14.02.1966
Neðri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2268)

98. mál, áfengislög

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að svara því, sem lesið hefur verið upp hér úr erlendum blöðum. Ég hef ekki lesið það sjálfur, má vel vera, að það sé satt, en við vitum um íslenzku blöðin, hve mikið er hlutdrægt og ósatt, sem í þeim stendur, og það er hæpið, að í erlendu blöðunum sé það allt öruggur sannleikur, sem þar er sagt. Við vitum það líka, að þeir, sem eru bindindismenn, skrifa um þessi mál, og ég er ekki að gera lítið úr þeirra skoðunum eða þeirra vinnu. Það er allt í lagi með það. Þetta er þeirra sannfæring, og það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þeir breyti eftir henni. En við vitum, að þessar prédikanir þeirra ganga í mörgum tilfellum út í öfgar.

En hvað sem öllum þessum bindindiskenningum líður, hver er ávöxturinn? Það er drukkið alls staðar. Það treystir engin þjóð sér til þess að banna drykkjuskap. Það var hér vínbann. Það var vínbann í Bandaríkjunum. Og hvernig gafst það? Smygl, glæpir, og allir hafa gefizt upp við slíkt. Ég held, að sósíalistísku löndin fari eins að. Það virðist vera nóg af því þar. Hví í ósköpunum, ef þetta er óframkvæmanlegur hlutur, til hvers er verið að basla við þetta þá?

Það er hliðstætt að banna ölið, en leyfa sterku vínin og ausa þeim út með okurálagningu auk þess, — það er hliðstætt og að banna mönnum að fá reyktóbak eða reykja pípu, en leyfa innflutning á vindlingum. Vindlingarnir eru hættulegir og hafa ill áhrif á heilsu mannsins, en pípan tiltölulega meinlaus. Þannig er með bjórinn og sterku vínin, það er miklu hættara við að neyta þeirra í óhófi. Menn geta orðið ofurölvi og gert hluti, sem þeir sjá eftir, og jafnvel gert af sér glæpi í hreinum drykkjuskap. En bjórinn er tiltölulega meinlaus, og það er allt annað að drekka vökva með 4% víninnihaldi eða 40%. Ég átti tal um þetta við Þórð Albertsson í vetur, hann hefur alið aldur sinn að mestu í útlöndum, og ég satt að segja legg miklu meira upp úr því, sem hann hefur heyrt og séð, heldur en öfgafullir blaðamenn skrifa. Það er alltaf hægt að finna einhverja grein í blöðum, hlutdræga og meira og mínna ósanna, og lesa hana upp. Hann sagði mér, að Íslendingar drykkju manna verst, þeir kynnu ekki nógu vel með vín að fara. Og hann sagði, að það væri hlægilegt að banna bjórinn hér. Við fáum ekki að kaupa Egil sterka, meðan við erum innan landhelginnar, en þegar við erum komnir í flugvél út fyrir landhelgina, þá fær maður Egil sterka. Útlendingum finnst þetta skoplegt, og það er það vitanlega.

Hv. 3. þm. Vestf. spurði að því, hverjum það eigi að vera til gagns, að bjórinn verði fluttur inn. Ég skal svara fyrir mig. Ég hef ekki rætt það ýtarlega, en ég get gefið þá skýringu, sem ég hef á því. Það er í fyrsta lagi, að það er um stórfellt smygl að ræða inn í landið. Þetta vita allir, sem á annað borð hafa kynnt sér þessi mál. Og tollvörður einn hefur gefið upp, að það muni vera laumað inn ca. 100 þús. kössum bara hér á Suðvesturlandinu. Við þurfum ekki að ímynda okkur, að hann hafi ekki betra vit á því en við, sem sitjum hér í þingsal. Ríkisstj. gerir sitt til þess að leyfa þetta. Sjómönnum er leyft að koma með 1—2 kassa. En ætli það geti þá ekki viljað til, að það flytu 3–4—5 í sumum tilfellum? Svo er þetta ekki nema hluti af landinu. M.ö.o.: það geta allir fengið bjór, ef þeir nenna bara að eltast við það. Ég hef ekki reynt það sjálfur. Ég yfirleitt nenni ekki að fást við að smygla vörum, hvorki því né öðru, finnst ekki taka því. En við vitum það, að þegar fólk venst á að brjóta lögin, finnst því ekkert meira að brjóta aðrar greinar laganna en þessa. Þess vegna er öll löggjöf, sem er þannig vaxin, að hún er brotin meira og minna, heimskuleg.

