30.11.1965
Efri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og frsm. fyrir meiri hl. fjhn. gerði grein fyrir, áskildum við, sem skipum meiri hl. n., okkur rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða fylgja brtt., er fram kynnu að koma. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 109 brtt. við 1. gr. frv., þess efnis, að í a-lið, það eru dómsmálagjöld í einkamálum fyrir félagsdómi, hækki gjöldin fyrir fyrirtekt máls úr 250 kr. í 500 kr. í undirrétti og í hæstarétti hækki þau gjöld fyrir fyrirtekið mál úr 400 kr. í 600 kr. Með þessari till. minni hefur það ekki vakað að auka tekjur ríkissjóðs sérstaklega af þessum gjöldum, þó að afleiðingar samkv. þessari till. mundu vissulega verða þær, að tekjur ríkissjóðs mundu hækka eitthvað, og tel ég það út af fyrir sig góðra gjalda vert.

Tilgangur minn með flutningi þessarar till. er fyrst og fremst sá, að ég tel, að með hækkun þessara gjalda mætti stuðla að því, að meðferð mála fyrir dómstólum og einkanlega fyrir undirrétti yrði greiðari og tæki skemmri tíma. En eins og hv. dm. sjálfsagt muna, var hér fyrir tveimur árum, að mig minnir, samþ. þáltill. í sameinuðu þingi á þá leið að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess að hraða meðferð dómsmála, sem sannarlega var ekki vanþörf á. Langflest einkamál í héraði, yfirgnæfandi meiri hl. þeirra er rekinn hjá borgardómaraembættinu í Reykjavík, og á þessu ári er það þegar séð fyrir, að þingfest mál munu verða um það bil 4500 að tölu til. Af þessum málum mun meira en helmingur vera ýmiss konar innheimtumál, víxilmál að langmestu leyti. Ég tel þennan málafjölda af þessari tegund algerlega óeðlilegan, og það má til samanburðar nefna, að í stórri borg eins og t.d. Bergen í Noregi voru dómtekin 25 víxilmál á s.l. ári, en hér í Reykjavík eru þessi mál milli 2 og 3 þús. Eins og menn vita, tíðkast það mikið, að ýmiss konar hlutir eru seldir með afborgunarskilmálum. Það má t.d. nefna bifreiðar, sem voru keyptar af bifreiðasölunum í Reykjavík, notaðar bifreiðar, enn fremur ýmsir dýrari munir í verzlunum, húsgögn, gólfteppi, ísskápar og annað þess konar, — allt er þetta selt að meira og minna leyti gegn afborgunum, og nú er siðurinn sá, að kaupandinn samþykkir víxil fyrir hverri einustu afborgun, í stað þess að áður var algengast, að það var samþ. skuldabréf, og ef vanskil urðu á einni greiðslu, féll allt í gjalddaga. Þetta skýrir það að nokkru leyti, að það er geysilegur fjöldi af tiltölulega litlum víxlum, sem eru í umferð. Síðan, þegar vanskil eiga sér stað, er farið í málflytjendur eða lögfræðinga með þessar kröfur, og venjulega skjótlega, ef innheimta tekst ekki á skömmum tíma, þá stefna þeir, fara í mál og taka dóm fyrir kröfunni. Það má reyndar vitna í þessu sambandi til orða yfirborgardómarans í Reykjavík, sem kom á fund fjhn., þegar hún fjallaði um þetta mál. og hann sagði, að í raun og veru liti það þannig út eins og dómstólarnir væru misnotaðir sem innheimtutæki. Ef nú réttargjöldin almennt í einkamálum yrðu hækkuð upp í 500 kr. í undirrétti, eins og ég legg til, hygg ég, að þetta mundi hafa þau áhrif, að í fyrsta lagi mundu lögfræðingar og aðrir innheimtumenn leggja meiri áherzlu á það að ná kröfunum inn og innheimta þær á venjulegan hátt, án þess að fara fyrir dómstólana. Þetta mundu þeir gera í fyrsta lagi vegna þess, að málflutningsmaðurinn þarf að leggja út réttargjöldin fyrir kröfunni, og hann mundi þess vegna ekki fara í innheimtumál fyrr en í síðustu lög, auk þess sem hann gæti í mörgum tilfellum hagað því þannig, að hann mundi safna saman víxlum og fara í eitt mál í staðinn fyrir að fara kannske í 5–10 mál, eins og gert er. Í öðru lagi mundi hækkun réttargjaldanna geta verkað þannig, að skuldarinn mundi frekar fást til þess að greiða, áður en málið færi til dómstólanna, vegna þess að þá losnaði hann við að greiða þessi gjöld. Ég álít því, að hækkun þessara réttargjalda mundi geta orsakað það, að þessum málum, víxilmálum og öðrum slíkum skuldamálum, gæti stórfækkað.

