30.11.1965
Efri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég tel ekki tilefni til að gera margt af því, sem hæstv. fjmrh. hafði fram að færa varðandi þetta mál, að umtalsefni. Mér fannst ræða hans bera vitni um það, að hann væri í nokkrum vanda. En þó að hann væri varfærinn í orðum, tel ég þó, að ræðan hafi verið á ýmsan hátt athyglisverð. Hann sagði, hæstv. ráðh., að þegar kæmi til kasta þess að afgreiða fjárlög. væri um tvær leiðir að ræða: annaðhvort væri sparnaður eða nýjar skattahækkanir. Þetta held ég hafi verið, ef ekki hans óbreytt orð, þá óbreytt meining hans orða. Og hann vildi lítið, eða raunar alls ekki ræða um sparnaðarliðina. Ég hafði í frumræðu minni í dag lýst eftir því, hvað líði öllum þeim athugunum, sem bæði hann og hæstv. fyrirrennari hans hafa sagt þing eftir þing að væru í gangi varðandi sparnað ríkissjóðs. Ég lýsti eftir því, hver væri orðinn árangurinn af þeim mörgu millj. kr., sem búið er að eyða í hina svokölluðu hagsýslu. Á ríkisreikningi 1964 sé ég m. a., að þar hefur verið eytt 1 millj. í þessa hagsýslu. En þess hefur ekki orðið vart, svo að ég viti, að það starf hafi skilað nokkrum árangri. Er það þá svo. að allar þessar athuganir, sem hæstv. ráðh. og hans hv. fyrirrennari hafa látið frá sér fara, hafi sýnt, að ekki væri unnt að koma á nokkrum sparnaði í ríkiskerfinu?

Mér finnst, að ræða hæstv. ráðh. bendi til þess, að hann hefði aðeins eitt í huga nú, þegar hann væri sloppinn við þá málamyndaafgreiðslu fjárlaga, sem hann er nú að fást við, það væru enn nýjar hækkanir. Og eftir þetta hefur hæstv. ráðh. samt brjóstheilindi til að segja, að ekkert samræmi sé í því, þegar ég telji, að fyrirsjáanlegur halli sé á afgreiðslu fjárlaga í reynd, og hinu, að neita um samþykki mitt fyrir þessu frv. Ég segi aftur á móti, að hér er fullkomið samræmi á milli. Ég vil hafa alla myndina fyrir mér, hvernig þessi mál verða öll leyst. Ég tel það ekki sama, hvort því er léð lið hér á hv. Alþ. samþ. einhverjar skattahækkanir á takmörkuðum sviðum, eins og hæstv. ráðh. hefur verið að ræða um, — tel ekki sama, hvort það er gert undir þeim kringumstæðum, að það leysi þann raunverulega vanda, sem um er að ræða, eða hvort við megum, þegar við höfum þetta gert, eiga von á almennum skattahækkunum í kjölfarið. En ræðu hæstv. ráðh. gat ég ekki betur skilið en svo, að það væri því sem næst ákveðið. Ég held þetta geti ekki verið mál, sem sé einkamál hæstv. ráðh., heldur mál. sem hv. þd. og hv. Alþ. hlýtur að taka tillit til einmitt við afgreiðslu þessara frv., sem hér hefur verið rætt um.

Hæstv. ráðh. sagði, að varðandi aðstoðina við sjávarútveginn hefði þetta hreinlega verið tekið út, því að nú vissi enginn, hvað hér væri verið um að tala, það vissi enginn, hvað þessi vandi væri mikill. Þetta má kannske að einhverju leyti til sanns vegar færa. En ég sagði hér í minni ræðu, að flestir mundu telja það ótrúlegt, að komizt yrði af með lægri upphæðir í þessu sambandi en á síðasta fjárlagaári, og við það stend ég. Ég held það sé öllum ljóst, og ég veit, að hæstv. ráðh. veit það líka vel, að það verður ekki komizt af með lægri upphæð en á s.l. ári. Og hvers vegna má þá a.m.k. ekki sá vandi vera ljós, þegar þessi mál eru rædd hér? Hæstv. ráðh. sagði þó um þetta, að ríkisstj. hefði gert sér þetta vandamál alveg ljóst, þannig að einhverjar hugmyndir virðist hún hafa bæði um stærð vandamálsins og um það, hvernig hún ætlar sér að leysa það. Og ég segi: Þetta mál kemur okkur við í sambandi við afgreiðslu á þessu frv. og öðrum, sem hliðstæð eru.

Önnur atriði í ræðu hæstv. ráðh. finnst mér ekki vera þess eðlis, að ástæða sé til þess að fara um þau mörgum orðum. Ég vil aðeins benda á röksemdafærsluna hjá hæstv. ráðh., þegar hann talaði um það, að stefna ríkisstj. í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins hefði ekki á nokkurn hátt verið athugaverð á undanförnum árum og henni yrði að fylgja, vegna þess að það hefði verið góð stefna, en hins vegar hefði þróunin í þessum málum verið óheillavænleg. Ég held nú, að öllum, sem um þetta mál hugsa, og það hafa áreiðanlega allir hér í hv. þd. gert, sé það ljóst, að það er stefna hæstv. ríkisstj., sem hér er að verki og um er að kenna, hvernig farið hefur. Ég læt mér nægja í því efni að minna á stefnu hæstv. ríkisstj. í skattamálum, sem hann reyndar líka viðurkenndi, þar sem hann sagði, að skattahækkanir, sem kæmu með fullum þunga aftur á ríkissjóð, væru hringavitleysa. Er það ekki einmitt þetta, sem hefur gerzt með hækkanir á söluskattinum og þá breytingu í skattalögunum, að gera almenna neyzlu í landinu að aðaltekjustofni fyrir ríkissjóð? Hefur það ekki einmitt verið slík hringavitleysa, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að framkvæma á undanförnum árum?