Það er þannig, að það er smyglað fleiri vörutegundum. Ég skal játa það, og ríkisstj. ætti að taka til athugunar, hvort ekki væri unnt að gera meira en gert hefur verið til að draga úr slíku. Og það er með vissa hluti, t.d. eins og fatnaðinn, að tollarnir á því eru það háir og innflutningsgjöld og söluskattur og annað slíkt, að þetta borgar sig. Það átti að fara að setja reglur um þetta nú. Ég las það í blöðum, að það mundi verða heimilt að flytja inn fyrir ca. 5 þús. kr. Þetta er meira en lítil upphæð. Ég held, að það sé nefnilega hættulegt að leyfa að flytja inn visst magn af vörum án þess að gjalda af því toll. Það skapar fordæmi, og þetta skapar mismun á aðstöðu einstaklinganna í þjóðfélaginu og er þess vegna ranglátt. En við eigum að hafa tollana það hóflega, að það freisti fólksins ekki allt of mikið til þess að smygla. Og m.a. væri mikil þörf á því, ef nokkur tök væru á, að lækka tolla á vissum vörutegundum og þ. á m. vissum tegundum af fatnaði til þess að hindra það, að smyglið sé svona mikið.

Fjmrh., Gunnar Thoroddsen, beitti sér fyrir á sínum tíma með úr, sokka o.fl., að það væru lækkaðir á þessu tollar. Það var blátt áfram farið að smygla inn öllum þessum vörutegundum, af því að tollurinn var svo hár. Eftir að tollar voru lækkaðir, stórminnkaði þetta. Þetta þarf hver ríkisstj., sem situr við völd, að athuga. Ef fólkið græðir á smyglinu stórkostlega, freistar það þess til þess að framkvæma það. Þarna er því um lögbrot að ræða.

Við skulum taka aðbúðina að sjómönnunum okkar hér í kringum landið. Við vitum það, að þeir drekka manna mest. Það er ekki af því, að þeir séu fæddir meiri drykkjumenn en aðrir, heldur er aðstaða þeirra allt önnur. Þeir koma í land, eru þreyttir, slæptir, hafa enga aðstöðu til þess að hvíla sig sómasamlega, þar sem þeir eru heimilislausir. Þeir geta ekki legið í skipunum. Stundum er vínverzlunum lokað, ef um miklar landlegur er að ræða í viðkomandi stöðum, og útkoman sú, að þeir kaupa vinið á svörtum, þeir mega hvergi vera með vínið. Það er ekki leyfilegt að drekka vin nema f einstaka stað. Það er ein hlutdrægnin í þessu þjóðfélagi. Það eru víssir staðir hér í bænum og í einstaka stærri bæjum, þar sem mönnum er leyfilegt að drekka vín með frjálsu móti, fá það blandað og með það farið eins og hjá siðuðum mönnum. Í minni kauptúnunum er þetta ekki leyfilegt. Þeir eru reknir út af hótelum, ef þeir eru með vínflösku, eða a.m.k. á að gera það. Og þá drekka þeir af stút undir húsvegg eða úti á götu, verða ölóðir, slást og gera ýmiss konar skammir af sér. Væri ekki viturlegra að hafa bjórstofu handa þessum mönnum, þar sem þeir gætu hvílt sig, rabbað saman og drukkið hóflega? Ég held, að í menningarþjóðfélagi væri það mikill munur, og er í raun og veru stór hneisa að búa ekki betur á þennan hátt að sjómönnum en gert er. Það þýðir ekki annað en taka hlutina eins og þeir eru. Sjómennirnir eru heimilislausir. Í landlegum eru þeir að ráfa um göturnar og það er ekkert gert til að gera þeim lífið viðunanlegt.

