15.03.1966
Neðri deild: 55. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2299)

81. mál, loðdýrarækt

Jónas G. Rafnar:

Herra forseti. Ég held, að ég hafi við 1. umr. þessa máls gert í stuttu máli allýtarlega grein fyrir ástæðunum fyrir því, að við flm. töldum rétt að heimila að nýju minkaeldi hér á landi. Það væri því endurtekning ofan í alllangar umr., ef ég færi nú á nýjan leik við þessa umr. að rekja það, sem ég sagði þá.

Ég held, að bæði meðmælendur frv. og andmælendur þess, og þá á ég við minni hl. hv. landbn., hafi rætt þetta mál af hófsemi og ég vil segja skynsemi. Hins vegar er e.t.v. tæpast unnt að segja það um hv. 2. þm. Austf. Við að hlusta á málflutning hans hér í hv. d. kemst maður ekki hjá því að láta sér detta það í hug, að á bak við alla hans ræðumennsku sé harla misskilin tilfinningasemi. Að vísu benti hann hér áðan á eitt atriðl, sem má segja að væri athyglisvert, og það er grein í merku blaði, Observer, í Englandi, þar sem á það er drepið, að minkaeldi sé nú að verða plága þar í landi. Ég hef ekki séð þessa grein, en þarna skýtur þó nokkuð skökku við reynslu í öðrum löndum. Það liggja ekki fyrir áreiðanlegar upplýsingar um það, að minkarækt hafi stofnað til vandræða á Norðurlöndum, og því tel ég, að það sé harla hæpið, að minkarækt eða loðdýrarækt sé nú skyndilega að verða landplága í Bretlandi. En það gefur auga leið, og út frá því höfum við flm. jafnan gengið, að í þessu sem öðru, þar sem viss hætta er á ferðinni, verður að gæta fullkominnar varfærni og vanda til þess, sem gert er.

Það er alveg rétt, eins og fram kemur í nál. minni hl., að það megi jafnan búast við því, að eitthvað kunni að sleppa út af dýrum. Að sjálfsögðu fer það þá eftir því, hversu vandlega er um minkabúin búið. Ég sá um daginn blað, þar sem voru upplýsingar um nýtízku minkabú. Þar var, að því er mig minnir, mynd af einu slíku búi. Ef farið væri eftir öllum þeim ráðstöfunum, sem þar er gert ráð fyrir að gerðar verði, þykir mér harla ólíklegt, að þessi dýr geti sloppið út úr slíkum búum.

Það kemur einnig fram í nál. minni hl., að hér á landi hafi á árunum 1963 og 1964 verið undir 5143 minkar. Ég spyr nú: Væri það svo óskaplega hættulegt, þó að svo illa til tækist, segjum fyrst í stað, að örfá dýr slyppu út? Nú þegar liggja fyrir upplýsingar um það, að á síðustu tveimur árum, sem skýrslur eru fyrir hendi um, hafi verið unnir hér á landi yfir 5 þús. minkar. Ég mundi segja, að þetta mál lægi allt öðruvísi fyrir, ef enginn minkur væri til í landinu.

Á það er einnig bent í nál., að það liggja ekki fyrir ýtarlegar upplýsingar um það, hvort minkaeldi komi til með að verða gróðavegur hér á landi. Því er til að svara, að það eru nú allmörg ár síðan minkarækt var stunduð hér. En við höfum upplýsingar um reynslu annarra þjóða, Norðurlanda og raunar margra annarra þjóða, þar sem greinilega kemur í ljós, að um hagstæðan atvinnurekstur er að ræða, atvinnurekstur, sem sífellt hefur gefið meiri og meiri arð, vegna þess að eftirspurn eftir þessari framleiðsluvöru, minkaskinnunum, virðist stöðugt hafa farið vaxandi. Hér á landi eru óvenjugóð skilyrði fyrir minkaeldi. Hér er nægur fiskúrgangur, loftslag sennilega hentugt, og ef fyllstu aðgæzlu er gætt og skynsemi látin ráða, má búast við því, að um blómlegan atvinnurekstur geti verið að ræða.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa þessi orð mín fleiri, en ég vil aðeins ljúka ræðu minni með því að þakka meiri hl. hv. landbn. fyrir afgreiðslu hennar á málinu, og eftir atvikum get ég fyrir mítt leyti sætt mig við þær brtt., sem hún leggur til að gerðar verði við frv.