4 1/2%, mundi bætast við þær 200 tegundir af áfengi, sem nú þegar eru til sölu hér á landi með styrkleikanum frá ca. 10% upp í 50%, ef menn eiga viðskipti við Áfengisverzlun ríkisins, og styrkleika allt að 70% hjá leynivínsölum.

Þegar ég mælti fyrir ölfrv. 1960 hér á hv. Alþ., ræddi ég áfengismálið frá mörgum hliðum. M.a. leitaðist ég við að mótmæla ýmsum hugmyndum manna, sem á loft hefur verið haldið, um áhrif öls á einstaklinga, hópa og jafnvel þjóðir og dró fram ómótinælanlegar staðreyndir um hið gagnstæða. Ég mun að þessu sinni ekki við 1. umr. málsins ræða mál þetta á jafnbreiðum grundvelli, nema sérstök ástæða gefist til, en draga samt fram sumt af því, sem ég tel, að enn skipti máli, eins og að vísu margt af hinu, sem kyrrt mun verða látið liggja að sinni.

Samkv. ályktun Alþingis hefur starfað að undanförnu mþn. í áfengismálum. Ég tel sjálfsagt, að þn. sú, sem fær málið til meðferðar, leiti eftir hennar álíti um eitt og annað, er þetta mál varðar, og munu þó ýmsar upplýsingar frá n. þeirri væntanlega liggja fyrir við 2. umr. málsins. Á sínum tíma ræddi ég nokkuð ýmsar fullyrðingar um, að aukinn drykkjuskapur skapaðist meðal ákveðinna stétta með tilkomu áfengs öls, og benti m.a. á, að mjög vafasamar og hæpnar ályktanir hefðu verið dregnar frá ákveðnum vinnustöðum meðal grannþjóða okkar og ég teldi frekar styðjast við óskhyggju bannmanna en raunveruleikann sjálfan. Ég ræddi einnig um neyzluvenjur og skýrslur um áfengisneyzlu hér og í öðrum löndum, og í sambandi við það síðar nefnda tel ég hreinustu öfgar, þegar þeir, sem áfengt öl vilja, halda því fram, að með tilkomu þess muni neyzla sterka áfengisins minnka hlutfallslega við neyzlu áfengs öls. Þetta eru sömu öfgarnar og hjá bjórfjendum, sem telja, að bjórneyzlan leggist 100% við þá áfengisneyzlu, sem fyrir er, og stórauki hana. Sannleikurinn er hins vegar sá, að tölur yfir áfengisneyzlu, þ.e.a.s. 100% alkóhóllítra á mann hér á landi standast hvergi, a.m.k. ekki á síðustu árum. Áfengisneyzlan hér á landi er miklu meiri en tölur sýna. Töluvert magn kemur með ferðamönnum og öðrum, sem til þess hafa leyfi. Eitthvað mun vera um smygl, og þyrfti ekki t.d. marga Langjökulsfarma til þess að hækka þetta meðaltal. Og eitthvað hlýtur einnig að vigta, ef sú fullyrðing nokkurra tollvarða í mín eyru reynist rétt, að þeir áætli, að um 100 þús. kassar af áfengu öli hafi komið á land í Reykjavík og nágrenni á s.l. ári. Ef maður reiknar með, að slíkt bjargræði þekkist ekki um hinar dreifðu byggðir landsins, er hér um að ræða 2 millj. 400 þús. ölflöskur, sem telja má einnig með núverandi neyzlu. Með þessu og jafnframt opinberum tölum frá öðrum löndum vil ég aðeins undirstrika þá skoðun mína, að slíkar meðaltalstölur gefi alls ekki rétta hugmynd um ástand áfengismála í viðkomandi löndum. Þannig er ljóst, að slíkar meðaltalstölur mundu hækka hér á landi, ef sala á áfengu öli yrði leyfð, einnig og ekki síður, ef tækist að fyrirbyggja smygl. En slíkir útreikningar eru enginn mælikvarði á skaðsemdir áfengisneyzlu, allra sízt á þá hlið hennar, sem varhugaverðust er, en það er ofneyzlan. Það áfengisböl, sem við þekkjum, er að mínu mati frekar fólgið í neyzluvenjum en neyzlumagni.