Þriðja atriðið er það, að bjór hefur allt önnur áhrif á menn heldur en sterku vínin. Vínin örva, menn drekka of mikið af þeim, verða ölóðir eða vitlausir, eins og oft er sagt. Bjórinn hefur ekki eins örvandi áhrif og í raun og veru alls ekki örvandi áhrif nema að nokkru leyti. Þetta er eitt bezta svefnlyf, sem til er. Ég hygg, að það yrðu færri hjónaskilnaðir hér í bænum, ef menn drykkju bjór í staðinn fyrir vín. Menn yrðu rólegir heima hjá sér.

Það, sem gerist með því að leyfa okkur að fá almennilegan bjór, vel tilbúinn, bragðgóðan og hressandi, er það, að það gerið lifið ánægjulegra í þessu landi, það sparar mikið fé fyrir sjómennina, ef hann er seldur með skaplegu verði, þeir drekka sér ekki til óbóta, drekka ekki frá sér vitið. Gamlir og lúnir bændur, væri þeim ef til vill of gott að fá sér bjórglas, þegar þeir heimsækja hver annan að kvöldi til eða í réttunum?

Fullyrðing í þá átt, að bjórinn sé aukin vínnotkun, er eins og hvert annað slúður. Hvaða rök vill hv. 8. þm. Vestf. færa fyrir því, að Danir mundu minnka áfengisneyzlu sína sem svarar bjórdrykkjunni, ef hún væri bönnuð? Þykjast Íslendingar þess umkomnir að halda, að þeir séu vitrari í drykkjuskaparmálum en allar aðrar þjóðir í veröldinni? Þetta yfirleitt þekkist ekki í hinum hvíta heimi, að banna bjór, en ausa út sterkum vínum í fólk. Ímynda þessir herrar sér það, að unglingarnir muni ekki geta lært að drekka, þó að ekki sé bjór, bjórinn kenni þeim að drekka? Ég held, að þeir ættu að koma hér á vínveitingastaðina á föstudags- og laugardagskvöldum og vita, hvort þeir kunna ekki að fá sér í staupinu, unglingarnir hér í bænum. Nei, það þarf sannarlega ekki bjór til þess. Bjór er bragðverri en flest hin vínin, og menn læra siður að drekka bjór en vín.

Það þýðir ekki annað en taka á hlutunum eins og þeir eru. Það þýðir ekki að vera með einhverjar hrókaræður um það, hvað vín sé skaðlegt og annað slíkt. Ég skal játa það, að vín er skaðlegt, ef það er drukkið í óhófi. En það er svo með hér um bil allt, sem við njótum í lífinu, ef það er notað í óhófi. Við getum borðað okkur til óbóta. Það hefur nú verið þannig í lífinu, að það er alltaf verið að reyna að koma í veg fyrir eitthvað, sem á að skaða manninn, og sannar dæmisagan um Evu það. Það var nú ekki fjölmenni þá, eftir því sem sagt er, á jörðinni, og ekki réð drottinn við, að hún át epli, sem henni var bannað að eta. Ég tek þessa sögu ekki bókstaflega, en það er bara þannig í lífinu, að svona hömlur þurfa að vera skynsamlegar, ef á að fara eftir þeim, og þó að þær séu skynsamlegar, er jafnvel erfitt að fá fólkið til að fara eftir þeim. Hóflega drukkið vín er ánægjuauki fyrir þá, sem kunna að fara með það. Hinir, sem kunna ekki að fara með það, eiga ekki að drekka, og það eru erfiðleikarnir, sem liggja í því. En ég hygg, að bjórnotkun verki þannig, að menn fari betur með vín, — ég er alveg sannfærður um það, — og skynsamlegar. Þeir eyða minni peningum, og það er ekki eins hættulegt fyrir líffærin og sterku vínin. Svo er ekki því að neyta, að hóflega drukkið vín getur verið eitt það bezta meðal, sem menn hafa í vissum tilfellum, ef kuldi sækir að manni eða eitthvað slíkt, það getur bara bjargað lífi hans. Það er eitt það bezta sótt hreinsunarlyf, sem til er, og læknar hafa sagt mér, að viðvíkjandi kransæðastíflu sé vín til bóta, það örvar blóðrásina. Það má vera, að bjórinn sé ekki eins hentugur að því leyti til. En þetta er bara eðlilegt og sjálfsagt, að hafa þetta frjálst.

