21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

81. mál, loðdýrarækt

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ýmislegt það gerðist við afgreiðslu þessa máls við 2. umr., sem vakti nokkra athygli, svo sem t.d. að hæstv. ríkisstj. hafnaði þeirri till., að málinu væri vísað til hennar til lagfæringar og frekari athugunar, að hv. flm. lögðu til og studdu að fella burt úr frv. ýmis þau ákvæði, sem hv. þd. hafði á s.l. þingi samþ. til bóta inn í híð upphaflega frv. og hv. flm. höfðu gert að sínu máli við endurflutning þess á núverandi þingi. Það má segja, að það sé nokkuð fátítt, að þm. hafi áður átt frumkvæði og forustu um slíka limlestingu á sínu eigin máli. Fleira bar til tíðinda, að hæstv. landbrh. með atkv. sínu hafnaði öllum mökum við sérfróða menn um framkvæmdaatriði málsins. Vafalaust telur hæstv. ráðh. sig hafa til brunns að bera næga reynslu og þekkingu á minka- og loðdýramálum og veit enda sér handgengna áhugamenn á þessu sviði, svo sem hv. 3. þm. Austf. og 7. þm. Reykv., sem hann mun telja að geti gefið sér haldgóð ráð, ef með þarf, og haldbetri en svokallaðir sérfróðir menn, sem vegna sérmenntunar og reynslu eru beinlínis almennt til þess kjörnir að vera til ráðuneytis m.a. í slíkum málum, sem hæstv. ráðh. þarf að fjalla um, ef þetta loðdýrafrv. verður að lögum.

Það mætti láta sér detta í hug, að gott væri fyrir núv. hæstv. ráðh. að hafa aðgang að slíkum fræðimönnum, ef hann teldi, að eitthvað skorti á um leiðbeiningar áhugamannanna, m.a. þeirra, sem ég gat um. Ég hef þess vegna leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 347 við 6. gr. frv. Breytingin fjallar um 2. mgr. og er á þá leið, að á eftir orðunum „að fengnu áliti veiðistjóra um þessi gögn“ komi: og meðmælum náttúruverndarráðs er landbrh. heimilt að viðurkenna loðdýragarð“ o.s.frv. Ég vil vænta þess, að það sé ekki til of mikils mælzt við hv. d. og hæstv. landbrh., að slíkum viðauka, sem brtt. fjallar um, sé aukið inn í hlutaðeigandi ákvæði 6. gr.