Ég hef áður haldið fram þeirri skoðun minni, að fullyrðingin um ill áhrif öls á unglinga virðist haldlítil, þegar á það er bent, að hvorki peningaleysi né hömlur virðast forða frá því, að unglingar komist yfir eldsterkt brennivín eða skylda drykki, allt að 70% sterka, sem þeir síðan blanda með sætum, kolsýrðum vökva, sem felur áfengisbragðið að mestu, en flytur áfengisáhrifin svo að segja á svipstundu út um allan líkamann. Mér finnst rétt í þessu sambandi að geta um þá skoðun margra, að áfengur bjór eigi ekki við bragðsmekk unglinga, þeir vilji heldur áfengisblöndu í sykruðu kolsýruvatni, eins og dæmi sanna hér á landi sem annars staðar, og um frekari hættur unglinga vegna áfengs öls tel ég ekki vera að ræða, nema siður sé.

Ég hef minnzt á ofneyzlu. Það má segja, að þegar rætt er um áfengi og ofneyzlu þess eða misnotkun, hafi þar margir um fjallað, sem hafi það eitt sammerkt, að þeir virðast vita, að þeir viti bezt, og það má vel vera, að ég verði flokkaður í þann hóp. Skoðanir manna má þó flokka efnislega nokkuð nákvæmt og segja, að til sé hópur manna, sem telji, að öll neyzla áfengis sé hættuleg, og annar fjölmennari hópur, sem telji, að ofneyzla eða misnotkun áfengis sé það, sem hættulegt sé. Þeir lifa samkv. þessari skoðun sinni og virðast ekki síður vera nýtir þjóðfélagsþegnar en hinir. Ég skal í þessu sambandi fúslega viðurkenna þá skoðun mína, að það væri æskilegast fyrir allar þjóðir heims og þ. á m. okkur Íslendinga, að þær þekktu ekki áfengi og hefðu það þar af leiðandi aldrei um hönd, og það ætti að vera svo um margt fleira. En ég hef hins vegar einnig bent á þá skoðun mína, og ég tei, að það sé skoðun flestra annarra hv. þm., að við getum ekki sniðgengið þá staðreynd, að neyzla áfengis muni eiga sér stað hér á landi um mörg ókomin ár, og í samræmi við þá staðreynd og fleiri tel ég, að bann á áfengu öli sé byggt á alúreltum skoðunum um varnir gegn ofneyzlu eða misnotkun áfengis.

Ég hef haldið því fram opinberlega áður og geri enn, að þegar rætt sé um áfengissjúkdóma og sjúklinga, sé allt of oft gripið til hinna nærtæku og handhægu skýringa að telja áfengið orsökina, en ekki afleiðinguna af ýmiss konar hugsýki, sálrænum kvillum og félagslegum vandamálum. Ég skal strax taka fram, að þetta er ekki einhlítt, heldur getur ofneyzla áfengis bæði verið orsök og afleiðing, og þegar svo er, skapast vítahringur, sem hefur í för með sér endurteknar gagnverkanir, og það er ekki sízt þess vegna, sem ég er fylgjandi því, að haldið sé við hömlum bæði í sölu, dreifingu og meðferð áfengis hér á landi. Ég vil í þessu sambandi skjóta því inn í, að hömlur, sterkt almenningsálit og ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir, til þess að þeir, sem áfengis hafa neytt, aki ekki bifreið, hafi átt sinn þátt í því, að umferðarslys, sem rekja má til neyzlu áfengis, eru í því lágmarki, sem þau eru hjá okkur, eða aðeins 2,5% af umferðarslysum í heild. Hins vegar er ótti við aukningu þeirra vegna tilkomu áfengs öls út í hött af því, sem ég hef áður sagt, og eins vegna þess, að lykt af áfengu öli er ekki hægt að fela, en lykt af sterkum vínblöndum og sumu áfengi er vart finnanleg.