Ég álít, að sérstaklega ætti kvenþjóðin að beita sér fyrir því að leyfa eðlilega notkun bjórs. Það væri sannarlega munur fyrir frúrnar, sem eiga drykkjumenn, ef þeir fengju sér bjórglas heima hjá sér, væru rólegir og færu svo að hátta, heldur en ef þeir eru að slangra úti augafullir, sjálfum sér til leiðinda og öðrum til ama.

Ímynda menn sér það, ef t.d. Danir bönnuðu bjór, — Danir eru vel mennt þjóð og þroskuð á svíði vínmála eins og á öðrum sviðum, þetta er með meiri menningarþjóðum heims, — ímynda menn sér það nú, að bjórmennirnir í Danmörku hætti að drekka, ef bjórinn væri bannaður og þeir fengju hann ekki? Er nokkur til, sem er svo mikið flón? Nei, ég bygg, að það mundi enginn treysta sér til þess að fullyrða það. Það, sem gerist, er bara, að þessir menn mundu fara að drekka sterk vin í staðinn og mundu skaða sjálfa sig og fjölskyldur sínar meira eftir en áður.

Þá lét hv. 3. þm. Vestf. liggja að því, að afköst manna, — ég man ekki, hvort hann sagði það beinlínis, en ég skildi það svoleiðis, — við vinnu væru minni, vegna þess að þeir drykkju bjór. Mér þykir þetta nú einkennilegt fyrirbrigði. Ég veit það, að sumir, sem eru að láta gera við skip, sigla með þau til annarra landa, því að vinnuafköstin eru þar meiri. Ég sá einhvern tíma í blaði fyrir nokkru, það var um starfsþrek manna, það var verið að mæla það, og það þótti tiltölulega lágt hjá Íslendingum. Ekki ætti það að vera fyrir, að bjór væri seldur hér á frjálsum markaði. Ég held, að við getum ekki hælt okkur af því nú, að vinnuafköst séu meiri hér en hjá hinum germönsku þjóðunum, sem búa í kringum okkur og ættu helzt að vera sambærilegar. Ég held, að það sé fjarri því, að svo sé.

Það þarf að gera sér grein fyrir því, þegar um eitthvert málefni er að ræða, kosti þess og lesti, hvað maður vinnur við að gera þetta eða hitt og hvað tapast á því. Vitanlega hafa öll mál tvær hliðar. Þetta þarf að gera upp við sig. Ég er sannfærður um, að það er miklu hægara að hafa vald á drykkjuskap manna, stilla honum í hóf með því að neyta vökva, sem hefur lítið áfengisinnihald, heldur en vökva, sem hefur mikið áfengisinnihald, það sé ekki líkt. Ég veit líka hvað bjórinn snertir, að hann hefur gagnstæð áhrif við sterku vínin. Þau örva meira, bjórinn gerir menn rólega og er eitt bezta svefnlyf, sem til er.

Hv. 3. þm. Vestf. var að tala um það, að þetta væri aðeins til þess að auka lágkúrulegar hvatir, að leyfa mönnum að fá bjór með frjálsu móti. Eru það ekki frekar lágkúrulegar hvatir, eins og nú er gert, að vissir aðilar eru hlaupandi um allt að reyna að smygla inn bjór? Ég hélt, að það væru frekar lágkúrulegar hvatir að drekka bjórinn, en drekka hann bara óleyfilega, að nokkru leyti a.m.k. Mér er sagt af mönnum, sem koma hér í hús í bænum, þeir segjast varla koma þar, sem ekki sé boðið upp á bjór, útlendan bjór. Mér er sagt, að þetta sé komið austur um allar sveitir.

