29.03.1966
Efri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2314)

81. mál, loðdýrarækt

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það er ekki margt í ræðu hv. 4. þm. Vestf. (ÞK), sem ég þarf að svara. Hann fór allmörgum orðum um ræðu mína og byrjaði á því að viðurkenna það, að frv., sem fyrir lægi, væri hálfgert afstyrmi, en vildi eins og frumvarpshöfundar afsaka það með því, að úr því mætti bæta með góðri reglugerð.

En finnst nú hv. þm. sem alþm. það vera rétt að hafa ótal glompur og göt í lögum, sem frá Alþingi fara, í trausti þess, að reglugerðin verði eitthvað betri eða skárri? Og er ekki eðlilegt, að hið háa Alþingi vilji hafa eitthvað að segja um ýmis atriði í þeim lögum, sem frá því fara? Ég skal aðeins drepa á eitt, sem snertir þetta mál og ég talaði um í minni ræðu. Eiga sveitarfélögin að hafa nokkuð að segja um það, hvort minkabú rísi upp í viðkomandi sveitum eða ekki? Í gildandi l. hafa sveitarfélögin allmikið að segja um þetta efni, en í frv. hreint ekki neitt. Hvað vill hv. þm. gera í þessu efni? Vill hann svipta sveitarfélögin algerlega öllum íhlutunarrétti um þetta, eða vill hann láta þau hafa eitthvað um þetta að segja? Og það er ekki óeðlilegt, að alþm. vilji marka stefnu sína í lögunum, en fela ekki allt á vald ráðuneytanna, sem reglugerðirnar semja.

Þá talaði hv. þm. allmikið um það þjóðhagslega og rétta í því að leyfa minkaeldi í landinu. Mér skildist á honum, að hann teldi þetta vera þjóðbagslega rétt, að leyfa það, en hann færði ekki minnstu rök fyrir máli sínu. Það er eitt af því, sem ég spurðist fyrir um: Hver eru rökin fyrir því, að þetta sé þjóðhagslega rétt? Við viljum fá þau á borðið, áður en við samþykkjum frv. En honum vafðist tunga um tönn í þessu efni, og ég lái honum það ekki, því að ég efast um, að það séu nokkur frambærileg rök fram að færa í því efni.

Hann talaði um, að hér væru skilyrði góð til loðdýraræktar, loftslagið gott og góðir möguleikar á hentugu fóðri. Ég efast um, að þetta sé rétt, a.m.k. efast ég um, að loftslagið sé hentugt fyrir minkarækt. Hér er eyjaloftslag. Það er mikil úrkoma sumar og vetur. Það er óhentugt loftslag til loðdýraræktar. Úrkoman er mikil um allt land, þó að hún sé meiri á Suðurlandi en á Norðurlandi, en hún er líka mikil á Norðurlandi, mikil snjókoma á veturna. Þetta hefur áhrif á feldina.

Þá talaði hv. 4. þm. Vestf. allmikið um þörfina á því að skapa fjölbreytni í atvinnuvegum landsins. Þetta er að vissu marki hárrétt. En það verður að gæta fullrar skynsemi, þegar um það er að ræða. Nákvæmlega sömu rökum var beitt 1929, þegar minkaræktin var leyfð. Það efuðust engir talsmenn þess máls þá um, að þetta gæfi þjóðinni skjótfenginn gróða. En reynslan varð önnur. Menn höfðu varað við þessu, en þeir, sem ráðin höfðu, skelltu skollaeyrum við og tóku ekki rökum.

Það hefur mikið verið talað um það í seinni tíð, einmitt af samherjum hv. þm., að auka þyrfti fjölbreytnina í atvinnuvegum landsins. En það þarf að athuga fleira í sambandi við það. Það þarf m.a. að athuga það, hvort við með hinum nýja atvinnuvegi köllum ekki einhverja plágu yfir þjóðina, varanlega plágu eins og minkapláguna. Nú um þessar mundir eru samherjar þessa hv. þm. að semja um svokallaða álverksmiðju í landinu og allt það, sem á bak við það mál er. Hæstv. ríkisstj. er gagnrýnd fyrir þetta, enda þótt hún haldi því fram, að hún sé með þessu að auka fjölbreytnina í atvinnuvegunum. Hvers vegna er hún gagnrýnd fyrir það? Ekki er það ljótt að auka fjölbreytnina í atvinnuvegunum. En hvers vegna er hún gagnrýnd? Hún er gagnrýnd fyrir það að athuga ekki málið í upphafi nógu vandlega. Hún er vöruð við afleiðingunum, henni er bent á, að þessu kunni að fylgja plága ekki ósvipuð minkaplágunni, nema kannske hálfu verri og alvarlegri fyrir þjóðina.

Hv. þm. sagði, að ég hefði viljað útiloka, að minkarækt yrði aftur reynd í landinu. Þetta er nú ekki alveg rétt. Öll mín ræða hné að því að vara við, að út í þetta yrði lagt að lítt athuguðu máli. Ég krafðist í allri minni ræðu gildra raka fyrir því, að nú væri óhætt að byrja aftur á minkarækt. Ég sagðist ekki hafa fundið nein rök.

Hér á landi er lítið ritað af viti um loðdýrarækt, sem von er. Við höfum ekki neina loðdýrarækt, enga sérfræðinga. Erlendis má lesa sitthvað um loðdýrarækt, og það er hægt að lesa greinar þar um loðdýrarækt, skrifaðar af mönnum, sem vit hafa á málum. En í því sambandi vil ég benda á, að það, sem skrifað er af viti um loðdýrarækt erlendis, er ekki allt úr sömu tunnu. Þar skrifa lærðir og hlutlausir sérfræðingar um loðdýrarækt. Þeim megum við treysta, að svo miklu leyti sem hægt er að treysta mannlegri þekkingu. En það eru til aðrir menn, sem vit hafa á málinu, menn, sem skrifa einnig um loðdýrarækt. Það eru menn, sem rækta loðdýr til þess að selja búunum. Þeir skrifa og láta skrifa greinar um loðdýrarækt, þar sem loðdýraræktin er gyllt, þar sem henni er hrósað á hvert reipi. Á slíkum sérfræðingum eigum við að vara okkur, því að þeir skrifa þetta sem áróður, sem auglýsingu fyrir sinni vöru. Þessi tvenns konar skrif erlendis ganga oft svo langt, að jafnvel vísindamenn á sviði náttúrufræði vara við skrifum fjárplógsmanna, loðdýraræktarmanna, eins og mér er sagt að hafi komið fyrir í merku náttúrufræðitímariti í Þýzkalandi nýlega. Þegar þessi mál eru athuguð gaumgæfilega, verður einmitt að gera greinarmun á þessu, í hvaða skyni er skrifað og frætt um loðdýrarækt.

Hv. 4. þm. Vestf. reis hér upp og gerðist talsmaður þessa frv. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja, en það er þá helzt það, að hann reyndist mjög veikur talsmaður frv. En ég áfellist hann ekki fyrir það. Það held ég, að hver sem er geri, hann reynist veikur talsmaður, vegna þess að málstaðurinn er svo veikur.