Það eru ekki nema um það bil 20 ár síðan það voru talin algild sannindi, að heilbrigð sál fylgdi hraustum líkama. Það var í síðustu heimsstyrjöld, að augu manna opnuðust fyrir því, að þetta væri langt frá því að vera algild sannindi, og eftir að síðustu heimsstyrjöld lauk, var hugtakið heilbrigði endurskoðað á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og sú niðurstaða fundin, að heilbrigði fæli í sér fullkomna líkamlega, andlega og félagslega vellíðan. Með stefnuyfirlýsingu þessarar stofnunar var viðurkennd sú hætta, sem einstaklingum og þjóðfélögum stafar af sjúkdómum, sem rekja má til sálarlífsins, og sannanirnar hafa ekki látið á sér standa. Bæði sál- og geðlæknar halda því fram, að af hverjum 100 sjúklingum, sem til læknis leita, þjáist a.m.k. 30—40 þeirra að einhverju eða öllu leyti af huglægum kvillum, t.d. kvíðni eða líkamlegum þjáningum, sem eiga sér sálræna orsök, og eru margir læknar í þeim hópi, sem telja, að þessi hundraðshluti sé miklu hærri. Þegar talað hefur verið um slíka sjúkdóma, hefur þeim venjulega verið skipt í tvo aðalflokka: hugsýki og geðveiki. Kannske er það vegna nafnanna, sem mikil andúð hefur stafað, bæði hjá lærðum og leikum, gegn því að viðurkenna sjúkdóm af slíkum orsökum, þótt umtalsverð breyting hafi orðið þar á á síðari árum. Ef farið er út í það að skilgreina sjúkdómsmynd hugsýkinnar, segja sálfræðingar, að hún sé afleiðing ákveðinna tilrauna einstaklingsins til að komast hjá sérstökum tilfinningalegum vandræðum, ná á þeim tökum eða vega á móti þeim. Hún er tilraun til verndunar persónuleikans. Sameiginlegt þessum fyrirbærum er vanmætti eða mistök á að ráða við þá hugkreppu, eins og þeir orða það, sem til grundvallar liggur, ótti við vandamálið og kvíði fyrir afleiðingum þess. Sjúklingurinn grípur til ýmissa ráða gegn kvíðni sinni, því að í sjúkdómsmyndinni fléttast oft saman andleg og líkamleg einkenni, og því fylgir oft i kjölfarið ýmiss konar hátternisbreyting, þ. á m. ofneyzla áfengis. Þetta segja lærðir menn á sviði sálfræðinnar. Og það má segja, að flestir þeirra telji í dag, að þessi svokallaða kvíðni sé meginaflið í sjúklegri neyzlu áfengis, sem er það sama og misnotkun áfengis, sem er það sama og ofneyzla áfengis.

Ef við lítum nánar á þær læknisfræðilegu kenningar, sem ég hef hér drepið á varðandi orsök ofneyzlu áfengis, verður sú staðreynd fljótt á vegi manns, að sjúkleg ofneyzla þurfi ekki endilega að vera bundin við áfengi, hún gæti komið fram á miklu viðara sviði. Þetta er hárrétt, enda hafa læknar ítrekað og aldrei frekar en nú bent á bæði ofneyzlu matar og lyfja. Í forustugrein danska læknablaðsins fyrir nokkrum árum var sagt m.a. orðrétt: „Það lítur út fyrir, að lyf séu að verða ein af helztu sjúkdómsorsökum hér á landi,“ og á öðrum stað: „Misnotkun lyfja er ein af helztu sjúkdómsorsökum í Danmörku.“ Sömu fréttir bárust frá Svíþjóð, en þar var alvarlega varað við misnotkun lyfja, er orsaki bæði magablæðingar, nýrnasjúkdóma, höfuðverk, blóðleysi o.fl., o.fl. Og um líkt leyti og þessar fréttir bárust frá Norðurlöndum, voru birtar niðurstöður rannsóknar frá Bandaríkjunum, sem í stórum dráttum fjölluðu um, að Bandaríkjamenn ekki aðeins éti of mikið, heldur of mikið af fitu. Sá almenni fróðleikur, sem nú er fyrir hendi, var ekki til þá hér á landi, og þessum málum hafði þá verið lítið hreyft hér opinberlega.

Ég minnist þess, að í umr. um áfenga ölið vitnaði ég til nýlokinna rannsókna í Bandaríkjunum, þar sem birtar voru skýrslur um niðurstöður þeirra. Þar á meðal var rætt um hjartasjúkdómana, og þar bentu sérfræðingar á þann skyldleika, sem væri á milli ýmissa fæðutegunda og þess sjúkdóms, sem þar er kallaður þjóðarmorðingi nr. 1, en það mun vera sú tegund hjartasjúkdóma, sem nefnd hefur verið kransæðastífla og veldur nú helmingi allra dauðsfalla, sem verða af hjartasjúkdómum í Bandaríkjunum, og drepur a.m.k. 1/2 millj. Bandaríkjamanna árlega eða tvisvar sinnum fleiri en deyja af öllum tegundum krabbameins þar og fimm sinnum fleiri en dauðaslysin, sem bilar valda. Og hvaða ályktanir má nú draga af þessu dæmi, sem ég hef dregið fram í örstuttu máli? munu margir ykkar spyrja. Ef líking væri dregin af afstöðu sumra ofstækismanna til áfengs öls, ætti að banna allan mat og öll lyf. En þótt svo djúpt sé ekki tekið i árinni, heldur t.d. bannið aðeins bundið við ákveðnar fæðutegundir, t.d. þær, sem þessi vísindamaður og margir fleiri telja að valdi kransæðastíflu, áður lýstum bölvaldi, skyldi þá ekki sumum hér inni í hv. þd. stökkva froða um vit, þegar bent er á, að þessar fæðutegundir eru að langmestu leyti feitt kjöt, mjólk og mjólkurafurðir? Slík bönn, eins og bann á öli, eru með öllu óraunhæf.