Það eru afskekktari sveitirnar norðanlands og eitthvað á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem hafa ekki þennan útlenda bjór, sem fenginn er ólöglega að meira eða minna leyti. Hverju er þá spillt að lofa mönnum að fá þetta heiðarlega? Ég skal játa það, að ég álít, að við ættum að hafa 2—3 bjórtegundir. Við getum haft eina veika, pilsner er nú víst eitthvað um 2%, eitthvað svoleiðis, en hann er svo bragðvondur, að það er dálítið erfitt að drekka hann, 4% og svona 6%. Ég hefði gjarnan viljað hafa heimild til þess, að bjórinn mætti vera 6%, og svo að við færum ekki fram á það, að það sé breytt neitt dreifingarkerfinu á þessu, náttúrlega ætti þetta að vera miklu auðveldara en það er nú. Þetta nær engri átt, að menn megi ekki neyta víns nema á vissum stöðum á landinu. Við getum tekið minni kauptúnin. Menn mega ekki drekka þar, hvorki bjór né annað, í raun og veru, ekki áfengan bjór á hótelum þar. Ég benti á það áðan með sjómennina. Þetta er bara vitleysa. Þarna er gerður munur á milli héraða. Það er þannig með hótelin í þessum stöðum, þar sem ekki er nein heimild til að selja áfengi, þau berjast í bökkum. Hér þykjast menn ekki geta rekið hótelin nema hafa vínsöluleyfi. En úti á landsbyggðinni eiga menn að reka þau án þess að hafa það. Þarna er gerður mismunur á milli þegnanna.

Ég gæti vel gengið inn á það að vera á móti víni og greiða atkv. með banni, ef ég héldi, að það væri nokkur vegur að framkvæma það. En þessir blessaðir bannmenn hér fara ekki fram á, að það sé bannað að selja vín. Þeir vita, að það muni ekki takast. En þeir eru að berjast á móti því, að það sé seldur bjór með 4% áfengismagni. Annað er það, að það væri miklu eðlilegra og heilbrigðara fyrir íslenzka þjóðfélagið að hafa hér bjórframleiðslu og hæfilegan toll á því. Það mundi skapa tekjur fyrir ríkið, í staðinn fyrir að þessi bjór, sem er fluttur inn meira og minna án þess að það sé löglega leyft, skapar engar tekjur. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort við getum hér í framtiðinni framleitt betri bjór en aðrir, þannig að við getum haft þetta fyrir útflutningsvöru í stórum stíl, en ólíklegt er það ekki. Við erum bara á frumstigi enn þá og höfum ekki mikla æfingu í að framleiða bjór. Við þurfum ekki að halda um Carlsberg og aðrar frægustu bjórtegundir heimsins, að menn hafi lært það á nokkrum vikum að búa þetta til, heldur er áratuga- og jafnvel aldagömul reynsla, sem þessir menn hafa á bak við sig. Hitt er rétt, sem hefur verið drepið á oft, að við höfum betra vatn en flestar aðrar þjóðir og ættum því að því leyti til að hafa betri skilyrði til að búa til góðan bjór.

Það má vel vera, að hér sé ekki um neitt stórmál að ræða, og þó er það að vissu leyti stórmál, að meiri eða minni hluti af þjóðinni sé ekki að laumast við að smygla inn vöru í landið, því að í því liggur viss siðspilling. Ókostirnir, sem fylgja þessu, ég sé þá ekki. Ég er sannfærður um, að það verður ekki meira drukkið. Það verður drukkinn bjór í staðinn fyrir vín, en að vínnotkunin aukist, það verður þveröfugt, hún minnkar. Fjmrh. sagði við okkur í viðtali, að það mætti ekki setja bjórinn í gegn, því að hann mundi minnka vínsöluna. Ekki hefur hann þá skoðun, að þetta bætist eingöngu við drykkjuskapinn.

