29.03.1966
Efri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

81. mál, loðdýrarækt

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala í þessu máli við 1. umr., en vegna þess að hv. 4. þm. Vestf. (ÞK) talaði með frv., finnst mér við eiga að varpa fram nokkrum spurningum til hv. þm.

Þetta mál var lagt fyrir hv. Alþingi fyrir rúmu ári og hlaut ekki endanlega afgreiðslu hér í þessari hv. d. Þess vegna finnst mér það vel við eiga nú, þegar málið er komið aftur til hv. þd., að eitthvað meira liggi fyrir því til framgangs heldur en var fyrir ári. Ég hefði ekki viljað ætla hv. flm. það, að þeir legðu málið fram án þess að færa fram nokkur rök í grg. fyrir frv. og þýðingu þessa máls, því að það er þó alltaf aðalatriðið, hvaða þýðingu málið hefur, ef það nær fram að ganga. Og hv. 4. þm. Vestf. talaði hér alllangt mál án þess að benda á nokkur rök, en var með slagorð um, að þetta væri þjóðhagslega rétt og þetta mundi auka gjaldeyristekjur, en það væri ekki af ást á minkum, eins og hann orðaði það. Hins vegar ræddi hann nokkuð um það, hvernig hefði gengið á Norðurlöndum með framleiðslu á minkaskinnum og um minkaeldi, og mér skildist á þeim upplýsingum, að þar hefði á ýmsu oltið og ekki sízt í fyrstu. En ef þetta liggur tölulega fyrir, hvernig þessi framleiðsla hefur gengið fyrir sig á Norðurlöndum á undanförnum árum, hví er þá málið ekki lagt tölulega fyrir hv. Alþingi, svo að þm. hafi eitthvað að átta sig á í þessu máli, og ég skora á hv. þm., sem virðist vera talsmaður þessa máls, hv. 4. þm. Vestf., að koma með töluleg rök í þessu máli, svo að málið liggi ljósar fyrir þingheimi og það verði léttara fyrir þá n., sem fjallar um málið, að taka afstöðu til þess.

Á þessu stigi málsins ætla ég ekkert að segja um það, hvort ég fylgi þessu frv. að lokum eða ekki. En mér finnst, eins og málið hefur verið lagt fyrir hv. Alþingi og þær umr., sem um það hafa verið, að það hafi ekki neitt verið upplýst í málinu, sem réttlæti það, að hér sé um þjóðhagslega þýðingarmikið mál að ræða. Og sé það augljóst mál, að þetta sé þjóðhagslega þýðingarmikið, þá ætti það að vera auðvelt fyrir þá, sem eru talsmenn þess, að leggja fram töluleg rök í málinu, og vil ég beina því til hv. 4. þm. Vestf., að hann komi með þessi tölulegu rök nú við þessa umr. eða leggi þau fram í þeirri n., sem fjallar um málið, svo að maður sjái það svart á hvítu, hvað þjóðin kann að missa mikils, ef þetta mál nær ekki fram að ganga, og hins vegar, hvað hún kann að vinna mikið á efnahagslega, ef þetta mál nær fram að ganga.