Ég hef þegar lýst skoðunum mínum á því, hvers vegna ég vilji ekki bann á neinni tegund áfengis, heldur aðeins vissar hömlur á sölu allra tegunda þess, og í framhaldi af því og öðru máli mínu finnst mér ég vera að nokkru leyti skyldugur til þess að benda á þau úrræði, sem ég tel að til varnar megi verða til þess að fyrirbyggja ofneyzlu áfengis og einnig til þess að lækna þá einstaklinga, sem sjúkdóminn hafa tekið og munu taka.

Ég minnist þess, að á þingi 1960, þegar þetta mál var til umr., var mjög hart að mér veitzt fyrir það að minnast ekki á þetta. Það var hinn mesti misskilningur. Ég tók þetta atriði einmitt til meðferðar, og ég mun gera það hér einnig. Og það er kannske sérstaklega vegna ekki aðeins áskorana héðan innanþings þá, heldur utanaðkomandi áskorana, vegna fráleitra fullyrðinga um einhverja þjónustu við ímyndað áfengisauðmagn hér á Íslandi, sem er auðvitað ekkert annað en ríkisvaldið, og aðrar þess háttar vitleysur, sem aðeins geta orðið til í hugarórum ofstækisfulls ofstækisfólks, auðvitað vegna þess líka, að heimildin fyrir bruggun á áfengu öli, sem þetta frv. felur í sér, hefur verið nátengd áfengismálunum í heild í öllum umr. manna á meðal og jafnvel því haldið fram af sumum, að samþykkt þessa frv. muni jafnast á við svartadauða á sínum tíma. Ég vil þó í þessum fáu orðum mínum um þetta atriði taka það fram, að ég er ekki að benda á nein ný sannindi, heldur staðreyndir, sem hafa verið kunnar um langt skeið, og staðreyndir, sem hefur verið unnið eftir og það með góðum árangri bæði hér og víða erlendis.

Ég tel, að verkefni slíkra varna yrði að vera tvíþætt, til að fyrirbyggja orsökina annars vegar og til þess að létta og lækna þjáningar afleiðinganna hins vegar. Og ég tel, að grundvöllinn eigi að leggja og byggja á grundvellinum strax í æsku barnsins, strax við fyrstu persónuleikasköpun þess á að móta afstöðu þess til áfengis. Við gerum það t.d. um trúmálin. Þessu ættum við auðvitað að halda áfram með aðild foreldra og skóla, sem sjá um hina þjóðfélagslegu aðlögun barnsins, og þegar kemur fram á unglingsárin, sem eru oft og tíðum erfiðasta tímabilið í lífi mannsins, ber að hafa það í huga, að í kringum 15 ára aldur eru unglingar oftast búnir að taka út fullan greindarþroska. Tilfinningalífið heldur aðeins áfram að breytast og breytist að vísu alla ævi, en sálfræðingar hafa bent á þá staðreynd, að unglingurinn sé þrátt fyrir kunnáttu sína í ýmsum fræðigreinum barn að reynslu og tilfinningaþroska, sem bæði langar til að sanna manndóm sinn, kunnáttu og sjálfstæði. Þeir benda einnig á, að það sé táknrænn þáttur i allri lífsviðleitni unglinga að skoða og prófa og þreifa sig áfram og velja og hafna, og kannske þess vegna, eins og margir benda á, er það, að höft og bönn og leyndardómurinn mikli í sambandi við áfengismálin séu svo hættuleg sem þau eru fyrir unglingana. Ég tel, að tómstunda og félagsheimili ýmiss konar og íþróttastarfsemi undir stjórn vandaðra og fórnfúsra leiðbeinenda sé það þýðingarmesta, sem þjóðfélagið geti gert fyrir þegna sína á þessu tímabili ævi þeirra. Og það skal tekið fram hér, að á þessu sviði er þegar unnið mikið starf af fórnfýsi og góðum hug, sem því miður verður minna úr en skyldi vegna fjárskorts, sem ég tel þó, þótt alþm. ábyrgur að afgreiðslu fjárl. sé, sé vafasöm ástæða og allhjárænuleg, ef samanburður er gerður annars vegar á fiskibátakaupum og skurðgreftri í sveit, en hins vegar uppeldi æskunnar með það að höfuðmarkmiði kannske að skapa henni sem og öðrum þegnum þjóðfélagsins líkamlega, andlega og félagslega vellíðan.