En þá kemur að hinni hlið málsins, sem hér hefur verið bent á og réttilega, að þessi hækkun er ekki bundin í till. við vissa tegund mála, heldur mundu þá aðrir, sem þurfa nauðsynlega að leita dómstóla, einnig þurfa að gjalda hennar, og það er út af fyrir sig alveg rétt. En ég álít, að með því að geta stórfækkað þessum innheimtumálum mundu mál hinna, sem hafa leitað til dómstólanna af brýnni nauðsyn, fá miklu greiðari afgreiðslu, því að staðreyndin er sú um venjulegt mál í Reykjavík, þar sem langflest mál eru rekin hér á landi, að hvert mál tekur um það bil 2–3 ár, og fyrir þann, sem er að stefna í slíkum málum eða er að leita réttar síns, er það miklu meira hagsmunaatriði, ef þetta mál tæki t.d. einu ári skemmri tíma en áður, þótt hann í staðinn yrði að borga 250 kr. meira, því að hans hagsmunir af því að fá málið afgreitt fyrr eru miklu meiri en hitt, þótt hann þyrfti að borga 250 kr. meira í réttargjöld. Enda er það svo, að réttargjöldin eru ekki nema lítið brot af þeim kostnaði, sem er við rekstur mála fyrir dómstólunum, og eiga auðvitað ekki að vera það, þannig að nokkur hækkun þeirra skiptir ekki svo miklu máli. Og ég hef ekki trú á því, að nokkur maður, sem þarf að leita til dómstólanna, hverfi frá því vegna þess, að það sé 250 kr. dýrara en ella væri.

En það er sem sagt þetta, sem fyrir mér hefur vakað, að reyna að bægja þarna frá töluverðum fjölda mála, sem er meira og minna óþarfur, og í staðinn skapa grundvöll fyrir því, að önnur mál og nauðsynlegri fái hraðari afgreiðslu fyrir dómstólunum.

Ég hef ekki eingöngu gert till. um það, að gjald fyrir fyrirtekt máls yrði hækkað í undirrétti, heldur hef ég einnig gert till. um það fyrir hæstarétti. Það er í raun og veru frá mínum bæjardyrum séð hreint aukaatriði. Það geri ég einungis til þess að fylgja reglunni, að samsvarandi gjöld í hæstarétti eru nokkru hærri en í undirrétti, og ég geri það eingöngu til þess að það haldist líka um fyrirtekt mála eins og önnur gjöld, sem segir frá í 1. gr. l. Ég hygg það, að þó að þessi till. mín verði samþ., sé ekki annað hægt að segja en réttargjöld séu hér tiltölulega hógvær. Ég hef t.d. fengið upplýsingar um það, að réttargjöld í Noregi eru í norskum kr. frá 40 kr. upp í 1000 kr. norskar eftir upphæð kröfunnar, sem í hverju máli er fjallað um, og þegar maður t.d. ber það saman við þetta, tel ég, að enginn þurfi að kvarta, og þó að mikið lægi við, ætti það ekki að vera ástæða fyrir nokkurn mann til þess að hverfa frá því að leita réttar síns fyrir dómstólunum. Þvert á móti gæti hann á annan hátt haft af þessu miklu meiri hagsmuni.