15.03.1966
Neðri deild: 55. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

81. mál, loðdýrarækt

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér hér í þær deilur, sem fram hafa farið um minkinn. En ég ætla aðeins að gera í einni setningu grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, eins og það liggur hér fyrir hv. d. Ég er út af fyrir sig hlynntur því, að það verði opnaðar leiðir til þess, að hægt verði að taka upp minkaeldi hér á landi á ný. Ég tel það ekki vansalaust fyrir okkur að láta þá möguleika ónotaða, sem fólgnir eru í minkaeldinu. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé ekki nægilega vel úr garði gert, og er þess vegna samþykkur þeirri till. minni hl. landbn., að málinu verði vísað til ríkisstj., en á þeirri forsendu, að það verði þar ekki látið kyrrt liggja, heldur tekið upp á ný á næsta þingi og þá lagt fyrir þingið nýtt frv., sem verði betur unnið en það frv., sem hér liggur fyrir.