Ég tel happasælast meðal fólks, sem hefur náð fullorðinsaldri, ef skapa mætti meðal þess þá almennu skoðun, að ofneyzla áfengis væri vanvirðingarathöfn, jafnt fyrir einstaklinga sem fyrir hópa. Það þarf, eins og raunar oft hefur verið bent á, að byggja upp sterkt almenningsálit, sem fordæmir siðleysi, sem samfara er ofnautn áfengis og því miður er nú ekki talið ámælisvert í huga þjóðarinnar, en á samt sem áður eina stærstu sök á því ástandi, sem nú ríkir í áfengismálum. Skynsamleg og ofstækislaus áfengislöggjöf ásamt aðgerðum þess opinbera í sama anda er nauðsynleg til þess að ná þessu marki, og um það munu flestir mér sammála. Um hitt má deila, hversu mikil skerðingin á frelsi manna skuli vera vegna lagaákvæða, sem nauðsynlegt hefur verið talið að setja til þess að ná þessu setta marki. Ef það kemur í ljós hins vegar, að slík ákvæði vinni í beinni andstöðu við þann tilgang, sem ætlaður var með áfengislöggjöfinni, eins og ég held fram að ölbannið geri, ber tafarlaust að nema slíka þjónustu við ofstækið úr gildi. Ég tel einnig, að það opinbera, ríki og bær, ásamt áhrifamiklum einstaklingum í þess þjónustu og helzt utan eigi að ganga á undan með góðu fordæmi, verandi síminnugir máltækisins: „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.“

Ég hef nokkuð minnzt á skoðanir mínar um, hvað ég telji heppilegustu leiðir til að vinna gegn ofneyzlu áfengis. Hvað þeim viðvíkur, sem eru eða kunna að verða sjúklingar og neyta áfengis í óhófi, tel ég, að skilyrðislaust eigi þeir sjúklingar að eiga kost á spítala- eða hælisvist, meðan lækning fer fram. Í þeim málum eru ýmsar nútímaaðferðir á lofti, og það er sammerkt með öllum þeim aðferðum, sem ná árangri, að til grundvallar þeim liggur viðurkenning þeirrar staðreyndar, að áfengi sé fyrir hendi í einni eða annarri mynd og það sé hægt að ná í það, ef vilji sé fyrir hendi, þótt hömlur séu á. Allar læknisaðferðir þessar eru byggðar á einhvers konar sállækningu, en hún er, eins og sálfræðingar hafa skilgreint hana, fólgin í endurheimt og endurskipulagningu á eigindum persónuleikans eða nýrri tilraun til aðlögunar í stað þeirrar, sem mistókst, nýrri hagnýtingu á eigin gáfum og persónuþáttum, sem sjúklingurinn sjálfur verður að leggja til. Það eru að vísu ýmsar stefnur uppi um það, hvaða leiðir séu heppilegastar til sállækninga, og ég hef ekki þekkingu til að lýsa þeim. En ég minni á það, að allsherjarlausn til lækninga þeim, sem þjást af sjúklegri ofneyzlu áfengis, er ekki til, því að orsakir og afleiðingar geta verið jafnbreytilegar og einstaklingarnir eru sjálfir, og það þyrfti hjá hverjum einum að finna það sandkorn, sem fyllti hans mæli.

Í framhaldi af þessu vil ég að lokum benda á tvö atriði, sem sameiginlega geta gert meira en nokkuð annað til að finna og fyrirbyggja þær orsakir, sem leiða til sjúklegrar neyzlu áfengis eða sjúklegrar ofneyzlu bæði fastra og fljótandi efna, og þær hættur, sem því eru samfara, en það eru stöðugar hlutlausar, vísindalegar rannsóknir og þrotlaus fræðsla um niðurstöður þeirra. Ég vil undirstrika sérstaklega þessi orð mín: hlutlausar, vísindalegar rannsóknir, ekki ofstækislegar fullyrðingar eða rangar ályktanir og jafnvei vísvitandi rangar fullyrðingar. Allur áróður, sem er byggður á slíkum forsendum, verður engum til góðs.