Ég er sannfærður um, að meiri hl. þjóðarinnar er með þessu. Og ég er sannfærður um það líka, að ef heimilisfeður drekka bjór, en ekki sterk vín, á það minni þátt í því að eyðileggja þeirra heimilislíf. Bjórinn á minni þátt í því en sterku vínin. Ég er nú ekki mikill bjórmaður, ég skal játa það, en það kemur fyrir, að ég smakka vín, og hef ánægju af því. Ég viðurkenni það raunar, að við þyrftum að venja okkur á að drekka vín meira í hófi. Íslendingar kunna ekki nógu vel með vín að fara. En ég held, að hv. 3. þm. Vestf. hafi ekki mikla reynslu í vínmálum. Það er ekki hægt fyrir mann að dæma um notkun víns og bjórs, ef hann hefur aldrei drukkið þennan vökva. Það er eins og fyrir mig t.d. að dæma um hljómlist. Það er eitthvað hliðstætt. Mér er nú sagt, að hv. 3. þm. Vestf. hafi fengið sér bjórsopa, þegar hann fór til Rússlands, það sagði mér merkur maður. En þó að hann hafi drukkið hjá Rússum, er það ekki mikil reynsla. Það er bara byrjunarstig. Ég get ekki skilið, að það hafi verið neitt finna að drekka bjór hjá Rússum en drekka hann hér á landi. En það horfir öðruvísi við með hv. 2. þm. Austf. Ég held, að hann hafi bragðað vín nokkrum sinnum á ævinni, — ég held það, þótt ég hafi ekki drukkið með honum, ég skal játa það, þannig að hann hefur mikla reynslu, a.m.k. á sterku vínin. Ég veit ekki, hvort hann hefur nokkurn tíma smakkað bjór. En hans afstöðu skil ég þess vegna ekki að hamast á móti drykk, sem er með 4% víninnihaldi, en berjast ekkert á móti sölu á áfengi, sem hefur 40—50% af alkóhólinnihaldi. Ég skil það ekki. Sjálfur hef ég þá reynslu, að ég veit þetta, að bjórinn gerir menn rólega og þeir eru heima hjá sér, sofna á réttum tíma, en vínið gerir menn ölóða og eyðileggur heimilislíf þeirra í mörgum tilfellum. Og það er illa farið.

Ég held, að við getum ekki komið í veg fyrir, að menn noti vínanda. Það, sem við getum gert, er að reyna að vinna að því, að menn noti vín skynsamlega eins og annað, sem þeir hafa um hönd í lífinu. Það er í raun og veru fyrir neðan allar hellur, að ríkið skuli selja vindlinga, sem er viðurkennt að séu heilsuspillandi. Ég skal ekki fullyrða, hvort krabbamein myndast vegna þess, en ég veit, að sígarettureykingar eru slappandi fyrir manninn. Við vitum það Iíka, að það flýtir ekki fyrir mönnum á vinnustöðum að vera síreykjandi. En ríkið gengur á undan og selur þetta. Það er ekkert, sem bendir til þess, að bjór spilli heilsu okkar þannig, að við fáum krabbamein eða aðra sjúkdóma. Þeir menn, sem eru að berjast á móti þessu, sem þeir vafalaust gera í góðum tilgangi, — ég efa það ekki, að það sé þeirra sannfæring, — en því hreyfa þeir því ekki, að ríkið hætti að selja vöru, sem er skaðleg fyrir heilsu manna? Í raun og veru gætu Íslendingar ósköp vel komizt af án þess að reykja sígarettur. Þeir geta reykt smávindla eða pípu, það er ekki eins skaðlegt. En þetta gerir ríkið, það selur þessa vöru með okurálagningu, dreifir henni út meðal fólksins, og það eru unglingarnir, sem læra að reykja á sígarettunum. Það væri því meiri þörf að banna það en að banna mönnum að fá bjór með frjálsu móti, þegar þeir fá hann hvort sem er með ófrjálsu móti. Það er ekki skynsamleg aðferð.

Það var haldin hér ágæt frumræða um þetta mál af hv. 7. þm. Reykv. Ég hef raunar farið meira inn á áhrifin, sem bjór og sterk vín hafa á einstaklingana, en hann tók hina hliðina, og ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að fara lengra út í þetta, því að hv. 7. þm. Reykv. er með greindustu og beztu ræðumönnum Sjálfstfl., þó að langt sé jafnað, og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því, sem hann sagði.