Í umr. 1960 vitnaði ég til þess, sem kom í ljós, eins og margt fleira, í víðtækum vísindalegum rannsóknum, sem fram fóru í Finnlandi og miðuðu að því að fá úr því skorið, hvaða áfengispólitík væri skynsamlegust fyrir Finna. Undanfari þessara rannsókna var, að komið var á fót þar í landi vinnuheilbrigðisstofnun. Í stofnun þessari, sem er ein fullkomnasta í sinni röð í Evrópu, vinnur fjöldi vísindamanna. Þar eru læknar, sálfræðingar, verkfræðingar, auk fjölda aðstoðarmanna. Sagt hefur verið, að stofnun þessari væri ekkert mannlegt óviðkomandi. Meðal rannsókna, sem þegar hafa verið gerðar, eru vísindalegar rannsóknir á því, hvaða áhrif áfengi hefur á fólk. Þetta var gert í samráði við aðra stofnun, sem hefur þetta eina hlutverk að vinna. Stjórn stofnunarinnar er skipuð þjóðkunnum vísindamönnum og auk þess aðalforstjóra áfengisverzlunarinnar, K.A. Fagerholm. Ég dreg þetta fram hér nú, vegna þess að umræddur Fagerholm komst inn í umræður þær, er hér urðu um áfenga ölíð á þinginu 1960. Í þingtíðindum frá þessu þingi má sjá ýtarlegar tilvitnanir mínar í þessar vísindalegu rannsóknir, og ég sé ekki ástæðu til endurtekningar á þeim að sinni. En ég vil þó vitna til orða Fagerholms, er hann viðhafði, er hann var spurður, hvaða afleiðingar þessar rannsóknir mundu hafa á áfengispólitík Finna. Svar hans var það, að enginn efi væri á, að Finnar mundu reyna að draga úr neyzlu sterkra drykkja, eftir því sem við væri komið, en það yrði ekki gert með banni eða höftum, því að slíkt hefði sýnt sig að vera algerlega þýðingarlaust. Finnar mundu reyna að hafa á boðstólum sem viðast létt vín og öl, og væri nú unnið að því að gera tilraunir til ölframleiðslu í því skyni að gera ölið sem allra bragðbezt og aðgengilegast. Ofneyzla áfengis og óhappaverk þau, sem unnin væru í ölæði, væru svo mikið þjóðarböl, að sjálfsagt væri að hlíta niðurstöðum vísindanna og gera það, sem skynsamlegast hefði reynzt í slíku máli. Og í fleiri löndum hefur þessi stefna verið tekin upp, og bendi ég t.d. á aðgerðir Tékka fyrir nokkrum árum og um fleiri þjóðir hef ég heyrt, sem eru á þessari leið.

Herra forseti. Ég fer nú að stytta mál mitt. Ég legg til, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. allshn. og 2. umr. Ég vona, að jafnframt því sem ég hef fylgt frv. úr hlaði, hafi mér tekizt að lýsa skoðunum mínum á áfengismálum, áfengu öli, og vörnum gegn misnotkun áfengis. Ég hef gert það af ásettu ráði, vegna þess að á sínum tíma virtust þeir menn. sem mæltu gegn þessu máli, leggja miklu meira upp úr því að leggja mér í munn bæði skoðanir og verk, sem kannske jöðruðu, eftir því sem þeir orðuðu mál sitt, fast við það að vera — ja, við getum kallað það kannske vægt sagt glæpastarfsemi.

Ég sé ekki ástæðu að þessu sinni til þess að lengja mál mitt með umr. um þá þætti, sem snúa að ferðamönnum, gjaldeyristekjum og möguleika iðnaðar á þeim stöðum, sem á nýjum iðnaði þurfa að halda. Ég læt aðra um það. Ég geng út frá þeirri staðreynd, að hér verði áfengi um ókomin ár á boðstólum. Við getum kallað áfengi eitur, bölvald eða sáluhjálparmeðal, eftir því sem hver vill. En tilvist þess er staðreynd. Og okkur ber að aðhæfa okkur á sem beztan hátt þeirri staðreynd. Við þurfum að forða ungum sem öldnum frá því að neyta þess í óhófi, en skapa aftur á móti þær umgengnisvenjur, að þær séu það, sem við getum kallað vitrænar og menningarlegar, og geti orðið þeim, sem neyta þess, og öðrum sem skaðminnstar.